22.3.2007 | 09:23
Þörf á aðgæslu við Varmá
Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) gerði í október sl. könnun á gróðri í vegstæði tengibrautar milli Leirvogstungu og Skeiðholts. Niðurstaða rannsóknarinnar er þeim annmörkum háð að á þessum tíma liggja plöntur í vetrardvala og er það tiltekið í skýrslunni. Veiðimálastofnun kannaði fiskgengd og Umhverfisstofnun lagði mat á undirbúningavinnu Mosfellsbæjar og veitti ráðgjöf. Við birtum hér nokkra valda kafla úr skýrslunum þar sem m.a. er fjallað um mikilvægi þess að verktakar sýni aðgát og leiðbeini starfsmönnum sínum áður en framkvæmdir hefjast:
Náttúrufræðistofnun Íslands bendir á að þar sem Varmárósar eru friðlýstir og áin í heild á Náttúruminjaskrá ber að umgangast hana og vatnasvið hennar af fyllstu virðingu og nærgætni. Við þéttingu byggðar verða sífellt meiri líkur á að vatn í ánni spillist, í hana safnist rusl og að árbakkarnir verði fyrir skemmdum vegna ágangs manna eða vinnuvéla. Á þeim stutta kafla við Varmá sem skoðaður var vegna gróðurrannsókna haustið 2006 var áberandi hversu mikið drasl var í ánni og við árbakkana. NÍ telur brýnt að hafist verði handa sem fyrst við að hreinsa rusl úr ánni.
Friðað svæðið við Varmárósa er skammt utan við fyrirhugað vegstæði og getur auðveldlega orðið fyrir áhrifum af völdum framkvæmda ef verktakar sýna ekki aðgát við verkið. ... .
Umhverfisstofnun tekur undir það álit NÍ að brýnt sé að hreinsa Varmá, ekki einungis við fyrirhugað framkvæmdasvæði heldur allsstaðar í ánni og við hana þar sem þörf er á. (Bréf 22. des.)
Búsvæði fitjasefs í Varmárósum er eitt af náttúrudjásnum Mosfellsbæjar. Áríðandi er að mikilvægi svæðisins í náttúru landsins sé kynnt íbúum t.d. með kynningarspjöldum, á heimasíðu bæjarins og í skólum. Með því móti eru minni líkur á að svæðið verði fyrir raski vegna ónógra upplýsinga. (Skýrsla NÍ. okt. 2006, bls. 9)
Veiðimálastofnun gerði ennfremur rannsóknir á fiskgengd í Varmá þar sem fram kemur að gæta þurfi ítrustu varúðar komi til framkvæmda á þessu svæði.
Að lokum er rétt að benda framkvæmdaaðilum á að gera þá starfsmenn sem koma til með að vinna við þessa framkvæmd meðvitaða um ábyrgð þeirra gagnvart lífríkinu með fræðslu eða vettvangsferð því umhverfisslys verða sjaldan af beinum ásetningi heldur vegan aðgæsluleysis sem oftasta á rætur að rekja til ónógrar þekkingar.
Það lífríki og þar með fiskstofnar sem nýta sér vist í Köldukvísl og Varmá er dýrmætt fyrir svæðið í heild sinni. Fjölbreytt lífríki gefur útivist á svæðinu aukið gildi og óröskuð vatnakerfi eru einnig mælikvarði á heilbrigt umhverfi.
Í dag rennur mikið magn af aur og drullu frá framkvæmdasvæði í Helgafellshverfi út í Varmá. Stofnar þetta lífríki árinnar í mikla hættu. Það sætir furðu að þetta skuli gerast í ljósi þeirra ábendinga sem Mosfellsbær fékk frá ofangreindum stofunum áður en framkvæmdir hófust við tengibraut um Álafosskvos.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:42 | Facebook
Bloggvinir
- laugardalur
- valgerdurhalldorsdottir
- omarragnarsson
- gbo
- graenanetid
- torfusamtokin
- landvernd
- veffari
- ingibjorgstefans
- hlynurh
- ingibjorgelsa
- ibb
- bustadahverfi
- sylviam
- vefritid
- annalilja
- hildurhelgas
- tbs
- bergursig
- hlidar
- salvor
- malacai
- stebbifr
- bjarnihardar
- gattin
- harring
- baldvinj
- kreppan
- thorsaari
- johannbj
- larahanna
Myndaalbúm
Tenglar
Álafosskvos
Starfsemi í Álafosskvos
- Sigur Rós Hljómsveit
- Álafossbúðin Verslun með listmuni, ullarvörur og fleira
- Ásgarður Handverksverkstæði
- Dieter Roth akademían Listaakademía
- Hildur Margrétardóttir Myndlistarkona
- Marisa Navarro Arason Ljósmyndari
- Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Myndlistarskóli fyrir börn og fullorðna
- Ólöf Oddgeirsdóttir Myndlistarkona
- Palli hnífur Hnífagerðarmaður
- Valgerður Bergsdóttir Myndlistarkona
Úr fjölmiðlum
Þættir og fréttir um okkar mál.
- Viðtal við SP á mbl.is
- Mbl.is 8.3.'07 Úrskurður skipulagsstofnunar
- Gamla bloggið
- Kolfinna á InnTV - þáttur um skipulagsmál Rætt við Sigrúnu Pálsdóttur, VS og Valgerði Halldórsdóttur, Sól í Straumi
Náttúruvernd
Umhverfisvernd
ÍBÚINN - rit VS
Gott lesefni
Athugasemdir
Fróðlegt að sjá úttektir þessara aðila. Eru einhverjar upplýsingar aðgengilegar hjá bænum um Fitjasefið? Og hvernig er hreinsun árinnar háttað - það er alltaf eitthvað rusl í henni sýnist manni.
Sigrún G (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 14:16
Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar er stutt yfirlit um fitjasefið. Það fannst í fyrsta sinn á Íslandi 1976 í Varmárósum liðlega 500 m utan við fyrirhugað vegstæði. Það var friðlýst 1978. Fitjasef er á válista og í flokki tegunda sem eru í bráðri hættu. Varmárósar voru friðlýstir 1980 og eru mörk friðlýsta svæðisins í grennd við vegstæði tengibrautarinnar.
Ítarleg lýsing á fitjasefinu birtist í Náttúrufræðingnum 1977. Greinin er eftir Arnþór Garðarsson.
Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 17:47
Einar Óli (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 01:53
Aurburður kæfir allt líf í ánni þar með talinn fiskinn. Áin er með sóðalegri ám á Íslandi það er rétt. Ástand hennar er til skammar fyrir bæjarfélagið en segir meira um metnaðarleysi bæjaryfirvalda en gildi Varmár sjálfrar. Hún er á náttúruminjaskrá og eins og segir í skýrslu sérfræðinga á að umgangast hana af fyllstu virðingu og nærgætni.
Ummæli þín eru aldeilis á háu menningarstigi Einar Óli.
Sigrún P (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 09:12
Sem ráðgjafi, með áratuga langa reynslu af ráðgjöf, langar mig að svara Einari Óla í fáeinum orðum.
Í fyrsta lagi, þá eru verk ráðgjafanna alls ekki yfir gagnrýni hafin. Allir sem starfa við ráðgjöf vita að betur sjá augu en auga og "egó" hönnuða má aldrei standa í vegi fyrir því að nýjum og ólíkum sjónarmiðum sé velt upp. Það er enginn faglegur áfellisdómur yfir fagfólkinu sem vann að verkefninu þó sjónarmið Varmársamtakanna séu skoðuð með opnum huga og (sjálfboða)vinna þeirra þar með notuð framtíð bæjarfélagsins til framdráttar. Þvert á móti er það nauðsyn fyrir ráðgjafa að hafa sjálfstraust og nægjanlegt vit til þess að þekkja takmörk sín. Allir eiga sín takmörk, hvort sem þeir finna það sjálfir eða ekki.
Ástæða þess að Varmársamtökin beina spjótum sínum að núverandi bæjarstjórn er skv. mínum skilningi sú að þeir stjórna núna. Allir vita að mikið af skipulagsvanda sveitarfélagsins er arfur frá fyrri tímum og því miður hefur Mosfellsbær trúlega enga sérstöðu í þeim efnum. Skipulagsferlið var miklu einfaldara og um leið takmarkaðra hér áður fyrr og sum bæjarfélög í nágrenni Reykjavíkur (og annars staðar) munu seint bíta úr nálinni með þau skipulagsslys sem orðið hafa. Vonandi eru þeir tímar liðnir að "athafnasamir" verktakar fái að vaða upp nánast stjórnlaust.
Álafosskvosin er ekki nafli alheimsins, en ef rétt er á málum haldið hefur hún mjög mikla framtíðarmöguleika. Ég vona að Mosfellingar beri gæfu til þess að gera henni hátt undir höfði.
Höfundur er náttúruverndarsinni og flokksbundinn í sjálfstæðisflokki.
Með kveðju,
Valdi Sturlaugz
Valdi Sturlaugz (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 13:41
Komdu sæl Hjördís
Fyrst þegar þú skrifaðir, þá hélt ég að þú hefðir misst þig yfir strikið í vörn fyrir vin þinn Karl Tómasson. En svo kemur í ljós að þú hefur fest í einhverjum leiðindum, sem ékki næst að vinda ofan af. Það er með öllu óskiljanlegt hvaða málstað þú ert að verja. Þú virðist algjörlega óhæf til að taka þátt rökrænni umræðu um þróun bæjarfélagsins. Fyrst hamast þú á samtökunum, talar um það endalaust sem einhverja gefna staðreynd að samtökin sýni fólki virðingarleysi og ókurteisi. Reynir að tortryggja þau á alla vegu. Leggst síðan á enn lægra plan með því að reyna að uppnefna þau einhver Samfylkingar-Framsóknar samtök (jú, voru það ekki fýlupúkarnir úr VG líka).
Svo þegar maður skrifar skynsamlega athugasemd og til að útskýra fyrir þér að hann passar ekki inn í stóru samsæriskenninguna þína með því að taka fram að hann sé Sjálfstæðismaður, þá telur þú að það sanni endanlega þinn punkt um að samtökin séu pólitísk og þar með slæm! Þú veltir fyrir þér hvort að hann sé í samtökunum til þess að geta látið hann passa betur inn í flokkun þína og fordóma. Þér til upplýsingar þá veit ég ekki betur en hér sé bara maður með áhuga á að njóta áfram þess besta sem Mosfellsbær hefur upp á að bjóða.
Kæri fyrrum nágranni, sem ég hef aldrei sýnt annað en kurteisi. Þig bið ég nú, að hætta þessum leiðindum og niðurrifi. Til þess að eiga möguleika á að láta lýðræðið virka þá þarf umræðan að vera málefnalegri. Veit ekki hvaða hagsmuni þú ert að verja, vonandi ekki pólitíska, eða hvað? Allavega, finndu þínum krafti uppbyggjandi farveg frekar en að vera að ata fólk auri, sem ekkert hefur gert á þinn hlut. Bið þig um að sleppa því að svara þessu. Bara hugsa málið.
Hafðu það síðan ávallt sem best
Gunnlaugur B Ólafsson, 23.3.2007 kl. 22:14
Kæri Gunnlaugur
Lestu svarið mitt til Valda betur, þá sérðu að ég tek undir með honum í meginatriðum en útskýri líka fyrir honum í leiðinni um hvað gagnrýni Einars Óla snýst. Það er mjög undarlegt að maðurinn sjái ástæðu til að útskýra hvar hann stendur í pólitík þar sem hann er að tala sem ópólitískur þátttakandi. Það er staðreynd.
Liðsmenn samtakanna hafa sýnt fólki sem er ekki á máli samtakanna bæði virðingarleysi og ókurteisi. Það er líka staðreynd. Nýjasta útspilið í þá veru kemur fram í þessu svari þínu þar sem þú heldur því blákalt fram að umræðan hér sé ekki málefnaleg vegna minna skrifa og það standi lýðræðinu hér fyrir þrifum. Þetta er móðgun við alla sem aðhyllast frjáls skoðanaskipti og lýðræðislega hugsjón en er mjög algengt þegar einn aðili telur sig yfir annan hafinn en ekki lengur jafningja. Þetta er líka mjög algengt sjónarhorn í málflutningi liðsmanna samtakanna.
Ég sagði að samtökin samanstæðu af fýlupokaflokkunum tveimur og flóttamönnunum úr VG en ég minnist þess ekki að hafa útilokað aðra pólitískt þenkjandi menn í samtökunum. Ein aðaláhersla mín hefur verið sú að benda á að samtökin láta stjórnast af pólitískum skoðunum liðsmanna sinna, bæði leynt og ljóst, og þar fara Samfylkingin og Framsókn fremst í flokki. Ég hef líka sagt að þennan fnyk getið þið ekki losnað við sama hvað þið reynið. Einstaka undanvillingar úr röðum annarra flokka slá ekki á þann fnyk. Hvaða tilgangi þjónar t.d. svona færsla í formi hálfkveðinnar vísu eins og þessi um greinargerðina um byggðina hér annars staðar og ofar á síðunni? Er ekki verið þar að reyna að pota í eitthvað og einhverja sem ekki hentar samtökunum? Hverju ætlið þið að ná fram þar? Það sem segir í þessari greinargerð er eitthvað sem staðið hefur verið við og það veist þú jafnvel og ég Gunnlaugur, þú vilt bara ekki sjá það. Þú vilt ekki sjá að þessi bær er í raun sú sveit í bæ sem til stóð að hann yrði og ekkert yfir því að kvarta í raun. Þannig að eini tilgangurinn sem ég sé með birtingu þessa brots úr greinargerðinni er af pólitískum rótum runnin.
Sá eini sem hefur talað um samsæri af alvöru hér ert þú, Gunnlaugur, og enginn annar. Ég hef aðeins talað um hvernig samtökin koma mér fyrir sjónir og þér að segja þá hafa liðsmenn þeirra verið iðnir við að rökstyðja skoðun mína á samtökunum á einn eða annan hátt, því er nú í raun ver og miður fyrir samtökin.
Tekurðu það sem persónulega ókurteisi í þinn garð að ég skuli gagnrýna samtökin? Ég hef einu sinni sagt við þig í svari til þín að ég undri mig á sumri framgöngu þinni í þessu máli en ég hef ekki sýnt þér persónulega ókurteisi. Það veistu vel, en þú hefur ekki verið eins kurteis við mig og þú vilt vera að láta og jafnvel farið vísvitandi með rangt mál á hendur mér í svörum þínum.
Ef að lýðræðið á að virka Gunnlaugur þá þýðir það að allar skoðanir verða að fá að koma fram. Þó að mínar skoðanir henti ekki samtökunum er ekki þar með sagt að þær megi ekki heyrast, þetta hef ég sagt áður. Skrýtið að heyra skoðanir mínar kallaðar raus, þvaður, leiðindi og niðurrif, en það sýnir aðeins enn og aftur hvað liðsmenn samtakanna eiga í miklum vandræðum með fólk sem er þeim ekki að skapi og þarna ýttir þú enn og aftur undir þá skoðun mína.
Þarf ég að hafa einhverra hagsmuna að gæta til þess að hafa skoðun á bæjarmálunum? Veistu það að segja svona er eitt versta dæmi um hroka og yfirlæti sem ég hef orðið vitni að í þessari umræðu allri. Er ég sem sé ekki gjaldgeng í lýðræðislegu samfélaqi af því að þér henta ekki skoðanir mínar?
Enn og aftur undra ég mig á afhverju þið eruð svona óð og uppvæg í að losna við mig af síðunni ykkar en ég held að sú staðreynd tali sínu máli sjálf og sýni hvað best fram á þankaganginn hjá liðsmönnum samtakanna.
Hafðu það síðan sjálfur ávallt sem best
Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 23:30
Mengun í Varmá - fyrr og nú
Já Varmá var áður skólpleiðsla bæjarins en síðasta sumar var fiskur í ánni sem sýnir að mengunin var ekki veruleg þá -sem betur fer - miklar framfarir hafa orðið í skólpmálum á Íslandi - það sama er ekki að segja um þéttingu byggðar því miður enda nýrra af nálinni - hins vegar er mikil þörf á málefnalegri umræðu um skipulagsmál og þau hafa því miður mikið með pólitík að gera. Ég vona satt best að segja að þeir sem hafa áhuga og vit á þeim málum sem við erum að fjalla um sjái sér fært að blanda sér í umræðuna þrátt fyrir ýmislegt skrítið hér innan um.... orð eru til alls fyrst en þau þurfa að sjálfsögðu að snúast þá um - hér - umhverfismál - þar eru undir skipulagsmál, náttúruvernd o.s.v. Valdi - það var gaman og fróðlegt að lesa klausuna þína um ráðgjafa - hef oft spekulerað eitthvað svipað - held það skipti miklu máli að vita sín takmörk - t.d. hvar sé gott að leita samvinnu frekar en vinna einn - Varðandi varmann í Varmá - hver veit nema einhvern tíma í framtíðinni verði hann endurheimtur að einhverju leyti - hver veit????????
Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 23:31
Ég get nú bara ekki orða bundist yfir dónaskapnum í Gunnlaugi gagnvart Hjördísi og verð að segja að ég er sammála Hjördísi í svari hennar til Gunnlaugs. Hvers á líðræðið að gjalda ef það er ekki ætlað öllum?
Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 00:03
Sæl aftur Hjördís
Bað þig reyndar að hugsa áður en þú myndir svara. En allavega ég hef nokkrum sinnum beðið þig um að gera grein fyrir því hverjar skoðanir þú hefur á þróun bæjarins. Hvar þú vilt staðsetja græn svæði, umferðarmannvirki, útivist? Hvernig vilt þú standa að vernd söguminja og náttúruvernd? Vissir þú að í aðalskipulagsvinnu hefur verið rætt um að rífa Brúarland? Ert þú hlynnt því eða andvíg? Ráðgert er að staðsetja mislæg gatnamót á tveimur stöðum í Mosfellsbæ, af því að það þarf að vera nægjanleg fjarlægð milli þeirra, hvar finnst þér að þau eigi að vera? Ef valið stæði um að leggja tengibraut um Álafosskvos og meðfram Varmá eða að þvera Varmá við Álanes hvorn kostinn lýst þér betur á? Finnst þér að Álafosskvos henti vel fyrir söguminjasafn og útimarkaði? Hvað finnst þér um svifryksmengun yfir kvosina sem stendur svona lágt og í átt að skólasvæðinu ef tengibrautin fer undir Vesturlandsveginn, eins og gert er ráð fyrir á aðalskipulagi? Hvað finnst þér um þann möguleika að Mosfellsbær verði útivistarbærinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem að aðgengilegar og vel merktar hringleiðir út frá Varmársvæðinu liggja á fellin í kring?Hvað finnst þér um niðurstöðu úrskurðanefndar um skipulags- og byggingarmál varðandi tengibrautina við Helgafellshverfi? Hvað finnst þér um niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að Helgafellsvegur þurfi að fara í umhverfismat áætlana? Hvað finnst þér um að bæjarstjórn hafi skipt um skoðun varðandi þörf á umhverfismati fyrir Tunguveg eftir kæru Varmársamtakanna til Umhverfisráðuneytis?
Þú, sem mest tjáir þig hér á svæðinu okkar virðist ekki hafa neina skoðun á öllum þeim brýnu viðfangsefnum sem að samtökin eru að fást við. Það er verið að setja þennan vef upp til að við fáum fram umræður um þessi mál og önnur sem hver og einn getur tekið upp og brenna á bæjarbúum. Vefurinn var ekki settur upp fyrir frjálsa dreifingu á einhverju skítkasti. Vil benda þér á að ef þú finnur pólitískan fnyk, þá berst lykt ekki með tölvupósti, þannig að hann hlítur því að vera heimatilbúinn.
Gunnlaugur B Ólafsson, 24.3.2007 kl. 00:33
Mosfellingar góðir og aðrir velunnarar grænna svæða og menningarminja í þéttbýli - Hvar vilt þú staðsetja græn svæði, umferðarmannvirki, útivist? Hvernig vilt þú standa að vernd söguminja og náttúruvernd? Vissir þú að í aðalskipulagsvinnu hefur verið rætt um að rífa Brúarland? Ert þú hlynnt því eða andvíg? Ráðgert er að staðsetja mislæg gatnamót á tveimur stöðum í Mosfellsbæ, af því að það þarf að vera nægjanleg fjarlægð milli þeirra, hvar finnst þér að þau eigi að vera? Ef valið stæði um að leggja tengibraut um Álafosskvos og meðfram Varmá eða að þvera Varmá við Álanes hvorn kostinn lýst þér betur á? Finnst þér að Álafosskvos henti vel fyrir söguminjasafn og útimarkaði? Hvað finnst þér um svifryksmengun yfir kvosina sem stendur svona lágt og í átt að skólasvæðinu ef tengibrautin fer undir Vesturlandsveginn, eins og gert er ráð fyrir á aðalskipulagi? Ræðum þetta, notum málfrelsið og reynum að finna góðar lausnir sem flestir geta fallist á
Sigrún Guðm. (IP-tala skráð) 24.3.2007 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.