Umhverfisstofnun stendur við alvarlegar viðvaranir sínar

Í dag áttu Varmársamtökin áhugaverðan fund með forstjóra og sérfræðingum Umhverfisstofnunar þar sem fram kom að stofnunin stendur við þær alvarlegu athugasemdir sem hún í tvígang gerði við deiliskipulag tengibrautar um Álafosskvos en umsagnirnar voru unnar að beiðni Skipulagsstofnunar og síðan Umhverfisráðuneytisins. Á fundinum staðfestu fulltrúar Umhverfisstofnunar það mat Varmársamtakanna að hvorki sveitarfélög né ráðuneyti væru þess megnug að fella úr gildi lög um náttúruvernd eins og skilja má á yfirlýsingu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur bæjarstjóra í Mosfellsbæ í dag.

Umhverfisstofnun benti í umsögnum sínum um lagningu tengibrautar um Álafosskvos ítrekað á að Mosfellsbæ bæri að fara að lögum um náttúruvernd. Varmá er frá upptökum til ósa á náttúruminjaskrá og eru ósar hennar auk þess friðlýstir. Þar sem framkvæmdasvæðið liggur að ánni sem rennur eðli málsins samkvæmt í sjó við friðlýsta árósa Varmár í Leirvogi ber Mosfellsbæ að leita umsagnar Umhverfisstofnunar áður en gefið er leyfi til framkvæmda við Varmá.

Bagalegt er til þess að vita að bæjarstjóri Mosfellsbæjar skuli leggja allt kapp á að sniðganga lög um náttúruvernd en markmið þeirra er háleitt, þ.e. að koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Engin mótvægisaðgerðaáætlun var unnin af Mosfellsbæ í aðdraganda framkvæmdanna í Helgafellslandi, frekar en endranær. Af hverju var sérfræðingum ekki falið að vinna slíka áætlun? Aur og drulla rennur nú í stríðum straumum frá framkvæmdasvæði Helgafellsbygginga í Varmá. Í leysingum um síðustu helgi tók áin á sig lit jökulsár. Afleiðingar þessa aurburðar eru súrefnisskortur sem kæfir líf í ánni. Hefði ekki verið skynsamlegra að leita sér ráðgjafar til að koma í veg fyrir þessi umhverfisspjöll?
Að mati Varmársamtakanna er tími til kominn að bæjarstjóri Mosfellsbæjar láti sér segjast og fari að dæmi Garðbæinga sem leituðu sér ráðgjafar í umhverfismálum þegar byggð við Urriðavatn var skipulögð. Nágrönnum okkar er greinilega öðruvísi farið enn Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Þeir láta sér annt um náttúruna og gerðu það eina rétta við undirbúning framkvæmda, þ.e. að leita til sérfræðinga til að útiloka möguleikann á meiriháttar umhverfisslysi fyrirfram.

Náttúruspjöll eru nú það sem koma skal í Mosfellsbæ! Hvílík skammsýni!

Grein af gamla blogginu: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=news Eftirfarandi athugasemd er þaðan:

Jón Sævar Jónsson skrifaði
Þessi umræða er öll nokkuð merkileg. Ljóst er að aðkoma að fyrirhuguðu byggingarsvæði hefur verið á skipulagi um mjög langt skeið EN það sem hefur breyst er að græðgin hefur tekið völdin. Þeir sem keyptu landið vilja græða sem mest og til þess varð að þétta byggðina eða allt að sexfalda. Þess vegna þarf að reiknað með 10 þúsund bílum á dag á móti kannski 1500-2000 bílum. Það munar um minna. Og þarna brugðust bæjaryfirvöld íbúum. Gáfu eftir fyrir græðginni. Menn skulu einnig hafa það í huga að skipuleggjandi svæðisins er og hefur verið aðalráðgjafi bæjarins um skipulagsmál síðastliðin 20 ár. Eins er þessu farið með vestursvæði Mosfellsbæjar. Þétting til að græða. Er þetta sveit í borg? Svo vitnað sé í nýlegan kosnigaáróður. Í sjálfu sér er ekki við landeigendur að sakast menn eru jú í viðskiptum til að græða. En við kjósum fulltrúa til að gæta hagsmuna okkar íbúanna í bland við hagsmuni verktakanna. Þétting byggðar er í samræmi við yfirlýstar skoðanir núverandi formanns skipu!
lags- og byggingarnefndar sem fram komu á borgarafundi um vestursvæðið. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband