Á flæmingi undan lögunum

Haft var eftir bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Ragnheiði Ríkharðsdóttur í fréttum í kvöld að lögmaður bæjarins hefði komist að þeirri niðurstöðu að þar sem umhverfisráðherra hafi úrskurðað að lagning tengibrautar um Álafosskvos "bryti ekki í bága við náttúruminjaskrá" hafi Mosfellsbæ ekki borið skylda til að óska eftir umsögn Umhverfisstofnunar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

Bæjarstjóri fer með rangt mál. Úrskurður Umhverfisráðuneytisins snerist ekki um hvort lagning tengibrautar "bryti í bága við náttúrminjaskrá". Hann varðaði kæru Varmársamtakanna á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að vegagerð í Álafosskvos þyrftu ekki að fara í umhverfismat.

Nú hefur komið í ljós að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur staðið að hönnun og
heimilað tengibraut sem þjóna á um og yfir 10 000 bílum á sólarhring steinsnar frá vatnsfalli sem vegna sérstöðu sinnar er á náttúrminjaskrá. Þetta hefur bæjarstjórnin gert án þess að gæta að lögskipuðu ferli sem ætlað er að koma í veg fyrir náttúruspjöll. Hlutverk Umhverfisstofnunar er að gæta þess að friðhelgi landssvæða sem eru á náttúruminjaskrá sé ekki rofin.

Nú hefur verið upplýst að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur ekki leitað eftir lögbundinni umsögn Umhverfisstofnunar um framkvæmdir í Álafosskvos.
Og hver eru viðbrögð bæjarstjórnar þegar hún eru minnt á þessa skyldu?
Jú, þau eru að tefla fram skoðun lögmanns á yfirsjón sinni til að freista þess að gefa athöfnum sínum blæ lögmætis. Viðbrögð bæjaryfirvalda eru táknræn fyrir framkomu þeirra í þessu máli frá upphafi, þ.e. "finnum leiðir til þess að komast fram hjá þessu náttúru- og umhverfisverndarkjaftæði".

Eftir stendur að Umhverfisstofnun hefir vakið athygli á því að bærinn hefur farið fram í þessu máli án þess að gætt hafi verið þeirra lagaákvæða sem gilda um framkvæmdir á svæðum sem eru á náttúruminjaskrá.

Í eyrum þeirra sem láta sér annt um Álafosskvos hljómar hin nýstárlega túlkun bæjarstjóra á stjórnsýslureglum eins og ávísun á áframhaldandi umhverfisspjöll við Varmá. En á meðan ekki hefur verið leitað lögbundinnar umsagnar Umhverfisstofnunar fyrir rofi á friðhelgi Varmár stendur sú friðhelgi óröskuð. Allur gröftur og landröskun í Álafosskvos án þess að gætt hafi verið ákvæða þeirra laga sem Umhverfisstofnun ber að framfylgja er lögleysa fyrir utan að vera siðferðilega óverjandi.

Markmið laga og reglugerða á sviði umhverfis- og skipulagsmála er að vernda nátturuperlur og menningasöguleg svæði sem skipta þjóðina máli.

Markmið Varmársamtakanna er að standa vörð um sama málstað.

Sigrún Pálsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum
Sími 866 9376

P.S.

Í UPPHAFI SKYLDI ENDINN SKOÐA

AF FRAMKVÆMDASVÆÐI HELGAFELLSBYGGINGA RENNUR
NÚ AUR OG DRULLA Í STRÍÐUM STRAUMUM ÚT Í VARMÁ. EFTIRLIT ER EKKERT OG GREINILEGT AÐ EKKI HAFA VERIÐ GERÐAR RÁÐSTAFNIR TIL AÐ KOMA Í VEG FYRIR UMHVERFISSPJÖLL. HÆTTA ER Á AÐ ALLUR FISKUR OG GRÓÐUR KAFNI Í ÁNNI.
VARMÁRSAMTÖKIN HAFA GERT HEILBRIGÐISEFTIRLITI KJÓSARSVÆÐIS VIÐVART.

Grein af gamla blogginu: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=news


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband