Heildarsýn: Mosfellsbær-Vesturlandsvegur

Helgafellsbraut-VarmárdalurVarmársamtökin blása til íbúaþings þar sem kynntar verða tillögur að nýrri leið til og frá Helgafellshverfi að Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Yfirskrift þingsins sem haldið verður í Þrúðvangi í Álafosskvos laugardaginn 21. apríl kl. 14 er: Heildarsýn: Mosfellsbær-Vesturlandsvegur.
Markmið þingsins er að ýta undir opna umræðu milli íbúa bæjarfélagsins við embættismenn ríkis og bæjar og frambjóðendur  Suðvesturkjördæmis um samgöngu- og skipulagsmál í Mosfellsbæ og mögulega aðkomu almennings að þeim.
Í brennidepli fundarins er erindi Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, arkitekts FAÍ og skipulagsráðgjafa um skipulagsferlið, aðkomu almennings að því og hugsanleg áhrif hans á endanlega ákvarðanatöku um landnýtingu. Í kjölfarið kynna Varmársamtökin tillögu að nýrri tengingu Helgafellsbrautar við Vesturlandsveg sem unnin hefur verið á þrívíðan grunn undir handleiðslu umferðarsérfræðinga.
Eftir hlé verða pallborðsumræður sem frambjóðendum og fulltrúum stjórnmálaflokkanna í Suðvesturkjördæmi hefur verið boðið að taka þátt í og eru fundargestir hvattir til að taka þátt í umræðum og koma hugðarefnum sínum á framfæri við núverandi og tilvonandi fulltrúa þjóðarinnar. Fimm flokkar hafa boðað þátttöku í pallborði á íbúaþingi Varmársamtakanna en það eru: Gunnar Svavarsson fyrir Samfylkinguna, Jakob Frímann Magnússon fyrir Íslandshreyfinguna, Kristbjörg Þórisdóttir fyrir Framsóknarflokkinn, Valdimar Leó Friðriksson fyrir Frjálslynda flokkinn og Ögmundur Jónasson fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð.
Fundarstjóri á íbúaþinginu verður Ævar Örn Sigurjónsson, rithöfundur og útvarpsmaður.

Dagskrá íbúaþings hljóðar svo:

  • Skipulag og aðkoma almennings:
    Fyrirlesari er Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, arkitekt FAÍ og skipulagsráðgjafi
  • Kynning Varmársamtakanna á þrívíðum teikningum af nýrri tengingu Helgafellsbrautar við Vesturlandsveg
  • Pallborðumræður
    Í pallborði sitja frambjóðendur og fulltrúar stjórnmálaflokkanna o.fl.

Varmársamtökin telja að fyrirkomulag umferðar í og í gegnum Mosfellsbæ hafi mikil áhrif á velferð íbúa og því nauðsynlegt að opinská umræða eigi sér stað um valkosti milli hlutaðeigandi aðila, þ.e. almennings, stjórnmálamanna og fagaðila. Mosfellsbær stendur frammi fyrir þeim vanda að þjóðbrautin klýfur bæjarfélagið í tvennt. Innanbæjarumferð er samofin umferð um þjóðveginn sem leiðir til þess að náið samstarf þarf milli bæjaryfirvalda og Vegagerðar ríkisins við gerð skipulagsáætlana. Þegar deiliskipulag tengibrautar úr Helgafellshverfi um Álafosskvos að Vesturlandsvegi er skoðað kemur í ljós að skipulagið tekur harla lítið mið af aðstæðum við Vesturlandsveg. Vandann sem þarna skapast teljum við að hægt sé að leysa með öðrum úrræðum og munu samtökin kynna og ræða nýja valkosti við fundargesti í Þrúðvangi á laugardag.

Myndin að ofan er ein af þeim tillögum sem Varmársamtökin hafa látið vinna fyrir sig og kynnt verður á fundinum á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan daginn, ég sendi þetta svar sunnudaginn 15. apríl til Sigrúnar Pálsdóttur. Í pósti Varmársamstakann hefur yfirskriftin breyst úr málþingi í íbúaþing en áþekk dagskrá.
Því miður er svarið það sama nú og þann 15. apríl.
Bestu kveðjur
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Sæl Sigrún
Ég er lesa þennan póst núna fyrst. En 21. apríl er fyrirhugað að bæjarfulltrúar fari í ferð til að kynna sér á hvern hátt megi tengja saman kirkju, safnaðarheimili og menningarhús. Sú ferð stendur fram eftir degi en einnig er fyrirhugað að opna kosningaskrifstofu sjálfstæðismanna í Kraganum þennan sama dag. Að svo stöddu sé ég ekki því miður líkur á því að ég geti tekið þátt í fyrirhuguðu málþingi Varmársamtakanna. En verði breytingar á mun ég láta þig vita um leið.
Bestu kveðjur
Ragnheiður Ríkharðsdóttir 

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 13:13

2 identicon

Mér finns innihaldið alls ekki í samræmi við titilinn. Heildarsýn:Mosfellsbær - Vesturlandsvegur 
Mosfellsbær er miklu meira en Helgafellshverfið.

Með þessari tilllögu sem myndin er af er aðeins horft til þröngustu sérhagsmuna þeirra sem búa í Álafosskvosinni. Beina umferðinni frá kvosinni inn á veg fyrir ofan löndin og inn á Reykjaveg. Hvað með fólkið sem býr þar eða er á leið í nýja Krikahverfið.

Aftur og aftur og aftur og aftur finnst mér Varmársamtökin ekki tala um kjarna málsins. Það er að búið er að skipuleggja ALLT OF þétta byggð á þessu svæði. Græðgisvæða. Þess vegna er öll þessi umferð! Aftur og aftur segja bæjaryfirvöld að Helgafellsbyggð hafi verið á skipulagi frá 1985 en þá var gert ráð fyrir 120 íbúðum. Ég heyri ykkur aldrei mótmæla þessu.

Aðeins umferðina úr mínu hlaði á hlaðið hjá nágrönnunum!

Jón Sævar Jónsson (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 21:40

3 identicon

Já ég er sammála og eflaust fleiri - byggðin er of þétt miðað við að fyrir er byggð.  En landið er í einkaeigu.  Við höfum reynt að hafa áhrif á skipulag Helgafellshverfis án árangurs því miður.  Og jú farið hefur verið yfir þær breytingar sem orðið hafa á skipulagi í Helgafellslandi t.d. á síðasta borgarafundi sem við héldum - við vitum fullvel að byggðin átti að vera mun minni hér áður - en þú getur kannski bent okkur á árangursríkar leiðir gegn græðgisvæðingunni?

Sigrún Guðmundsdóttir ritari VS

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 22:56

4 identicon

Ein athugasemd:

Vinsamlegast skilgreinið græðgisvæðingu eins og hún er sett fram hér.

Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig um myndina fyrr en eftir fundinn á morgun.

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 20.4.2007 kl. 23:45

5 Smámynd: Valdimar Leó Friðriksson

Ég tek eftir því að enginn þingmaður frá Sjálfstæðisflokknum er skráður í pallborðið. Hvað veldur? áhugaleysi? Ekki eru allir 22 þingmenn og frambjóðendur flokksins uppteknir! 

Kv

VLF

Valdimar Leó Friðriksson, 21.4.2007 kl. 01:26

6 identicon

Mig langar að þakka fyrir líflegan og góðan fund í Þrúðvangi.  Tillagan sem lögð var fram til kynningar á fundinum er eins og töluð út úr mínu hjarta.  Ég hef aldrei skilið hvers vegna bæjarstjórn vill ekki skoða það að leysa umferðaræðar sitthvorumegin Helgafells í rökréttu samhengi.  Það er löngu ljóst að leysa þarf aðkomuna inn í Mosfellsdal og með uppbyggingu Leirvogstungu þarf líka að hanna vegtengingu þangað.  Þess vegna finnst mér (og hef sent tillögur á þeim nótum til bæjarstjórnar og fleiri) að það þurfi að skoða þetta í heild.  Skipuleggjarinn í mér er smá tíma að taka við sér, en hann gerir það þó um síðir.  Þess vegna langar mig að benda þeim fundarmönnum á, sem höfðu athugasemdir við nýju leiðina á þeim forsendum að þarna væri veðravíti, að íbúar Mosfellsdals hafa um öll ár farið um Ásana, sem eru líkast til á sama veðursvæði, og komist sinna ferða; þessi leið leysir af hólmi stórhættuleg gatnamót Vesturlandsvegar og Þingvallavegar eins og þau eru í dag.  Sömuleiðis finnst mér það vera rök fyrir að færa tengibrautina norður fyrir byggðina í Áslandinu, að almennt hafa menn leitast við að færa þungar umferðargötur út fyrir  byggð, en ekki að skera byggðina í sundur með þeim; dæmi:  Sæbrautin í Reykjavík og hringbrautir utanum erlendar borgir, t.d. Helsinki.  Með kveðju, Jónína Sg.

Jónína Sigurgeirsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 17:16

7 identicon

Er enginn sem vill skilgreina græðgisvæðingu í því samhengi sem hún er sett fram hér?

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 17:27

8 identicon

Er enginn sem vill skilgreina græðgisvæðingu í því samhengi sem hún er sett fram hér?

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 21.4.2007 kl. 17:27

9 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Ég þakka Varmársamtökunum fyrir góðan fund og fyrir að halda umræðunni um íbúalýðræði á lofti og vekja þannig áhuga fleiri aðila á því að hafa bein áhrif á sitt nærumhverfi. Ég er fullviss um að samtök eins og Varmársamtökin eru framtíðin sem veita stjórnmálamönnum öflugt og gott aðhald.

Kristbjörg Þórisdóttir, 21.4.2007 kl. 19:10

10 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Ég þakka Varmársamtökunum fyrir góðan fund og fyrir að halda umræðunni um íbúalýðræði á lofti og vekja þannig áhuga fleiri aðila á því að hafa bein áhrif á sitt nærumhverfi. Ég er fullviss um að samtök eins og Varmársamtökin eru framtíðin sem veita stjórnmálamönnum öflugt og gott aðhald.

Kristbjörg Þórisdóttir, 21.4.2007 kl. 19:11

11 identicon

Ég get ekki séð að brú yfir varmá og flutningur umferðar nær Reykjalundi og uppá Reykjaveg sé málflutningi samtakanna til framdráttar.  Álafosskvosin er flottur staður og frábært að skapandi fólk hefur fengið að setjast þar að til að lita, leira og stunda naflajóga.  Hinsvegar er það deginum ljósara að eina rökrétta staðsetning brautarinnar er þar sem hún er skipulögð.  Sú breyting sem hafði verið samþykkt að lækka veginn og fella hann betur að umhverfinu var mjög góð lending og hefði átt að vera vel fallin til að sætta alla málsaðila.  Að sjálfsögðu vill enginn fá aukna umferð í nágrenni við sig, hinsvegar verður að taka tillit til heildarinnar og heildin er viðameiri og fjölmennari en Álafosskvosin.  Vegurinn er skipulagður við hliðina og framhjá kvosinni, ekki í gegnum svæðið.  Umhverfisvernd er göfugt málefni sem vert er að berjast fyrir, en þetta mál er því miður farið að líta út sem sérhagsmunamál fárra einstaklinga og pólitískur leikvangur örvæntingafullra aðila í leit að atkvæðum rétt fyrir kosningar.     Sýnið sanngirni, smá fórnfýsi og ufmram allt skynsemi.  Kárahnjúkar eru umhverfisslys, þetta hér er bara vegur í bæjarsamfélgi.

Ólafur Ragnarsson (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 01:53

12 identicon

Eins og nafnið gefur til kynna snúast samtökin um fleira en tengibrautina í gegnum kvosina - en við erum jafnframt íbúasamtök - þ.e. þeirra sem búa við Varmá eða hafa áhuga á verndun Varmár og menningarminja við hana.  Því miður er staðsetning brautarinnar í gegnum kvosina ekki eina rökrétta leiðin úr Helgafellslandi og því miður er ekki sérlega "rökrétt" að setja 1000 íbúða-hverfi í Helgafellsland - því gerum við það sem bæjarfélagið hefði átt að gera- setjum fram tillögur að öðrum kostum. 

Sigrún G ritari VS

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 08:48

13 identicon

Ég er kominn á þann aldur að vilja helst hafa hlutina eins og í gamla daga.  Ég hef rómantískar tilfinningar til gömlu góðu dagana þegar maður slappaði af strax eftir ártúnsbrekkuna og keyrði óáreittur í sveitina.  En lífið heldur áfram og hlutirnir breytast.  Það er að sjálfsögðu einkennilegt að fá 1000 íbúða byggð í Helgafellslandið.  Það þýðir samt það að fleiri fá að njóta þess að vera á þessu svæði sem við sem höfum búið hér lengi höldum svo mikið uppá, þetta þýðir einnig að líflegt mannlíf verður í kringum kvosina.  Varmársamtökin segjast snúast um verndun Varmár og menningarminja !!, tillögur um brú yfir Varmá í att að Reykjalundi hefur ekkert með verndun Varmár að gera og vegur sem fer framhjá verksmiðuhverfinu gamla raskar ekki á nokkurn hátt menningarminjum staðarins.  Ég hef fylgst með þessu máli úr fjarlægð, ég hef samkennd með þeim sem þurfa að takast á við breyttar aðstæður, ég get vel skilið tregðuna, en baráatta sem er fullkomlega sjálfhverf og barátta sem fjallar um sérhagsmuni með pólitísku óbragði er ekki vænleg til árangurs eða samkenndar.

Ólafur Ragnarsson (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 10:15

14 identicon

Það er blessunarlega auðvelt að skrifa um málefni þegar aðeins einstaka þættir eru teknir fyrir.  Brú eða ekki yfir Varmá  - það eru póttþétt til mun heppilegri einstaklingar til að meta hvort hún sé góður kostur eður ei heldur en þú og ég.  Umræðuna um kosti og galla fleiri en einnar leiðar út úr Helgafellslandi ætlum við að taka.  Það er alltaf pirrandi þegar menn ætla manni einhverja sérhagsmuni -fyrir mig persónulega er brúin verri kostur en að mínu viti skárri kostur en vegur í gegnum kvosina.  Hvaða hagsmuni fólk er að verja innan samtakanna er áreiðanlega mismunandi eins og einatt er en það er áreiðanlega ekki meiri eigingirni  eða sjálfhverfni að vera í samtökunum en að sitja aðgerðalaus - þvert á móti. Við sækjumst ekki eftir samkennd heldur skynsamlegri umræðu um skynsamlega (nokkra!) kosti í stöðunni og val á þeim besta.  Við höfum ekki barist gegn byggðinni í Helgafellslandi en hún hefur mikil áhrif á nágrennið og við höfum mikinn áhuga á að finna bestu leið út úr hverfinu.SigrúnG

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 11:18

15 identicon

Málið er hreinlega þannig að vegurinn fer EKKI í gegnum kvosina, vegurinn er skipulagður MEÐFRAM kvosinni, þar er stór munur á.  Það er að sjálfsögðu sjálfhverfa að reyna að koma vegtengingu af sér yfir á aðra og það jafnvel þar sem mun fleiri búa og fleiri börn fara um.  Einhverstaðar verður skrattinn að vera og hans náttúrulega umhverfi er jú í neðra

Ólafur Ragnarsson, Hvarfi (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 11:51

16 identicon

Kvos er landslagsfyrirbæri og vegurinn liggur meðfram Varmá en í kvos - margir álíta húsaþyrpinguna í kvosinni kvosina sjálfa og því verður þessi misskilningur

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 13:18

17 identicon

jú það er einmitt það sem ég meina, vegurinn er skipulagður meðfram landslaginu, af vegi sem þegar er til staðar og kemur til með að trufla eins fá einstaklinga eins og mögulega er hægt að komast af með.  Illskásti kosturinn að mínu mati.  En brúin yfir Varmá sem sýnd er í tillögu samtakanna er ekki síður meðfram landslaginu og klífur svæðið í tvennt og margfalt verri kostur út frá grænum gildum, en hafa ber í huga Reykjalund ef að vegtenging færi yfir Varmá, ekki mjög samfélagsvænt þegar tekið er mið af því að Reykjalundur er ein öflugasta heilsustöð landsins og ein af perlum Mosfellsbæjar.  Einnig skal hafa í huga aukin notkun eldsneytis við að bruna í átt til Þingvalla á leið í hverfið ef farin er efri leiðin, það er augljóst að mikið eldsneyti fer í spana upp hæðina auk þess að slysahætta eykst stórlega við þá leið, en um það þurfa menn vart að deila.

 Niðurstaða minnar skoðunar á fyrirhuguðum vegi  og síðan tillögum samtakanna eru einfaldlega sú að sá vegur sem að átti að leggja með þeim breytingum sem náðust á framkvæmdinni, þ.e.a.s að lækka veginn og aðlaga frekar að landslaginu er lang skásti kosturinn í stöðunni sama hvernig á það er litið.  Það er engin spurning að allar athugasemdir og tillögur eiga rétt á sér og ber að skoða með opnum huga og vilja til breytinga ef að umbætur eru í stöðunni.  Í þessu tilfelli er það ljóst frá mínum bæjardyrum eftir nána skoðun að vegurinn þarf að fara meðfram kvosinni.  Það er vel mögulegt að mín skoðun sé röng, en líklega er hún hárrétt að fenginni reynslu

Ólafur Ragnarsson, Hvarfi (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 14:00

18 identicon

Það góða við opna umræðu er m.a. að fólki gefst færi á að leiðrétta misskilning. Ég sé á umræðum Sigrúnar og Ólafs og yfirlýsingum Ragnheiðar Ríkharðsdóttur bæjarstjóra Mosfellsbæjar að sá misskilningur er á kreiki að þverun Varmár við Álanes ofan við Álafoss sé að tillögu Varmársamtakanna.
Staðreynd málsins er sú að þessi vegtenging er inn á aðalskipulagi Mosfellsbæjar og er einnig gert ráð fyrir henni í nýju deiliskipulagi Helgafellslands, 3. áfanga.
Varmársamtökin lögðu til við bæjaryfirvöld í athugasemdum við deiliskipulaginu að þessi tenging yrði alfarið tekin út af skipulaginu. Þann 10. apríl sl. fengum við svar frá bænum þess efnis að ekki væri hægt að verða við ósk samtakanna. Svarið er svohljóðandi:
"Það er rétt að tengibraut á þessum stað var felld út úr aðalskipulaginu við síðustu endurskoðun. Í aðalskipulaginu var hins vegar í stað hennar gert ráð fyrir "safngötu sem fellur betur að umhverfi Álafosskvosar og árinnar," ...
Nefndin telur óvarlegt á þessu stigi að falla frá gerð þessarar safngötu, en telur jafnframt rétt að þörf fyrir götuna verði endurmetin síðar, eftir að hverfið hefur byggst upp."

Sbr. 196. fund skipulags- og byggingarnefndar.
Það er því ekki að tillögu Varmársamtakanna að þessi gata er staðsett þarna heldur að tillögu bæjaryfirvalda sjálfra. Við töldum nauðsynlegt að gera íbúum grein fyrir þessari tengingu í tillögum okkar sem við og gerðum á þinginu sl. laugardag. Verði þessi vegur lagður þarf hins vegar að sjá til þess að svæðið tapi ekki útivistargildi sínu en það gerist ef brúin er lögð of nærri vatnsborði árinnar. Sjá þarf til þess við hönnun brúarinnar að börn á hjólum, gangandi vegfarendur og hestamenn komist örugglega leiðar sinnar undir brúnni.

Sigrún P (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband