Úrskurðarnefnd hefur ekki úrræði til að stöðva framkvæmdir í Mosfellsbæ

Veitulagnir í vegstæði tengibrautarinnar?Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingar-mála ákvað í morgun að  að stöðva ekki framkvæmdir í og við vegstæði Helgafells-brautar og við bakka Varmár. Íbúar á svæðinu höfðu farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða þar sem einsýnt þótti að ekki væri eingöngu verið að vinna við lagningu fráveitu heldur einnig vegagerð í vegstæði tengibrautarinnar.

Í úrskurðinum sem kveðinn var upp til bráðabirgða er ekki tekið efnislega á kærunni heldur aðeins komist að þeirri niðurstöðu að "áhöld séu um hvort hinar umdeildu framkvæmdir styðjast við kæranlega ákvörðun" og  bent á að "vandséð sé að þær raski til muna lögvörðum hagsmunum kærenda" - sem þýðir einfaldlega að nefndin telji að ekki sé um óafturkræf umhverfis- og eignaspjöll að ræða og því liggi ekki eins mikið á.  Það sem nefndin mun taka til efnislegrar meðferðar er því hvort framkvæmdaleyfið sem Mosfellsbær veitti framkvæmdaaðilum sé löglegt.

Tengibraut í fjarskaBæjaryfirvöld í Mosfellsbæ halda því fram að aðeins sé verið að vinna við lagningu fráveitu frá Helgafellshverfi í vegstæði tengibrautarinnar og endurbætur á ræsi meðfram bökkum Varmár. Á þessari forsendu þurfi bærinn ekki framkvæmdaleyfi. Fyrir liggur hins vegar að bærinn gaf framkvæmdaaðilum leyfi til framkvæmdanna, sbr. m.a. bréf Mosfellsbæjar til Varmársamtakanna. Fleiri leyfisbréf eru til vitnist um að Mosfellsbær leyfði framkvæmdirnar og verða þau tekin til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni.

Lögmaður íbúa, Katrín Theódórsdóttir, heldur því fram í kærunni að framkvæmdirnar séu ekki aðeins framkvæmdaleyfisskyldar heldur einnig skipulagsskyldar en Mosfellsbær leyfði framkvæmdir án þess að samþykkt deiliskipulag lægi fyrir. Þar sem um er að ræða svæði á náttúruminjaskrá sem einnig nýtur hverfisverndar er Mosfellsbæ ennfremur skylt skv. náttúruverndarlögum að leita umsagnar Umhverfisstofnunar.

Ræsi í farvegi VarmárAðdragandi þessa máls er sá að fyrr í vetur kærðu íbúar framkvæmdir við lagningu tengibrautar um Álafosskvos til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Í kjölfar kærunnar felldu bæjaryfirvöld úr gildi deiliskipulag tengibrautar um Álafosskvos eftir að úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að vafi léki á lögmæti framkvæmdanna. Lýsti bæjarstjóri því yfir að bærinn ætlaði að láta gera umhverfisskýrslu og vinna skipulagið í sátt og samlyndi við íbúa. Í framhaldi af hinum fögru fyrirheitum drógu íbúar kæruna til baka. Eftir að framkvæmdir hófust  að nýju í vegstæðinu um miðjan maí var skýrslan ásamt nýrri tillögu að deiliskipulagi tengibrautarinnar auglýst til kynningar. Skipulagið öðlast hins vegar ekki gildi fyrr en eftir að íbúar hafa fengið tækifæri til að gera athugasemdir við tillöguna og þurfa þær að hafa borist fyrir 12. júlí nk. Er þetta raunar eini möguleiki almennings til að hafa áhrif á gerð skipulagsáætlana. Sé farið út í framkvæmdir án deiliskipulags er sá réttur beinlínis tekinn af íbúum að hafa áhrif á mótun umhverfisins. Það hlýtur því að vera sjálfsögð lýðræðiskrafa að ekki sé farið út í framkvæmdir fyrr en eftir að íbúar hafa fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Með framkvæmdunum sem nú standa yfir telja íbúar að bæjarstjórn Mosfellsbæjar sé að ganga á bak orða sinna um að hafa samráð við íbúa um gerð skipulagsins. Einnig að verið sé að svívirða náttúruverndarlög og þann lýðræðislega rétt bæjarbúa að koma á framfæri skoðunum sínum og þekkingu þegar unnið er að skipulagsgerð fyrir sveitarfélagið en sá réttur er tryggður í skipulags- og byggingarlögum.

Myndirnar hér að ofan sýna svo ekki verður um villst að verið er að vinna að vegagerð í vegstæði tengibrautarinnar auk þess sem verið er að leggja fráveitu fyrir Helgafellshverfi. Eins er ljóst að ekkert tillit er tekið til lífríkis Varmár og því mikil hætta á að umhverfisspjöllin sem verið er að vinna verði ekki tekin til baka.

Fróðlegt verður að vita að hvaða niðurstöðu úrskurðarnefndin kemst í endanlegum úrskurði. Við vonum auðvitað að Mosfellsbæ verði gert að virða lýðræðislegan rétt íbúa og að fara framvegis að lögum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband