Um trúverðugleika Vinstri grænna: Er stefnan skiptimynt?

 01.02.2007

Á meðan Vinstri grænir í slagtogi við Sjálfstæðisflokkinn malbika yfir fágætar náttúruperlur Mosfellsbæjar situr forysta Vinstri grænna á rökstólum og leggur á ráðin um hvernig næla megi í atkvæði umhverfissinna í komandi alþingiskosningum.

Hvernig má þetta vera? - spyrja kjósendur í Mosfellsbæ. Hvað varð um umhverfisverndarstefnuna sem Vinstri grænir gáfu sig út fyrir að standa fyrir í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sl. vor? Er samstarf við Sjálfstæðisflokkinn virkilega svo þýðingarmikið að kjörnir fulltrúar Vinstri grænna geti blygðunarlaust svikið stefnu flokksins um leið og atkvæði hafa verið talin?

Í lýðræðisríkjum er sjálfsagt að stjórnmálaflokkar gangi óbundnir til kosninga og fái þá nauðsynlegt svigrúm til samstarfs við þau stjórnmálaöfl sem fýsilegust þykja til að tryggja viðgang stefnunnar. En í hugum fólks sem af einlægni vinnur að endurbótum í umhverfis- og náttúruverndarmálum er með öllu óskiljanlegt að flokkur sem gefur sig út fyrir að standa vörð um náttúruvernd skuli við fyrsta hanagal fórna stefnunni.

Í Mosfellsbæ er hafin mikil uppbygging í landi Helgafells og Leirvogstungu. Liggja þessi svæði að helstu náttúruperlu Mosfellsbæjar, Varmánni. Hefur áin verið á náttúruminjaskrá í tæp 30 ár og nýtur 50-100 m breitt gróðurbelti sitt hvoru megin við bakkana svonefndrar hverfisverndar sem tryggja á íbúum aðgengi að ánni og varðveislu náttúru og sögulegra minja á svæðinu. Verndarsvæðið við ána er skilgreint til útivistar og er áin og bakkar hennar sagðir hafa mikið vísinda- og fræðilegt gildi. Eru ósar Varmár við Leirvog ennfremur friðlýstir.

Þegar deiliskipulagsáætlanir voru lagðar fram fyrir kosningar sl. vetur kom í ljós að við hönnun skipulagsins hafði ekkert mið verið tekið af menningarsögu og náttúruverndargildi svæðisins. Ljóst var að bæjaryfirvöld höfðu lítinn skilning á gildi þess og enn síður hug á að taka tillit til vilja íbúa. Tók áhugafólk um umhverfismál í bæjarfélaginu sig því saman og stofnaði Varmársamtökin sem strax bentu á að framkvæmdagleði bæjarstjórnar tæki hvorki mið af yfirlýstum skipulags- og umhverfisáætlunum Mosfellsbæjar né vilja íbúa.

Í greinargerð með aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 og umhverfisskipulagi frá 1997 segir að tryggja beri vandaða umhverfismótun og náin tengsl byggðar við náttúru við skipulagsgerð. Vilji íbúa er ennfremur skýr. Í niðurstöðum íbúaþings 2005 kemur fram að nálægðin við náttúruna og friðsældin sé það sem íbúum Mosfellsbæjar þyki mest um vert.

Eftir að Sjálfstæðisflokkinn missti hreinan meirihluta í bæjarstjórn sl. vor varð það hlutskipti frambjóðanda Vinstri grænna að halda honum við völd. Í aðdraganda kosninga hafði frambjóðandinn talað um breyttar áherslur í skipulags- og umhverfismálum. Þegar íbúar fóru síðan að hvetja hann til góðra verka svaraði hann galvaskur að þar sem hann byggi innan skipulagssvæðisins gæti hann ekki skipt sér af lagningu tengibrauta um verndarsvæði Varmár. En á hvaða forsendu tekur fulltrúi umhverfisverndarflokks sæti í bæjarstjórn ef ekki til að standa vörð um náttúruperlur sveitarfélagsins? Er einfaldlega hægt að leggja niður stefnuna af persónulegum ástæðum? Sé rýnt í fundargerðir Mosfellsbæjar og framlag Vinstri grænna til umhverfis- og skipulagsmála á kjörtímabilinu skoðað liggur beinast við að álykta að þeir hafi notað umhverfisverndarstefnuna sem skiptimynt fyrir samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.

Í eyrum þeirra sem hlustað hafa á hástemndar yfirlýsingar Vinstri grænna um að þeir séu eina trúverðuga aflið í umhverfismálum á Íslandi hljómaði það eins og öfugmælavísa þegar fulltrúar þeirra í Mosfellsbæ þustu fram á ritvöllinn til að gera lítið úr þeirri viðleitni Varmársamtakanna að stemma stigu við eyðileggingu á fágætum náttúruperlum bæjarfélagsins. Kom á daginn að fulltrúar Vinstri grænna vissu ekki að Varmáin er á náttúruminjaskrá. Ósar Varmár eru friðlýstir sem leiddi til þess að fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn lagði til að tengibraut úr Leirvogstungulandi sem leggja á yfir Varmá rétt utan við ósana yrði sett í mat á umhverfisáhrifum burtséð frá lagaskyldu. Þessu höfnuðu Vinstri grænir. Sömu sögu er að segja um tillögur um að endurskoða legu tengibrautar um Álafosskvos og áhrif hennar á ferðaþjónustu.

Gröfurnar hafa nú með fulltingi Vinstri grænna hafið sín myrkraverk í túnfæti Álafosskvosar. Ljóst er að fagleg þekking á gildi svæðisins er víðs fjarri þeim sem stýra eiga verktökunum sem sjá um uppbyggingu svæðisins. Eyðilegging Álafosskvosar er bara upphafið. Skv. núgildandi aðalskipulagi stendur til að leggja tengibraut sem nær úr miðbæ Mosfellsbæjar um Álafosskvos og þaðan fyrir mynni Skammadals niður Bjargsveg yfir gamla hverasvæðið í Reykjahverfi að Hafravatnsvegi.

Með þessum gjörningi hverfa þau tengsl byggðar við náttúru sem íbúar meta öðru fremur. Náttúruupplifun er látin víkja fyrir umferðarhávaða. Meirihluti Sjálfstæðisflokks hefur alla tíð hunsað vilja íbúa í málinu. En með upplýstri umhverfisstefnu og einlægum ásetningi gætu Vinstri grænir enn forðað sér frá því að falla í sömu gryfju.

Eggert B. Ólafsson

lögmaður og ibúi í Reykjahverfi í Mosfellsbæ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband