Kjósum við lýðræði eða einhliða túlkun Bjarka Bjarnasonar?

Sígrún PálsdóttirÍ Mosfellingi sem borinn verður í hús í Mosfellsbæ í dag er Bjarki Bjarnason einn til frásagnar um aðalfund Varmársamtakanna sem haldinn var fyrir stuttu. Hafði stjórnin í tíma sent frétt um fundinn til ritstjóra en hún birtist ekki í blaðinu.* Tilefni þessara skrifa er að leiðrétta þá ónákvæmi sem gætir í málflutningi Bjarka en hún verður þess valdandi að röng mynd er dregin upp af atburðarásinni á fundinum auk þess sem rangt er farið með staðreyndir.  
  • Í texta Bjarka segir að stjórnin hafi setið "að stærstum hluta óbreytt og án endurkjörs í tvö stjórnartímabil". Rétt er að tveir stjórnarmeðlimir af fimm hafa komið nýir inn síðan á stofnfundi fyrir einu og hálfu ári. Hér er látið í veðri vaka að maðkur sé í mysunni en mér er spurn: Hvað er óeðlilegt við að ekki hafi orðið meiri breytingar á stjórninni á ekki lengra tímabili?
  • Í lögum samtakanna er ákveðin mótsögn sem fundurinn taldi nauðsynlegt að leiðrétta. Bjarki vildi horfa fram hjá því ákvæði að hver stjórnarmaður væri kosinn til tveggja ára og fór fram á að tveir stjórnarmenn vikju sæti skv. útskiptingarreglu sem stangast á við tveggja ára regluna. Fundurinn ákváð hins vegar að halda frekar framhaldsaðalfund þar sem borin yrði upp tillaga um leiðréttingu á lögunum. Fundurinn var vel sóttur og kaus mikill meirihluti fundarmanna að framhaldsaðalfundur skyldi haldinn í vor. Það var því  lýðræðisleg ákvörðun fundargesta að tímasetja næsta fund í vor eða um það leyti sem stjórnin verður búin að sitja í tvö ár. Og mér er aftur spurn: Hvað er lýðræðislegra en að fara eftir niðurstöðu kosningar?
  • Í grein Bjarka segir að drjúgur hluti aðalfundarins hafi farið í "að ræða túlkun á fyrrnefndri lagagrein en þessi mál hefðu að sjálfsögðu þurft að vera ljós fyrir fundinn". Bjarki fékk að eigin ósk send lög Varmársamtakanna sl. vor og átti því þess kost að leggja til a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund að lögunum yrði breytt en það gerði hann ekki. Aftur gefur hann í skyn að maðkur sé hér í mysunni en rétt er að hann hefði átt að hugsa út í þetta sjálfur í stað þess að vera ákveðinn í að túlka bæri lögin eins og honum sjálfum hentaði best.
  • Og Bjarki heldur áfram: "Í fundarboði hafði verið auglýst eftir áhugasömu fólki í stjórn og höfðu nokkrir einstaklingar tilkynnt um framboð sitt. Þeir fengu ekki að kynna stefnumál sín á fundinum ... því stjórnarkjörið var einfaldlega blásið af." Hér er aftur látið í veðri vaka að stjórnin hafi gert sig seka um eitthvað misjafnt. Rétt er að enginn frambjóðandi fór fram á að kynna stefnumál sín á fundinum enda ekki skrýtið þar sem fundargestir tóku með kosningu þá ákvörðun að halda framhaldsaðalfund, þ.e. að kjósa ekki. Hefði hins vegar verið kosið hefði fólk að sjálfsögðu getað haldið sína stefnuræðu.
  • "Lok fundarins urðu endaslepp, skoðunarmenn reikninga voru ekki kjörnir og orðið ekki gefið laust undir liðnum Önnur mál." Enn og aftur leikur Bjarki þann ljóta leik að gera okkur tortryggileg. Rétt er að þar sem ákveðið var að halda framhaldsaðalfund fór ekki fram nein kosning, önnur en að kjósa fólk úr hópi fundargesta til að endurskoða lögin. Mest allur tími fundarins fór í umræður sem Bjarki tók mikinn þátt í. Skv. mínum skilningi heyrðu þær undir liðinn "Önnur mál".

Tillögur og sanngjörn gagnrýni sem miðar að því að bæta lög og starfsvenjur samtakanna væru af hinu góða. Málflutningur Bjarka í Mosfellingi kemur aftur á móti í veg fyrir heilbrigða umræðu og er síst til þess fallinn að tryggja farsælt samstarf - enda kannski aldrei staðið til eða hvað?

Sigrún Pálsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum

* Ritstjóri Mosfellings hringdi og sagðist ekki hafa fengið frétt frá okkur um aðalfundinn. Engin tilkynning barst um að þeir tveir póstar sem við sendum blaðinu hefðu ekki skilað sér sem er mjög óvenjulegt en auðvitað getur allt gerst og efast ég ekki um að það sé rétt að pósturinn hafi ekki borist. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband