Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Huglægt mat eða fagleg úttekt?

HálfsannleikurRáðgjafafyrirtæki Mosfellsbæjar hefur skilað inn umhverfismati áætlana vegna deiliskipulags við lagningu Helgafellsvegar. Eins og gert er ráð fyrir í reglum um slíkt mat, þá er viðleitni í skýrslunni að gera skipulagðan samanburð valkosta. Varmársamtökin bentu bæjaryfirvöldum á að aldrei hafi verið gerður slíkur samanburður og að fagleg úttekt væri forsenda þess að almenningur gæti myndað sér skoðun á málinu. Hún væri jafnframt forsenda þess að efla íbúalýðræði og aðkomu almennings að skipulagsmálum. Eftir lestur þessarar skýrslu vakna spurningar um sjálfstæði ráðgjafafyrirtækisins í málinu. Til dæmis er ekkert tekið til umfjöllunar mikilvægi þess að í ört vaxandi bæjarfélagi sé haldið eftir útivistar- og verndarsvæði, með öllum þeim jákvæðu perlum sem liggja upp með Varmá. Hesthúsahverfi og reiðleiðum, íþrótta- og skólasvæði, lista- og menningarstarfi, heilsueflingu og endurhæfingu. Mikilvægi og gildi þess að hafa svigrúm til vaxtar og eflingar "Varmárdals" sem hjarta og lífæð Mosfellsbæjar. 

Margt bendir til að fyrirtækið hafi verið hliðhollt húsbónda sínum í meðhöndlun gagna og að stigagjöfin sem notuð er í skýrslunni sé byggð á röngum forsendum varðandi tvær helstu tillögurnar sem eru í umræðunni, það er fyrirliggjandi tillögur bæjaryfirvalda um Helgafellsveg og tillögur Varmársamtakanna um mislæg gatnamót í jaðri byggðar. Á fundi með ráðgjafarfyrirtækinu ítrekuðu Varmársamtökin að þverun Varmár við Álanes væri ekki hluti af tillögum samtakanna, heldur væri gert ráð fyrir safngötu á aðalskipulagi og jafnframt í þriðja áfanga deiliskipulags Helgafellsbygginga og svari bæjaryfirvalda. Tókum sérstaklega fram að samtökin hafa óskað eftir því að þessi tenging væri tekin út. Útskýrðum að okkar tillögur gengju eingöngu út á að mislæg gatnamót í jaðri byggðar, ofan og norðan núverandi Helgafellshverfis kæmu í stað tengibrautar um Álafosskvos. Þrátt fyrir þetta setur ráðgjafafyrirtækið þverun Varmár við Álanes á reikning Varmársamtakanna sem að leiðir til alvarlegrar villu í samanburði á umhverfisáhrifum tillagnana tveggja. Þarna tekur fyrirtækið upp sama tón og fulltrúar bæjaryfirvalda um að nota útúrsnúning um þverun Varmár við Álanes sem forsendu í samanburði. Það er alvarlegt mál í ljósi þess að þeim hafði verið gerð grein fyrir inntaki tillagna samtakanna.

Það sem meira er að fyrirtækið virðist kaupa þá túlkun bæjaryfirvalda að deiliskipulag Helgafellsvegar snúist um "500 m vegarspotta". Að skipulagstillagan endi í tvöföldu hringtorgi við Vesturlandsveg er ekki í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar og markmið Vegagerðar um að leggja af hringtorg. Samkvæmt heimildum er ráðgert að það muni gerast fyrr en síðar og segjast fulltrúar vegagerðar líta á slíkt hringtorg með aðliggjandi brekkum báðum megin við, sem ófullnægjandi bráðabirgðalausn. Því verðum við að vera með varanlega lausn á teikniborðinu en segja ekki hálfsannleika til að fegra málið í skipulagsferlinu. Samkvæmt aðalskipulagi á tengibrautin að koma undir Vesturlandsveg og liggja nálægt íþrótta- og skólasvæði, loka af göngustíg og reiðgötu, setja eitt sögufrægasta hús bæjarins upp á umferðareyju og gera miðbæinn að rússíbana bílaumferðar. Jafnframt er nauðsynlegt að bera þessa tvo möguleika saman með tilliti til þess að mislæg gatnamót séu komin á Hafravatnsveg (Reykjaveg) eins og ráðgert er í fyrirliggjandi skipulagstillögum.

Uppsetning skýrslunnar er vönduð, ártöl, dagsetningar og sögulegt yfirlit er allt til fyrirmyndar. Stigagjöf í samanburði er að nokkru í anda þess sem Varmársamtökin höfðu óskað þegar þau fóru fram á að gerð yrði  fagleg úttekt á valkostum. Í slíkum samanburði er þó nauðsynlegt að grunnforsendurnar séu réttar. Eins og ég hef rakið hér að ofan þá er það ekki raunin. Þrátt fyrir góða umgjörð og uppsetningu, þá er inntakið og niðurstaðan ómarktæk. Þó Varmársamtökin fagni þessum áfanga sem náðst hefur að fá þessa vinnu fram og er að hluta til vegna okkar vinnu, þá hlítur það að vera markmið samtakanna að sýna fram á veikleika þessarar skýrslu og ekki síður hvernig er hægt að gera betur. Almenningur á það skilið að rétt sé farið með og að unnið sé á faglegum forsendum. Í skýrslunni er engin ný vitneskja, engar rannsóknir eða útreikningar, heldur er hún huglægt mat á villandi forsendum.

GBÓ


Samspil náttúru og sögu einstakt við Álafoss

Viðtal við Pétur Ármannsson, arkitekt. 

HEFUR ÁLAFOSSKVOS MINNJAGILDI SEM VERT ER AÐ VARÐVEITA?
Álafosskvos hefur sögulega kjölfestu og mikil umhverfisgæði. Það eru afar fá ef nokkur hliðstæð dæmi til á öllu landinu um fallegan gamlan kjarna verksmiðjubygginga í samspili við náttúruverndarsvæði.
Menningarlandslag er hugtak sem skýrir samspil staðhátta og menningarminja. Aðrar þjóðir eru farnar að tileinka sér það hugtak. Það er ekki bara náttúran sem þarf að vernda heldur þetta samspil sem er svo einstakt í Álafosskvos, það sem kallað hefur verið staðarandi (genius loci).
Hér á landi eru lög sem ein tryggja vernd lífríkis og náttúruminja og önnur lög sem tryggja varðveislu húsa og annarra menningarminja. Við eigum hins vegar enga löggjöf sem tekur á samspili þessara tveggja þátta. Oft fara mannvistarminjar og náttúruminjar saman, má þar nefna Þingvelli sem dæmi. Þingvallabærinn og kirkjan rýra ekki gildi náttúrunnar þar, heldur eru þvert á móti ómissandi þáttur í mynd staðarins. Þetta samspil náttúru og mannvista skapar helgi staðarins. Víða erlendis er viðurkennt að verndarminjar þurfi helgunarsvæði svo maður njóti þeirra. Álafosskvosin er órofa hluti af Varmársvæðinu, ef til vill sá hluti þess sem einstæðastur er, hana þarf að vernda.

ER HÆGT AÐ SKILGREINA AÐDRÁTTARAFL KVOSARINNAR?
Gamlar byggingar við vatnsfarvegi sýna einstaka fegurð mannvista og náttúru. Vatnið er spegillinn sem endurspeglar byggðina og landslagið og tvöfaldar áhrifin. Sem dæmi um þetta er hægt að taka upp hvaða ferðaskrifstofubækling sem er um borgir í Evrópu þar sem sýnd eru gömul hús við vatnsbakka.  Gömul hús á vatnsbakka hafa einstakt aðdráttarafl.

ER RÁÐLEGT AÐ LEGGJA TENGIBRAUT Í TÚNFÓT KVOSARINNAR?
Staðsetning brautarinnar er augljóslega mjög óheppileg með tilliti til byggðarinnar í Kvosinni. Hér er verið að spilla dýrmætu og einstæðu menningarlandslagi í bæjarfélaginu. Þegar horft er á vegstæði brautarinnar er á svo áberandi hátt verið að skemma eina hlið Kvosarinnar, fyrir utan hávaðamengun, ryk- og loftmengun.  Hljóðmanir verða erfiðar þarna og mikinn tilkostnað þarf í mótvægisaðgerðir. Þetta er svo greinilega ekki góður kostur, en ég tek fram að ég hef ekki sett mig inn aðrar lausnir sem kynntar hafa verið og get því ekki lagt faglegt mat á þær. Engin leið að nýja hverfinu er gallalaus en ég trúi því vart að ekki sé til skárri kostur en sú um kvosina.

SÉRÐ ÞÚ VÆNLEGRI TENGINGU VIÐ HELGAFELLSLAND?
Þegar gengið er upp með Varmá kemur maður að opnum kafla fyrir neðan Ístexverksmiðjuna. Fljótt á litið sýnist mér þar er meira svigrúm fyrir mótvægisaðgerðir en neðan við Kvosina, enda er þessi tenging sýnd á aðalskipulagi. Á þessum kafla væri t.d. hægt að planta skógi meðfram brautinni og gera góða brú yfir Varmá, líkt og við veginn upp að Reykjalundi, sem veldur takmarkaðri truflun á umhverfi árinnar.  Með slíkri tengingu myndast eðlilegri tengsl innan bæjarfélagsins og ekki þarf að fara út á stofnbraut til að komast milli bæjarhluta. Þetta væri mun ásættanlegri kostur, því það þarf að vera hægt að aka innan sveitar. Skaði á umhverfi þar yrði að mínu mati minni en í Kvosinni,  enda má færa rök að því að landslagið þarna sé ekki eins einstakt og menningarlandslag Kvosarinnar. Þarna virðast ráða sjónarmið sem skilgreina náttúru- og umhverfisvernd mjög þröngt. Við glötum miklu meiru ef Kvosin er sköðuð. Kvosin á sér ekki hliðstæðu. Hvergi annars staðar á landinu er að finna aldagamlar verksmiðjubyggingar eða heildstætt verksmiðjuhverfi með sögu.
Það þarf að opna augu fólks fyrir gildi menningarlandslags. Gildismat er breytingum háð. Sem gott dæmi um það má nefna að árið 1968 átti að rífa bæði Höfða og hús Thors Jensen, sem nýverið var selt á 600 millj. króna!!!
Pétur óskar Varmársamtökunum góðs gengis í baráttu sinni.

B.B.


Síld eða lax?

Arnþór JónssonÞað er mjög ólíklegt að Álafosskvosin verði áfram eftirsóknarverður áfangastaður fyrir ferðmenn, ef tengibrautin treðst þarna á milli húsanna. Það skiptir því litlu eða engu máli hvort greiðar leiðir eru fyrir rútubíla að komst til og frá Kvosinni, þegar sérstaða svæðisins er ekki lengur til staðar og ferðlangarnir bruna bara framhjá. Það er svæðið sjálft sem er aðal aðdráttaraflið en ekki verslunin, þó hún sé góð á svæðinu.

 

Eftir því sem byggðin þéttist mun fólk gera sér betur grein fyrir verðmæti umhverfis sem er laust við hávaða og mengun. Við munum einnig fljótlega sjá miklar þjóðfélagbreytingar þegar næstu kynslóðir breyta hegðun sinni gagnvart atvinnu og skólastarfi, sem við munum sinna að mestu leyti á heimilum okkar. Þörfin fyrir stórkostlega akvegi sem þurfa að flytja fólk til og frá vinnu og skóla, alla á sama tíma, tvisvar sinnum á dag, verður ekki lengur fyrir hendi eftir ca 10 ár. Offjárfesting í slíkum akvegum verður óbærilega augljós heimska, fyrr en flesta grunar.

 

Skipulag Helgafellslandsins og tengibrautin gera ráð fyrir að skólastarf og atvinnuhættir muni ekkert breytast frá því sem nú er. Þarna á að búa fólk sem fer í vinnu og skóla milli klukkan 8 og 9 á morgnana og kemur svo aftur heim um klukkan 17, allir á sama tíma. Þetta mun ekki ganga eftir. Lífsgæði felast ekki lengur í risastórum akvegum sem flytja fólk til og frá vinnu með hámarksafköstum í tvo klukkutíma daglega og standa svo ónotaðir þess á milli. Það sér það hver maður sem vill sjá, að fjölgun fólks og bíla getur ekki endalaust krafist stærri akvega. Við munum því breyta hegðun okkar gagnvart atvinnu og skóla og krefjast lífsgæða nálægt heimilum okkar sem eru jafnframt vinnustaðir okkar. Þau lífsgæði eru umhverfi sem hefur næganlegt rými og er laust við hávaða og mengun.

Arnþór Jónsson

tónlistarmaður og fyrrverandi íbúi í Álafosskvos

Þessi grein birtist upphaflega sem athugasemd við athugasemd á blogginu og fengum við góðfúslegt leyfi höfundar til að birta hana sem grein.


Krossgötur í dag kl. 15 á Rás 1 - Tengibraut í Mosó

Hjálmar SveinssonHvað gengur á upp í Mosó? Hér fjallað um umdeilda tengibraut og Álafosskvosina. En kannski er málið stærra en bæði brautin og kvosin. Það snýst, þegar öllu er á botninn hvolft, um spurninguna hvers konar bær á Mosfellsbær að vera og hver á að ráða því og hvað með samráð bæjaryfirvalda og íbúa. Í þættinum er rætt við talsmann Varmársamtakanna, íbúa í kvosinni, arkitekt og formann byggingar og skipulagsnefndar.

Hægt er að hlusta á þátt Hjálmars Sveinssonar í vefupptökum Rásar 1. Þátturinn var fyrst fluttur sl. laugardag og verður endurtekinn á Rás 1 kl. 15.00 í dag, mánudag.

Texti tekinn af vef RÚV


Hlustið á Krossgötur á vef RÚV -Tengibraut í Mosfellsbæ

Útimarkaður Álafosskvos 300Hvað gengur á upp í Mosó? Hér fjallað um umdeilda tengibraut og Álafosskvosina. En kannsi er málið stærra en bæði brautin og kvosin. Það snýst, þegar öllu er á botninn hvolft, um spurninguna hvers konar bær á Mosfellsbær að vera og hver á að ráða því og hvað með samráð bæjaryfirvalda og íbúa. Í þættinum er rætt við talsmann Varmársamtakanna, íbúa í kvosinni, arkitekt og formann byggingar og skipulagsnefndar.

Hægt er að hlusta á þátt Hjálmars Sveinssonar í vefupptökum Rásar 1. Hann verður endurtekinn á Rás 1 kl. 15.00 á mánudag.

Texti tekinn af vef RÚV


Umhverfisspjöll við Álafoss

Vegagerð við Álafoss
Að morgni uppstigningardags vöknuðu íbúar í grennd við Álafoss upp af værum blundi við það að gröfukarlar hófu að leggja veg fyrir aftan gamla verksmiðjuhúsið meðfram Varmá í átt að fossinum, Álafossi. Nýtur svæðið hverfisverndar vegna sögulegra minja í Álafosskvos og náttúruminjagildis árinnar auk þess sem fyrirhugað er að friðlýsa fossinn. Að sögn verktakans er verið að leggja nýjan veg meðfram ánni á vegum Mosfellsbæjar til að endurnýja gamlar skólplagnir sem liggja meðfram ánni.
Háttvísi ætlar seint að halda innreið sína á skrifstofu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Engin tilkynning barst frá bæjaryfirvöldum um þessar fyrirætlanir til íbúa og afsakaði tilvonandi bæjarstjóri sig með því að honum bæri ekki að tilkynna slíkar framkvæmdir.  Í ljósi atburða undanfarna dag er ögrunin sem í þessu ruddalega háttarlagi felst á frídegi ekki til annars er að kynda undir óánægju og valda sárindum meðal íbúa.
Myndin sýnir vegarstæðið meðfram ánni en hana útbjó Hildur Margrétardóttir.

Athugasemd:
Íbúi í Álafosskvos fór á fund formanns skipulagsnefndar í morgun og verða framkvæmdir við skolplögn meðfram bökkum Varmár stöðvaðar þar til frekari útfærsla verksins liggur fyrir.


Jarðvegur lífsgilda eða hamfara?

Vegagerð við VarmáÍ rúmt ár hef ég verið varaformaður Varmársamtakanna. Megináherslur þeirra eru á umhverfi og íbúalýðræði. Aldeilis mikilvægir og merkilegir málaflokkar. Fyrir um tveimur árum síðan stóð ég fyrir undirskriftasöfnun er tengdist uppbyggingu á sundaðstöðu Mosfellsbæjar. Sjálfstæðisflokkurinn hafði ákveðið að hætta við uppbyggingu glæsilegrar laugar á Varmársvæðinu og farið út í að skipuleggja aðallaug bæjarins á vestursvæði. Um það bil helmingur bæjarbúa skrifaði undir áskorun þess efnis að fyrst yrði farið í uppbyggingu að Varmá og þar yrði aðallaug bæjarins, enda væri hún miðlægt og hefði samlegðaráhrif við aðra aðstöðu til útivistar og íþrótta. Bæjarstjórn gat ekki tekið tillit til þessarar bónar og enn finnst mér að málið hafi bara snúist um stolt Sjálfstæðisflokksins að framkvæma ekki glæsilegar tillögur fyrri meirihluta um sundlaugaraðstöðu að Varmá. Þarna vaknaði áhugi minn á íbúalýðræði.

Um nokkurra áratuga skeið hef ég unnið að málefnum útivistar og heilsueflingar. Ég er úr sveit og allt frá bernsku hefur stór hluti af tilverunni snúist um að hlaupa á fell og fjöll. Það er sagt að sveitamenn sem leggja mikið upp úr tengslum við náttúruna setjist að í Mosfellsbæ. Við kaupum okkur raðhús í Mosfellsbæ og byrjum að rækta garðinn og höfum frá upphafi tengsl við Álafosskvos. Nýtum möguleika bæjarins til vaxtar og lífsfyllingar. Fór nokkru síðar að vinna á Reykjalundi og kynntist þeim jákvæða og góða uppbyggingaranda sem þar ríkir. Keypti hlut í hesthúsi og hef notið einstakra göngustíga og reiðstíga bæjarfélagsins. Eins og gengur með foreldri þá eru tengsl við Varmárskóla og íþróttamiðstöðina. Fljótlega fór ég að nota fellin  í nágrenni bæjarins sem minn líkamsræktarsal. Eitt vorið vann ég að því í samvinnu við garðyrkjustjóra Mosfellsbæjar að merkja hringleiðir upp á fellin. Varmársvæðið með sínum perlum til útivistar og mannræktar er eins og stilkur á fjögurra laufa smára sem myndaður er af fellunum. Mín ósk var að vegur þessa útivistar- og verndarsvæðis yrði sem mestur.

Mosfellsbær byggist hratt upp og grænu svæðunum fækkar. Nýlega er búið að selja verktökum Sólvallatúnið, sem er framan við stofugluggann. Þannig að eftir nokkur ár tapa ég því frelsi að geta pissað út í garði og horft á stjörnurnar. Þeim mun verðmætara er að halda eftir útivistar- og verndarbelti upp með Varmá. Jafnframt er mikilvægt að til séu aðilar í bæjarfélaginu sem gæti hagsmuna hins almenna íbúa sem sest hefur hér að á síðastliðnum árum undir formerkjunum "sveit í borg" sem að er útgangspunktur í aðalskipulagi bæjarins. Skipulagslög, náttúruverndarlög og upplýsingalög vernda aðkomu og rétt einstaklinga að mótun síns umhverfis og skipulags. Það er hluti af lífsfyllingu að vera þátttakandi. En því fylgir ábyrgð. Að markmiðið sé að leita bestu lausna og að það sem sagt er og gert hafi það markmið að efla og styrkja samfélagið.

Gærdagurinn var með þeim erfiðari. Hafði fengið hálsbólgu daginn áður og það var seinasti dagurinn til að skila inn einkunnum nemenda í Borgarholtsskóla. Upp úr klukkan tíu er hringt í mig frá blaðamanni Morgunblaðsins vegna skemmdarverka á vinnuvélum í Helgafellhverfi. Blaðamaður segir mér að framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis tali um milljónatjón og segir að ég með minni framgöngu og Varmársamtökin séu ábyrg. Þurfti að bæta því inn í dagsverkið að standa þokkalega uppréttur í fjölmiðlum og svara þessum ærumeiðandi aðdróttunum og alvarlegri ásökunum á persónu heldur en þekkst hefur í óupplýstu lögreglumáli. Ekki virðast lögregluyfirvöld tengja málið meira við mína persónu en svo að ég hef ekki fengið hringingu eða beðin um að koma í viðtal. Hinsvegar hef ég ekki náð í þann sem rannsakar málið. Nú stend ég frammi fyrir því hvort ég eigi að nýta mér aðstoð lögfræðinga og fá þessi ummæli framkvæmdastjórans dæmd ómerk. Ég hef í raun ekki tíma eða fjármagn til að standa í slíku.

Þrátt fyrir yfirlýsingar verktakans um 2-3 daga tafir var allt á fullu í að aka burt mold og keyra inn möl og grjóti inn í kvosina, bæði í gærkvöldi og í dag uppstigningardag. Meira að segja er búið að leggja hliðarveg sem stefnir beint að Varmá. Allt þetta inngrip er talið leyfilegt á þeim forsendum að þeir hafa upp á vasann tölvupóst frá tækni- og umhverfissviði bæjarins að Mosfellsbær geri ekki athugasemdir við þessa "lagnavinnu". Ekkert deiliskipulag er í gildi. Það var afturkallað. Það sem er nokkuð sérstakt í þessari pípulögn er að ofan á hana er lagður fimm metra malarpúði sem er margvaltaður. Ég fór upp á hól ofan við gömlu Álafossverksmiðjuna og tók myndir í morgun, ég var nokkrum metrum frá Varmá sem að lítur hverfisvernd. Þar hótaði mér og ógnaði framkvæmdastjóri verktakans. Sá sami og vígreifur ásakaði mig persónulega um milljónatjón í gær í fjölmiðlum, hafa farið hamförum og hvatt til skemmdarverka. Undir þessar ásakanir hefur verið tekið af fulltrúum meirihluta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Það finnst mér alvarlegt að taka undir ásakanir á persónu með þessum hætti. Þð hvarflar að manni að í Mosfellsbæ ríki verktakalýðræði. Mig langar að finna leiðir til að við getum komumst sæmilega frá þeim vaxtarverkjum sem Mosfellsbær gengur í gegnum þessa dagana, en vona allavega að ekki sé nauðsynlegt að hræða mig frá mínum lífsgildum og vilja til þátttöku í mótun samfélagsins. 

Gunnlaugur B. Ólafsson
www.gbo.blog.is

 


Varmársamtökin fordæma skemmdarverk

Álafosskvos hestur Í ljósi fréttaflutnings af atburðum næturinnar í Mosfellsbæ og ásakana verktaka í garð Varmársamtakanna teljum við nauðsynlegt að upplýsa að samtökin eiga enga aðild að þeim skemmdarverkum sem unnin voru á vinnuvélum á landi Helgafells í nótt. Varmársamtökin hafa alla tíð lagt metnað sinn í vandaðan málflutning. Ofbeldisverk samrýmast ekki á nokkurn hátt markmiðum samtakanna. Þau eru miklu fremur til þess fallin að koma í veg fyrir að við náum fram okkar jákvæðu markmiðum. Stjórn Varmársamtakanna fordæmir harðlega skemmdarverkin. Ennfremur ærumeiðandi yfirlýsingar um að samtökin hafi hvatt til þeirra.
Eitt helsta markmið Varmársamtakanna er að stuðla að auknu íbúalýðræði og þátttöku íbúa í mótun bæjarfélagsins. Í þeim tilgangi höfum við margsinnis leitað eftir samvinnu við bæjaryfirvöld. Þeirri málaleitan hefur hins vegar alfarið verið hafnað. Varmársamtökin hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að hagsmunir íbúa og umhverfis séu settir í forgang við gerð skipulagsáætlana. Einn liður í þeirri hagsmunagæslu hefur verið að hvetja bæjaryfirvöld til að fara að lögum þegar um er að ræða framkvæmdir í bæjarfélaginu. Helgafellsbyggingar ehf. hófu sl. mánudag framkvæmdir í Álafosskvos án framkvæmdaleyfis og deiliskipulags. Urðu þessi afar ögrandi vinnubrögð til þess að fólk safnaðist saman í Álafosskvos til að mótmæla sl. mánudag. Varaformaður samtakanna fjarlægði við þetta tækifæri girðingu sem búið var að reisa umhverfis vinnusvæði fyrirtækisins. Tilgangur hans var eingöngu táknrænn og ekki til þess ætlaður að valda skemmdum.
Eitt af grundvallaratriðum lýðræðisins er réttur þegnanna til að stofna frjáls félagasamtök. Þetta gerðum við í Varmársamtökunum í góðri trú. Við teljum að bæjaryfirvöld geti leyst þann ágreining sem risið hefur í bæjarfélaginu vegna framkvæmda í Álafosskvos á farsælan hátt, þ.e. með því að ástunda lýðræðisleg vinnubrögð og sýna vilja til samvinnu við íbúa.
Það er í verkahring lögreglunnar að kanna hverjir stóðu fyrir skemmdarverkunum í nótt og er vonandi að sannleikurinn líti dagsins ljós sem allra fyrst.

Stjórnarfar valdníðslu í Mosfellsbæ

Gröfur við ÁlafosskvosÍ gær réðust bæjaryfirvöld í Mosfellsbær með fulltingi stórvirkra vinnuvéla aftur til atlögu inn á verndarsvæðinu við Varmá í Álafosskvos. Að þessu sinni  undir því yfirskyni að verið væri að koma fyrir skolplögnum fyrir Helgafellshverfi í áður fyrirhuguðu vegstæði Helgafellsbrautar.
Að undanförnu hafa grunsemdir íbúa um að verktakinn sé án deiliskipulags og framkvæmdaleyfis að útbúa undirlag fyrir tengibrautina ofan á lögnunum orðið sífellt háværari. Þegar farið var að kanna málið nánar kom í ljós að þessi ofaníburður er í engu samræmi við venjulegan frágang slíkra lagna. Búið er að leggja nokkurra metra þykkt malar- og grjótlag ofan á lagnirnar og þétta ofaníburðinn með valtara. Að sögn sérfræðinga sem Varmársamtökin leituðu til er deginum ljósara að venjuleg lagnagerð krefst engan veginn slíks frágangs og að þarna er verið að gera undirlag fyrir breiðan veg sem þola á mikla umferð. 
Skipulagsstofnun ákvað í byrjun mars að vinna skyldi umhverfismat, skv. lögum um umhverfismat áætlana við gerð deiliskipulags Helgafellsbrautar. Sú skýrsla hefur enn ekki litið dagsins ljós en svo vildi til að Varmársamtökin sátu á fundi með skipulagsfræðingum hjá verkfræðifyrirtækinu Alta sem er að vinna umhverfisskýrsluna þegar fregnir bárust af því að gröfur Helgafellsbygginga ehf. væru aftur komnar inn á verndarsvæðið og farnar að rífa upp tré sem afkomendur Sigurjóns Péturssonar á Álafossi plöntuðu í hlíðinni fyrir nokkrum áratugum.
Forsaga þessa máls er sú að um miðjan febrúar stöðvaði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála framkvæmdir við tengibrautina á þeirri forsendu að vafi léki á lögmæti þeirra þar sem Mosfellsbær hefði m.a. ekki látið vinna umhverfismat eins og lög gerðu ráð fyrir. Í kjölfarið felldi Mosfellsbær nýlegt deiliskipulag Helgafellsbrautar úr gildi sem varð til þess að íbúar drógu kæruna sem lá fyrir úrskurðarnefndinni til baka. Skipulagsstofnun tók síðan þá ákvörðun að Mosfellsbær þyrfti að láta fara fram umhverfismat og lét bæjarstjórinn, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, í veðri vaka í fjölmiðlum að hún hefði hug á að vinna skipulagið í sátt og samlyndi við íbúa.
Ekki verður betur séð en að hér hafi hugur ekki fylgt máli þar sem umhverfismatið sem Varmársamtökin hafa frá fyrstu tíð óskað eftir hefur enn ekki farið fram og hvorki er til samþykkt deiliskipulag né leyfi fyrir framkvæmdum á þessu viðkvæma svæði.
Skortur á samráði við íbúa hefur einkennt stjórnarhætti Ragnheiðar Ríkharðsdóttir allt frá því að hún náði kjöri sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ 2002. Í aðdraganda alþingiskosninga virtist frambjóðandinn úr Leirvogstungulandi hins vegar vera tilbúnari en áður til að hlusta á raddir íbúa en nú tveimur dögum eftir kosningar verður ekki betur séð en að hinir gömlu eðlisþættir séu farnir að láta kræla á sér á ný.
Fyrirsjáanlegt er að jarðvegsskiptin sem fylgja þessari umfangsmiklu "lagnagerð" inn á verndarsvæðinu í Álafosskvos munu hafa gríðarleg umhverfisspjöll í för með sér og verður ekki betur séð en að verið sé að spilla náttúru svæðisins með svo afgerandi hætti að umhverfismat verður varla pappírsins virði.
Íbúar fóru fram á við verktaka að stöðva framkvæmdir til hádegis 15. maí. Ekki var orðið við þeirri ósk og ætlar fyrirtækið að halda áfram framkvæmdum kl. 9 í fyrramálið.

Athugasemd við frétt RÚV:
Forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, Karl Tómasson, lét hafa eftir sér í fréttum í gærkvöldi og í Morgunblaðinu í dag að Varmársamtökunum hafi borist tilkynning um þessar framkvæmdir í síðustu viku. Eitthvað virðist hafa skolast til hjá blessuðum forsetanum því ekki er fótur fyrir þessari staðhæfingu. Eðlilegt hefði verið að kynna framkvæmdirnar fyrir íbúum en það var ekki gert fyrr en eftir hádegi í gær þ.e.  um svipað leyti og þær hófust.


Á flótta undan málefnalegri umræðu

Ofan ÁlafossEitt helsta hugðarefni forseta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, Karls Tómassonar, virðist vera að koma höggi á fjölmennustu umhverfisverndar-samtök bæjarins og þó víðar væri leitað, Varmársamtökin. Og af hverju skyldi það vera? Er hann ekki vinstri grænn? Ætti hann ekki einmitt að leggja umhverfisverndarsamtökunum lið? Nei, í stað þess að styðja þann málstað sem hann þó sjálfur boðaði fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar gerir hann allt sem í hans valdi stendur til að ófrægja samtökin.

Fyrir stuttu náði krossferð forsetans og vina hans slíkum hæðum á blog.is að ritstjórnin ákvað að nú væri nóg komið og birti IP tölur bloggara. Í ljós kom við birtinguna að óhróðurinn sem komið hafði að því er virtist frá fjölda fólks átti upptök sín í 3-4 tölvum sem allar tengdust forsetanum og vinahópi hans. Úr tölvu Karls var t.d. skrifað undir a.m.k. 10 nöfnum. Eftir birtinguna var hljóðlátt um stund og kviknaði jafnvel von um að þessi lýðræðislega kjörni bæjarfulltrúi vaknaði til vitundar um stöðu sína og ábyrgð en því er öðru nær. Maðurinn tók sér frí og kom síðan tvíefldur til baka og hélt áfram fyrri iðju, nú undir réttu nafni.

Þegar Karl Tómasson var inntur eftir því hverju þessi framkoma sætti svaraði forsetinn því til að hann og fjölskylda hans hefðu orðið fyrir persónulegum árásum. Óharðnaður unglingur á heimilinu hefði fengið nóg og því ráðist með óhróðri á Varmársamtökin. Viðtal var tekið við Ragnheiði Ríkharðsdóttur bæjarstjóra þar sem hún lýsti yfir samúð sinni með Karli og fjölskyldu. Sá hængur var hins vegar á málflutningi þeirra beggja að hvergi kom fram hverjir það voru sem ofsóttu forsetann. Bæði Ragnheiði og Karli láðist að geta þess að Varmársamtökin komu þar hvergi nærri. Þar sem hefndaraðgerðirnar beindust gegn samtökunum lá beinast við að þeir sem ekki vissu hið rétta í málinu ályktuðu að þau hefðu staðið fyrir ósómanum.

Í þeim tilgangi að fá sannleikann fram í dagsljósið sendi stjórn Varmársamtakanna Karli Tómassyni og félögum áskorun um að axla ábyrgð á nafnlausum aðdróttunum í garð samtakanna. Einnig var þess óskað að þeir bæðust afsökunar á aðförinni. Ekki var orðið við þessari áskorun og ákvað stjórnin að birta afrit af bloggfærslum þeirra félaga á bloggi samtakanna, dags 1. maí. Ragnheiði bæjarstjóra hafði áður verið send samantektin til að upplýsa hana um hverjir væru hinir raunverulegu gerendur í málinu. Hefur hún enn sem komið er engin viðbrögð sýnt þó vonandi standi það til bóta.

Vel má vera að Karl Tómasson hafi verið ofsóttur af einhverjum og er það miður. Ljóst er að þær árásir voru ekki í nafni samtakanna. Enginn úr okkar stjórn hefur veist persónulega að Karli  né lagt stund á nafnlausar bloggfærslur.

Varmársamtökin eru íbúa- og umhverfisverndarsamtök. Vinstri græn skilgreina sig sem umhverfisverndarflokk með áherslu á íbúalýðræði. Umhverfisverndarsamtök hljóta að gagnrýna umhverfisverndarflokk sem svíkur umhverfisstefnuna að loknum kosningum. Karl Tómasson varð forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í kjölfar sinna kosningaloforða. Honum ber skv. stefnu Vinstri grænna að vernda náttúruperlur bæjarins; skv. sömu stefnu og sveitarstjórnarlögum að gæta hagsmuna fólksins sem hér býr.

Varmársamtökin skora á Karl Tómasson að sýna embætti sínu og bæjarbúum þá virðingu að biðja samtökin afsökunar á ómaklegri aðför hans og félaga hans að starfi samtakanna. Markmið Varmársamtakanna er að standa vörð um þau einstöku lífsgæði sem nálægðin við náttúru og sögulegar rætur Mosfellsbæjar veitir bæjarbúum. Æskilegt væri að sameinast um það göfuga verkefni í málefnalegri umræðu.
VS

Greinin birtist í Mosfellingi 11. maí


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband