Um hroka og heigulshátt

Það mun vera leitun á byggðu bóli á Íslandi, þar sem mannanna verk eru jafnólundarlega upp á kant við sköpunarverk náttúrunnar og í Mosfellsbæ. Það þarf ekki að príla hátt í hlíðar Helgafells til að skynja búsæld Reykja- og Mosfellsdals. Þar hefur verið víða gott undir bú. Varmá og Leirvogsá liðast um blómlegt undirlendið. Útsýnið er fagurt og fjallasýn háleit. Við erum hérna á fornum söguslóðum.

Í samanburði við þetta sköpunarverk náttúrunnar verður að játa, í nafni sannleikans, að mönnunum hafa verið mislagðar hendur við að reisa sín mannvirki í sátt við umhverfið. Þjóðvegurinn – Vesturlandsvegur – klýfur byggðarlagið í tvennt. Út um bílrúðuna blasir við vegfaranda kjarni vaxandi bæjarfélags: Kentucky Fried Chicken, Esso-bensínstöð (með samráði) og amrísk vídeóspóluleiga. Hraklegra getur það varla verið. Þetta er eins og sýnishorn af sjónmengun. Hvaða mannvitsbrekkur voru það, sem hugkvæmdist að hrinda hugmyndum sínum um mannlegt samfélag í framkvæmd með þessum hætti? Amrísk bílaborg þar sem þú fyllir tankinn og hámar í þig ruslfæðið inn um bílgluggann og pikkar upp innantóma afþreyingarspólu um leið og þú forðar þér burt af staðnum. Er þetta ekki síðbúin hrollvekja um Mr. Skallagrímsson in the deep south?

Úr því að svona slysalega hefur til tekist um meintan hjartastað byggðarlagsins, ber þeim mun brýnni nauðsyn til að varðveita hið fagra og smáa, sem leynist þó í þessum dal úr alfaraleið. Það er Álafosskvosin á bökkum Varmár. Þar er að finna lítið þorp, sem er upprunalegt og ekta. Mannabyggð sem reis einhvern veginn í réttum hlutföllum og í sátt við umhverfið. Þar er að finna minnismerki um iðnsögu Íslendinga, sem Samtök iðnaðarins ættu reyndar að sjá sóma sinn í að viðhalda og varðveita. Allt reis þetta á bökkum Varmár, sem var aflvaki iðjuverksins og er nú á náttúruminjaskrá frá upptöku til ósa. Þetta er eini staðurinn í Mosfellsbæ, þangað sem útlendir ferðalangar leggja leið sína sér til yndisauka. Og til þess að komast í námunda við sjálfa Sigur Rós, sem gert hefur garðinn frægan í leit að kyrrð og ró. Er til of mikils mælst, að þessi litla perla verði a.m.k. látin í friði af þeim eyðingaröflum, sem hafa breytt Mosfellsbæ í amríska hraðbrautarbúllu? Er það virkilega til of mikils mælst?

Það eru engin rök í þessu máli, að vitlausar tillögur um að eyðileggja þetta umhverfi hafi verið á dagskrá bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í aldarfjórðung. Þeim mun lengri tíma hafa menn haft til að hugleiða mistökin og forðast slysin. Þeir sem vilja koma Helgafellslandinu í verð, geta að sönnu gert það, án þess að þurfa endilega að eyðileggja söguminjar og náttúruperlur í leiðinni. Það eru alltaf til aðrar leiðir, þótt þær kunni að vera ögn dýrari í framkvæmd. Vandinn er ekki tæknilegur. Vandinn er siðferðilegur. Vandinn felst í því, að þeir sem taka völd sín sem sjálfgefin og telja sig yfir það hafna að hlusta á venjulegt fólk, sem lætur sér annt um umhverfi sitt, geta ekki viðurkennt mistök sín. Valdstjórn, valdhroki, valdníðsla, það er þessi hvimleiði sjúkdómur, sem herjar á bæjarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, og bitnar nú á því fólki, sem vill koma fyrir hann vitinu og forða slysum, sem ekki verða afturkölluð. Valdbeitingin í þessu máli er ekki bara siðlaus, hún er líka löglaus. Fyrrverandi meðlimur í Bandalagi jafnaðarmanna á tíð Vilmundar heitins Gylfasonar, eins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri er, ætti að kannast við þau orð og láta þau verða sér víti til varnaðar. Og bæjarfulltrúi Vinstri grænna, Karl Tómasson, sem um daginn faldi sig á bak við gardínur, þegar konur í Varmársamtökunum stöðvuðu ofbeldið, ætti að manna sig upp í að standa við sannfæringu sína og samflokksmanna sinna. Það er spurning um trúverðugleika.

Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson
(höfundar eru nýbúar í Mosfellsbæ)

Grein af gamla blogginu: http://blog.central.is/varmarsamtokin?page=news


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband