Náttúru- og minjavernd í Mosfellsbæ

Eins og flestir bæjarbúar hafa orðið varir við eru meðlimir Varmársamtakanna ekki sáttir við bygginga- og vegaframkvæmdir við Varmá. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir okkur sem hér erum fyrir ekki síður en þá sem setjast munu að í Helgafells- og Leirvogstunguhverfum og vegfarendur sem eiga leið í eða um bæinn.  Eins hefur verið bent á að stóraukin umferð um Álafosskvosina hafi a.m.k. takmarkandi áhrif á starfsemi Reykjalundar en hluti af heilsueflingu stofnunarinnar fer einmitt fram á Varmársvæðinu.  Aukið svifryk og útblástursmengun hefur sérlega slæm áhrif á fólk með öndunarfærasjúkdóma.  Jafnframt er íþróttasvæðið og Varmárskóli skammt undan umferðarþunganum.  Íslendingar hafa hingað til lítið þurft að glíma við mengunarvandamál vestrænna iðnaðarþjóðfélaga en með þéttingu byggðar, stóraukinni bílaeign og illa skipulögðu gatnakerfi stefnir óðfluga í sama óefnið hér og þar.  Varmársamtökin vilja stuðla að heppilegu skipulagi þannig að sem minnst fari forgörðum af þeim lífsgæðum sem við erum svo lánsöm að búa við í dag. 

Sigrún Guðmundsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvaða heilsuefling á að dafna í Mosfellsbæ?  Hvaða aðbúnaður /aðstæður eru heppilegar  fyrir þá starfsemi sem fram fer á Reykjalundi?  Hvaða máli skiptir starfsemi Reykjalundar bæjarfélagið? 

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 14:24

2 identicon

Það verður sett tengibraut úr Helgafellshverfinu,  þar verður jú 3000 manna byggð (1983 var áætlað að þar yrðu 200 ÍBÚAR) EN það er hægt að setja hana annars staðar en akkúrat í kvosina , kvosin er að mörgu leyti óhagstæð fyrir þunga umferð og það er hagur allra að skoða aðrar leiðir jafnframt og bera þær saman.  Það er ekki bara samsetning malbiksins sem hefur áhrif á magn svifryks og jú við höfum talsverða þekkingu á málinu - ég er t.d. að vinna við umhverfismál og í umhverfisfræði í HÍ og byggi mín skrif á þeirri þekkingu og þeim gögnum sem ég hef fengið - hins vegar eru gögnin oft af skornum skammti - gögn sem t.d. fást við mat á umhverfisáhrifum.  Varðandi Reykjalund þá las ég um daginn í grein um svifryk (í Mogganum) að lungnalæknir á Reykjalundi hafði áhyggjur af aukinni svifryksmengun vegna aukinnar byggðar og umferðar kringum Reykjalund.  Ég efast um að mörgum finnist að  Reykjalundur ætti að standa straum af úttektum varðandi umhverfismál.   

Sigrún G

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 23:33

3 identicon

Nei, Reykjalundur á auðvitað ekki að standa straum af úttektum varðandi umhverfismál. Það voru ekki mín orð, ég sagði: Hefur Reykjalundur eða aðrir látið meta þessa meintu ógn við starfsemina? og ...hafa samtökin gert úttekt á þessu í samvinnu við Reykjalund. Auðvitað eiga aðrir að sjá um svona úttekt en það væri nú dónalegt að leyfa ekki Reykjalundi að koma að máli er það ekki?

Eru gögnin eftir allt saman af skornum skammti? Samtökin hafa þá í raun og veru ekki haldbærari rök fyrir því að það verði hreint helvíti að búa eða vera í Kvosinni ef brautin verður að veruleika en þau að "þetta gæti gerst"? Það segir sig sjálft að það eru ekki nógu góð rök. Engir útreikningar, ekkert almennilegt mat og ekki neitt, bara tilfinningin liðsmannanna? Þetta vissi ég ekki en þetta er athyglisvert atriði, ég hélt í raun að samtökin hefðu sterkari stoðir til að byggja málflutning sinn á! Í alvöru. Ég veit reyndar til þess að einhverjar svona úttektir hafa verið gerðar af hendi bæjarins en niðurstöður þeirra henta ekki samtökunum og því er greinilega álitið að þær hafi yfirhöfuð alls ekki  verið gerðar. Athyglisvert allt saman sem þetta er! 

Hvað gera samtökin ráð fyrir að margir þessara þrjú þúsunda verði á bíl? Varla allir, en hefur verið gerð könnun á þessu? Hefur verið gerð úttekt á umferðarþunganum um brautina eða hefur bara verið ákveðið að þar verði umferð einhverra þúsunda jafnvel tugþúsunda bíla á dag og umferðarþunginn því nánast orðinn sambærilegur umferðarþunganum á Miklubraut? Hafa samtökin ekki gert svona úttekt? Ef svo er ekki hver eru þá rökin samtakanna fyrir því að umferðin verði svo mikil?

Miðað við það sem að undan er komið, að gögn séu lítil og fá, á hverju hafa samtökin þá byggt sína baráttu öðru en tilfinningu félagsmanna? Hvaðan hafa þau að brautin komi til með að verða þessi mikli ógnvaldur við Kvosina sem samtökin vilja vera að láta? Hefur fólk innan samtakanna, sem er sérfrótt í umhverfismálum, ekki séð ástæðu til að gera úttekt og fræðilega rannsókn á þessu öllu saman? Ef svo er hvar eru gögnin og hinar fræðilegu niðurstöður um þetta málefni? Þarna er ég ekki að tala um getgátur byggðar á fræðunum og því sem kannski gæti gerst heldur faglega, fræðilega úttekt. Ef ég væri í námi í HÍ um umhverfismál þá sæi ég þarna frábært tækifæri til þess að vinna að verkefni í fræðunum og hjálpa um leið samtökunum mínum!  

Áhyggjur lungnasérfræðings eru út af fyrir sig góðar og gildar en þær einar og sér eru ekki nægjanleg rök fyrir því að starfsemi Reykjalundar stafi hætta af breyttu umhverfi sínu. Þarna vantar líka faglega og fræðilega úttekt. Þetta er aðeins álit eins manns og því er óhæfa að fullyrða að starfseminni stafi ógn af breyttu umhverfi eins og gert var í bloggfærlunni. Þarna þurfa að koma til betri rök og helst einhver úttekt eins og áður segir. Þetta á háskólagengð fólk í umhverfisfræðum að vita! Var maðurinn ekki annars að tjá sig um uppbygginguna í nágrenni Reykjalundar í heild sinni en ekki bara um stóraukna umferð um Álafosskvosina? Það fyrra er mjög víðtækt það seinna er mjög þröngt.

Afhverju mega samtökin hengja sig í að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir 200 manna byggð í Helgafelli árið 1983 en þeir sem mæla með brautinni og nota þau rök að þetta hafi verið ákveðið 1983 eru úthrópaðir af samtökunum og þeim bent á að síðan hafi margt breyst? Skrýtið að samtökin megi styðjast við þessa samþykkt og það sem hentar þeim þar en ekki þeir sem gagnrýna þau. Það segir sig sjálft að síðan 1983 hefur margt breyst og þess vegna er verið að fjölga íbúðunum í hverfinu!    

Hjördís

Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 00:39

4 identicon

Já, Hjördís, það segir sig sjálft að síðan 1983 hefur margt breyst. Það sem er enn óbreytt, því miður, er að það virðist alltaf til nóg af fólki sem ekki hefur neitt betra að gera en að snúa út úr málflutningi þeirra sem það af einhverjum óskiljanlegum og óútskýranlegum ástæðum leggur fæð á.

Eitt dæmi - og læt ég það nægja, það væri að æra óstöðugan að telja þau öll upp - um útúrsnúning þinn og afbökun er síðasta málsgreinin í athugasemd þinni hér að ofan.  Það sem við þreytumst ekki - þráttfyrir vísvitandi misskilning sumra - á að benda á er að rökin um að brautin hafi verið inná aðalskipulagi síðan 1983 eru engin rök. Því, einsog þú réttilega bendir á, þá hefur ýmislegt breyst síðan. Það þýðir ekki að rökstyðja eitthvað með því að það hafi verið á aðalskipulagi svo og svo lengi í öðru orðinu, en hunsa í hinu orðinu algjörlega þá staðreynd að þessu sama skipulagi hefur verið breytt á alla enda og kanta síðan það var fyrst samþykkt.

Við erum ekki að hengja okkur í eitt eða neitt. Það eru bæjaryfirvöld sem hengja sig í tengibrautina frá 1983. Á sama tíma gera þau ekkert með byggðina sem henni var ætlað að tengja 1983. Við spyrjum einfaldlega hinnar rökréttu spurningar af þessu tilefni: Ef réttlætanlegt er að breyta þeirri 200 ÍBÚA byggð sem gert var ráð fyrir 1983 í 1.000 - 1.200 ÍBÚÐA byggð í dag, hvers vegna er þá ekki réttlætanlegt - og sjálfsagt - að huga að öðrum lausnum en hinni upprunalegu í ljósi þessara breyttu aðstæðna?

Og hvað í ósköpunum fær þig til að vera svo mjög á móti þeirri sjálfsögðu kröfu? Ef þér skyldi detta í hug að halda því fram að aðrar leiðir og lausnir hafi verið kannaðar, þá er rétt að taka það fram strax að það er einfaldlega rangt. Fagleg úttekt á mögulegum tengimöguleikum hins fyrirhugaða Helgafellshverfis hefur aldrei verið gerð. Byggðin hefur fengið að stækka og stækka á skipulaginu, breytingar verið gerðar í takt við vaxandi græðgi landeigenda og verktaka án nokkurra vafninga (já, jafnvel í tíð vinstri-meirihlutans, nota bene!) en alltaf stendur tengibrautin óbreytt eftir sem áður, þótt umferðarþunginn vaxi með hverri nýrri íbúð sem samþykkt er inná þetta sama deiliskipulag.

Hvað umferðarþungann varðar, þá hefur aldrei nokkur maður haldið því fram að hann muni jafnast á við það sem gerist á Miklubraut á háannatíma. Það hefur heldur enginn haldið því fram að það verði hreint helvíti að búa í Kvosinni. Hinsvegar hefur verið bent á að lífskjör þeirra sem þar eru hljóta óhjákvæmilega að versna með tilkomu tengibrautarinnar. Ég hef enn ekki heyrt nokkurn mann, allra síst Karl Tómasson, mótmæla þeirri staðreynd.

Rökin fyrir því að umferðin verði giska mikil ættu hinsvegar meiraðsegja að duga til að sannfæra þig - þær tölur sem við höfum um áætlaðan umferðarþunga (10.000 bílar á dag að meðaltali, allt að 20.000 í versta falli) eru nefnilega ekki gripnar úr lausara lofti en svo að þær eru sóttar beint í opinber gögn, þ.e.a.s. áætlanir þeirra sem standa fyrir framkvæmdunum í Helgafellslandinu.

Því miður er það svo að enn hefur ekkert breyst í þínum málflutningi. Enn einkennist hann af skætingi, (vísvitandi?) útúrsnúningum og rangfærslum, hálfkveðnum vísum og takmarkalausri óvild í garð fólks, sem telur sig vera að vinna bæjarfélagi sínu gagn.

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þeir eru til sem telja að við séum frekar að vinna bænum ógagn með okkar málflutningi. Ég veit að þeir eru líka til sem telja sig hafa rök fyrir tengibrautinni óbreyttri og öllu því raski öðru, sem ýmist hefur þegar orðið eða fyrirhugað er að valda í næsta nágrenni Varmár og Varmárósa. Og ég skal leggjast í málefnalegar rökræður við það fólk hvar og hvenær sem er.

Ég mun hins vegar aldrei sætta mig við að fólk - hvortsem það ert þú eða einhver annar - saki mig og félaga mína í Varmársamtökunum um að vera vísvitandi að vinna bæjarfélaginu ógagn. Ég mun heldur aldrei sætta mig við það að vera sakaður um að berjast fyrir betra umhverfi og verndun Varmárinnar af einhverjum annarlegum og/eða flokkspólitískum hvötum. Náttúru- og umhverfisvernd er - eða á að vera - hafin yfir flokkadrætti.

Við höfum, hér á þessum vef, óskað eftir málefnalegri umræðu um umhverfismál, bæjarmál, skipulagsmál, náttúruvernd og hvað sem er annað sem kann að stuðla að betra mannlífi í Mosfellsbæ - því bæir eru jú ekki húsin sem þar standa, heldur fólkið sem í húsunum býr.

Í húsinu sem ég bý í hefur ófár mannfagnaðurinn verið haldinn. Þangað býð ég iðulega jafnt góðum vinum sem lauslegum kunningjum. Pólitískar skoðanir, tónlistarsmekkur, trúarbrögð, umhverfisviðhorf, mataræði, litarháttur, lífssýn og hvað annað sem telja má til innan þessa fjölbreytilega hóps eru eins ólík og gestirnir hafa verið margir - og reyndar fleiri, því sumir þeirra sem komið hafa oftar en einu sinni hafa átt það til það til að skipta um skoðun milli heimsókna, sveimérþá.

Eitt eiga allir þessir ólíku einstaklingar þó sameiginlegt - þeir koma ekki í heimsókn til mín til að drulla yfir mig og mína - og það aftur og aftur. Nei, þótt við deilum stundum hart um Stóns og Bítlana (Stóns eru auðvitað miklu betri), kosti og galla einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu, Jesú, Jahve, Múhameð og fermingar, Kárahnjúkavirkjun, nýjasta leiðara Moggans eða Fréttablaðsins, skeggið á Loga Bergmann og lækningamátt hvítlauks, þá virðum við skoðun hvert annars - enda er sú skoðun viðkomandi oftar en ekki studd rökum, eða í það minnsta sett fram á þann hátt að ólíklegt er að hinum sárni. Og það gerist auðvitað býsna oft að báðir deiluaðilar þykjast hafa nokkuð til síns máls og örvænta yfir greindarskorti hins - en þá sættist fólk oftast á að þetta sé spurning um afstöðu og sammælast um að vera ósammála - án þess þó að saka hinn aðilann um óheilindi og undirferli.

Ég hef ennþá ekki lent í því að fá í heimsókn manneskju, aftur og aftur, sem í hverri heimsókn veður uppi með skæting og leiðindi, setur á langar ræður um hvað ég sé ömurlegur, falskur, lyginn, undirförull og almennt ómerkilegur pappír, um leið og viðkomandi snýr útúr öðruhvoru orði sem ég hef látið frá mér fara í samkvæminu.

Ég veit ekki hvernig þú mundir bregðast við slíku, en ég segi fyrir mig að ég yrði sennilega ekkert upprifinn yfir því þegar þessi gestur birtist öðru sinni á dyraþrepinu. Og í þriðja skiptið mundi ég að öllum líkindum biðja viðkomandi að vera bara úti, ég væri nefnilega upptekinn við að tala við fólk sem væri ósammála mér í mikilvægu máli - og flytti mál sitt af yfirvegun, skynsemi og kurteisi. Ég hefði þessvegna því miður bara ekki tíma fyrir manneskju sem nennti ekki einusinni að þurrka af skítugum skónum áður en hún stígur innfyrir þröskuldinn og byrjar spúa sínu eitri yfir hvern sem fyrir verður.

Hvernig tækir þú á móti slíkum gesti?

Hugsaðu aðeins um það áður en þú bankar uppá hjá okkur næst.

Kveðja,

Ævar Örn Jósepsson.

Ævar Örn Jósepsson (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 03:37

5 identicon

Bara leikskólasandkassinn í fullu gildi núna? Málefnalegt!

Þar fóru samtökin endanlega með það. Úr því að liðsmenn þeirra þrýtur rök þá er allri umræðu hent út? Hvar er lýðræðið sem samtökin tala svo gjarnan um og allir eiga að njóta? Það að hafa ekki önnur ráð en að fjarlægja umræðuna út af síðunni sýnir svo ekki verður um villst að þessi samtök samanstanda að gufu einni saman.

Ég var krafin svara við spurningum hér annars staðar en þegar ég spyr samtökin rökréttra og málefnalegra spurninga þá er öllu eytt út. Þetta er ekki í anda þess sem segir á forsíðunni að:

Öllum er velkomið að gera athugasemdir á bloggi Varmár- samtakanna, á eigin ábyrgð. Við mælumst þó til þess að fólk skrifi undir eigin nafni.

Það að eyða út skrifunum héðan er einhver mesti aumingjaleikur sem liðsmenn samtakanna gátu leikið og sýnir að þeir eru komnir í þrot með rök. Hvar eru svörin við spurningunum mínum? Voru þær of erfiðar til að þeim yrði svarað svo að samtökunum hentaði?

Ég hvet samtökin til að sjá sóma sinn í því að standa við stóru orðin og leyfa umræðunni að vera inni sem var hér inni og hundskast til þess frekar að svara spurningunum.

Hjördís

Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 10:21

6 identicon

Bara leikskólasandkassinn í fullu gildi núna? Málefnalegt!

Þar fóru samtökin endanlega með það. Úr því að liðsmenn þeirra þrýtur rök þá er allri umræðu hent út? Hvar er lýðræðið sem samtökin tala svo gjarnan um og allir eiga að njóta? Það að hafa ekki önnur ráð en að fjarlægja umræðuna út af síðunni sýnir svo ekki verður um villst að þessi samtök samanstanda að gufu einni saman.

Ég var krafin svara við spurningum hér annars staðar en þegar ég spyr samtökin rökréttra og málefnalegra spurninga þá er öllu eytt út. Þetta er ekki í anda þess sem segir á forsíðunni að:

Öllum er velkomið að gera athugasemdir á bloggi Varmár- samtakanna, á eigin ábyrgð. Við mælumst þó til þess að fólk skrifi undir eigin nafni.

Það að eyða út skrifunum héðan er einhver mesti aumingjaleikur sem liðsmenn samtakanna gátu leikið og sýnir að þeir eru komnir í þrot með rök. Hvar eru svörin við spurningunum mínum? Voru þær of erfiðar til að þeim yrði svarað svo að samtökunum hentaði?

Ég hvet samtökin til að sjá sóma sinn í því að standa við stóru orðin og leyfa umræðunni að vera inni sem var hér inni og hundskast til þess frekar að svara spurningunum.

Hjördís

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband