Á flótta undan málefnalegri umræðu

Ofan ÁlafossEitt helsta hugðarefni forseta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, Karls Tómassonar, virðist vera að koma höggi á fjölmennustu umhverfisverndar-samtök bæjarins og þó víðar væri leitað, Varmársamtökin. Og af hverju skyldi það vera? Er hann ekki vinstri grænn? Ætti hann ekki einmitt að leggja umhverfisverndarsamtökunum lið? Nei, í stað þess að styðja þann málstað sem hann þó sjálfur boðaði fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar gerir hann allt sem í hans valdi stendur til að ófrægja samtökin.

Fyrir stuttu náði krossferð forsetans og vina hans slíkum hæðum á blog.is að ritstjórnin ákvað að nú væri nóg komið og birti IP tölur bloggara. Í ljós kom við birtinguna að óhróðurinn sem komið hafði að því er virtist frá fjölda fólks átti upptök sín í 3-4 tölvum sem allar tengdust forsetanum og vinahópi hans. Úr tölvu Karls var t.d. skrifað undir a.m.k. 10 nöfnum. Eftir birtinguna var hljóðlátt um stund og kviknaði jafnvel von um að þessi lýðræðislega kjörni bæjarfulltrúi vaknaði til vitundar um stöðu sína og ábyrgð en því er öðru nær. Maðurinn tók sér frí og kom síðan tvíefldur til baka og hélt áfram fyrri iðju, nú undir réttu nafni.

Þegar Karl Tómasson var inntur eftir því hverju þessi framkoma sætti svaraði forsetinn því til að hann og fjölskylda hans hefðu orðið fyrir persónulegum árásum. Óharðnaður unglingur á heimilinu hefði fengið nóg og því ráðist með óhróðri á Varmársamtökin. Viðtal var tekið við Ragnheiði Ríkharðsdóttur bæjarstjóra þar sem hún lýsti yfir samúð sinni með Karli og fjölskyldu. Sá hængur var hins vegar á málflutningi þeirra beggja að hvergi kom fram hverjir það voru sem ofsóttu forsetann. Bæði Ragnheiði og Karli láðist að geta þess að Varmársamtökin komu þar hvergi nærri. Þar sem hefndaraðgerðirnar beindust gegn samtökunum lá beinast við að þeir sem ekki vissu hið rétta í málinu ályktuðu að þau hefðu staðið fyrir ósómanum.

Í þeim tilgangi að fá sannleikann fram í dagsljósið sendi stjórn Varmársamtakanna Karli Tómassyni og félögum áskorun um að axla ábyrgð á nafnlausum aðdróttunum í garð samtakanna. Einnig var þess óskað að þeir bæðust afsökunar á aðförinni. Ekki var orðið við þessari áskorun og ákvað stjórnin að birta afrit af bloggfærslum þeirra félaga á bloggi samtakanna, dags 1. maí. Ragnheiði bæjarstjóra hafði áður verið send samantektin til að upplýsa hana um hverjir væru hinir raunverulegu gerendur í málinu. Hefur hún enn sem komið er engin viðbrögð sýnt þó vonandi standi það til bóta.

Vel má vera að Karl Tómasson hafi verið ofsóttur af einhverjum og er það miður. Ljóst er að þær árásir voru ekki í nafni samtakanna. Enginn úr okkar stjórn hefur veist persónulega að Karli  né lagt stund á nafnlausar bloggfærslur.

Varmársamtökin eru íbúa- og umhverfisverndarsamtök. Vinstri græn skilgreina sig sem umhverfisverndarflokk með áherslu á íbúalýðræði. Umhverfisverndarsamtök hljóta að gagnrýna umhverfisverndarflokk sem svíkur umhverfisstefnuna að loknum kosningum. Karl Tómasson varð forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í kjölfar sinna kosningaloforða. Honum ber skv. stefnu Vinstri grænna að vernda náttúruperlur bæjarins; skv. sömu stefnu og sveitarstjórnarlögum að gæta hagsmuna fólksins sem hér býr.

Varmársamtökin skora á Karl Tómasson að sýna embætti sínu og bæjarbúum þá virðingu að biðja samtökin afsökunar á ómaklegri aðför hans og félaga hans að starfi samtakanna. Markmið Varmársamtakanna er að standa vörð um þau einstöku lífsgæði sem nálægðin við náttúru og sögulegar rætur Mosfellsbæjar veitir bæjarbúum. Æskilegt væri að sameinast um það göfuga verkefni í málefnalegri umræðu.
VS

Greinin birtist í Mosfellingi 11. maí


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband