Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Helgispjöll í Helgafellslandi

Álafoss í febrúar 2008Það er farið að hlána og einhver svakalegustu  umhverfis- og náttúruspjöll sem sögur fara af að koma undan snjónum á bökkum Varmár í Mosfellsbæ. Þar sem áður var frjósamur jarðvegur sem nærði gróður, fjölskrúðugt fuglalíf og fiskinn í ánni eru nú grjótruðningar sem nota á sem undirlag fyrir malbikaða göngustíga á bökkum Varmár. Bæjaryfirvöld telja sig væntanlega vera að leggja göngustíga til að gera fólki kleift að njóta náttúrunnar. Það sem hins vegar "gleymdist" eru umhverfisáhrif framkvæmdanna, þ.e. eyðilegging náttúrunnar sem leyfa átti fólki að njóta. Það er ekki að ástæðulausu að í aðalskipulagi Mosfellsbæjar er tekið fram að ekki skuli malbika göngustíga á hverfisverndarsvæðum. Þeir sem það skrifuðu þekktu gang náttúrunnar.
Sannast sagna stendur ekki steinn yfir steini á framkvæmdasvæði Helgafellsbygginga í Helgafellslandi og þrátt fyrir fögur fyrirheit arkitekta í greinargerð með skipulaginu, um að laga skuli byggð að náttúrulegu landslagi í Helgafellslandi, er ekkert sem minnir lengur á upprunalega gerð svæðisins. Búið er að kvarna niður klappir og leggja þær undir vegi og göngustíga og flytja burt frjósaman jarðveg á urðunarstað við sjóinn.
Íbúar sem horfa upp á þessa eyðileggingu eru skelfingu losnir. Þeir vita að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ láta sér fátt um finnast. Þau hafa aldrei viljað umhverfismat.
Varmársamtökin hafa frá upphafi barist fyrir því að framkvæmdir í Helgafellslandi verði settar í raunverulegt mat á umhverfisáhrifum. Það var ekki gert og nú eru afleiðingar þess komnar í ljós.
Umhverfisspjöll í Helgafellslandi eru að þeirri stærðargráðu að ekki er hægt að lýsa þeim með orðum. Við hvetjum því íbúa Mosfellsbæjar og áhugafólk um náttúruvernd að gera sér ferð á framkvæmdasvæðið í Helgafellslandi til að upplifa af eigin raun það sem þar er að gerast.
SkammadalslækurUppbygging getur átt sér stað án umhverfisspjalla og er mikilvægt að hvetja bæjaryfirvöld Mosfellsbæ til að virða þá gullvægu reglu. Það gera þau því aðeins að ÞIÐ, náttúrunnendur góðir, látið til ykkar taka.
 

Póstur sendist á: varmarsamtokin@gmail.com


Mannréttindi fatlaðra?

-grein af bloggi Gunnlaugs B. Ólafssonar

Grjót í stað jarðvegs á bökkum VarmárKarl Tómasson forseti bæjarstjórnar heldur því fram að groddaleg lagning göngustígs meðfram Varmá og Álafossi sé gert í þágu fatlaðra og til að tryggja réttindi þeirra. Spurningin sem vaknar er hvort það sé verjandi að gjörbreyta ásýnd hverfisverndarbeltis og efast ég um að fatlaðir eða ófatlaðir geti notið náttúru sem að er búið að malbika yfir.

Satt best að segja hélt ég að vinna Varmársamtakanna hefði þó skilað þeim árangri að staðið yrði betur og á yfirvegaðri máta að framkvæmdum á þessu viðkvæma svæði. Því belti sem liggur í gegnum bæinn og samkvæmt skipulagi skal halda eftir ósnortnu af Varmársvæðinu.

Göngustígur lagður í bakgarði RikkaÞað er ekki nóg með að Helgafellsbrautin fari nálægt Varmá og þrengi að Álafosskvosinni. Hinn þriggja metra breiði stígur mun kóróna sköpunarverkið. Útmá stærstan hluta af því grasbelti sem eftir er og gerbreyta allri ásýnd landsins með jarðvegsskiptum og undirbyggingu sem að er allt að fjögurra metra há.

 

 

Það sem meira er að þessi framkvæmd hefur ekki verið rædd, hvorki á opinn hátt inn í nefndum eða meðal íbúa. Veit ekki hvort hún var rædd við félög fatlaðra og að fyrir liggi að þeir hafi gert kröfu um slíkan gjörning.

Skurðgröfur grafa sér leið yfir Varmá v Álanes

 

 

 

 

 

 

Bakkar Varmár undirbúnir f malbik


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband