Umhverfismat áætlana eða umhverfismat framkvæmda? - Eða hvoru tveggja?

nullÍ liðinni viku fóru fulltrúar í stjórn Varmársamtakanna á fund með skipulagsstjóra, Stefáni Thors og bæjarstjóra, Haraldi Sverrissyni o.fl. Tilefni fundarins var að ræða hvers vegna Tunguvegur (vegur sem tengir Leirvogstunguhverfi við Skeiðholt og Skólabraut) var ekki settur í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eins og bæjarstjórn var búin að ákveða sl. vor.
Málavextir eru þeir að Varmársamtökin kærðu 29.01 2007 til umhverfisráðherra þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að Tunguvegur skyldi ekki háður mati á umhverfisáhrifum framkvæmda en vegurinn fer m.a. yfir hverfisverndarsvæði í grennd við friðlýsta ósa Varmár sem er á náttúruminjaskrá. Í kjölfar kærunnar ákvað bæjarstjórn Mosfellsbæjar að setja veginn í mat þrátt fyrir fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar um að það væri ekki nauðsynlegt, þó að í áliti stofnunarinnar segði að Tunguvegur hefði talsverð umhverfisáhrif. Bærinn og ráðuneytið fóru þess síðan á leit við Varmársamtökin að kæran yrði dregin tilbaka og urðu samtökin við því í þeirri trú að vegurinn færi í mat.
 
Fyrir stuttu fréttum við síðan á skotspónum að Tunguvegur ætti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Þegar farið var að kanna málið kom í ljós að skipulagsstjóri hafði þann 29.06 2007 sent Mosfellsbæ bréf þess efnis að erfitt væri að draga fyrri stjórnvaldsákvörðun til baka. Þess í stað lagði hann til að fram færi ítarlegt umhverfismat áætlana með tilheyrandi umhverfisskýrslu sem embættið hefði eftirlit með og íbúar og samtök gætu gert athugasemdir við og Mosfellsbær væri síðan umsagnaraðili um.
Eitt af því sem skipulagsstjóri segir að ávinnist með gerð umhverfisskýrslu, sbr. lög um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 er að gera þarf grein fyrir heildaráhrifum framkvæmdarinnar, bera þarf saman mismunandi valkosti og kanna samlegðaráhrif við aðrar skipulagsáætlanir. Eftir þessu vorum við m.a. að slægjast þegar við sendum inn kæruna til umhverfisráðherra þó á grundvelli annarra laga væri.
Allt er þetta gott og blessað en eins og fulltrúar Varmársamtakanna bentu á á fundinum í vikunni er okkar samþykki fyrst og fremst háð því hvort hægt sé að treysta bæjaryfirvöldum til að vinna umhverfismatið (áætlana) af trúmennsku. Það sem mælir gegn því trausti er að fyrir liggur umhverfisskýrsla um Helgafellsbraut sem vinna átti skv. lögum um umhverfismat áætlana sem ber þess ótvíræð merki að vera unnin eftir ströngum fyrirmælum verkkaupa sem er Mosfellsbær. Rangt er farið með staðreyndir í skýrslunni og þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir Varmársamtakanna til að koma leiðréttingum á framfæri hefur þeim alfarið verið hafnað. Ekki er gerð grein fyrir áhrifum tengibrautarinnar á t.d. útivistar- og íþróttasvæði og miðbæ Mosfellsbæjar, ekki haft samráð við íbúa og samtök og valkostum stillt þannig upp að þeir þjónuðu sem best fyrirætlunum bæjaryfirvalda. Samlegðaráhrif við aðrar skipulagsáætlanir voru m.a. að engu hafðar í skýrslunni en deiliskipulag Helgafellsbrautar leiðir til mikilla breytinga á deiliskipulagi Álafosskvosar, útivistar- og íþróttasvæðis og miðbæjar. Þess utan vorum við ekki einu sinni upplýst um að málið hefði tekið aðra stefnu en okkur var lofað.
 
Ef umhverfismat áætlana er framkvæmt af trúmennsku er það gott verkfæri til að meta heildarumhverfisáhrif Tunguvegar á þau hverfi/deiliskipulög sem vegurinn fer um.  Ef við samþykkjum þessa tillögu missum við hins vegar þann kærurétt til þriðja aðila (Umhverfisráðuneytisins) sem við nú höfum en skv. upplýsingum Umhverfisráðuneytisins getum við lagt inn kæruna aftur. Við vitum hins vegar ekki hvort ráðherra úrskurðar okkur í vil fyrirfram. Tilgangur kærunnar var ekki síst að láta meta áhrif framkvæmdarinnar sjálfrar á náttúruna í Leirvogi við friðlýsta ósa Varmár. Sem sagt lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda taka fyrst og fremst mið af framkvæmdinni sjálfri á meðan umhverfismat áætlana er til þess ætlað að setja skipulagsáætlanir í stærra samhengi. Lítil reynsla er komin á framkvæmd laga um umhverfismat áætlana og í ljósi þeirrar skýrslu sem Mosfellsbær lét vinna í tengslum við Helgafellsbraut erfitt að átta sig á réttarbótinni sem lögin áttu að leiða af sér.

Á fundinum með bæjarstjóra kom fram að Tunguvegur ætti ekki eingöngu að tengja Leirvogstunguhverfið við miðbæinn heldur einnig athafna- og íþróttasvæðið á Tungubökkum. Það eru nýjar fréttir þar sem það er ekki tekið með í útreikninga á umferðarþunga.

Góðir Mosfellingar. Þið getið komið ykkar skoðun á framfæri á bloggi samtakanna: www.varmarsamtokin.blog.is Eins er hægt að senda póst á varmarsamtokin@gmail.com eða hringja í stjórnarmeðlimi.

Sum sé umhverfismat áætlana eða umhverfismat framkvæmda? Eða kannski bara hvoru tveggja? - sem væri náttúrulega umhverfisvænsti kosturinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband