Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Deiliskipulag tengibrautar fellt úr gildi

nullVarmársamtökin fagna þeirri niðurstöðu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að falla frá núgildandi deiliskipulagi tengibrautar um Álafosskvos. Nú gefst tækifæri til að gefa spilin upp á nýtt og endurskoða legu Helgafellsbrautar þar sem tekið er tillit til náttúruverndargildis Varmár og sögulegra sérkenna Kvosarinnar.

Ljóst er að úrskurður Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna kæru íbúa hefur ráðið úrslitum um þessa ákvörðun.

Varmársamtökin hvetja bæjaryfirvöld eindregið til að finna Helgafellsbraut nýja leið sem samræmdist yfirlýstum markmiðum bæjarfélagsins sem koma skýrt fram í greinargerð með aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 þar sem m.a. segir:

Leggja skal áherslu á varðveislu óspilltrar náttúru, friðlýsingu athyglisverðra svæða og tengsl byggðar við náttúrulegt umhverfi. Bærinn verði útivistarbær þar sem íbúar eru í snertingu við náttúruna á auðveldan og fjölbreyttan hátt ... .

Náttúra Íslands er rómuð fyrir fegurð um allan heim og vilja Varmársamtökin hvetja skipulagsyfirvöld og aðra þá sem taka afdrifaríkar ákvaðanir í skipulagsmálum til að standa vörð um það orðspor.

Nú er lag fyrir umhverfisverndarsinna bæjarfélagins að hafa áhrif á gang mála og greiða atkvæði með einstakri náttúru Varmársvæðisins.

Það er nefnilega alltaf til önnur leið!


Útimarkaðir í Álafosskvos í sumar

Útimarkaður Álafosskvos 300Varmársamtökin hafa áhuga á að Álafosskvos verði gerð að miðstöð útimarkaða á höfuðborgarsvæðinu. Kvosin er einstaklega vel til þess fallin frá náttúrunnar hendi, og staðhættir kjörnir til að skapa skemmtilega markaðsstemningu. Þetta sannaðist  svo um munaði sl. sumar þegar samtökin stóðu að útimarkaði í tilefni að bæjarhátíðinni Í túninu heima en þá streymdu þúsundir manna víðsvegar að í Kvosina.

Gefur auga leið að mengun og umferðarhávaði eiga ekki samleið með slíkri starfsemi. Til þess að hægt sé að gera drauminn að veruleika telja Varmársamtökin því nauðsynlegt að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ finni Helgafellsbraut aðra leið út úr fyrirhuguðu hverfi.

Innan Varmársamtakanna er starfandi útimarkaðshópur og undirbúningur að hefjast fyrir markaði sumarsins.  Mörg spennandi verkefni bíða úrlausnar og því þörf á stórum hópi fólks til að taka þátt í starfinu. Ýmislegt er í bígerð og þarf að skipuleggja. Við vitum að mikið er af skemmtilegu og hugmyndaríku fólki í samtökunum og ljóst að starfið innan markaðshópsins gæti orðið mjög skemmtilegt.

Þau verkefni sem helst eru framundan eru að:

  •  finna handverksfólk til að selja framleiðslu sína
  •  finna einstaklinga til að rækta grænmeti til sölu á markaðnum 
  •  leita samráðs við blóma- og grænmetisræktendur 
  •  hanna og smíða sölubása og skipuleggja aðstöðuna að öðru leyti
  •  hvetja fólk til að taka til hendinni í bílskúrnum með vorinu og bjóða dótið til sölu
  •  framleiða í bunum hugmyndir um starfsemina
  •  leita eftir stuðningi við verkefnið
  •  o.s.frv.

Sigríður Þóra Árdal ætlar að ýta undirbúningi úr vör og eru áhugasamir beðnir að hafa samband við hana í síma 660-7667 eða senda tölvupóst á: varmarsamtokin@gmail.com

 


Fleiri valkostir skoðaðir

Varmársamtökin eiga nú í samningaviðræðum við verkfræðistofuna Línuhönnun um að gera faglegan samanburð á þeim valkostum sem til greina gætu komið varðandi legu Helgafellsbrautar. Hingað til hefur Mosfellsbær aðeins boðið upp á einn valkost í stöðunni sem er að leggja tengibrautina um Álafosskvos.
Verkfræðingar Línuhönnunar eru tilbúnir til að kanna aðra valkosti með þeim fyrirvara að fyrirtækið haldi sjálfstæði sínu. Óskar fyrirtækið því eftir samstarfi við báða aðila.
Í vikunni átti stjórn Varmársamtakanna fund með bæjarstjóra þar sem við lögðum fram beiðni um að Línuhönnun fengi aðgang að uppdráttum og öðrum rannsóknargögnum sem að gagni gætu komið við mat á valkostum. Bæjarverkfræðingur sem einnig sat fundinn bauðst til að kanna málið og bíða samtökin nú eftir svari þar um.
Varmársamtökin skoruðu síðastliðið sumar á bæjarstjórn Mosfellsbæjar að gera faglega úttekt á lagningu Helgafellsbrautar í stokk undir Ásland og þaðan undir Vesturlandsveg. Einnig lögðum við til að skoðaður yrði sá kostur að leggja brautina ofan Helgafellsbyggðar í vestur í átt að Þingvallavegi en þar hefur nú þegar verið lögð tengibraut fyrir fyrirhugað hverfi.
Eru þetta þeir tveir valkostir sem Varmársamtökin hafa lagt til við Línuhönnun að meta en þess má geta að fyrirtækið mun hafa frjálsar hendur um val á möguleikum og ekki vera bundið af tillögum okkar.


Hver þorir? - Neyðarkall á örlagastund

Lesendum til fróðleiks birtum við hér bréf sem Varmársamtökin sendu daginn sem verktakar Helgafellsbygginga ruddust á gröfum sínum inn í Álafosskvos. Þökk sé Bryndísi Schram o.fl. voru framkvæmdir stöðvaðar. Gaman væri að fá að vita hversu víða þetta dreifibréf fór.

Varmársamtökin í Mosfellsbæ senda á örlagastundu neyðarkall til formanna fagfólks og fagurkera í landslagsmótun í eftirtöldum félögum:

Arkitektafélagi Íslands,
Félagi íslenskra landslagsarkitekta og
Félagi skipulagsfræðinga á Íslandi.

Eyðilegging er hafin á einhverjum skemmtilegasta byggðarkjarna og náttúruperlu á höfuðborgarsvæðinu, Álafosskvos. Við leitum til ykkar því hér er alvörumál á ferð. Við hönnun og skipulag Álafosskvosar hafa lögmál fagurfræði algjörlega verið látin víkja fyrir skammtíma hagsmunum landeigenda; náttúruupplifun fyrir bílaumferð sem hægt hefði verið að beina annað. Er ekki tími til kominn að læra af mistökum annara þjóða? Hvar er þekkingin? Ef við værum á einhverju af hinum Norðurlöndunum hefði þessi framkvæmd aldrei verið leyfð.

 Varmársamtökin fara þess á leit við ykkur:

1) að félagsmenn ykkar taki afstöðu í málinu og láti hana í ljós á opinberum vettvangi.

2) Að þessari tilkynningu verði dreift til félaga á félagaskrá ykkar.

Gröfurnar hafa rutt sér leið að trjálundinum fyrir ofan gömlu ullarverksmiðjuna við Álafoss. Það er því ekki lengur eftir neinu að bíða. Klukkan eitt í dag verður flaggað í hálfa stöng í Álafosskvos.

Allir velkomnir.


Stuðningsmenn international

Fréttir af baráttu Varmársamtakanna eru farnar að berast út fyrir landsteinana eins og þetta fallega bréf frá Morin Glimmer ber með sér. Hún er fædd í einu stríðshrjáðasta ríki veraldar, Ísrael - samt lætur hún sig málefni íslenskra náttúruunnenda í Mosfellsbæ varða.

Hello everyone at the Álafoss organisation,
I have received your email from lovely Lukka. As I cannot take part in your protest in Iceland, I would like to send you this letter I wrote to Lukka after I heard about the horrible plans to build a road which will go through Álafoss, in the hope it will bring you some moral support:

"I realise my voice is probablly a lost whisper in the roaring storm that is taking place in Iceland right now, but I have to shout out my protest and disbelief.

As I was born in Israel, I come from a country that claims to have been built with a vision of hope, peace and bravery. For all I know that may just be a myth, for everyone knows this land where I live is gushing with death and corruption and it seems that everyone has gone numb by the blasting of all the bombs.

I am not a political person. I don´t understand such things. I don´t understand why the influential people of your country seem to do everything in their power to destroy, ruin and kill what is probablly the purest place on this dying planet.

Iceland, which is the most beautiful and peaceful country I have ever visited, and personally I take refuge and comfort in the existence of such a place amongst all the decay and wars around us, is an inspiration to the rest of the world. With the highly preserved and admirable heritage, pristine cleanliness and undoubtful embrace of tolarence, and of course rich in culture and natural beauty which words can hardly describe.
How can all of this, which should be the proud and joy and the spark in the smile of every Icelander, be so cruely, unjustly and impossibly cut down and ran over?

This is breaking my heart more than even I myself seem to grasp.
If I had the financial ability take the first flight to Iceland tomorrow morning I would do so. I would do everything in my power and more to prevent this disaster from happening. And at the risk of sounding like a hippie - I would tie myself to the trees if needs be. I can't stop thinking of those trees. And the mill. And the unimaginable peace that lies in that magical corner of world.
How can all of this be denied? And for what?

I am truly gutted and I support your protest wholeheartedly. I am sorry I cannot take part and action in person.
I send everyone in Álafoss all of my love and support."
 
Good luck!
Bless,
Morín

Bakvið skýjaból vaknar sól úr dvala
Svalar sér við kalda dropa regnsins
leikur sér við heita loga eldsins
Býr til regnboga

morin_glimmer@yahoo.co.uk


Hjartað slitið úr Mos - um tónleika Varmársamtakanna

Mælum eindregið með bloggi Árna Matthíassonar, tónlistargagnrýnanda um styrktartónleika Varmársamtakanna í BaseCamp verinu 18. febrúar á : www.arnim.blog.is

Vá við Varmá

Áætlanir bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ um lagningu Helgafellsbrautar um bakka Varmár og lagningu allskyns tengivega sem koma einnig við sögu Varmár gefa ekki tilefni til bjartsýni varðandi örlög þessa fallegasta útivistarsvæðis bæjarfélagsins á láglendi. Í slíkum þönkum þá varð til hjá mér kvæðið “Varmá vegum skorin”, sem er skipulagsháð útfærsla mín af kvæðinu "Ísland ögrum skorið" eftir Eggert Ólafsson. Það að færa þetta ljóð í stílinn vegna þessa máls svo úr verði tregakennt kvæði finnst mér einkar vel við hæfi og áhrifin eru enn betri ef kvæðið er líkt og upprunalega ljóðið sungið við alþekkt lag Sigvalda Kaldalóns.

Varmá vegum skorin

Varmá vegum skorin
vilpa sett í þig
svifryk bakka á borið
og bræla fyrir mig
fyrir skikkan skipulags.
Vertu blessuð, blessi þig
bæjarráðsins fans.

Jóhannes Sturlaugsson


Magnaðir tónleikar í Verinu!

 
tonleikar

Órafmagnaðir en magnaðir tónleikar í Base Campverinu í Héðinshúsinu við Mýrargötu, sunnudagskvöld, 18. febrúar kl. 20. 

    • Sigur Rós
    • Bogomil Font & Flís
    • Benni Hemm Hemm
    • Pétur Ben 
    • Amiina

Um kynningu sjá:

    • Árni Matthíasson
    • Bryndís Schram
    • Dóri DNA
    • Steindór í Ásgarði
    • Steindór Andersen og Sigurður dýralæknir
    • Una
       
      Miðasala í fullum gangi á www.midi.is
      Miðaverð í lágmarki kr. 3200.-
       
      Allur ágóði rennur til Varmársamtakanna.
      Verndum einstakar náttúruperlur Mosfellsbæjar!

      Uppbygging án umhverfisspjalla - það er málið!

      varmarsamtokin@gmail.com

"Tæknileg mistök" í Mosfellsbæ!

Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemd við þessa frétt sem birtist á mbl.is með yfirlýsingu bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ.
Í fyrsta lagi er fyrirsögnin: "Kröfu vísað frá um stöðvun framkvæmda við tengiveg í Mosfellsbæ" vægast sagt villandi því að úrskurðarnefndin stöðvaði framkvæmdir að því marki sem hennar vald nær til, eins og segir í úrskurði nefndarinnar: „ ... enda brestur nefndina vald til þess að kveða á um stöðvun framkvæmda vegna meðferðar máls fyrir dómi.“
Bæjaryfirvöld þreytast heldur ekki á því að útmála hvað þau hafa kynnt framkvæmdina vel. Það er líka rétt að þau hafa kynnt hönnun brautarinnar ágætlega en þau hafa ekki kynnt umhverfisáhrif hennar, né hvernig hún á að tengjast hringtorginu á Vesturlandsvegi með tilheyrandi svifryksmengun í kvosinni við hliðina á íþrótta- og skólasvæði bæjarins.
Þau hafa heldur ekki kynnt aðra möguleika á lagningu vegarins heldur látið eins og hér sé aðeins um eina leið að ræða. Það virðist reyndar ríkjandi hugsunarháttur hjá blessuðum yfirvöldunum um flest.
Þá er bæjaryfirvöldun mjög umhugað um að láta eins og Varmársamtökin séu þrýstihópur íbúa Álafosskvosarinnar eins og kemur vel fram í fréttinni. Þetta er rangt, meirihluti félaganna býr annarsstaðar.
Bæjaryfirvöld vilja „gefa mótmælendum svigrúm til þess að koma á framfæri sínum skoðunum“. Varmársamtökin eru samtök íbúa en ekki mótmælenda.
Að lokum klikkja bæjaryfirvöld út með því að láta eins og málið snúist um „tæknileg mistök“ af þeirra hálfu þegar hið rétta er að ástæðan er einfaldlega sú að þau hafa ekki sinnt rannsóknum varðandi umhverfisáhrif framkvæmdanna eða eins og segir í úrskurðinum: „Auk þess sem nú var rakið telur úrskurðarnefndin að álitamál sé hvort ekki hefði þurft í hinum kærðu ákvörðunum að gera grein fyrir þeim ráðstöfunum sem um er rætt í málsgögnum að grípa eigi til vegna hugsanlegrar mengunar ofanvatns og til verndunar vistkerfis Varmár.“

Kristín I. Pálsdóttir félagi í Varmársamtökunum og íbúi við Varmá (en ekki í Álafosskvos.)


mbl.is Framkvæmdir stöðvaðar við Helgafellsbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrskurðarnefnd stöðvar vinnu við Helgafellsbraut

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur farið að ósk íbúa á svæðinu í kringum Álafosskvos og stöðvað framkvæmdir við gerð tengibrautar. Hér að neðan má lesa valda kafla úr úrskurðinum en þeir varpa ljósi á niðurstöður nefndarinnar.

Með deiliskipulagi því sem um er deilt í málinu var lagður grunnur að framkvæmd sem fellur undir viðauka 2 við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br., sbr. lið 10c.  Telur úrskurðarnefndin að taka þurfi til úrlausnar hvort deilskipulagstillagan hafi fallið undir 3. gr. laga nr. 105/2006 og þar með hvort vinna hefði þurft umhverfisskýrslu vegna hennar skv. 6. gr. nefndra laga og kynna hana samkvæmt 7. gr.  Verður hvorki talið að mat á áhrifum áðurnefndrar breytingar aðalskipulags sé fullnægjandi í þessu sambandi né að sú niðurstaða að framkvæmdin sé ekki matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. taki af tvímæli um þörf á umhverfisskýrslu vegna deiliskipulagsins.

Auk þess sem nú var rakið telur úrskurðarnefndin að álitamál sé hvort ekki hefði þurft í hinum kærðu ákvörðunum að gera grein fyrir þeim ráðstöfunum sem um er rætt í málsgögnum að grípa eigi til vegna hugsanlegrar mengunar ofanvatns og til verndunar vistkerfis Varmár. 

Samkvæmt framansögðu leikur, að mati úrskurðarnefndarinnar, talsverður vafi á um lögmæti hinn kærðu ákvarðana.  Þykir af þeim sökum, og með tilliti til staðhátta, rétt að stöðva framkvæmdir við umrædda tengibraut meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, jafnvel þótt einungis sé um jarðvegsframkvæmdir að ræða.

Vísað er frá kröfu kærenda um að úrskurðanefndin stöðvi framkvæmdir meðan rekið er fyrir dómstólum fyrirhugað mál til ógildingar á niðurstöðu umhverfisráðherra um matsskyldu framkvæmdarinnar, enda brestur nefndina vald til þess að kveða á um stöðvun framkvæmda vegna meðferðar máls fyrir dómi.

Úrskurðarorð:
Framkvæmdir, sem hafnar eru við gerð 500 metra kafla tengibrautar milli Helgafellslands og Álafossvegar í Mosfellsbæ, samkvæmt framkvæmdaleyfi bæjarstjórnar frá 13. desember 2006, skulu stöðvaðar meðan kærumál um lögmæti leyfisins og tilheyrandi deiliskipulags er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Vísað er frá nefndinni kröfu kærenda um að úrskurðanefndin stöðvi framkvæmdir meðan rekið er fyrir dómstólum mál til ógildingar á niðurstöðu umhverfisráðherra um matsskyldu umræddrar framkvæmdar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband