Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Varmársamtökin auglýsa opinn umræðufund

Varmársamtökin standa fyrir opnum umræðufundi um starf samtakanna á Draumakaffi í Mosfellsbæ sunnudagskvöldið 21. október kl. 20:00.

Farið verður yfir helstu mál og sagt frá því sem er á döfinni hjá samtökunum, m.a. málstofu sem Varmársamtökin í samvinnu við önnur íbúa- og umhverfissamtök á Íslandi standa fyrir 10. nóvember nk. Opin umræða og fyrirspurnum svarað.

Allir velkomnir!


Umhverfismat áætlana eða umhverfismat framkvæmda? - Eða hvoru tveggja?

nullÍ liðinni viku fóru fulltrúar í stjórn Varmársamtakanna á fund með skipulagsstjóra, Stefáni Thors og bæjarstjóra, Haraldi Sverrissyni o.fl. Tilefni fundarins var að ræða hvers vegna Tunguvegur (vegur sem tengir Leirvogstunguhverfi við Skeiðholt og Skólabraut) var ekki settur í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eins og bæjarstjórn var búin að ákveða sl. vor.
Málavextir eru þeir að Varmársamtökin kærðu 29.01 2007 til umhverfisráðherra þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að Tunguvegur skyldi ekki háður mati á umhverfisáhrifum framkvæmda en vegurinn fer m.a. yfir hverfisverndarsvæði í grennd við friðlýsta ósa Varmár sem er á náttúruminjaskrá. Í kjölfar kærunnar ákvað bæjarstjórn Mosfellsbæjar að setja veginn í mat þrátt fyrir fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar um að það væri ekki nauðsynlegt, þó að í áliti stofnunarinnar segði að Tunguvegur hefði talsverð umhverfisáhrif. Bærinn og ráðuneytið fóru þess síðan á leit við Varmársamtökin að kæran yrði dregin tilbaka og urðu samtökin við því í þeirri trú að vegurinn færi í mat.
 
Fyrir stuttu fréttum við síðan á skotspónum að Tunguvegur ætti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Þegar farið var að kanna málið kom í ljós að skipulagsstjóri hafði þann 29.06 2007 sent Mosfellsbæ bréf þess efnis að erfitt væri að draga fyrri stjórnvaldsákvörðun til baka. Þess í stað lagði hann til að fram færi ítarlegt umhverfismat áætlana með tilheyrandi umhverfisskýrslu sem embættið hefði eftirlit með og íbúar og samtök gætu gert athugasemdir við og Mosfellsbær væri síðan umsagnaraðili um.
Eitt af því sem skipulagsstjóri segir að ávinnist með gerð umhverfisskýrslu, sbr. lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 er að gera þarf grein fyrir heildaráhrifum framkvæmdarinnar, bera þarf saman mismunandi valkosti og kanna samlegðaráhrif við aðrar skipulagsáætlanir. Eftir þessu vorum við m.a. að slægjast þegar við sendum inn kæruna til umhverfisráðherra þó á grundvelli annarra laga væri.
Allt er þetta gott og blessað en eins og fulltrúar Varmársamtakanna bentu á á fundinum í vikunni er okkar samþykki fyrst og fremst háð því hvort hægt sé að treysta bæjaryfirvöldum til að vinna umhverfismatið (áætlana) af trúmennsku. Það sem mælir gegn því trausti er að fyrir liggur umhverfisskýrsla um Helgafellsbraut sem vinna átti skv. lögum um umhverfismat áætlana sem ber þess ótvíræð merki að vera unnin eftir ströngum fyrirmælum verkkaupa sem er Mosfellsbær. Rangt er farið með staðreyndir í skýrslunni og þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir Varmársamtakanna til að koma leiðréttingum á framfæri hefur þeim alfarið verið hafnað. Ekki er gerð grein fyrir áhrifum tengibrautarinnar á t.d. útivistar- og íþróttasvæði og miðbæ Mosfellsbæjar, ekki haft samráð við íbúa og samtök og valkostum stillt þannig upp að þeir þjónuðu sem best fyrirætlunum bæjaryfirvalda. Samlegðaráhrif við aðrar skipulagsáætlanir voru m.a. að engu hafðar í skýrslunni en deiliskipulag Helgafellsbrautar leiðir til mikilla breytinga á deiliskipulagi Álafosskvosar, útivistar- og íþróttasvæðis og miðbæjar. Þess utan vorum við ekki einu sinni upplýst um að málið hefði tekið aðra stefnu en okkur var lofað.
 
Ef umhverfismat áætlana er framkvæmt af trúmennsku er það gott verkfæri til að meta heildarumhverfisáhrif Tunguvegar á þau hverfi/deiliskipulög sem vegurinn fer um.  Ef við samþykkjum þessa tillögu missum við hins vegar þann kærurétt til þriðja aðila (Umhverfisráðuneytisins) sem við nú höfum en skv. upplýsingum Umhverfisráðuneytisins getum við lagt inn kæruna aftur. Við vitum hins vegar ekki hvort ráðherra úrskurðar okkur í vil fyrirfram. Tilgangur kærunnar var ekki síst að láta meta áhrif framkvæmdarinnar sjálfrar á náttúruna í Leirvogi við friðlýsta ósa Varmár. Sem sagt lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda taka fyrst og fremst mið af framkvæmdinni sjálfri á meðan umhverfismat áætlana er til þess ætlað að setja skipulagsáætlanir í stærra samhengi. Lítil reynsla er komin á framkvæmd laga um umhverfismat áætlana og í ljósi þeirrar skýrslu sem Mosfellsbær lét vinna í tengslum við Helgafellsbraut erfitt að átta sig á réttarbótinni sem lögin áttu að leiða af sér.

Á fundinum með bæjarstjóra kom fram að Tunguvegur ætti ekki eingöngu að tengja Leirvogstunguhverfið við miðbæinn heldur einnig athafna- og íþróttasvæðið á Tungubökkum. Það eru nýjar fréttir þar sem það er ekki tekið með í útreikninga á umferðarþunga.

Góðir Mosfellingar. Þið getið komið ykkar skoðun á framfæri á bloggi samtakanna: www.varmarsamtokin.blog.is Eins er hægt að senda póst á varmarsamtokin@gmail.com eða hringja í stjórnarmeðlimi.

Sum sé umhverfismat áætlana eða umhverfismat framkvæmda? Eða kannski bara hvoru tveggja? - sem væri náttúrulega umhverfisvænsti kosturinn.

 


Hvaðan kemur auður Orkuveitunnar?

Hverir í MosfellsbæNú þegar deilur standa sem hæst um Orkuveitu Reykjavíkur og aðgang að auðlindum Íslands hvarflar hugurinn óhjákvæmilega til Mosfellsbæjar en þar hvílir í iðrum jarðar eitt stærsta lághitasvæði landsins. Uppspretta 60% af heitu vatni sem Reykvíkingar nota er í Mosfellsbæ. Hitaveita Reykjavíkur keypti verðmætustu vatnsréttindi landeigenda um 1935 á verði sem borgarstjórn Reykjavíkur óx á sínum tíma í augum, þ.e. 150 þúsund kr. Fáir áttuðu sig þá á því verðmæti sem fólst í jarðhitanum. Í dag rennur auðlindin án viðkomu í bæjarsjóði Mosfellsbæjar um hitaveitulagnir Reykjavíkur. Hitaveitan á sennilega stærstan þátt í velmegun höfuðborgarbúa og því sanngirnismál að leiðrétta hlut Mosfellsbæjar. Þetta óafturkræfa afsal á endurnýjanlegum auðlindum og sú staða sem Mosfellsbær er í núna, þ.e. að vera ekki einu sinni meðeigandi í Orkuveitu Reykjavíkur, ætti að vera þörf áminning þeim sem gæta eiga auðlindarinnar í umboði almennings. Það er kaldhæðnislegt að það sveitarfélag sem drýgstan skerf leggur til hitaveitu á Reykjavíkursvæðinu njóti þess í engu umfram önnur sveitarfélög. Þvert á móti situr það uppi með ókostina sem eru hitaveitaskúrar Orkuveitunnar með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa, náttúrugersemar s.s. gróðursæll heitur jarðvegur og hverir eru horfnir af yfirborði jarðar, Varmáin sem hægt var að baða sig í er orðin jafn köld og rigningin og til að kóróna kaldhæðnina er skipulagsmálum stjórnað af bæjaryfirvöldum sem gleymt hafa jarðsögunni, atvinnusögunni og menningarsögunni sem öll á sér þó uppsprettu í heita vatninu.
Dómur sögunnar virðist blasa við. Í sumar sóttu Varmársamtökin um styrk til Orkuveitu Reykjavíkur til að hefja jarðhitasögu sveitarfélagsins til vegs og virðingar með sýnilegum hætti á yfirborði jarðar. Umsókninni var hafnað. En burtséð frá því.
Sala á heitavatnsréttindum í Mosfellsbæ ætti að geta orðið öðrum sveitarfélögum á suðvesturhorninu sem víti til varnaðar í þeirri stefnumörkun sem nú á sér stað. 
Viðbót:
Hverir við VarmáÍslenskir vatnavistfræðingar kvarta stundum yfir því að alltof litlu fé sé eytt í rannsóknir á lífríki hverasvæða á Íslandi. Uppúr 1930 rannsakaði þýskur vatnalíffræðingur, G.H. Schwabe, nokkur hverasvæði, m.a. í Mosfellsbæ. Kannaði hann lífríkið, mældi hitastig og vatnsmagn hvera. Helgi Torfason hjá Orkustofnun tók saman rit sem nefndist: Jarðhiti á yfirborði í Reykjavík og nágrenni fyrir Hitaveitu Reykjavíkur og eru niðurstöður rannsókna Schwabes í Mosfellssveit og uppdrættir af hveraþyrpingum m.a. þar að finna. Sigurður Ólafsson hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur gerði 1932 mælingu á heitu vatni í Mosfellssveit og vann skýrslu sem nefnist: Mæling á heitu vatni á jörðunum Reykjir og Reykjahvoll í Mosfellssveit.
Saga hitaveitna og jarðhitanýtingar á Íslandi var gefin út af Safni til Iðnsögu Íslands, XII. bindi. Ber hún nafnið: Auður úr iðrum jarðar og er eftir Svein Þórðarson.
G. Schwabe gerði þennan uppdrátt af hverasvæðinu upp með Varmá.
Sigrún Pálsdóttir

Mæting á áheyrendapalla Ráðhússins kl. 16

ReykjaveitaÍbúar höfuðborgarsvæðisins eru hvattir til að mæta á áhorfendapalla í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag kl. 16 vegna umræðna um hugsanlega sölu á Orkuveitu Reykjavíkur. Málefni Orkuveitunnar eru Mosfellingum ekki óviðkomandi þar sem tæplega 60% af því vatni sem rennur í hitaveitulögnum Reykvíkinga kemur úr borholum héðan. Sveitarfélagið fær engan arð af þessari auðlind þar sem búið er að selja Orkuveitunni öll vatnsréttindin sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir bæjarbúa.

 


Ef hjartað bilar er voðinn vís

Útimarkaður Álafosskvos 300Torfusamtökin stóðu í dag fyrir afar uppfræðandi fundi í Iðnó um borgarskipulag undir yfirskriftinni 101 TÆKIFÆRI.
Eva María Jónsdóttir, dagskrárgerðarmaður, reið á vaðið og talaði fyrir hönd íbúa. Sagði hún m.a. nauðsynlegt að endurskoða húsafriðunarlög til að tryggja að hverfin í miðbænum fengju að halda ásýnd sinni. Niðurrifið í miðbænum minnti á þá tíma þegar fólk í sveitum kom í bæinn til að láta rífa úr sér allar tennurnar og fá sér falskar til að spara sér bæjarferðir vegna tannviðgerða í framtíðinni. Sagði Eva frá grein sem hún las eftir ítalskan blaðamann sem kom til Íslands. Í greininni lýsir hann því hvernig hann upplifir Reykjavík. Gisti hann á hóteli í Borgartúni sem sagt var í bæklingi að væri í miðbænum. Lýsir hann vonbrigðum sínum við komuna og hvernig hann síðan uppgötvar á óvæntan hátt hjarta borgarinnar í miðbænum. Skilaboð ítalska rithöfundarins Nicola Lecca til Íslendinga voru þessi: "Þið takið sálina úr þessum bæ ef þið rífið gömlu húsin".
Meðal ræðumanna var einnig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hagfræðingur og fréttamaður, sem hélt erindi um efnahagsleg áhrif fegurðar. 
Upphaflegt markmið Sigmundar hafði verið að kanna út frá hagfræðilegu sjónarmiði hvað gerði það að verkum að sumum borgum vegnar efnahagslega betur en öðrum. Niðurstaðan var einföld en skýr; það sem öðru fremur laðar að fólk og fjárfesta er fallegt umhverfi. Á fyrirlestrinum sýndi Sigmundur á afar áhrifaríkan hátt fram á að eftir því sem meiri áhersla er lögð á að varðveita hina menningarsögulegu miðju, þeim mun betur vegnar borgunum.
Máli sínu til stuðnings sýndi hann myndir af miðborgum í Mið- og Austur-Evrópu sem orðið höfðu misjafnlega illa úti í heimsstyrjöldum 20. aldar.  Á tímum kommúnismans var t.d. meira lagt upp úr nýtingarhlutfalli en fagurfræði bygginga og hafði það sem eftir stóð af gömlum, sögulegum miðbæjum oft og tíðum verið jafnað við jörðu og í staðinn reistir steinkumbaldar sem ekki tónuðu á nokkurn hátt við fagurfræðina sem áður réði ríkjum, né nánasta umhverfi. Sem dæmi um illa varðveittar miðborgir þar sem íbúum fækkar þrátt fyrir að atvinnuveitendur hækki launin til að halda fólkinu nefndi Sigmundur m.a. heimabæ heimspekingsins Immanuels Kants, Königsberg, (Kalingrad) í Póllandi og Chemnitz (Karl-Marx Stadt) í fyrrum Austur-Þýskalandi. Sem dæmi um vel varðveittar borgir í efnahagslegri uppsveiflu nefndi hann Prag í Tékklandi og Krakau í Póllandi. Sýndi Sigmundur okkur kort af Prag sem bútað var niður í hverfi eftir fasteignaverði. Í ljós kom að fasteignaverð í grennd við menningarsögulega miðju og áhugaverða staði var a.m.k. tvöfalt hærra en annars staðar í borginni.
Eftir fall Berlínarmúrsins hefur átt sér stað gríðarleg endurskoðun og uppbygging í Mið-Evrópu. Í þeim tilgangi að stemma stigu við fólksflótta og laða að fjármagn hafa skipulagsyfirvöld víða gripið til þess ráðs að rífa þá miðbæjarkjarna sem byggðir voru á tímum Kalda stríðsins og endurreisa þá gömlu.
Sagði Sigmundur að sterk, menningarsöguleg miðja hefði ekki einungis þýðingu fyrir íbúa og atvinnustarfsemi í miðbæjum heldur einnig í úthverfum. Það skiptir því höfuðmáli að borgaryfirvöld hlúi að miðjunni.

- Sem sagt: ef hjartað bilar er voðinn vís.

Kynning Margrétar Harðardóttir, arkitekts Studio Granda, á nýju miðbæjarskipulagi við Lækjartorg var mjög skemmtileg. Skipulagið gerir ráð fyrir að hönnun taki mið af því sem fyrir er. Ljóst er að arkitektarnir hafa hugsað skipulagið út frá heildarmyndinni, þ.e. þeirri atvinnustarfsemi sem almennt þrífst í miðborgum nútímans og því iðandi mannlífi sem skemmtilegar miðborgir hafa upp á að bjóða. Sagði Margrét fólk koma í miðbæinn til að sýna sig og sjá aðra. Ennfremur að deiliskipulag væri ekki gott verkfæri til að skapa gott skipulag þar sem erfitt væri að verja andrúmsloft, tilfinningar, sögu og menningu á grundvelli þess.
Nýtt skipulag miðbæjarins leggur sérstaka áherslu á að vekja miðbæinn til lífs að nýju og er virkilegt tilhlökkunarefni að sjá þessa tillögu verða að veruleika.

Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt og forstöðumaður byggingarlistadeildar Listasafns Reykjavíkur, benti á nauðsyn þess að spor sögunnar fengju að sjást í bæjarmyndinni og kallaði hún eftir hugmyndafræði sem nýst gæti við borgarskipulagsgerð.

Snorri Freyr Sigurðsson, leikmyndahönnuður og formaður Torfusamtakanna, setti fundinn og gerði að umræðuefni þann vanda sem borgarstjórn stendur frammi fyrir vegna fyrri skuldbindinga við lóðaeigendur. Sagði hann að leysa þyrfti hendur borgarstjórnar með því að skapa henni betri verkfæri til að hafa áhrif á þróun miðbæjarins. Fólk úr öllum flokkum hefði áhuga á þróun skipulagsmála en rödd íbúa væru í lagalegu tilliti allt of veik á Íslandi.

Torfusamtökin eiga sérstakan heiður skilinn fyrir að standa að þessum fundi. Hann var í senn skemmtilegur og framúrskarandi uppfræðandi.

SP


101 TÆKIFÆRI - Torfusamtökin funda

Gröfur við ÁlafosskvosTorfusamtökin efna til fundar, í Iðnó næstkomandi laugardag kl. 14.00, um framtíð miðbæjarins undir yfirskriftinni 101 tækifæri.
Hvert ætti gildi og hlutverk byggingararfsins að vera í uppbyggingu Laugavegar og Kvosarinnar?

Meðal frummælanda eru Eva María Jónsdóttir,dagskrárgerðarkona,
Guja Dögg Hauksdóttir forstöðumaður Byggingalistadeildar Kjarvalstaða, Margrét Harðardóttir og Steve Christer arkitektar Studio Granda og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hagfræðingur og fréttamaður .

Opnar umræður, allir velkomnir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband