Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Orð bæjarstjórans vekja furðu VS

Í Morgunblaðinu á mánudag birtist stutt viðtal við Ragnheiði Ríkharðsdóttur bæjarstjóra Mosfellsbæjar sem tekið var í kjölfar kynningar Varmársamtakanna á nýjum tillögum að legu Helgafellsbrautar sl. laugardag. Inntak viðtalsins var að samtökin hefðu ekki kynnt tillögur sínar að nýrri legu Helgafellsbrautar fyrir bæjarstjórn með formlegum hætti. Nú bregður svo við að það er varla vika liðin síðan Ragnheiður sendi samtökunum bréf þess efnis að hún teldi tillögugerðina vera einkamál bæjaryfirvalda og samstarf við íbúasamtökin um úttekt á nýjum leiðum því útilokað. Kemur þessi ádrepa bæjarstjórans um skort á formlegri kynningu því okkur í stjórn samtakanna afar spánskt fyrir sjónir.
Ennfremur lét Ragnheiður í ljós þá skoðun sína að hún teldi að tillögur samtakanna hefðu meiri umhverfisáhrif í för með sér en fyrirhuguð lega tengibrautarinnar um Álafosskvos. Nefndi hún sérstaklega þá tillögu að leggja veg inn í Helgafellshverfi við Álanes ofan Álafosskvosar. Nú bregður aftur svo við að það eru aðeins örfáir dagar síðan að Varmársamtökunum barst bréf frá bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ þess efnis að óráðlegt væri að taka þessa þverun Varmár ofan Álafosskvosar út af skipulagi en þá tillögu bárum við upp í athugasemdum við það deiliskipulag Helgafellslands sem liggur að Varmá. Lega vegarins byggir því ekki á frumkvæði Varmársamtakanna heldur á aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem einnig kemur fram í deiliskipulagi Helgafellslands, 3. áfanga. Orð Ragnheiðar eru því sögð gegn betri vitund hennar sjálfrar.
Varmársamtökin hafa frá upphafi unnið að því hörðum höndum að fá bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að meta umhverfisáhrif skipulagsáætlana á vatnasviði Varmár. Ástæðan fyrir þessari kröfu samtakanna er að við teljum að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því m.a. að leggja tengibraut um Álafosskvos. Þorpið við Álafoss á sér fáar ef nokkrar hliðstæður á Íslandi. Í húfi er einstaklega sjarmerandi umhverfi sem laðar að ferðamenn, útivistarfólk og listræna starfsemi. Atvinnulíf við Álafoss á sér afar merka sögu sem er til þess fallin að hefja Mosfellsbæ til vegs og virðingar í hugum fólks ef rétt er á málum haldið. Viðvarandi umferðarhávaði samfara útblásturs- og svifryksmengun á ekki samleið með þeirri starfsemi sem atvinnulífið við Álafoss byggir á. Svæðið er vinsælasti áningarstaður ferðamanna í Mosfellsbæ og stríðir því lega tengibrautar um Álafosskvos beinlínis gegn hagsmunum bæjarfélagsins. Til er leið til að forða Mosfellsbæ frá því hlutskipti að tapa sínum áhugaverða karakter en hún er einfaldlega sú að láta gera faglegan samanburð á kostum og göllum allra akstursleiða sem til greina koma frá Vesturlandsvegi að Helgafellshverfi.
Í lok viðtalsins bendir Ragnheiður á að Varmársamtökunum sé frjálst að koma á framfæri athugasemdum við Helgafellsleið eftir útkomu umhverfisskýrslu. Athugasemd okkar mun ekki koma bæjarstjóranum á óvart því hún verður sú sama og hún hefur ætíð verið, þ.e. að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hlusti á raddir íbúa, beri saman valkosti og láti meta þá af fagaðilum með sérstöku tilliti til umhverfisáhrifa, s.s. náttúruminja, menningarsögu, framtíðaratvinnustarfsemi og útivistargildis Álafosskvosar.

SP

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


Hvar á tengibrautin að koma? - Segið ykkar álit

Helgafellsbraut-VarmárdalurTillaga að Helgafellsbraut 1: tengibraut í útjaðri byggðar
a. Helgafellsbraut sameinast að hluta til tengibraut sem áætluð er á skipulagi að Þingvallaafleggjara undir hlíðum Helgafells. Leiðin liggur um hringtorg niður að Vesturlandsvegi í útjaðri núverandi byggðar.
b. Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir þverun Varmár við Álanes ofan Álafosskvosar fyrir neðan Helgafellshverfi og er sú tenging sett inn á myndina. Sú tening er því ekki að tillögu Varmársamtakanna.
c. Gert er ráð fyrir aðkomu að Álafosskvos um ofangreinda tengibraut og niður Brekkuland. Einnig um veginn austan megin Kvosarinnar sem liggur meðfram iðnaðarsvæði. Gert er ráð fyrir lítilli brú  á Vesturlandsvegi og rofnar því bein tenging Álafosskvosar við þjóðveginn. Stórt útivistarsvæði myndast við Varmá beggja vegna Vesturlandsvegar sem gerir umferð fótgangandi vegfarenda, barna á hjólum og hestamanna afar þægilega. Svæðið myndar eina heild og dregur úr áhrifum þess að þjóðvegurinn hlutar bæjarfélagið í tvennt.

HelgafellsbrautTillaga að Helgafellsbraut 2: tengibraut í útjaðri byggðar
Þessi tillaga er svipuð þeirri fyrri að öðru leyti en því að hringtorg verður áfram við Vesturlandsveg til að þjóna umferð til og frá Álafosskvos og Landahverfi. Brekkuland verður lokað umferð úr Helgafellshverfi eins og áætlun er uppi um nú.
Vegagerðin áætlar að eyða öllum hringtorgum á þjóðvegi 1 innan nokkurra ára og gera veginn að fjögurra akreina braut. Byggja á brú í 6 m hæð yfir Varmá á Vesturlandsvegi við Brúarland. Mögulega væri hægt að gera aukaakrein inn í Álafoss ef brúin yrði lægri.

Stokkur undir ´Tillaga að Helgafellsbraut 3: tengibraut um stokk undir Ásland
Helgafellsbraut verði sett í stokk undir Ásland og til að minnka umfang mannvirkisins yrði stokkurinn aðeins látinn anna umferð í og úr austurátt, þ.e. miðbæ Mosfellsbæjar. Öll umferð í vesturátt færi um fyrirhugaða Þingvallabraut ofan Helgafellsbyggðar. Stokkurinn færi undir Vesturlandsveg og yrði 180 m langur.

Helgafellshverfi AugaðTillaga Mosfellsbæjar: tengibraut um Álafosskvos
Verði tengibrautin lögð um Álafosskvos verður annað hvort að byggja fyrirferðarmikil mislæg gatnamót á Vesturlandsvegi við Brúarland eða beina umferð úr Helgafellslandi inn í miðbæinn að hringtorgi við Kjarna og meðfram aðal íþrótta- og skólasvæði Mosfellsbæjar. Rífa verður Brúarland að sögn Vegagerðarinnar. Áætlað er að reisa brú í 6 m hæð yfir Varmá og lokast við það tengingin inn í Álafosskvos. Græn tenging milli útivistarsvæða austan og vestan þjóðvegar rofnar með öllu.

Eins og sjá má á þessari úttekt er úr vöndu að ráða í tengslum við fyrirkomulag umferðar úr Helgafellslandi. Það er skoðun Varmársamtakanna að færa sérfræðinga þurfi til að ráða úr þessum vanda. Skoðið þessa kosti vandlega og segið ykkar skoðun. Betri úrlausnir vel þegnar.

Framtíðarsýn í vegamálum:
Varmársamtökin hafa gagnrýnt bæjaryfirvöld fyrir að taka ekki mið af framtíðarsýn í samgöngumálum við hönnun tengibrautar um Álafosskvos.
Þegar litið er á framtíðarspár Vegagerðarinnar um umferðarþunga á Vesturlandsvegi kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Til dæmis að gróflega áætlað munu allt að 50 þús bílar fara um Mosfellsbæ á sólarhring þegar Álanes (18-20 þús íbúar) og Leirvogstunguland verða fullbyggð.
Gangi þetta eftir mun þróunin eflaust verða sú að Vesturlandsvegur fer í stokk um Mosfellsbæ. Umferð innanbæjar þarf því ekki lengur að fara um þjóðveginn og bærinn getur þróast með eðlilegum hætti. Fari Vesturlandsvegur í stokk hefur það gríðarleg áhrif á umferðarmannvirki í bænum. Ættu ekki skipulagsáætlanir að taka mið af því að þetta sé framtíðin? Þarf ekki einfaldlega að ganga út frá þessu í upphafi til að ekki þurfi að leggja út í óheyrilegan kostnað við leiðréttingar á vegakerfinu innan 20 ára?

Viðauki:
Sundabraut mun draga úr umferð í gegnum Mosfellsbæ en þó ekki eins mikið og margur ímyndar sér því öll umferð úr Árbæ, Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarfellslandi, frá Suðurlandi o.s.frv. mun áfram fara í gegnum Mosfellsbæ.

Tvær efstu myndirnar vann Sigurður Valur Sigurðsson, myndskreytir.


Gott skipulag - gott mannlíf

Í máli Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur á íbúaþingi Varmársamtakanna laugardaginn 21. apríl kom fram að gott skipulag byggðar leiddi af sér gott mannlíf. Hver vill sitja úti á verönd í skugga hárra húsa eða þar sem stöðugur umferðargnýr þreytir hugann alla daga?  Þennan sama dag var forvitnileg þróun í Árborg til umræðu í þættinum Krossgötum á Rás 1. Í Árborg hefur áhugi fyrir dreifðri byggð vaxið verulega og 2 – 6 hektara lóðum er úthlutað, þar sem menn geta haldið hesta og hænur og verið með gróðurhús í hlaðvarpanum o.s.frv.
Þeir eru ófáir hér í Mosfellsbæ sem hafa einmitt sest hér að vegna þess að byggðin er ekki þétt og stutt í næsta læk eða móa.  Þess vegna flutti ég og fjölskylda mín hingað.  Mér var reyndar ekki alveg rótt þar sem vegalengdin til vinnu lengdist talsvert við flutningana en eftir að ég eignaðist metanbíl er aksturinn minna samviskumál (og bæ ðe vei þá eru metanbílar mjög sniðugir fyrir þá sem vinna í Reykjavík og búa í Mosfellsbæ: Ódýrara eldsneyti og minni mengun!).
Á hinn bóginn hefur sveitasælan dofnað verulega, verið er að byggja á mörgum stöðum í Mosfellsbæ, vinnuvélar eru útum allt og sprengingarnar í Helgafellslandinu hrista húsið mitt jafnt um helgar sem virka daga.  Ég læt mig samt áfram dreyma um ýmsar betrumbætur á votlendissvæðum bæjarins sem gætu stuðlað að öflugra lífríki, fjölgun fugla og fuglategunda og fjölbreytilegri flóru. Ég læt mig líka enn dreyma um a.m.k. 100-200 metra óbyggða ræmu sitthvoru megin við Varmána endilanga – hvar sem því verður við komið.
Já, okkur sem finnst gott að hafa náttúruna nálægt fer fjölgandi eins og þróunin í Árborg sýnir. Það að byggja upp þétta byggð í Helgafellslandi umkringda fjalli, byggð og náttúruperlu bæjarins  er alls ekki það sem við sveitaborgarliðið höfum áhuga á og auðvitað hefur ENGINN áhuga á að fá 10 þúsund bíla tengibraut við garðsendann. Fyrir stuttu fengum við athugasemd frá einum íbúa þar sem VS var bent á að rót deilnanna um tengibrautina úr Helgafellslandi væri of þétt byggð þar.  Við erum held ég flest á sama máli þar - en hvers vegna er verið að troða yfir 1000 íbúðum á þetta svæði?  Svarið er eflaust að finna hjá bæjarstjórn Mosfellsbæjar og Helgafellsverktökum. 
Í þessu sambandi langar mig enn að benda á  þáttinn Krossgötur síðasta laugardag, nánar tiltekið síðasta viðtal þáttarins, við Árna Valdimarsson fasteignasala á Selfossi, um skipulagsmál, nýja stétt athafnamanna og hlutverk sveitastjórnarmanna og þeirra þunga kaleik....
Ég ætla að halda áfram að láta mig dreyma um blómlegt lífríki í næsta nágrenni – og berjast fyrir því. Jafnvel þótt það kosti streð og strögl, þótt það útheimti að ég þurfi að senda athugasemdir og kærur vegna tengibrauta o.s.frv., þá mun ég halda þeirri baráttu áfram og vona það besta. Þetta geri ég í þeirri bjargföstu trú að grænn bær og vænn sé ekki bara núverandi íbúum Mosfellsbæjar heillavænlegri til búsetu en grár bær og gugginn, heldur einnig komandi kynslóðum.
Að þessu sögðu þakka ég fyrir allar uppbyggilegar færslur hérna á blogginu okkar undanfarið og ágæta þátttöku í íbúaþingi á laugardaginn var.

Sigrún Guðmundsdóttir líffræðingur og ritari VS 

 


Heildarsýn: Mosfellsbær-Vesturlandsvegur

Helgafellsbraut-VarmárdalurVarmársamtökin blása til íbúaþings þar sem kynntar verða tillögur að nýrri leið til og frá Helgafellshverfi að Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Yfirskrift þingsins sem haldið verður í Þrúðvangi í Álafosskvos laugardaginn 21. apríl kl. 14 er: Heildarsýn: Mosfellsbær-Vesturlandsvegur.
Markmið þingsins er að ýta undir opna umræðu milli íbúa bæjarfélagsins við embættismenn ríkis og bæjar og frambjóðendur  Suðvesturkjördæmis um samgöngu- og skipulagsmál í Mosfellsbæ og mögulega aðkomu almennings að þeim.
Í brennidepli fundarins er erindi Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, arkitekts FAÍ og skipulagsráðgjafa um skipulagsferlið, aðkomu almennings að því og hugsanleg áhrif hans á endanlega ákvarðanatöku um landnýtingu. Í kjölfarið kynna Varmársamtökin tillögu að nýrri tengingu Helgafellsbrautar við Vesturlandsveg sem unnin hefur verið á þrívíðan grunn undir handleiðslu umferðarsérfræðinga.
Eftir hlé verða pallborðsumræður sem frambjóðendum og fulltrúum stjórnmálaflokkanna í Suðvesturkjördæmi hefur verið boðið að taka þátt í og eru fundargestir hvattir til að taka þátt í umræðum og koma hugðarefnum sínum á framfæri við núverandi og tilvonandi fulltrúa þjóðarinnar. Fimm flokkar hafa boðað þátttöku í pallborði á íbúaþingi Varmársamtakanna en það eru: Gunnar Svavarsson fyrir Samfylkinguna, Jakob Frímann Magnússon fyrir Íslandshreyfinguna, Kristbjörg Þórisdóttir fyrir Framsóknarflokkinn, Valdimar Leó Friðriksson fyrir Frjálslynda flokkinn og Ögmundur Jónasson fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð.
Fundarstjóri á íbúaþinginu verður Ævar Örn Sigurjónsson, rithöfundur og útvarpsmaður.

Dagskrá íbúaþings hljóðar svo:

  • Skipulag og aðkoma almennings:
    Fyrirlesari er Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt FAÍ og skipulagsráðgjafi
  • Kynning Varmársamtakanna á þrívíðum teikningum af nýrri tengingu Helgafellsbrautar við Vesturlandsveg
  • Pallborðumræður
    Í pallborði sitja frambjóðendur og fulltrúar stjórnmálaflokkanna o.fl.

Varmársamtökin telja að fyrirkomulag umferðar í og í gegnum Mosfellsbæ hafi mikil áhrif á velferð íbúa og því nauðsynlegt að opinská umræða eigi sér stað um valkosti milli hlutaðeigandi aðila, þ.e. almennings, stjórnmálamanna og fagaðila. Mosfellsbær stendur frammi fyrir þeim vanda að þjóðbrautin klýfur bæjarfélagið í tvennt. Innanbæjarumferð er samofin umferð um þjóðveginn sem leiðir til þess að náið samstarf þarf milli bæjaryfirvalda og Vegagerðar ríkisins við gerð skipulagsáætlana. Þegar deiliskipulag tengibrautar úr Helgafellshverfi um Álafosskvos að Vesturlandsvegi er skoðað kemur í ljós að skipulagið tekur harla lítið mið af aðstæðum við Vesturlandsveg. Vandann sem þarna skapast teljum við að hægt sé að leysa með öðrum úrræðum og munu samtökin kynna og ræða nýja valkosti við fundargesti í Þrúðvangi á laugardag.

Myndin að ofan er ein af þeim tillögum sem Varmársamtökin hafa látið vinna fyrir sig og kynnt verður á fundinum á morgun.


Frá sveit til sjávar: Gljúfrasteinn-Grótta

GljúfrasteinnATORKA mannrækt í Mosfellsbænum, skipuleggur í annað skipti á sumardaginn fyrsta Úr sveit til sjávar; Gljúfrasteinn - Grótta. Hlaupið, skautað eða hjólað vegalengdina frá safni skáldsins að Gljúfrasteini í Mosfellsdal, framhjá Íþróttamiðstöðinni að Varmá, meðfram ströndinni og eftir stíg á móts við Gufunesbænum, um Elliðaárdal framhjá Víkingsheimili, út í Nauthólsvík og hópurinn kemur saman við fræðslumiðstöðina og vitann í Gróttu. Leiðin er um 40 km, góður malbikaður stígur. Möguleiki er að kaupa orkudrykki á leiðinni og grill verður í Gróttu.
Mæting er kl. 10:00 að Gljúfrasteini, þar sem að er kynning á safninu og síðan lagt af stað kl. 10:30.  Allir velkomnir
Upplýsingar gefur Gunnlaugur í síma 699-6684 og á www.man.is

Hið bláa, hið græna og hið bláa

Félag íslenskra landslagsarkitekta býður til fyrirlestrar nk. þriðjudagkvöld þann 17. apríl. Fyrirlesarinn kemur frá Noregi og heitir Rainer Stange, landslagsarkitekt og prófessor við Arkitektaháskólann í Osló.
Erindi hans ber titilinn: "Hið bláa, hið græna og hið bláa", hann mun fjalla um eigin verk og annarra norskra samtíðarlandslagsarkitekta.
Fyrirlesturinn verður í húsi Verkfræðinga að Engjateigi 9 og hefst kl 20.00, á eftir verður umræða og boðið upp á veitingar. Fyrirlesturinn er öllum opinn og fluttur á ensku.

Sjá verk Rainers: www.snohetta.com


Bloggað um íbúalýðræði

Gröfur við ÁlafosskvosBloggið er skemmtilegt fyrirbæri og frábært tæki til að auka skoðanaskipti milli íbúa og stjórnmálamanna. Það gefur íbúum tækifæri til að koma skoðunum sínum beint til valdhafa og valdhöfum tækifæri til að vera með fingur á púlsi umræðunnar. Nú hefur Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar tekið þetta skemmtilega samskiptaform í þjónustu sína á slóðinni http://ktomm.blog.is/blog/ktomm/entry/172032/#comments . Hann splæsti grein á okkur í Varmársamtökunum, Gunnlaug B. Ólafsson aðallega. Spunnist hafa fjörlegar umræður um tengibrautina, íbúalýðræði og fleira í kjölfarið. Gunnlaugur og Kristín I. Pálsdóttir  hafa blandað sér í umræðuna og varið sjónarmið Varmársamtakanna. Hér er t.d. svar Kristínar við fyrirspurn á bloggi Karls um það hvort það sé krafa Varmársamtakanna   “vera með í þeim ákvörðunum sem teknar eru hér í bæ til jafns við kosna fulltrúa":

"Mig langar aðeins að svara Erni varðandi ákvarðanatöku í sveitarfélögum. Þannig er að á Ríóráðstefnunni um umhverfismál, sem haldin var 1992, var samþykkt svokölluð Agenda 21 eða nokkurskonar stefnuskrá 21. aldarinnar í umhverfismálum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þar er lögð rík áhersla á aðkomu borgaranna í ákvarðanatöku í málefnum eins og umhverfis- og skipulagsmálum og hér á landi er unnið að því að samtvinningu Agenda 21 í störf sveitarfélaga í gegnum svokallaða Staðardagskrá 21. Sveitarstjórnar- og skipulagslög hafa breyst mjög með tilkomu Staðardagskrár. Vinstri flokkarnir hafa reyndar lagt meiri áherslu á þessa vinnu og fyrrverandi bæjarstjórn Mosfellsbæjar var með starfsmann til að fylgja henni eftir. Íbúalýðræði er lykilatriði í Staðardagskrá. VG voru að gefa út sína Grænu framtíð sem er þeirra stefnuskrá og þar er lögð rík áhersla á samstarf sveitarfélaga og almennings, ekki síst við samtök eins og Varmársamtökin. Það að íbúar komi að lýðræðinu með kosningum á fjögurra ára fresti er úrelt, þó að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ eigi greinilega eftir að sætta sig við þá staðreynd. Kjörnir fulltrúar hafa að sjálfsögðu úrslitavald og Varmársamtökin hafa ekki reynt að sölsa neitt vald til sín en samtökin hafa með sínum afskiptum orðið til þess t.d. að farið er að lögum um umhverfismat áætlana varðandi tengibraut."

 

Kristín I. Pálsdóttir

VIÐBÆTUR:

Samfylkingin hefur ennfremur markað sér stefnu í umhverfis- og skipulagsmálum undir yfirskriftinni Fagra Ísland. Þennan kafla um íbúalýðræði er að finna á vef Samfylkingarinnar: www.xs.is/Forsida/Stefnan/FagraIsland/

4. Auka áhrif almennings og réttarstöðu í umfjöllun um umhverfismál

Árósasamningurinn frá 1998 um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum hefur ekki verið staðfestur af Íslands hálfu, þótt hlutar hans séu komnir í íslensk lög vegna EES-aðildarinnar.

Með Árósasamningnum tengist umhverfisréttur mannréttindum og lýðræðissjónarmiðum. Viðurkennt er að fullnægjandi umhverfisvernd er undirstaða þess að menn geti notið grundvallarmannréttinda, að allir eigi rétt á heilbrigðu umhverfi og öllum sé skylt að vernda umhverfið. Samningurinn mundi m.a. tryggja aðild almennings/umhverfissamtaka að öllum málum sem varða umhverfisvernd (þannig að hagsmunir almennings verði jafngildir og lögvarðir hagsmunir nú), auka möguleika til gjafsóknar á þessu sviði og styrkja stöðu umhverfissamtaka, bæði að lögum og almennum áhrifum. Slík samtök hefðu meiri möguleika á fjárstuðningi þar sem viðurkennt væri að þau eru nauðsynlegur þátttakandi í ákvörðunarferli og eftirliti fyrir hönd almennings.

Samfylkingin telur ástæðu til að styrkja þátttöku almennings og félagasamtaka í umhverfismálum og stjórnvaldsákvörðunum um þau. Meginatriði er að gera félagsamtökum kleift að taka þátt í ýmiss konar sérfræðistarfi sem krefst tíma og fjár langt umfram það sem hægt er að ætlast til af almannasamtökum.

Samfylkingin telur að umhverfismál séu málaflokkur þar sem aðferðir beins lýðræðis henta ákaflega vel í ýmiss konar samspili við fulltrúalýðræðið. Því er sjálfsagt að kanna rækilega kosti atkvæðagreiðslna og skoðanakannana í þeim efnum.

Minnum einnig á greinargerð með aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 þar sem enginn vafi leikur á því veigamikla hlutverki sem íbúum er ætlað að gegna í tengslum við uppbyggingu í bæjarfélaginu:

Í Mosfellsbæ er sjálfbær þróun og hugmyndafræði Staðardagskrár 21 höfð að leiðarljósi í rekstri, þróun og uppbyggingu bæjarfélagsins og sterk umhverfisvitund mun móta stjórnsýslu bæjarins. Stuðlað verður að þátttöku bæjarbúa með fræðslu, hvatningu og ráðgjöf. Markmiðið er að lífsgæði aukist með bættu umhverfi og að bæjarbúar taki virkan þátt í þróun bæjarins og verndun umhverfis innan hans.


Þingað um manneskjulegra bæjarumhverfi

Útimarkaður Álafosskvos 300Það mun innan tíðar heyra sögunni til að almenningur á Íslandi fái ekki að hafa áhrif á mótun nærumhverfis síns, - sagði norski arkitektinn Audun Engh á fundi með Varmársamtökunum í Álafosskvos í gær. Í Evrópu og sér í lagi Skandínavíu þykir orðið sjálfsagður hlutur að fólk komi að skipulagsvinnu strax á byrjunarstigi. Enda gefur auga leið að mikilvæga hlekki vantar í það skipulag sem eingöngu er hannað út frá sjónarmiði byggingarverktakans sem oftast á mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar fjárhagslegur ávinnur fárra fær að ráða úrslitum um hönnun á nánasta umhverfi fólks. Útkoman verður án efa lélegt skipulag. Það er eðlilegt að fólk fái að hafa áhrif á í hvernig umhverfi það býr. Þann rétt má ekki taka af fólki. Það segir sig líka sjálft að það er ánægjulegra að búa  í bæjarfélagi þar sem þú færð að taka þátt heldur en þar sem þínum hugmyndum er ýtt til hliðar sem óþægilegri afskiptasemi.
Já, af hverju ættum við að leggja örlög okkar í hendur fólks sem sýnir ekki minnsta áhuga á velferð okkar og skoðunum?

Audun Engh sem situr í stjórn samtakanna "The Council for European Urbanism" (www.ceunet.org)  kom til Íslands í síðustu viku til að taka þátt í borgaraþingi á vegum íbúasamtaka á höfuðborgarsvæðinu sem haldið var í Ráðhúsi Reykjavíkur. Eitt meginviðfangsefni samtakanna er að stuðla að manneskjulegri þéttbýlismyndun á Vesturlöndum og til þess að svo megi verða hafa samtökin einbeitt sér að því að ýta undir aðkomu almennings að skipulagsvinnunni, þ.e. að skapa tengsl milli fagaðila og íbúa sem vilja taka þátt í að móta umhverfi sitt.

Á þinginu flutti Bryndís Schram afar fróðlegt erindi um þá þætti sem gera bæjarumhverfi manneskjulegt. Í erindinu sem bar yfirskriftina "Manneskjan og maskínan" kom Bryndís ennfremur inn á  þau vandamál sem nú eru uppi í skipulagsmálum í Mosfellsbæ þar sem bæjaryfirvöld í slagtogi við verktakafyrirtæki hafa í skjóli vafasamrar túlkunar á lögum haldið íbúum frá hvers konar áhrifum á þá miklu uppbyggingu sem nú á sér stað í bæjarfélaginu.
Fleiri athyglisverð erindi voru flutt á þinginu, - og verða þeim vonandi gerð betri skil hér á blogginu síðar. Bæjarfulltrúar, þingmenn og ráðherrar sátu í pallborði og er ljóst að samtalið sem hófst með þessu þingi milli stjórnmálamanna og íbúasamtaka á eftir að leiða okkur inn í bjartari framtíð í skipulagsmálum.

KALL TÍMANS: Íbúalýðræði - þátttökustjórnun - Ásta Þorleifsdóttir, Jón Baldvin Hannibalsson og Kolbrún Halldórsdóttir. Útvarpsþáttur Jóhanns Haukssonar, Morgunhaninn á Útvarpi Sögu.

sp


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reykjalaug í endurnýjun lífdaga?

ReykjaveitaVarmársamtökin hafa viðrað þá hugmynd að gera þurfi hina ósýnilegu en samt svo gjöfulu auðlind sem liggur undir yfirborði jarðskorpunnar í Mosfellsbæ sýnilega í bæjarfélaginu. Í iðrum sveitarfélagsins liggur eitt stærsta hverasvæði á Íslandi. Í dag sjást um það lítil ummerki á yfirborðinu annað en fátækleg kofaskrifli Orkuveitunnar og upplýsingaspjöld sem sett voru upp á Reykjum í tilefni af 60 afmæli Reykjaveitu 2003.  Gamli hitaveitustokkurinn hefur að miklu leyti orðið stórvirkum vinnuvélum að bráð og sömu sögu er að segja um fornar minjar þvottalauga í Helgafellslandi.
Hugmyndir Varmársamtakanna um að gera jarðsögu sveitarfélagsins skil með eftirminnilegum hætti eru reyndar ekki nýjar af nálinni og hafa áhugasamir einstaklingar hér í bæ m.a. lagt til að endurgera Reykjalaug sem nú liggur undir malbiki á veginum að Syðri- Reykjum.
Í tilefni að afmæli Reykjaveitu stóðu sagnfræðingarnir Magnús Guðmundsson og Bjarki Bjarnason fyrir gerð upplýsingaskilta um hitaveituna í samvinnu við Orkuveituna. Skrifaði Bjarki að þessu tilefni greinarstúf um Reykjalaug í Vinstri grænan Sveitunga sem við birtum hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Reykjaveita 60 ára
Síðla hausts árið 1943 tók heitt vatn að streyma úr Mosfellssveit til Reykjavíkur í stórum stíl og enn er drjúgur hluti höfuðborgarinnar hitaður upp með heitu vatni úr Mosfellsbæ. Um síðustu helgi  var 60 ára afmæli Reykjaveitu fagnað og þá voru afhjúpuð tvö upplýsingaskilti sem Orkuveita Reykjavíkur lét setja upp á Reykjum. Skiltin hafa að geyma ýmsar tæknilegar upplýsingar og sögulegan fróðleik um Reykjaveitu í máli og myndum.

Reykjalaug
Um síðustu helgi var 60 ára afmæli Reykjaveitu fagnað og tvö upplýsingaskilti afhjúpuð sem Orkuveita Reykjavíkur lét setja upp á Reykjum. Það var svalt í veðri þennan sunnudag og menn glöddust yfir því að geta notið ylsins í upphituðum íbúðarhúsum. En um leið rifjaði fólk upp notkun jarðhitans á fyrri tíð og bar þá svonefnda Reykjalaug á góma.
Reykjalaug var grjóthlaðin laug örskammt frá Reykjabænum og notuð til baða í aldanna rás. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 18. öld er lauginni lýst með þessum orðum: „Reykjalaug heitir lítil, heit uppspretta í austanverðri Mosfellssveit. Vatnið í henni er léttara en í köldum uppsprettum. Það er tært og bragðlaust. Ekki er það heitara en svo, að hægt er að halda hendi niðri í því.“
Eftir að jarðboranir hófust í Reykjahverfi á 4. áratugi síðustu aldar þornaði Reykjalaug upp, hvarf undir akveginn heim að Reykjum og féll í gleymsku og dá. Fyrir nokkrum árum var grafið fyrir jarðstreng á þessum slóðum og þá vísaði Jón M. Guðmundsson á leifar laugarinnar. Nú eru hugmyndir komnar á flot um að grafa Reykjalaug upp og endurgera, líkt og gert hefur við slíkar laugar annarsstaðar á landinu. Vonandi taka menn höndum saman og koma því máli í heila höfn svo ylvolgt hveravatnið fái að leika um Reykjalaug á ný.

Bjarki Bjarnason, sagnfræðingur


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband