Tími til að undirbúa innleiðingu Árósasamningsins

Áhorfendur  á útiskemmtunFramtíðarlandið stóð í gær fyrir afar fróðlegum fundi um Árósasamninginn sem innleiddur var í löggjöf Evrópusambandins árið 2001 og tryggja á aðildarríkjum lágmarksvernd umhverfisins með tilliti til heilsu og velferðar mannsins, í nútíð og framtíð.

Í grófum dráttum er samningnum ætlað að tryggja þrenn grundvallarréttindi lýðræðis, þ.e.  rétt almennings til að fá aðgang að upplýsingum, taka þátt í ákvörðunum á undirbúningsstigi og bera fram kærur óháð beinum hagsmunum.
Aðalheiður Jóhannsdóttir, lektor í umhverfisrétti við Háskóla Íslands flutti erindi þar sem hún dró fram mikilvægustu atriði samningsins. Sagðist hún telja að íslensk umhverfis- og náttúruverndarlöggjöf væri ekki í stakk búin til að innleiða Árósasamninginn eins og málum væri háttað í dag. Það sem þyrfti að gera væri að skýra efnisreglur umhverfis- og náttúruverndar til þess að innleiðing samningsins þjónaði tilgangi sínum.  Í dag væru lög um umhverfis- og náttúruvernd opin og matskennd eins og reyndar segja mætti um Árósasamninginn sjálfan. Það sem þyrfti að skýra væri hvaða réttindi lögin sem falla undir samninginn raunverulega veita og hvernig þeim skuli framfylgt.
Fram kom á fundinum að það væri aðdáunarvert og til eftirbreytni hvað Svíar og Norðmenn hefðu lagt mikla vinnu í undirbúning að innleiðingunni. 1981 viðurkenndu Norðmenn rétt almennings til að aðildar að málum sem varða umhverfi og náttúru. Tæpum 30 árum síðar væri sá réttur enn afar takmarkaður á Íslandi.

41 ríki hefur fullgilt samninginn og er Ísland eina landið á Norðurlöndum sem á það eftir. Upphaf samningsins má rekja til þróunar sem varð í Bandaríkjunum uppúr 1970 en þar voru umhverfisverndar- og útivistarhagsmunir viðurkenndir með dómi sem féll 1972, þ.e. Sierra Club gegn Morton.

Voru ræðumenn sammála um að Íslendingar væru langt á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum í lýðræðisvæðingu samfélagsins sem lýsti sér m.a. í því að almenningur á Íslandi, ólíkt öðrum Vesturlandabúum, léti verðlagsbreytingar  umyrðalaust yfir sig ganga og greiddi jafnvel stjórnmálaflokkum atkvæði sitt í trjássi við eigin hagsmuni og skoðanir.

Ákveðið var á fundinum að senda áskorun til stjórnvalda um að hefja undirbúning að innleiðingu samningsins og verður hún birt einhvern næsta dag.

sp


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband