Tryggjum rétt íbúa til áhrifa á skipulag

útimarkaður21

Eitt helsta ágreiningsefni samtímans er án efa skipulagsmál. Ein af ástæðunum er vafalítið tæknilegs eðlis, þ.e. hvernig sveitarfélög á Íslandi standa að samráði við íbúa og samtök. Til þess að þoka þessum málum úr augljóslega ófrjóum jarðvegi þarf aðgerðir sem að mati Varmársamtakanna gætu falist í því að aðkoma íbúa og umhverfissamtaka að vinnu við aðalskipulag verði í framtíðinni með beinum hætti.

Tillaga Varmársamtakanna kveður á um að stofnaður verði vettvangur skoðanaskipta, nokkurs konar skipulagsráð, sem hefði með höndum að móta tillögur að skipulagi og þróa áfram þar til samkomulagi er náð í hópnum. Í ráðinu ættu sæti fulltrúar mismunandi hagsmunahópa allt eftir því hvert viðfangsefnið er hverju sinni, þ.e. hvaða svæði er verið að skipuleggja. Ákveðinn kjarni sæti ávallt í ráðinu s.s. fulltrúar sveitarfélagsins, íbúa- og umhverfissamtaka og hagsmunaaðila, auk fagaðila á sviði skipulags, verkfræði og byggingarlistar. Aðrir fulltrúar tækju sæti eftir því sem við á s.s. fagaðilar á sviði lýðheilsu, menningar- og náttúrufræða, jarðvísinda, samgangna, lögfræði o.s.frv. Tilgangur samráðsins væri að virkja sem flesta til þátttöku í verkefnum sveitarfélagsins, stuðla að velferð og móta umhverfi sem samsvarar hugmyndum og þörfum þess fólks sem þar býr. Þótt viðkomandi sveitarfélag færi með endanlegt ákvörðunarvald, og fagaðilar hefðu leiðbeinandi hlutverk, starfaði samráðshópurinn á grundvelli jafnréttis. Skipulagsráð hefði að leiðarljósi að leita sameiginlegra úrlausna og sætta ólík sjónarmið. Afrakstur víðtæks samráðs væri betra skipulag, minni ágreiningur og ánægðari íbúar. Fyrirmynd af slíkum samráðshópum er t.d. að finna á Norðurlöndum og víðar.

Við sem áhuga höfum á skipulagsmálum vitum að það fer eftir vilja þess sveitarstjórnarmeirihluta,sem er við völd hverju sinni, hvort íbúar fá að hafa áhrif á skipulagsvinnu. Þau vinnubrögð sem víða tíðkast á Íslandi, að íbúar komi einvörðungu að skipulagi í formi bréfaskipta, tilviljanakenndra skoðanakannana eða athugasemda á opinberum mannamótum teljum við með öllu ófullnægjandi og stangast á við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun en aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir virkri þátttöku almennings í mótun samfélagsins. Virk þátttaka felur í sér persónuleg samskipti, þ.e. skoðanaskipti sem eru til þess fallin að kveikja áhuga almennings á þátttöku í samfélagslegum verkefnum. Sé það reglan, eins og oft er, að vinnan sem íbúar leggja af mörkum sé virt að vettugi af sveitarstjórnum er ekki hægt að búast við öðru en að íbúar missi áhugann á að vinna að málefnum sveitarfélagsins. Til að bæta úr þessu þarf að tryggja rétt íbúasamtaka til áhrifa eða eins og að ofan greinir að tryggja þeim rétt til beinnar þátttöku í sjálfuskipulagsferlinu.

Það er mat Varmársamtakanna að verktakar sem aðeins eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta eigi ekki heima í samráðshópum um mótun byggðar. Ennfremur, og í ljósi þeirra hörmunga sem verktakaveldið hefur kallað yfir byggðir landsins á undanförnum árum, telja samtökin að breyta þurfi skipulagslögum á þann veg að einungis sveitarfélög, ekki einkaaðilar, hanni skipulag í ofangreindu samráði. Að skipulagsgerð lokinni gætu verktakar síðan tekið til óspilltra málanna.

Sigrún Pálsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband