Kirkjumenningarhús í Mosfellsbæ?

Mosfellsbær hefur nú hrint af stað hugmyndasamkeppni um byggingu kirkju og menningarhúss í Mosfellsbæ og var hugmyndin rædd á fundi um miðbæjarskipulag bæjarins þann 11. febrúar síðastliðinn.
Svo virðist sem sú hugmynd að byggja saman kirkju, safnaðarheimili og menningarhús sé til komin til að mæta þörfum kirkjunnar, enda sniðin að þörfum hennar bæði hvað varðar fjárhag og starfsemi. Eins og fram kom í máli formanns sóknarnefndar á fundinum skortir kirkjuna fé til að standa undir rekstri safnaðarheimilis óstudd.
Kirkjurnar tvær í Mosfellsbæ eru litlar og rúma ekki stærri athafnir, því er eðlilegt að kirkjan vilji stækka við sig og sannarlega er vilji til þess á meðal bæjarbúa. En það er hins vegar ekki víst að besta lausnin sé að steypa þeim framkvæmdum saman við byggingu menningarhúss.
Miðbær2Á fyrrgreindum fundi kom einnig í ljós að kirkjan setur mjög mikla fyrirvara við því hvaða starfsemi hún vill sjá í menningarhúsinu. Það kom fram í svari séra Ragnheiðar Jónsdóttur, sóknarprests, að kirkjan gæti ekki unað því að önnur trúfélög fengu t.d. aðstöðu í byggingunni. Þá er ljóst að að ýmsir listviðburðir t.d. hávær rokktónlist er kirkjunni ekki þóknanleg og því þarf líka að gera ráðstafanir til að hýsa slíka viðburði annarsstaðar. Því þarf að leggja út í aukakostnað með lagfæringum á Hlégarði undir þá starfsemi sem ekki kemst í gegnum nálarauga kirkjunnar.
Það er ljóst að það er menningarstarfi ekki til framdráttar að búa við þær takmarkanir sem fylgja of nánu sambandi við kirkju- og stjórnmálavald. Má í því sambandi minnast þeirrar meðferðar sem sveitarskáldið Halldór Laxness fékk hjá Jónasi frá Hriflu þegar hann var settur í annan flokk rithöfunda. Halldór stofnaði þá sjóð „til styrktar andlegu frelsi rithöfunda“. Framsæknir listmálarar voru einnig settir út af sakramentinu hjá Jónasi sem taldi sig þess umkominn að vega og meta hvaða list væri lýðnum þóknanleg. Hugmyndir um að lista- og menningarstarf eigi að vera háð slíkri ritskoðun eru löngu úreltar og humyndir um að slík starfsemi sé metin af fagmennsku á opinberum vettvangi, án afskipta kirkju eða stjórnmálamanna, hafa tekið við.
Eftir skoðun á málinu virðist sem hér eigi að fara fram nauðungarhjónaband. Þeir aðilar sem á að pússa saman standa mjög misvel að vígi og hafa ólíkar þarfir. Annar, kirkjan, er íhaldsamur og valdamikill aðili sem hefur vel skilgreindar þarfir og öfluga málsvara. Hinn, menningin, er frjálslynd, djörf og ögrandi. Hún virðist ekki eiga sér málsvara í þessu máli og augljóst að hennar þarfir hafa ekki verið skilgreindar á við makann.
Þetta samband verður stormasamt frá upphafi þar sem aðilar þess eiga fátt sameiginlegt og langt er frá að jafnræði ríki í hjúskapnum. Kirkjan fer inn í sambandið af því að hún þarf á heimanmundinum að halda en menningin af því að hún hefur ekki málsvara til að forða sér frá þessu ólánsbandi.
Ef Mosfellingar vilja greiða fyrir safnaðarheimili með menningarívafi af skattpeningum sínum þurfa þeir allavega að hafa völina. Það þarf að kynna málið fyrir bæjarbúum á réttum forsendum og helst að bjóða upp á tvær til þrjár skipulagstillögur til að velja úr.
Að öðrum kosti verður húsið eingöngu kirkjumenningarhús.

Kristín Pálsdóttir,
íbúi í Mosfellsbæ

Um miðbæjarskipulag á vef Mosfellsbæjar:

http://www.mos.is/default.asp?sid_id=43447&tre_rod=006|002|&tId=1


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Það kom fram í svari séra Ragnheiðar Jónsdóttur, sóknarprests, að kirkjan gæti ekki unað því að önnur trúfélög fengu t.d. aðstöðu í byggingunni. Þá er ljóst að að ýmsir listviðburðir t.d. hávær rokktónlist er kirkjunni ekki þóknanleg og því þarf líka að gera ráðstafanir til að hýsa slíka viðburði annarsstaðar. "

Þessi tillaga er svo mikið WHAT?? að það hálfa væri nóg. Kirkjan, eins og öðrum trúfélögum er frjálst að byggja sín eigin hús. Ef að peningur skattborgara fer í að byggja hús sem Kirkjan mun eiga aðgang að, þá hlýtur það að verða að vera á forsendum bæjarins. Það er algjörlega óásættanlegt ef að bærinn hendir peningum í byggingu svona byggingar fyrir einungis eitt lífsskoðunarfélag, ef önnur eiga ekki að hafa aðgang þar að. Slíkt er hugsunarháttur aftan úr miðöldum held ég bara. 

Ég segi bara ojbara. Að kirkjunni skyldi svo detta í hug að geta stýrt hvaða menning ætti að fara þarna inn...  "ekki hávær rokktónlist..." hahaha

Ef að þetta dæmi er ekki enn eitt dæmið um nauðsyn þess að aðskilja ríki/sveitarfélög og kirkju, þá veit ég ekki hvað. 

Þorsteinn Kolbeinsson (IP-tala skráð) 2.3.2009 kl. 17:43

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Góð grein hjá Kristínu. -Fannst fyrst að þetta gæti allt farið vel saman sem eitt stórt huggulegt teboð. Ég er að verða nokkuð sannfærður um að hinn kristni helgidómur á að vera stakstæður, en þó miðlægur þar sem bæjarleikhúsið er núna.

Ef það er fjárskortur þá verður kirkjan bara byggð í áföngum, turn, kirkjuhús, safnaðarheimili. Það er meiri sál í þeim guðs húsum sem að eru byggð af stórhug og vanefnum, ásamt miklu sjálfboðastarfi og ríkri trúarþörf.

Gunnlaugur B Ólafsson, 3.3.2009 kl. 01:07

3 identicon

Tek undir þetta Gunnlaugur. Mikilvægt er að skilgreina þarfir kirkju og menningarhúss út af fyrir sig og gera sér síðan grein fyrir afleiðingum þess að steypa þessum byggingum saman í eina. Það gefur auga leið að menningin mun þurfa að færa fórn í svona sambýli og spurning hvort að það sé ásættanlegt.

Mín tillaga er sú að Mosfellsbær bjóði upp á nokkra valkosti til að velja úr í tengslum við endurskoðun á aðalskipulagi, þ.á.m. einn valkost þar sem þessi hús eru aðskilin. "Jónas frá Hriflu" hefur lengi svifið yfir vötnum í Mosfellskri stjórnsýslu. Er ekki bara kominn tími til að gefa honum frí? 

Sigrún P (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 08:42

4 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Í byrjun janúar skrifaði ég stuttan pistil á Vantrú um þetta menningarhús í kjölfar að Séra Kristján Valur Ingólfsson tjáði sig um húsið.  Hann getur ekki hugsað sér að biðja bænirnar sínar í húsi sem aðrir trúarhópar fá líka að nota!

Matthías Ásgeirsson, 3.3.2009 kl. 10:58

5 identicon

Góður pistill hjá þér Matthías á Vantrú varðandi samsuðu kirkju og menningarhúss.  Ég tel það afleita hugmynd að spyrða saman menningarhúsi Mosfellsbæjar og kirkju, það er uppskrift að átökum og deilum, í raun óeðlilegt að kirkjunni sé komið í þá stöðu að velja og hafna menningarstarfsemi.

 

Við höfum vanist því Mosfellsbæ að koma út í guðsgræna náttúruna eftir kirkjulegar athafnir og ef ný kirkja verður staðsett samkvæmt núverandi tillögu þá hverfur sú fegurð í skiptum fyrir bílastæði Krónunnar.

Er það breyting til batnaðar ?

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 12:26

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Ég hef nú ýmislegt út á þetta blessaða "skipulag" í Mosfellssveit að setja. En það er efni í hálfa bók, sem ég skal fúslega skrifa ef ég fæ til þess aðstoð ;-)Lofa að hún verður metsölu- ... ehemm og til fyrirmyndar!

En kirkjur eru gott innput í borgir og bæi. Þær þjóna margþættu hlutverki fyrir trúaða jafnt sem jarðbundna. Ætli þessar kirkjur sem fyrir eru séu ekki bara ágætar til síns brúks? En fyrst byrja á á nýrri, má segja sem svo að prestar verða nú að þakka GUÐI fyrir að fá svona glæsihöll undir safnaðarerindið sitt. Og fyrst GUÐ er í raun ekki til, þá erum við að ræða skattfé almennings. Blessaðir prestarnir verða því að laga sig að þjóðfélaginu eins og góðir prestar gera jú með góðu geði og sætta sig við að þeirra guðshús eru ekki bara guðshús, heldur hús fólksins í bæjarfélaginu. Og þannig geta þeir best þjónað sínum kærleik og allt það. 

Ólafur Þórðarson

Ólafur Þórðarson, 14.3.2009 kl. 02:44

7 identicon

Þú segir nokkuð veffari. Ég hef einmitt verið hvött til að skrifa bók um atburðarásina sem fór í gang í upphafi árs 2007 en þá hófust framkvæmdir við lagningu Helgafellsvegar - án deiliskipulags. Bæjarstjórnarmeirihlutinn reyndi hvað hann gat að villa um fyrir fólki og sögðu verktakann vera að leggja fráveitu sem stuttu síðar var orðinn að vegi.

Nýjasta útspil bæjarstjórans í blekkingarherferðinni er síðan að skrifa greinar með mergjuðum fyrirsögnum um "samráð" og "grænan miðbæ".

Ég spyr þig ágæti arkitekt: Hvaða vit er í því malbika náttúruperlur og mála miðbæi græna?

Sigrún P (IP-tala skráð) 14.3.2009 kl. 14:45

8 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Áhugavert.

Allt er vænt sem vel er grænt. Þetta vita áróðursmeistarar. 1974(?) var kosningaherferð um Græna Reykjavík. Svo á endanum kom á daginn að grænu svæðin voru að mestu umhverfis hraðbrautaruslið sem hefur eyðilagt borgina. Þannig að grænt er ekki bara grænt, heldur hvernig það er notað. Hér geturðu að gamni séð tillögu mína að Grafarholti 1996 þar sem áherslan er lögð á heilsteyptann smágerðann bæ, ekki bara úthverfi.

Já í raun er "grænn miðbær" þversögn, svo sem dæmigerð í þessari blessuðu umræðu.

Pólitíkusar eru líka í að skapa atvinnu og oft vinir og kunnningjar sem eru með fyrirtækin -sem veita þessa atvinnu. Þo mér sé ókunnugt um nákvæm tengsl slíks þarna í Mosfellsveit eins og ég kannaðist við svæðið.

Ólafur Þórðarson, 14.3.2009 kl. 15:31

9 Smámynd: Smjerjarmur

Jarmur hefur nú löngum verið hallur undir kirkjuna.  Hins vegar er nauðsynlegt fyrir ykkur Mosaþemburnar að búið sé að ræða þetta mál nægjanlega vel til þess að bæjarbúar (skattgreiðendur) viti að hverju þeir ganga.  Það er í reynd furðulegt að opin umræða (án þöggunar) sé ekki sjálfsögð og eðlileg frá allra sjónarhóli. 

Smjerjarmur, 15.3.2009 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband