Kynningarfundur um mannvirki sem framkvæmdir eru núþegar hafnar við

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafa boðað til kynningarfundar um hönnun tengibrautar sem íbúar stöðvuðu framkvæmdir við fyrir viku. Halda á fundinn í dag kl. 17 í safnaðarheimili Lágafellssóknar.
Ekki er um almennan kynningarfund að ræða því aðeins hafa nokkrir útvaldir íbúar Kvosarinnar fengið fundarboð. Finnst íbúum nokkuð einkennilega staðið að fundarboðinu þar sem framkvæmdir eru hafnar sem þýðir að hönnun mannvirkisins hlýtur að liggja endanlega fyrir.

Varmársamtökin hafa frá upphafi deilu um legu tengibrautarinnar fordæmt ólýðræðisleg vinnubrögð bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Ekkert samráð var haft við íbúa og heldur ekkert tillit tekið til athugasemda þeirra varðandi legu tengibrautarinnar. Bæjarstjórn hefur varið sinn málstað með því að fullyrða að tengibrautin hafi verið á aðalskipulagi frá 1983. En hvernig getur það verið réttlæting fyrir legu tengibrautar, sem þjóna á 1200 íbúða byggð og 10 000 bílum á sólarhring, að fyrir tuttugu og fjórum árum var sett safngata sem anna átti umferð frá 200 íbúða hverfi inn á skipulag. Íbúðafjöldi hefur 6 faldast og úr safngötu sem lagar sig að landslagi er orðið heljar mannvirki með stórbrotnum hljóðvarnarveggjum. Hvað er líkt með þessu tvennu?

Í ofanálag hefur allt lagaumhverfi tekið stökkbreytingum. Búið er að setja lög um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingalög, náttúruverndarlög, lög um varnir gegn mengun vatns, reglugerð um varnir gegn hávaða o.s.frv. Eigum við bara að láta þessar framfarir réttarríkisins sem vind um eyru þjóta? Og hanga í réttlætingu á einhverju skipulagi sem stangast á við öll þessi lög. Aðalskipulög taka dagfarslegum breytingum og eiga líka að gera það.
Og hvað um þá samfélagsþróun sem orðið hefur í Kvosinni sl. 15 ár? Skiptir hún engu máli? Úr gömlu iðnaðarhverfi sem var í algjörri niðurníðslu er orðið til sérstakt samfélag sem m.a. einn af yfirmönnum Ferðamálastofu segir vera skólabókardæmi um sjálfbæra þróun. Hvað með Ríó?

Og yfirhöfuð til hvers er fólk í pólítik sem ekki vill þjóna hagsmunum íbúa? Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur ekki verið tilbúin til samráðs við umbjóðendur sína um legu tengibrautarinnar en látið hafa eftir sér að íbúum verði boðið að skreyta hávaðavarnarmannvirkin sem af framkvæmdinni leiða. Ætli það sé tilgangurinn með fundarboði dagsins í dag?

Grein af gamla blogginu: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=news


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband