Orð bæjarstjórans vekja furðu VS

Í Morgunblaðinu á mánudag birtist stutt viðtal við Ragnheiði Ríkharðsdóttur bæjarstjóra Mosfellsbæjar sem tekið var í kjölfar kynningar Varmársamtakanna á nýjum tillögum að legu Helgafellsbrautar sl. laugardag. Inntak viðtalsins var að samtökin hefðu ekki kynnt tillögur sínar að nýrri legu Helgafellsbrautar fyrir bæjarstjórn með formlegum hætti. Nú bregður svo við að það er varla vika liðin síðan Ragnheiður sendi samtökunum bréf þess efnis að hún teldi tillögugerðina vera einkamál bæjaryfirvalda og samstarf við íbúasamtökin um úttekt á nýjum leiðum því útilokað. Kemur þessi ádrepa bæjarstjórans um skort á formlegri kynningu því okkur í stjórn samtakanna afar spánskt fyrir sjónir.
Ennfremur lét Ragnheiður í ljós þá skoðun sína að hún teldi að tillögur samtakanna hefðu meiri umhverfisáhrif í för með sér en fyrirhuguð lega tengibrautarinnar um Álafosskvos. Nefndi hún sérstaklega þá tillögu að leggja veg inn í Helgafellshverfi við Álanes ofan Álafosskvosar. Nú bregður aftur svo við að það eru aðeins örfáir dagar síðan að Varmársamtökunum barst bréf frá bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ þess efnis að óráðlegt væri að taka þessa þverun Varmár ofan Álafosskvosar út af skipulagi en þá tillögu bárum við upp í athugasemdum við það deiliskipulag Helgafellslands sem liggur að Varmá. Lega vegarins byggir því ekki á frumkvæði Varmársamtakanna heldur á aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem einnig kemur fram í deiliskipulagi Helgafellslands, 3. áfanga. Orð Ragnheiðar eru því sögð gegn betri vitund hennar sjálfrar.
Varmársamtökin hafa frá upphafi unnið að því hörðum höndum að fá bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að meta umhverfisáhrif skipulagsáætlana á vatnasviði Varmár. Ástæðan fyrir þessari kröfu samtakanna er að við teljum að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því m.a. að leggja tengibraut um Álafosskvos. Þorpið við Álafoss á sér fáar ef nokkrar hliðstæður á Íslandi. Í húfi er einstaklega sjarmerandi umhverfi sem laðar að ferðamenn, útivistarfólk og listræna starfsemi. Atvinnulíf við Álafoss á sér afar merka sögu sem er til þess fallin að hefja Mosfellsbæ til vegs og virðingar í hugum fólks ef rétt er á málum haldið. Viðvarandi umferðarhávaði samfara útblásturs- og svifryksmengun á ekki samleið með þeirri starfsemi sem atvinnulífið við Álafoss byggir á. Svæðið er vinsælasti áningarstaður ferðamanna í Mosfellsbæ og stríðir því lega tengibrautar um Álafosskvos beinlínis gegn hagsmunum bæjarfélagsins. Til er leið til að forða Mosfellsbæ frá því hlutskipti að tapa sínum áhugaverða karakter en hún er einfaldlega sú að láta gera faglegan samanburð á kostum og göllum allra akstursleiða sem til greina koma frá Vesturlandsvegi að Helgafellshverfi.
Í lok viðtalsins bendir Ragnheiður á að Varmársamtökunum sé frjálst að koma á framfæri athugasemdum við Helgafellsleið eftir útkomu umhverfisskýrslu. Athugasemd okkar mun ekki koma bæjarstjóranum á óvart því hún verður sú sama og hún hefur ætíð verið, þ.e. að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hlusti á raddir íbúa, beri saman valkosti og láti meta þá af fagaðilum með sérstöku tilliti til umhverfisáhrifa, s.s. náttúruminja, menningarsögu, framtíðaratvinnustarfsemi og útivistargildis Álafosskvosar.

SP

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband