Bréf frá Andalúsíu - um umhverfismál

Bryndís SchramÖll austurströnd Spánar,  allt frá Benidorm,  (Litlu Manhattan, eins og það heitir hér) –  og alla leið  til Marbella á Costa del Sol, (eitt versta dæmið um byggingamistök)-   er  eitt allsherjar umhverfisslys -   eða  eins og Spánverjar sjálfir lýsa því núorðið: Umhverfisglæpur.

Aðalumræðuefnið á Spáni um þessar mundir er einmitt, hvernig eigi að bæta fyrir þau slys í umhverfinu, sem þegar hafa orðið. Hvernig eigi að bjarga strandlengjunni frá norðri til suðurs og fara að þeim lögum, sem sett voru árið 1988 um náttúruvernd og aðgengi almennings. Þessi lög virðast hafa gleymst í byggingaræði undanfarinna ára.  
Fjárfestar og byggingaverktakar hafa  vaðið yfir landið með gröfur, kranabíla og jarðýtur, byggt og byggt í þeirri von að græða meira og meira  á sólþyrstum túrhestum.  Þeir hafa ekki kunnað sér hóf og eru búnir að byggja langt umfram eftirspurn. Enginn sér fyrir endann á þeim ósköpum enn.    

Framkvæmd þessara laga virðist hafa verið að mestu leyti í höndum sveitarfélaga og héraðsstjórna. Sveitarfélögin  -  hér sem annars staðar (og þetta þekkjum við heima á Íslandi) - liggja undir stöðugum þrýstingi og ásælni fjárfesta og verktaka um að gefa þeim lausan tauminn til  framkvæmda. Skammtímagróði - einn og sér – hefur ráðið för.   Afleiðingarnar blasa nú við í því,  sem farið er að kalla eyðileggingu, spillingu , glæpastarfsemi.  Spánverjar þekkja varla landið sitt lengur.

Í El Pais og öðrum alvörufjölmiðlum má lesa dag eftir dag myndskreyttar greinar eftir stjórnmálamenn, skipulagsarkitekta, umhverfissérfræðinga og aðra, sem láta sig þessi mál varða.  Þeir eru allir á einu máli um, að aðgerða sé þörf, og það strax.   Almenningur unir því ekki lengur að vera sviptur aðgengi að strönd og hafi, eins og lög kveða á um, að þeir eigi. Og inn í alla þessa umræðu spinnst svo óttinn við hækkun sjávar á næstu áratugum vegna ofhitunar jarðar. Það er ekki lengur spurning um hvort það verður, heldur hvenær, segja þeir. Og þá eru margar byggingar í hættu. 
  
Nú eru jafnaðarmenn  aftur við völd  hér á Spáni og vilja halda áfram þaðan, sem frá var horfið. Þeir leggja áherslu á að  framfylgja lögunum frá 1988. Hreinsa upp strendurnar,  leyfa náttúrunni að njóta sín, tryggja aðgengi almennings og byggja hús, sem kallast á við stórbrotna náttúruna, en traðka ekki á henni, eins og nú er.  –

Draumurinn um hina eilífu sælu sólarstranda hefur breyst í martröð. - Hótel,  lúxusvillur, verslanir og veitingastaðir troða sér  fram á ystu brún og hamla frjálsu aðgengi hins almenna borgara. Sportbátaeigendur eru búnir að leggja undir sig heilu strandlengjurnar og  fæla frá fiskimennina, sem einu sinni  lögðu þarna upp með afla sinn.  Það er rætt um það núna í fullri alvöru að setja sprengjur undir allt heila klabbið. Byrjum upp á nýtt, segja þeir.

Þetta verður auðvitað heitt mál í komandi kosningum í Mars 2008. Og þá er bara að sjá, hvort kjósendur veita þessum róttækum aðgerðum jafnaðarmanna brautargengi  - eða leyfa íhaldinu að halda áfram að valta yfir landið.
Bryndís

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband