Sérstaða Mosfellsbæjar fyrir bí

- deiliskipulag Helgafellsbrautar samþykkt á fundi bæjarstjórnar

Það var sorgardagur í sögu Mosfellsbæjar á miðvikudag þegar deiliskipulag tengibrautar úr Helgafellslandi um Álafosskvos var samþykkt af fulltrúum meirihlutans og Framsóknarflokksins á fundi bæjarstjórnar.

Gallar skipulagsins eru ótvíræðir. Það mun kollvarpa bæjarmyndinni og ræna Mosfellsbæ sínum dýrmætustu sérkennum sem eru þorpsstemning á gömlum merg á bökkum Varmár í Álafosskvos og náttúrufegurð sem laðað hefur að framúrskarandi listamenn og ferðalanga víðsvegar að, - ekki bara undanfarin ár heldur árhundruð. Fórnin sem bæjarstjórnarmeirihlutinn færði á miðvikudag er dýru verði keypt og vandséð af hverju tengibrautinni var ekki valinn ásættanlegri staður sem þó blasir við í útjaðri byggðar undir Helgafelli.

Frá fyrstu tíð hefur bæjarstjórnarmeirihlutinn fjallað um skipulagið sem náttúrulögmál sem ekki megi hnika frá hvað svo sem tautar og raular. Varmársamtökin líta málið öðrum augum og hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að vanda umfram allt val á akstursleið að hverfinu. 

Deiliskipulagið er afrakstur vinnubragða sem fyrir löngu eru talin vera úrelt annars staðar á Norðurlöndum. Heildarsýn skortir og eins og fram kom á fundinum í kjölfar fyrirspurnar Hönnu Bjartmars er enn ekki ljóst hvernig leysa á þann alvarlega vanda sem deiliskipulagið hefur í för með sér fyrir íþrótta- og skólasvæði við Varmá og skipulag miðbæjar Mosfellsbæjar.

Varmársamtökin hafa frá upphafi gagnrýnt bútasauminn sem einkennir skipulagsvinnu á vegum bæjaryfirvalda. Samtökin hafa einnig gert alvarlegar athugasemdir við kynningu á deiliskipulaginu. Aðeins var látið nægja að kynna að hluta hönnun tengibrautarinnar en  kynning á áhrifum framkvæmdanna á útivistarsvæði bæjarbúa við Varmá, atvinnustarfsemi og framtíðaruppbyggingu í Álafosskvos var látin lönd og leið.

Framganga bæjaryfirvalda hefur verið með afbrigðum ólýðræðisleg en það finnst þeim augljóslega ekki sjálfum. Á fundinum á miðvikudag kepptist bæjarstjórnarmeirihlutinn við að mæra sjálfan sig fyrir hið gagnstæða. Gekk það svo langt að áheyrendur gátu ekki betur skilið en að skipulagið væri afrakstur fróðlegrar samvinnu við Varmársamtökin. Fulltrúar Samfylkingarinnar gerðu tilraun til að leiðrétta hina nýstárlegu sagnfræði sem varð til þess að fulltrúar meirihlutans hófu stórskotahríð sem endaði með tilfinningalegu uppþoti forseta bæjarstjórnar sem taldi sig eiga harma að hefna gagnvart samtökunum. Skýring undirritaðrar á tilfinningarótinu er sú að sannleikanum er hver sárreiðastur. Karl Tómasson sem er fulltrúi Vinstri grænna í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur legið undir ámæli fyrir að svíkja þá stefnu sem hann boðaði fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Bregst hann við pólitískri gagnrýni sem árásum á sína persónu. Sem fulltrúi stjórnmálaflokks í meirihlutasamstarfi hljóta einu umhverfisverndarsamtök bæjarins hins vegar að eiga rétt á skýringu á þessum viðsnúningi. Í okkar huga er um að ræða fulltrúa flokks sem skilgreinir sig sem umhverfisverndarflokk. Það liggur í hlutarins eðli að umhverfisverndarsamtök gagnrýna umhverfisverndarflokk sem bregst kjósendum sínum með svo afdrifaríkum hætti.

 

Karl Tómasson boðaði endalok Varmársamtakanna á fundi bæjarstjórnar. Við mælum hins vegar með því að forsetinn reyni að gera sér grein fyrir afleiðingum þess. Vinstri grænir hafa ekki lyft svo mikið sem litla putta í þágu umhverfisverndarmála í sveitarfélaginu undanfarið eitt og hálft ár. Hvað yrði og hvað hefði orðið ef Varmársamtökin hefðu ekki staðið vaktina?

 

Það er öllum hollt að líta í eigin barm og athuga sinn gang. Það munum við hjá Varmársamtökunum gera og hvetjum við forsetann og hollvini hans eindregið til að gera slíkt hið sama. Það væri ekki bara þeim sjálfum fyrir bestu heldur líka öllum náttúruunnandi íbúum í Mosfellsbæ til heilla.

 

Sigrún Pálsdóttir

stjórnarmaður í Varmársamtökunum

Sjá einnig leiðara Morgunblaðsins 3. september: www.morgunbladid.blog.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband