Um sannleiksást Karls Tómassonar

Ástæðan fyrir þessum skrifum er að 8. september birti Vísir stutt viðtal við Karl Tómasson fulltrúa VG og forseta bæjarstjórnar í Mosfellsbæ undir yfirskriftinni "Mega ekki óttast skurðgröfur". Segir Karl í viðtalinu "að umræðan í kringum lagningu Helgafellsvegar fyrir ofan Álafosskvos hafi algjörlega farið úr böndunum. Ákveðin múgæsing hafi skapast."
 

En er það svo? Hvernig er staða mála í dag?

Búið er að leggja Helgafellsbraut og er svo illa að vegagerðinni staðið að ekki er pláss fyrir vegtengingu við Álafosskvos. Við plássleysinu vöruðu Varmársamtökin strax í upphafi en enginn vilji var hjá bæjaryfirvöldum til að hlusta á raddir íbúa og því fór sem fór. Stórfelld skipulagsmistök sem eiga eftir að kosta bæjarbúa mikla peninga er það sem við íbúar í Mosfellsbæ sitjum nú uppi með. Óstaðfestar fréttir herma að taka þurfi veginn upp aftur og endurgera að hluta vegna plássleysis þar sem vegurinn kemur niður í Álafosskvos.
Í viðtalinu gerir Karl sjálfan sig að píslarvotti og segist persónulega hafa verið tekinn fyrir. Ljóst er Karl gerir hér engan greinarmun á starfi sínu sem stjórnmálamaður og persónulegum málum. Varmársamtökin hafa gagnrýnt Karl  sem stjórnmálamann fyrir að svíkja þau kosningaloforð sem hann gaf kjósendum í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2006 og ennfremur þann ólýðræðislega þankagang sem lýsir sér m.a. í tilhæfulausum ummælum hans um störf Varmársamtakanna og einstaka liðsmenn þeirra.
Í viðtalinu undirstrikar Karl vanþóknun sína á samtökunum með því að rangnefna þau Álafosssamtökin. Segist hann ennfremur vera "eini fulltrúinn sem aldrei kaus um hann", þ.e. Helgafellsveg. 

En er það nú rétt?

Skv. fundargerð bæjarstjórnar Mosfellsbæjar (473. fundur) á mos.is frá 29. ágúst 2007 tók Karl fullan þátt í atkvæðagreiðslu um deiliskipulag tengibrautarinnar. Fulltrúar frá Varmársamtökunum sátu á áheyrendabekkjum og urðu því vitni af afgreiðslunni og þeim óhróðri sem Karl Tómasson lét sér um munn fara á fundinum um samtökin. (Á ummæli Karls er ekki minnst í fundargerð og er það til baga fyrir íbúa að ekki skuli réttilega greint frá því sem fram fer á bæjarstjórnarfundum í fundargerðum.) En til hvers að stilla sér upp sem píslarvotti og segja ósatt um eigin embættisfærslur?

Margir hafa undrast það langlundargeð sem umhverfisverndarsinnar í Vinstri grænum hafa sýnt Karli.  Bæjarfulltrúinn segist þó hafa verið beðinn að víkja sæti á lista til alþingis. Sú spurning gerist sífellt áleitnari hversu langt Karl Tómasson fær að ganga áður en þolinmæði flokksfélaganna þrýtur endanlega?
Á fundinum með VG hvatti Karl flokkssystkyni sín til að óttast ekki skurðgröfur. Betur hefði samt verið og í takt við stefnu flokksins að "óttinn" við gröfurnar hefði verið til staðar þegar bæjarfulltrúinn samþykkti deiliskipulög á bökkum Varmár í  Helgafellslandi og deiliskipulag Tunguvegar sem liggur að friðlýstum ósum Varmár (en það deiliskipulag á að taka fyrir öðru sinni væntanlega fljótlega).

Landslag á bökkum Varmár hefur verið sundurtætt af skurðgröfum í valdatíð Karls Tómassonar. Hann ber ásamt fleirum ábyrgð á því.

sp


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband