Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Ný stjórn hjá Varmársamtökunum

Félagar í Varmársamtökunum kusu nýverið nýja stjórn á fundi í listasal Mosfellsbæjar. Í stað Freyju Lárusdóttur, sem flutt er til Danmerkur, kemur Birgir Þröstur Jóhannsson arkitekt en auk hans tekur Sigrún Guðmundsdóttir líffræðingur sæti í aðalstjórn. Sigrún kemur í stað Ólafs Ragnarssonar en hann tekur sæti í varastjórn. Úr varastjórn gengur Kristín Pálsdóttir.

Í stjórn sitja áfram Kolfinna Baldvinsdóttir, Páll Kristjánsson og Sigrún Pálsdóttir og í varastjórn Gunnlaugur B. Ólafsson.

 


Varmársamtökin funda um sjálfbært samfélag

Álafosskvos hestur

Sjálfbært samfélag er yfirskrift umræðufundar sem Varmársamtökin standa fyrir 17. nóvember kl. 20.15 í listasal Mosfellsbæjar í Kjarna.Stefán Gíslason verkefnisstjóri Staðardagskrár hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er frummælandi á fundinum, auk Tómasar G. Gíslason umhverfisstjóra í Mosfellsbæ og Sigrúnar Guðmundsdóttur, líffræðings hjá Umhverfisstofnun.

Hugtökin Staðardagskrá og sjálfbær þróun vilja gjarnan þvælast fyrir fólki í umræðunni um umhverfismál. Að baki þeim er þó innihald sem skiptir verulegu máli fyrir samfélagið og því nauðsynlegt að gera því viðhlítandi skil.

Á fundinum mun Stefán segja frá Staðardagskrárverkefninu og hlutverki þess í mótun samfélagsins en Staðardagskrá er aðgerðaáætlun sem er liður í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Íslendingar eru aðilar að sáttmálanum og hefur fjöldi sveitarfélaga á Íslandi undirgengist að vinna eftir aðgerðaáætlun sáttmálans. Mosfellsbær er eitt þessara sveitarfélaga og mun Tómas gera grein fyrir stöðu verkefnisins í Mosfellsbæ.

Að lokum mun Sigrún fjalla um nokkrar leiðir sem íbúar hafa til að taka þátt í þessu samfélagsbætandi verkefni en virk þátttaka íbúa er einmitt lykilatriði í Staðardagskránni.

Fundarstjóri er Katrín Theódórsdóttir.

Fyrir fundinn halda Varmársamtökin aðalfund á sama stað og hefst hann kl. 19.30.

Allir velkomnir!


Aðalfundur Varmársamtakanna 17. nóvember

Nú líður að árlegum aðalfundi Varmársamtakanna en hann verður haldinn þriðjudaginn 17. nóvember kl. 19.30 í listasal Mosfellsbæjar í Kjarna.Fundurinn hefst á venjulegum aðalfundarstörfum þar sem m.a. verða lagðir fram reikningar og kosið í nýja stjórn samtakanna. Í framhaldi af aðalfundi verða flutt erindi um áhugaverð málefni og verður sú dagskrá auglýst innan tíðar.

Við leitum að góðu fólki í stjórn og biðjum áhugasama um að tilkynna framboð a.m.k. sólarhring fyrir aðalfund í netfangið varmarsamtokin@gmail.com eða í síma 866 9376 (Sigrún). 

Útimarkaður10

Varmársamtökin voru stofnuð í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 8. maí 2006 í þeim tilgangi að stuðla að verndun útivistarsvæða og menningarsögulegrar byggðar við Varmá. Samtökin gerðu í upphafi þá umhverfisstefnu að sinni sem lýst er í aðalskipulagi Mosfellsbæjar, að leggja skuli "áherslu á varðveislu óspilltrar náttúru, friðlýsingu athyglisverðra svæða og tengsl byggðar við náttúrulegt umhverfi. Bærinn verði útivistarbær þar sem íbúar eru í snertingu við náttúruna á auðveldan og fjölbreyttan hátt ... .” 

Helstu markmið í lögum Varmársamtakanna eru þessi:

  • standa vörð um Varmársvæðið frá upptökum til ósa
  • efla íbúalýðræði og stuðla að auknum áhrifum íbúa í skipulags- og umhverfismálum
  • stuðla að uppbyggingu útivistar- og íþróttasvæða við Varmá í sátt við náttúrulegt umhverfi
  • lífga upp á bæjarlífið í Mosó með útimörkuðum, skemmtunum og menningarviðburðum.

 Stjórnin


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband