Varmársamtökin á fund VG

"Það er mín skoðun að allar framkvæmdir á borð við tengibraut um Álafosskvos eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum burtséð frá lagaskyldu" - sagði Álfheiður Ingadóttir frambjóðandi Vinstri grænna í komandi Alþingiskosningum á kosningafundi í Mosfellsbæ í gærkvöldi.

Fulltrúar Varmársamtakanna mættu á fundinn til að spyrjast fyrir um af hverju forystusveit Vinstri grænna í Mosfellsbæ beitti ekki pólitískri oddastöðu sinni í bæjarstjórn til að koma á endurbótum á sviði umhverfis- og skipulagsmála í sveitarfélaginu þar sem nú á sér stað gríðarleg uppbygging.
Á fundinum lýstu fulltrúar Varmársamtakanna undrun sinni á áhugaleysi VG á skoðunum íbúa en eftir að flokkurinn hóf meirihlutasamstarf við Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórn sl. vor hafa fulltrúar hans verið nánast ósýnilegir í bæjarfélaginu og neitað að eiga samstarf um þau mál sem helst brenna á bæjarbúum þessa dagana en það eru einmitt umhverfis- og skipulagsmál. Hefur flóttalegt atferli fulltrúa flokksins í Mosfellsbæ skapað þeim viðurnefnið Vinstri týndir.  Fram kom á fundinum að trúverðugleiki VG í augum kjósenda í Mosfellsbæ væri í húfi því boðuð stefna flokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar væri úr öllum takti við efndirnar eftir kosningar. Fulltrúar VG tækju m.a. þátt í að virða umsagnir Umhverfisstofnunar að vettugi og reyndu að sneiða hjá lögum um náttúruvernd í stað þess að setja umbætur í umhverfismálum á oddinn eins og yfirlýst stefna flokksins segir til um. Í ljósi þeirrar stefnu sem frambjóðendur VG sögðust ætla að framfylgja fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sl. vor væri óþolandi að íbúar þyrftu að leita ásjár lögfræðinga með tilheyrandi kostnaði til að hafa áhrif á gang mála í bæjarfélaginu. 
Fram kom á fundinum að illa væri staðið að undirbúningi framkvæmda á vegum sveitarfélagsins s.s. eins og lagningu gervigrasvallar sem byggður var án deiliskipulags og framkvæmdaleyfis sem leiddi til þess að hluti vallarins fer inn á helgunarsvæði Vegagerðar ríkisins við Vesturlandsveg. Einnig að búið væri að leggja vinnuveg undir hlíðum Helgafells að Þingvallavegi án deiliskipulags.
Ólafur Gunnarsson fulltrúi VG í skipulags- og bygginganefnd sagði að mikil endurskoðun ætti sér nú stað á framkvæmdaáætlunum í bæjarfélaginu. Í augum Varmársamtakanna er ljóst að hafa þarf samráð við íbúa um þá endurskoðun og vilja samtökin að lýðræðislegur réttur íbúa til virkrar þátttöku í gerð skipulagsáætlana verði virtur í framtíðinni.
Í dag verður til umfjöllunar í bæjarráði tillaga Varmársamtakanna um að eiga samstarf við Mosfellsbæ um að bera saman fleiri valkosti varðandi legu tengibrautar um Álafosskvos. Hvert svarið við þeirri tillögu samtakanna verður mun gefa afgerandi vísbendingu um framhaldið.

sp


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er búið að opna fyrir comment?

Frábært... þá er hægt að drulla meira yfir VG

Halldór (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 02:21

2 identicon

Þetta var mjög góður fundur, það ættu náttúrulega að vera kosningar oftar svo að kjósendur fái áheyrn hjá kjörnum fulltrúum! Það er vonandi að orð Ólafs þýði það að bæjarstjórn taki upp kortið af bænum öllum og skoði hvernig allar þessar stuttu og, að því er virðst hefur, sjálfstæðu tengibrautir tengjast í raun. Enda benti Álfheiður á að nú væri lag þar sem búið er að fella deiliskipulag tengibrautar og Álafosskvosar úr gildi.

Álfheiður kom líka inn á að Mosfellingar þyrftu að passa sig á því að skipulag Sundabrautar frá Geldinganesi að Gunnunesi, eins og það er á kortunum í dag, þýði alveg stórkostlega skerðingu á umhverfisgæðum Mosfellinga þar sem um gríðarstórt mannvirki með mikilli hávaða- og sjónmengun er að ræða. Eina ásættanlega lausnin er að setja brautina í göng.

Eitt sem ég hjó líka eftir hjá Álfheiði var hvað henni fannst hátt hlutfall lands fara undir vegi í bæjarfélaginu, hringtorg eru mjög landfrek fyrirbæri til dæmis. Vonandi verður hugað að þessu í yfirstandandi endurskoðun. Þó að bæjarmálin hafi nú mest brunnið á fundargestum voru tók Álfheiður sérstaklega fram að þau væru líka komin til að innansveitarmál. Varðandi landsmálin töluðu fundarboðendur líka um mikilvægi þess að komið verði á sjóflutningum innanlands aftur, það snertir okkur hér í Mosfellsbæ inn að beini sem höfum þessa rosalegu trukkaumferð hér í gegn.

Kristín I. Pálsdóttir

Kristín I. Pálsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 11:26

3 identicon

Þetta var mjög góður fundur, það ættu náttúrulega að vera kosningar oftar svo að kjósendur fái áheyrn hjá kjörnum fulltrúum! Það er vonandi að orð Ólafs þýði það að bæjarstjórn taki upp kortið af bænum öllum og skoði hvernig allar þessar stuttu og, að því er virðst hefur, sjálfstæðu tengibrautir tengjast í raun. Enda benti Álfheiður á að nú væri lag þar sem búið er að fella deiliskipulag tengibrautar og Álafosskvosar úr gildi.

Álfheiður kom líka inn á að Mosfellingar þyrftu að passa sig á því að skipulag Sundabrautar frá Geldinganesi að Gunnunesi, eins og það er á kortunum í dag, þýði alveg stórkostlega skerðingu á umhverfisgæðum Mosfellinga þar sem um gríðarstórt mannvirki með mikilli hávaða- og sjónmengun er að ræða. Eina ásættanlega lausnin er að setja brautina í göng.

Eitt sem ég hjó líka eftir hjá Álfheiði var hvað henni fannst hátt hlutfall lands fara undir vegi í bæjarfélaginu, hringtorg eru mjög landfrek fyrirbæri til dæmis. Þessi gagnrýni hef ég líka heyrt varðandi Helgafellshverfið, vegirnir taka upp allt of mikið af landi ein blokkin er með veg á þrjár hliðar t.d. Vonandi verður hugað að þessu í yfirstandandi endurskoðun. 

Varðandi landsmálin töluðu fundarboðendur líka um mikilvægi þess að komið verði á sjóflutningum innanlands aftur, það snertir okkur hér í Mosfellsbæ inn að beini sem höfum þessa rosalegu trukkaumferð hér í gegn.

Kristín I. Pálsdóttir

Kristín I. Pálsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 11:36

4 identicon

"Það eru áhugaverðir hlutir að gerast hér í Mosfellsbæ. Vinstri grænir eru með fund hér á kaffihúsi fyrir Varmársamtökin og aðra bæjarbúa til þess að reyna að útskýra fyrir kjósendum hvernig stendur á því að yfirlýsingar þeirra um verndun Álafosskvosar ganga ekki eftir að kosningum loknum."

Þessi tilvísun hér að ofan er tekin beint að bloggsíðu hinnar annars ágætu Framsóknarkonu Kristbjargar Þórisdóttur - kidda.blog.is - sem skipar 4. sæti lista Framsóknar í Kraganum. Málefni Vg eru henni einkar hugleikin en það vona ég að sú ágæta kona kynni sér aðeins betur í framtíðinni um hvað hún er að skrifa þar sem að fundur VG sem haldinn var á Draumakaffi í gærkvöldi var alls ekki "til þess að reyna að útskýra fyrir kjósendum hvernig stendur á því að yfirlýsingar þeirra um verndun Álafosskvosar ganga ekki eftir að kosningum loknum." Þessi fundur snerist hvorki um innanbæjarmál í Mosfellsbæ, né Álafosskvos né Varmársamtökin. Allra síst um Varmársamtökin. Þessi fundur snerist um Mosfellsbæ sem hluta af Kraganum.

Eða hann átti að gera það. Það var vitað fyrir fundinn að Varmársamtökin höfðu líka misskilið tilgang hans og ætluðu að taka fundinn yfir og krefja þessa annars málefnalegu frummælendur þau Álfheiði, Ingibjörgu, Gest og Guðmund svara um það af hverju stjórnmálaástandið hér í bænum sé eins og að er og einkum þá hlut VG í því. Ef þetta er ekki pólitík af hálfu samtakanna, þá veit ég ekki hvað. Hvaða annarlegu hvatir búa að baki því að hvetja fólk til að hleypa upp fundi sem eitt stjórnamálaafl heldur, nema vegna þess að þar á baki séu hagsmunir annars stjórnmálaafls? Á síðu samtakanna fór fram í gær einhver sú mesta tilraun til smölunar sem um getur í bænum á einn fund. Nú skyldi smalað, heldur betur og fólk í bænum var hvatt til þess að mynda sér skoðanir á ákveðnum tilvitnunum sem birtar voru á síðu samtakanna og koma svo og "berja á Karli Tómassyni!" eins og einn heyrðist orða það svo skemmtilega. Þessi smölun tókst reyndar ekki betur en svo að aðeins mættu nokkrar hræður úr stjórn Varmársamtakanna (einkum Samfylkingarfólk) og segir það meira um stöðu Varmársamtakanna í bænum en VG því ef fólki væri sama þá hefði það mætt! Frummælendur voru varla fyrr búnir með sínar ræður en Gunnlaugur varaformaður Varmársamtakanna bað um orðið og byrjar strax að blammera fólkið. Hann var reyndar bæði rólegur og kurteis en þegar á leið fundinn komst hiti í liðsmenn samtakanna þar sem einn stóð upp og krafði þetta fólk svara við því afhverju VG í Mos gekk í eina sæng með Sjálfstæðiflokknum og útlistaði fjálglega hve vonbrigðin hefðu verið mikil! Ég skil nú reyndar ekki alveg hvernig þessi ágæti liðsmaður gat komist að þeirri niðurstöðu að þessir frummælendur sem eru í landsmálapólitíkinni ættu að vita allt um það sem gerist á stjórnarheimilinu í Mos en kannski ákvað hann að reyna að berja bara á einhverjum VG manni á svæðinu fyrst að Karl Tómasson lá heima í rúmi fárveikur með 40 stiga hita og var því ekki boðlegur sem boxpúði.

Það var aðdáunarvert að sjá hvernig Álheiði, að öðrum frummælendum ólöstuðum, tókst að róa salinn niður og sigla bil beggja í þessu málefni. Hún lýsti því yfir að hún skildi í raun ekki afhverju Samfylkingin og VG í Mos gátu ekki unnið saman að stjórnarmyndun eins og þessir flokkar höfðu gert áður og hún benti á að í Mos væru mun fleiri og stærri verkefni fyrir baráttuglöð, ópólitísk umhverfissamtök til að berjast fyrir en þessi tengibraut. Hún benti á að við í Mos þyrftum t.d. að taka afstöðu til Sundabrautarinnar sem hún sagði að yrði "skrímsli við bæjardyrnar" í óbreyttri mynd og að þessar kýtur um tengibrautina hér í bæ bliknuðu í samanburðinum, en einnig sagði hún að auðvitað ætti að setja allar svona áætlanir í umhverfismat án þess hvort lagaskylda sé til staðar eður ei. Eftir að frummælendum var bent á að það fólk sem hafði raðað sér á háborð í miðjum salnum (sem er ekki stór) beint á móti frummælendum þar sem að blammeringarnar áttu að fara fram var í Samfylkingunni og komið á fundinn með þessu eina hugarfari (ég var ekki saklaus að því að benda á þetta) var svolítið eins og botninn væri sleginn úr baráttugleði Varmársamtakanna og þegar upp var staðið er hægt að fullyrða að VG kom betur út á þessum fundi og gegnu sáttari af honum en Varmársamtökin. Það lýsir finnst mér mikilli vanhugsun að efna til svona smölunar á kolröngum forsendum. Hvað ætluðust samtökin til með því að ætla að krefja þetta fólk svara og lýsa yfir þessunm endalausu vonbrigðum með VG? Álfheiður benti á að það mætti ekki einblína um of á það sem þegar hefði verið gert, fólk yrði að hætta að spóla í sömu hjólförunum endalaust og eyða þar með orkunni til einskis, heldur muna að rúm þrjú ár eru eftir af kjörtímabilinu og því nægur tími til góðra verka. Hún virkaði á ákveðin hátt eins og sálfræðingur á tilfinningakreppta liðsmenn Varmársamtakanna og benti meðal annars á að tilfinnigarnar mættu ekki ná yfirhöndinni eins og gerst hefði í tengslum við tengibrautina.

Þegar þarna var komið kvað Bjarki Bjarnason, fyrrverandi formaður VG í Mos sér hjóðs. Hann rakti á afar skilmerkilegan og hlutlausan hátt aðdraganda sjórnarmyndunarinnar í bænum. Hann sagði að í um vikutíma hefði gamla stjórnarandstaðan veríð með þreifingar og mikil vilji hefði verið af hendi VG til þess að sú stjórnarmyndun gengi upp. Hann sagði að VG hefðu mælt með Jónasi Sigurðssyni í Samfylkingunni (sem sat fundinn og andmælti aldrei orðum Bjarka) sem bæjarstjóra. Bjarki sagði að umræðunum hefði verið slitið með formlegum hætti í gegnum tölvupóst. Daginn eftir þau slit kom í ljós að daginn fyrir slitin hafði bæði Framsókn og Samfylking verið búin að setja sig í samband við Sjálfstæðisflokkinn með hugsanlega stjórnarmyndun í huga, þannig að það voru komnir brestir í stjórnarmyndunarumræðuna áður en henni var slitið. Bjarki sagði að með þessu hefði sjálfstæðismönnum verið færð stjórnarmyndunin á silfurfati og þeir gátu einfaldlega valið það sem þeim hentaði best. Það er vitað að strax á kosninganóttina tjáði Ragnheiður Ríkharðsdóttir áhuga sinn á að mynda stjórn með VG og ítrekaði hún það í Kastljósi RÚV daginn eftir þegar hún fór þess á leit en þá var Karl Tómasson búin að gefa Framsókn og Samfylkingunni drengskaparloforð og við það stóð hann uns uppúr slitnaði. Þannig að það er athyglisvert í ljósi þessara staðreynda að Karl skuli enn vera úthrópaður hinn mikli svikari í þessu máli þegar hann var sá eini sem vann af heilindum allan tímann. Þegar ég tala um fýlupokaflokkana tvo og flóttamennina úr VG sem hafa náð undirtökunum í Varmársamtökunum og fundu þar leið til þess að koma gremju sinni á framfæri er ég að vísa til þessara miklu vonbrigða sem Framsókn og Samfylkingin urðu fyrir. Málið er bara það að þessi vonbrigði voru þeim sjálfum að kenna og því mælist ég til þess að þau hætti að andskotast á VG og Karli Tómassyni sem svikurunum miklu í þessu máli og fari að taka til heima hjá sér og moka skítnum út. Með þessari skýringu Bjarka vona ég að fólk hugsi sig aðeins betur um í framtíðinni þegar það talar um svik VG við bæinn. Persónuleg tel ég VG vera í bestu hugsanlegu stöðunni sem hægt er.

Umræðan um trúverðugleika VG í augum kjósenda varð hjákátleg komandi frá Varmársamtökunum og Samfylkingunni. Ég benti frummælendum á að þetta væri Samfylkingin sem sæti fyrir framan þau á háborðinu en ekki fólk úr VG eða forvitnir bæjarbúar og fólkið væri þeim ekki vinveitt. Liðsmennirnir reyndu í alvöru að sannfæra fundargesti um að það hernig VG hefur hagað málum sínum hér í bænum hafi áhrif á það hvernig fólk á landsvísu sér flokkinn. Fyrst VG í Mos stendur sig ekki eins og Varmársamtökin og flokkarnir tveir vilja og ætlast til þá sé VG búið að vera á landsvísu. Hvernig þau komust að þessari niðurstöðu er ótrúlegt en kannski ekki þar sem það er svona pólitískir þankar sem ráða ríkjum í Varmársamtökunum.

Á fundinum kom fram önnur gagnrýni á VG sem á fullan rétt á sér. Frummælendur jafnt sem fundargestir lýstu yfir undrun sinni á því af hverju VG í Mos stóð ekki við bakið á forystunni þegar á reyndi heldur hljóp í burtu og fékk á sig viðurnefnið Vinstri týndir. Það er svolítið til í þessu viðurnefni, það verð ég að viðurkenna. Hvernig væri fyrir VG í Mos að fara að þurrka tárin, snýta sér og kyssa á bágtið, hysja upp um sig brækurnar og girða sig og fylkjast að baki forystunni hérna í bænum? Reka af okkur slyðruorðið og sýna að við týnumst ekki svo auðveldlega? Við eigum rúm þrjú ár eftir af kjörtímabilinu eins og Álheiður benti á og við verðum að rífa okkur upp úr lágdeyðunni og benda á það sem VG eru að gera gott í bæjarfélaginu. Ég er orðin þreytt á að vera ein af fáum sem held merki VG í bænum á lofti og væri alveg til í að einhver stæði vaktina með mér!

Að lokum vil ég benda á þennan frábæra pistil Alexanders Stefánssonar um fundinn í gær: http://ihugun.blog.is/blog/ihugun/entry/160792/

Góðar stundir

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 15:58

5 identicon

Ágætu Varmársamtök.

Ég sannalega stend með ykkur í umhverfismálunum en hvernig stendur á því að þið eyðið út pistlum sem ykkur berast.

Ég verð að fá að furða mig á því. Öll umræða er góð þegar hún er 
málefnanleg. Ég get ekki séð að of langt hafi verið gengið á síðu 
ykkar þrátt fyrir að oft komi fyrir sömu nöfnin og jafnvel sama 
fólkið. Þessi viðbrögð ykkar eru farin að vekja furðu víða.

Ágætur pistill Hjördísar Kvaran sem nú síðast var tekinn út var 
dropinn sem fyllti mælinn hjá mér. Þar fór vel skrifuð grein og á 
heiðarlegann hátt um fundinn í gær sem ég komst reyndar ekki á út af ykkar síðu og ég fæ ekki með nokkru móti skilið hvers vegna.

Ég var reyndar svo heppinn að hafa kóperað hann og sent hann til 
nokkurra vina í kosningabaráttunni.

Kær kveðja,

 Friðrik Jónsson.

p.s ágætu félagar látum aldrei hanka okkur á því að þola ekki 
málefnanlega umræðu.

Friðrik Jónsson (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 17:25

6 identicon

Já, öll svik og aumingjaleikur komast upp um síðir, það er rétt hjá þér Friðrik.

Hafrún

Hafrún (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 19:19

7 identicon

Aðeins ein sýn og ein færsla per blogg - ríkisásjónan að hætti Framsóknar upp á gamla móðinn

Ísleif Svanhildur Hólmgeirsdóttir (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband