Hvar á tengibrautin að koma? - Segið ykkar álit

Helgafellsbraut-VarmárdalurTillaga að Helgafellsbraut 1: tengibraut í útjaðri byggðar
a. Helgafellsbraut sameinast að hluta til tengibraut sem áætluð er á skipulagi að Þingvallaafleggjara undir hlíðum Helgafells. Leiðin liggur um hringtorg niður að Vesturlandsvegi í útjaðri núverandi byggðar.
b. Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir þverun Varmár við Álanes ofan Álafosskvosar fyrir neðan Helgafellshverfi og er sú tenging sett inn á myndina. Sú tening er því ekki að tillögu Varmársamtakanna.
c. Gert er ráð fyrir aðkomu að Álafosskvos um ofangreinda tengibraut og niður Brekkuland. Einnig um veginn austan megin Kvosarinnar sem liggur meðfram iðnaðarsvæði. Gert er ráð fyrir lítilli brú  á Vesturlandsvegi og rofnar því bein tenging Álafosskvosar við þjóðveginn. Stórt útivistarsvæði myndast við Varmá beggja vegna Vesturlandsvegar sem gerir umferð fótgangandi vegfarenda, barna á hjólum og hestamanna afar þægilega. Svæðið myndar eina heild og dregur úr áhrifum þess að þjóðvegurinn hlutar bæjarfélagið í tvennt.

HelgafellsbrautTillaga að Helgafellsbraut 2: tengibraut í útjaðri byggðar
Þessi tillaga er svipuð þeirri fyrri að öðru leyti en því að hringtorg verður áfram við Vesturlandsveg til að þjóna umferð til og frá Álafosskvos og Landahverfi. Brekkuland verður lokað umferð úr Helgafellshverfi eins og áætlun er uppi um nú.
Vegagerðin áætlar að eyða öllum hringtorgum á þjóðvegi 1 innan nokkurra ára og gera veginn að fjögurra akreina braut. Byggja á brú í 6 m hæð yfir Varmá á Vesturlandsvegi við Brúarland. Mögulega væri hægt að gera aukaakrein inn í Álafoss ef brúin yrði lægri.

Stokkur undir ´Tillaga að Helgafellsbraut 3: tengibraut um stokk undir Ásland
Helgafellsbraut verði sett í stokk undir Ásland og til að minnka umfang mannvirkisins yrði stokkurinn aðeins látinn anna umferð í og úr austurátt, þ.e. miðbæ Mosfellsbæjar. Öll umferð í vesturátt færi um fyrirhugaða Þingvallabraut ofan Helgafellsbyggðar. Stokkurinn færi undir Vesturlandsveg og yrði 180 m langur.

Helgafellshverfi AugaðTillaga Mosfellsbæjar: tengibraut um Álafosskvos
Verði tengibrautin lögð um Álafosskvos verður annað hvort að byggja fyrirferðarmikil mislæg gatnamót á Vesturlandsvegi við Brúarland eða beina umferð úr Helgafellslandi inn í miðbæinn að hringtorgi við Kjarna og meðfram aðal íþrótta- og skólasvæði Mosfellsbæjar. Rífa verður Brúarland að sögn Vegagerðarinnar. Áætlað er að reisa brú í 6 m hæð yfir Varmá og lokast við það tengingin inn í Álafosskvos. Græn tenging milli útivistarsvæða austan og vestan þjóðvegar rofnar með öllu.

Eins og sjá má á þessari úttekt er úr vöndu að ráða í tengslum við fyrirkomulag umferðar úr Helgafellslandi. Það er skoðun Varmársamtakanna að færa sérfræðinga þurfi til að ráða úr þessum vanda. Skoðið þessa kosti vandlega og segið ykkar skoðun. Betri úrlausnir vel þegnar.

Framtíðarsýn í vegamálum:
Varmársamtökin hafa gagnrýnt bæjaryfirvöld fyrir að taka ekki mið af framtíðarsýn í samgöngumálum við hönnun tengibrautar um Álafosskvos.
Þegar litið er á framtíðarspár Vegagerðarinnar um umferðarþunga á Vesturlandsvegi kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Til dæmis að gróflega áætlað munu allt að 50 þús bílar fara um Mosfellsbæ á sólarhring þegar Álanes (18-20 þús íbúar) og Leirvogstunguland verða fullbyggð.
Gangi þetta eftir mun þróunin eflaust verða sú að Vesturlandsvegur fer í stokk um Mosfellsbæ. Umferð innanbæjar þarf því ekki lengur að fara um þjóðveginn og bærinn getur þróast með eðlilegum hætti. Fari Vesturlandsvegur í stokk hefur það gríðarleg áhrif á umferðarmannvirki í bænum. Ættu ekki skipulagsáætlanir að taka mið af því að þetta sé framtíðin? Þarf ekki einfaldlega að ganga út frá þessu í upphafi til að ekki þurfi að leggja út í óheyrilegan kostnað við leiðréttingar á vegakerfinu innan 20 ára?

Viðauki:
Sundabraut mun draga úr umferð í gegnum Mosfellsbæ en þó ekki eins mikið og margur ímyndar sér því öll umferð úr Árbæ, Grafarvogi, Grafarholti, Úlfarfellslandi, frá Suðurlandi o.s.frv. mun áfram fara í gegnum Mosfellsbæ.

Tvær efstu myndirnar vann Sigurður Valur Sigurðsson, myndskreytir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það virðist ekki nokkur sála hafa áhuga eða skoðun á þessu máli... Bryndís er búin að fríka út sem einhverskonar Kristjaníu-Woodstock týpa með smá Anarkista ívafi, og fá masser af athygli sem dugar í bili... poppararnir búnir að sýna sig og sjá aðra og stjórnmálaliðið búið að mæta og sjá að engin atkvæði eru á svæðinu !!  jamm athyglishraðlestin er búin að fáða og þeir fáu sem í raun unna náttúrunni og láta málið sig varða af hjartans einlægni sitja eftir í einskonar tómi eftir gjallhornin.

Þar sem ég undirritaður er búinn að vera að gjamma og skipta mér af málum sem nokkrir líklega einlægir útivistar og náttúruunnendur hafa verið að berjast fyrir, þá verð ég lílega að tjá skoðun á þeim tillögum sem sýndar eru hér fyrir ofan.  Eina tillagan sem ég get litið á sem fýsilega er nr. 3... og helst vegna þess að í þeirri tillögu er engin braut og brú yfir Varmá sem er fáránleg að mínu mati... EN ( allaf þetta "EN "), en stokkurinn á þá að vera þar sem vegurinn er skipulagður, ekki undir Ásland.  Það rökstyð ég með því að leiðin er lengri, plássfrekari og tvímælalaust mikið dýrari.   Ágætt væri að leggja gjald ef heimild er fyrir hendi á hvern byggðan fermetra í Helgafellslandinu til að mæta kostnaði af því að grafa tengibrautina niður á svona 200 metra kafla, fyrir hornið og taka mesta álagið af kvosinni.. þannig gætu allir sofið rótt... Þá er ekkert sem truflar Kalla við grillið... Palli hnífur getur flautað við vinnuna... trésmíðavélarnar geta fengið að hljóma í friði hjá Gunna og Akademíunni... Álafossbúðin verður hljóðvæn fyrir túristana, Ólöf mun lita fögrum litum og vinir mínir í SigurRós geta hljóðritað án þess að Helgafellsumferðin verði fastur niður undir tónlistinni... en SigurRósarstrákarnir geta annars komið aftur upp í Hvarf og fundið ræturnar og hljóðitað þar ef ófriðurinn verðu óbærilegur   

 Semsagt stokk fyrir hornið hjá þyrpingunni og burt með brú og tengibraut yfir Varmá.

Ólafur Ragnarsson (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 14:16

2 identicon

Mér finnst að allir þessir kostir eigi að vera skoðaðir í umhverfismati áður en þessi ákvörðun er tekin. Þó er eitt sem kom fram á fundinum um daginn sem mér finnst athyglivert og það var fyrirspurn mannsins sem á land í Skammadal. Hann sá fyrir sér að í framtíðinni kæmi mikil byggð þangað og þá er spurningin hvernig fólk á að komast til og frá þeirri byggð. Mér er því spurn hversu margir munu á endanum þurfa að nota þessa tengingu. Ef það er svo að mun fleiri eigi eftir að keyra um brautina en íbúar Helgafellshverfis þá finnst mér kostnaður við göng undir Ásland aflveg réttlægjanlegur kostur. Það sem bærinn hefur aldrei kynnt er heildarmyndin aðeins hönnun á 500 m bút af tengibraut.

Kristín I. Páls (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 10:17

3 identicon

Já hvernig er með Skammadalinn -  Hver á dalinn? eru margir eigendur?  Voru ekki lengst af kartöflugarðar þarna (hélt að bærinn ætti landið).  Skipulagsmálin (með meðfylgjandi umhverfismálum, menningarmálum etc) eru ansi margslungin og bara hreinlega mikil vinna að vera almennilega upplýstur um þau........

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 11:20

4 identicon

Þetta eru áhugaverðar tillögur sem vert er að skoða vel.  Mér finnst aðdáunarvert hversu mikil vinna hefur verið lögð í það af hálfu Varmársamtakanna að skoða ýmsar hliðar á þessum málum.  ÉG vona að bæjaryfirvöld sýni þessu áhuga.  Þó svo að margt hafi eflaust verið vel unnið í fyrri tillögum er því ekki að neita að í allri þessari umræðu hefur verið velt upp mörgum nýjum sjónarmiðum sem geta nýst til þess að finna lausnir til framtíðar, ekki bara fyrir Kvosina og Helgafellslandið heldur Mosó í heild.  Ég var efins í byrjun og taldi líklegt að tengibrautin um Kvosina væri raunhæfasta leiðin, en er nú sannfærður um að svo er ekki.  Stofnkostnaður við núverandi tengibraut er vissulega lægri en hinir kostirnir, en til lengi tíma litið mun þessi tengibraut og tengingar hennar við þjóðveginn ekki bera umferðina.  Fórnarkostnaður við að spilla Kvosinni sem útivistarsvæði með mikla framtíðarmöguleika er einnig mjög hár.  

Valdi Sturlaugz (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband