Samspil náttúru og sögu einstakt við Álafoss

Viðtal við Pétur Ármannsson, arkitekt. 

HEFUR ÁLAFOSSKVOS MINNJAGILDI SEM VERT ER AÐ VARÐVEITA?
Álafosskvos hefur sögulega kjölfestu og mikil umhverfisgæði. Það eru afar fá ef nokkur hliðstæð dæmi til á öllu landinu um fallegan gamlan kjarna verksmiðjubygginga í samspili við náttúruverndarsvæði.
Menningarlandslag er hugtak sem skýrir samspil staðhátta og menningarminja. Aðrar þjóðir eru farnar að tileinka sér það hugtak. Það er ekki bara náttúran sem þarf að vernda heldur þetta samspil sem er svo einstakt í Álafosskvos, það sem kallað hefur verið staðarandi (genius loci).
Hér á landi eru lög sem ein tryggja vernd lífríkis og náttúruminja og önnur lög sem tryggja varðveislu húsa og annarra menningarminja. Við eigum hins vegar enga löggjöf sem tekur á samspili þessara tveggja þátta. Oft fara mannvistarminjar og náttúruminjar saman, má þar nefna Þingvelli sem dæmi. Þingvallabærinn og kirkjan rýra ekki gildi náttúrunnar þar, heldur eru þvert á móti ómissandi þáttur í mynd staðarins. Þetta samspil náttúru og mannvista skapar helgi staðarins. Víða erlendis er viðurkennt að verndarminjar þurfi helgunarsvæði svo maður njóti þeirra. Álafosskvosin er órofa hluti af Varmársvæðinu, ef til vill sá hluti þess sem einstæðastur er, hana þarf að vernda.

ER HÆGT AÐ SKILGREINA AÐDRÁTTARAFL KVOSARINNAR?
Gamlar byggingar við vatnsfarvegi sýna einstaka fegurð mannvista og náttúru. Vatnið er spegillinn sem endurspeglar byggðina og landslagið og tvöfaldar áhrifin. Sem dæmi um þetta er hægt að taka upp hvaða ferðaskrifstofubækling sem er um borgir í Evrópu þar sem sýnd eru gömul hús við vatnsbakka.  Gömul hús á vatnsbakka hafa einstakt aðdráttarafl.

ER RÁÐLEGT AÐ LEGGJA TENGIBRAUT Í TÚNFÓT KVOSARINNAR?
Staðsetning brautarinnar er augljóslega mjög óheppileg með tilliti til byggðarinnar í Kvosinni. Hér er verið að spilla dýrmætu og einstæðu menningarlandslagi í bæjarfélaginu. Þegar horft er á vegstæði brautarinnar er á svo áberandi hátt verið að skemma eina hlið Kvosarinnar, fyrir utan hávaðamengun, ryk- og loftmengun.  Hljóðmanir verða erfiðar þarna og mikinn tilkostnað þarf í mótvægisaðgerðir. Þetta er svo greinilega ekki góður kostur, en ég tek fram að ég hef ekki sett mig inn aðrar lausnir sem kynntar hafa verið og get því ekki lagt faglegt mat á þær. Engin leið að nýja hverfinu er gallalaus en ég trúi því vart að ekki sé til skárri kostur en sú um kvosina.

SÉRÐ ÞÚ VÆNLEGRI TENGINGU VIÐ HELGAFELLSLAND?
Þegar gengið er upp með Varmá kemur maður að opnum kafla fyrir neðan Ístexverksmiðjuna. Fljótt á litið sýnist mér þar er meira svigrúm fyrir mótvægisaðgerðir en neðan við Kvosina, enda er þessi tenging sýnd á aðalskipulagi. Á þessum kafla væri t.d. hægt að planta skógi meðfram brautinni og gera góða brú yfir Varmá, líkt og við veginn upp að Reykjalundi, sem veldur takmarkaðri truflun á umhverfi árinnar.  Með slíkri tengingu myndast eðlilegri tengsl innan bæjarfélagsins og ekki þarf að fara út á stofnbraut til að komast milli bæjarhluta. Þetta væri mun ásættanlegri kostur, því það þarf að vera hægt að aka innan sveitar. Skaði á umhverfi þar yrði að mínu mati minni en í Kvosinni,  enda má færa rök að því að landslagið þarna sé ekki eins einstakt og menningarlandslag Kvosarinnar. Þarna virðast ráða sjónarmið sem skilgreina náttúru- og umhverfisvernd mjög þröngt. Við glötum miklu meiru ef Kvosin er sköðuð. Kvosin á sér ekki hliðstæðu. Hvergi annars staðar á landinu er að finna aldagamlar verksmiðjubyggingar eða heildstætt verksmiðjuhverfi með sögu.
Það þarf að opna augu fólks fyrir gildi menningarlandslags. Gildismat er breytingum háð. Sem gott dæmi um það má nefna að árið 1968 átti að rífa bæði Höfða og hús Thors Jensen, sem nýverið var selt á 600 millj. króna!!!
Pétur óskar Varmársamtökunum góðs gengis í baráttu sinni.

B.B.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Þetta er svo greinilega ekki góður kostur, en ég tek fram að ég hef ekki sett mig inn aðrar lausnir sem kynntar hafa verið og get því ekki lagt faglegt mat á þær."

Fyrirgefðu Pétur, hvernig geturðu tjáð þig um þessa leið og það hvort hún er sú versta eða ekki, ef þú hefur ekki myndað þér skoðun og kynnt þér aðrar lausnir sem fram hafa komið?

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 28.5.2007 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband