Umhverfisspjöll í Mosfellsbæ

Undanfarna daga hefur í fjölmiðlum verið fjallað um fyrirhugaða lagningu tengibrautar frá Vesturlandsvegi um Álafossveg að nýju íbúðarhverfi í Helgafellslandi í Mosfellsbæ.  Miklar deilur hafa verið um þann hluta vegarins sem liggja á um Álafosskvos.  Íbúar í kvosinni og margir fleiri íbúar bæjarins hafa mótmælt staðsetningu vegarins m.a.vegna nálægðar við Varmá sem er á náttúruminjaská og þess að vegurinn mun breyta verulega ásýnd kvosarinnar og rýra þá útivistarmöguleika sem þar eru fyrir hendi og fjöldi fólks nýtir sér.  Gripið var til þess ráðs á síðasta ári að stofna samtök, Varmársamtökin, sem beitt hafa sér af krafti gegn legu tengibrautarinnar.

Meirihluti Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur hunsað ábendingar og athugasemdir íbúa Mosfellsbæjar og samtaka þeirra og í raun aldrei gefið kost á því að aðrir möguleikar á legu vegarins væru skoðaðir.  Ein megin röksemd meirihlutans hefur verið að vegurinn hafi verið sýndur í aðalskipulagi frá árinu 1983 og að öllum hafi því mátt vera ljóst að fyrirhugað væri að leggja hann.  Í aðalskipulagi setur sveitarstjórn fram stefnu sína um landnotkun.  Með deiliskipulagi er síðan farið í nánari útfærslu á aðalskipulaginu á tilteknu svæði.  Það segir sig sjálft að aðalskipulag sem samþykkt var fyrir rúmum 20 árum er ekki endilega að öllu leyti í samræmi við hugmyndir manna um landnotkun í dag.  Sérstaklega hefur mat á gildi svæða til útivistar og á menningarlegu gildi staða breyst mjög á síðustu árum.  Það verður að teljast ámælisvert af núverandi meirihluta Mosfellsbæjar að standa fastur í gamaldags hugmyndum um landnotkun og að geta ekki tileinkað sér þá hugmyndafræði að óskert náttúra og menningarverðmæti kunni að vera meira virði en bílvegur. 

Kjósendur Vinstri grænna hljóta líkt og aðrir Mosfellingar að velta því fyrir sér hvað í ósköpunum hafi gerst síðan kosið var síðastliðið vor.  Oddviti flokksins tók heljarstökk upp í ból íhaldsins og fékk að launum forsetatign.  Tign sem honum virðist vera svo annt um að hann er tilbúinn að beygja sig undir stefnu Sjálfstæðisflokksins í flestum málum.  Tengibraut um Álafosskvos er eitt þessara mála. Í kosningabaráttunni notaði Karl Tómasson, efsti maður á lista Vinstri grænna, flest tækifæri sem honum gáfust til að lýsa andstöðu við þessa framkvæmd.  Tilvonandi kjósendur flokksins hljóta að hafa gengið út frá því að hann væri að lýsa stefnu flokksins en ekki einungis sinni persónulegu skoðun.  Eftir kosningar hefur Karl Tómasson einnig látið á sér skiljast að persónulega sé hann á móti tengibrautinni.  Þegar kemur að afgreiðslu málsins í bæjarstjórn Mosfellsbæjar er forseti bæjarstjórnar hins vegar ekki í sæti sínu en í stað hans sestur umhverfisfræðingur sem fyrir hönd VG hefur samþykkt allar tillögur Sjálfstæðismanna um útfærslu tengibrautarinnar og þar með skerðingu á náttúrunni við Varmá.  Vel að merkja umhverfisfræðingurinn og Karl Tómasson eru í sama flokki og því eðlilegt að fólk spyrji sig hvort Karl hafi verið að mæla fyrir hönd VG þegar hann talaði um andstöðu við tengibrautina fyrir kosningar.  Kjósendum VG er vorkunn hafi þeir gengið út frá því að þeir væru að greiða atkvæði gegn umhverfisspjöllum í Álafosskvos.  Númer tvö á lista Vinstri grænna í kosningunum síðastliði vor var Bryndís Brynjarsdóttir.  Í 2. tbl. 2. árgangs Vinstrigræns Sveitunga, blaðs VG, sem kom út í febrúar 2006 var viðtal við Bryndísi.  Þar segir hún:  „Ýmislegt hefur verið gert hin síðari ár til að bæta yfirbragð kvosarinnar en miðað við núverandi deiliskipulag liggur við stórslysi. Það er ótrúlegt ef bæjarfulltrúar ætla að sýna þá skammsýni, miðað við nýtt deiliskipulag, að þrengja svo að kvosinni, meðal annars með tengibraut inn í Helgafellslandið, að töfrar svæðisins verða kæfðir með tröllauknu mannvirki.” 

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir í Leirvogstungu þar sem líkt og í landi Helgafells á að byggja upp nýtt íbúðarhverfi.  Til að tengja nýja hverfið við meginkjarna íbúðarbyggðarinnar í Mosfellsbæ er fyrirhugað að leggja tengibraut í framhaldi af Skeiðholti við gatnamót Skólabrautar að Leirvogsá.  Tengibrautin þverar Varmá, sem eins og áður segir er á náttúruminjaskrá, með aksturs- og göngubrú og Köldukvísl með brú eða ræsi.  Fulltrúar Samfylkingarinnar  lögðu fram tillögu í ágúst á síðasta ári um að fram færi mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Tillagan var felld með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.

Það er því miður ekki hægt að komast að annari niðurstöðu en þeirri að Vinstri grænir í Mosfellsbæ hafi greitt  embætti forseta bæjarstjórnar dýru verði.  Í verðinu var m.a. umhverfisstefna flokksins sem skipt hefur verið út fyrir stefnu Sjálfstæðismanna í þessum málaflokki.  Það er alkunna að á þeim bæ þykir einungis sú náttúra sem ekki er í vegi fyrir framkvæmdum einhvers virði.

Hanna Bjartmars Arnardóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband