Gildi opinnar umræðu

Margrét og Dídi við VarmáÞví fylgir ábyrgð að setja fram viðhorf, skoðanir og tilfinningar. Þú ert það sem þú hugsar. Við vitum oftast hvort markmiðið með því sem við gerum er að valda öðrum tjóni eða að efla eitthvað og styrkja. Varmársamtökin voru stofnuð fyrir rúmu ári til að vera vettvangur  umræðunnar, ásamt því að vera í varðstöðu gagnvart þeim teiknum sem voru og eru á lofti um rýrnandi verndar- og útivistargildi Varmársvæðisins með fyrirhuguðum framkvæmdum og vegtengingum. Allir höfðu og hafa enn háleit og gildishlaðin markmið um gott og inntaksríkt mannlíf í bæjarfélaginu. Að efla og vernda ímynd Mosfellsbæjar með því að halda eftir "Varmárdal", grænu belti, útivistarsvæði frá hesthúsahverfi upp fyrir Reykjalund. Það verður einhver að gæta þessara hagsmuna í bæjarfélagi þar sem, því miður, bæjaryfirvöld virðast einkum rækta trúnað og tengsl við landeigendur og verktaka. Margt bendir til að á næstu vikum verði enn sterkari vakning um þetta mál. Við sjáum flest grænu svæðin í kring vera óðum að hverfa og áætlanir um umferðarmannvirki sem ógna helstu perlum Mosfellsbæjar, hesthúsahverfi, íþrótta- og skólahverfi, Álafosskvos og hugsanlega Reykjalundi. Ætlum við að láta hesthúsahverfið lokast inni líkt og gerðist í Kópavogi? Ætlum við að stórspilla Álafosskvos, loka af reiðgötur og göngustíga?  Hver er réttur þeirra sem fyrir eru í bæjarfélaginu og hafa tengslin við náttúruna sem meginástæðu búsetu sinnar hér í jaðri höfuðborgarsvæðisins? Má ekki telja það eðlilegt að aðili sem byggir upp nýtt hverfi að hann þurfi að taka tillit til þeirra hagsmuna sem fyrir eru og því þurfi viðkomandi að tengjast inn á meginæð umferðar í jaðrinum?
 
Nú er hesthúseigendafélagið og foreldrafélagi Varmárskóla búið að lýsa yfir andstöðu við fyrirhugaðan Tunguveg. Áður hafði málafylgja Varmársamtakanna stuðlað að því að sú veglagning þarf að fara í umhverfismat. Varmársamtökin hafa beitt sér af miklum þunga gegn fyrirhugaðri tengibraut um Álafosskvos. Jafnframt er mikill áhugi á að tryggja gæði göngustíga og umhverfis í nágrenni Reykjalundar. Allir þessir kraftar þurfa að sameinast um að "Varmárdalurinn" hið græna belti verndar og útivistar fái að njóta sín.
Nú er komið sumar og tilvalið að sýna hug okkar til útivistar með því að taka þátt í skipulögðum göngum á fellin umhverfis Mosfellsbæ, en farið er úr Álafosskvos á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 17:00. Við þurfum að sigrast á tvennu. Annarsvegar þvermóðsku og þvergirðing sem lætur eins og mál séu endanlega ákveðin þegar samningar hafa náðst við verktaka og almenningur hafi ekkert um þau að segja og hinsvegar að sigrast á öflum sem að vilja vinna skemmdarstarf á opinni, lýðræðislegri umræðu sem sett er af stað fyrir bæjarbúa sem vilja móta sitt umhverfi.

Varmársamtökunum barst nýlega samantekt þess efnis að vinahópur hefði stundað þá iðju að skálda upp nöfn á fjórða tug karaktera, sem með skipulögðum hætti setti inn róg og dylgjur um Varmársamtökin. Þessi vitneskja gjörbreytti grunneðli umræðunnar. Þeir einstaklingar sem höfðu sýnt samtökunum óvild í skrifum sínum voru ekki um fjörutíu, heldur einungis um fimm manns. Því hefur verið haldið fram að Morgunblaðið hafi ákveðið að svipta hulunni af netdólgunum, eftir að þeir gerðu sér grein fyrir hversu "Mosfellsbæjarmálið" væri umfangsmikið. Við höfum óskað eftir að umræddir leynigestir eignist ábyrgðaraðila, samtökin verði beðin afsökunar og tilteknir tölvueigendur útskýri hvað þeim gekk til með slíkum skrifum. Varmársamtökin eru sannfærð um að þau verðskulda ekki slík vinnubrögð. Það gæti hjálpað umræðunni að ná þvi stigi sem henni var ætlað í upphafi og gæti orðið Mosfellsbæ til sóma. VS


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

  Þarna virðist hann Halldór vera !

      Þetta getur útskýrt margt !

     Kv Aðalheiður

Aðalheiður Þórisdóttir (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 13:13

2 identicon

Góðan dag.
Langar til að vita hvar þessi "Varmárdalur" er. Sem borin og barnfæddur Mosfellingur þykist ég vita hvaða svæði um er rætt en hef aldrei heyrt þess getið og finn reyndar engar heimildir um það að til sé "Varmárdalur" í Mosfellsbæ?
Í raun hef ég hvergi heyrt talað um "Varmárdal" nema hjá þessum samtökum. Kannski algjört aukaatriði í þessari umræðu allri...

Sigríður (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 13:46

3 identicon

Varmárdalur er hugarfóstur sem spratt af þessari góðu útivistar- og samfélagsvænu hugmynd sem við kynntum á íbúaþinginu um daginn. Nafnið vísar til Elliðaárdals, Laugardals o.s.frv. 
Hugsunin er að Varmárdalur geti orðið að veruleika í framtíðinni.

Sigrún P (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 13:57

4 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Þakka þér fyrir Sigrún P. að upplýsa þetta með Varmárdal (örnefna hugarfóstur), Þótt ekki sé ég borinn og barnfæddur Mosfellingur, þá er ég nú samt búinn að búa hér í 33 ár af mínum 40 og hafði aldrei heyrt á þennan dal minnst. Ég var búinn að leita í örnefnaskrá og víðar án árangurs og eina sem ég fann var Varmadalur sem er þarna ekki svo langt frá, en gat samt ekki átt við í þessu tilfelli. En það er komin skýring á þessu og er það gott. Það er svo sem gott mál að búa til ný nöfn á hluti, en er það ekki partur af umhverfisvernd að láta hlutina heita sínum upprunalegu nöfnum? Einnig fékk ég nýlega sent heim eftir óhefðbundnum leiðum mótmælaskjal þar sem á að vernda einhverja Kaldá. Það er svo sem gott og blessað, en ég hefði haldið að þessi á héti Kaldakvísl sem þar rennur um og hafi heitað það nokkuð lengi. Af þessu má sjá að svona þróast hlutirnir hratt og maður fylgir bara ekki með, enda ekki hægt um vik þegar um hugarfóstur er að ræða.

Guðmundur St. Valdimarsson, 2.5.2007 kl. 20:02

5 identicon

LOL

Hugarfóstur - þar kom orðið sem lýsir þessu bulli hvað best!!!

Eitthvað hlaut það að vera þegar upp var staðið, þetta var alls ekki eðlilegt allt saman.

Hjördís Kvaran

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 20:08

6 identicon

Það er alveg satt sem ég hef sagt allan tímann: Það  er alveg í anda Varmársamtakanna að uppnefna fólk og veitast að því persónulega - síðasta innlegg Sigræunar Pálsdóttur sannar það.

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 21:25

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

200 mílna landhelgi Íslands var hugarfóstur. Síðan varð hún að veruleika. Það kostaði baráttu. Að setja 4000 manns á tún þeirra bræðra á Helgafelli var bara hugarfóstur. En það er mikilvægt að eiga sýn og láta hana verða að veruleika. Að skipulag geri ráð fyrir heilsueflandi og nærandi umhverfi er mín framtíðarsýn fyrir Mosfellsbæ.

Svo skapar það átök þegar sýn fólks er mismunandi. Þá er nauðsynlegt að bæjarstjórn skapi sem allra heilbrigðastan jarðveg fyrir skipulagsumræðu meðal almennings. Miðlað sé til fólks bestu upplýsingum um valmöguleika og ef tiltekin hluti bæjarbúa óskar þess, að þá verði kosið um mál (20% íbúa þar til að fá almenna kosningu í Hafnarfirði). Heiðarleg leið til að gera út um ágreiningsmál.

Að íbúar hafi sem bestar forsendur til að taka afstöðu, en bæjarstjórn gæti ekki bara hagsmuna fjármagns, verktaka og landeigenda.  Mosfellingar, hesthúseigendafélag, foreldrafélag Varmárskóla, Varmársamtökin og Reykjalundarfólk þurfa að sameinast um að tryggja grunngildi búsetu okkar í Mosfellsbæ, að við getum haldið tengslunum við náttúruna.

Leiðum þá hugsun til fulls sigurs að við höldum þessu græna belti eftir. Mannlíf og útivist blómstri upp með Varmá í hinu skjólgóða umhverfi sem að á ekki að vera neinum til baga að kalla "Varmárdal" innan gæsalappa. Hugtakið geta allir skilið nema þeir sem vilja það eitt að skemma og spilla.

Það er auðvitað undarlegt að það séu ekki sjálfstæðismenn sem eru framverðir í að verja hin steingráu gildi verktaka, heldur séu það vinstri grænir undir hinum fjölbreytilegustu nöfnum sem reyni að murka lífsorkuna úr væntingum fólks um grænar áherslur í skipulagsmálum. Haldi þeir því áfram, að tortryggja og torkenna flesta hluti, þá eru þeir einfaldlega sjálfum sér verstir.

                      Kærleikskveðjur,

PS Munum gönguna úr Álafosskvos á Helgafell, á morgun fimmtudag kl. 17:00. Allir velkomnir. Fínt að hafa með sér smá nesti, te á brúsa eða snarl til að njóta þegar upp er komið. 

Gunnlaugur B Ólafsson, 3.5.2007 kl. 00:40

8 Smámynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Heill og sæll kæri Gunnlaugur

 

Ég vona  að þú hafir ekki misskilið þakklæti mitt til Sigrúnar P.. Ég hafði bara  verið að spá í hvort þetta örnefni, Varmárdalur, væri til og þá skráð sem slíkt. Mig óraði ekki fyrir því að það væri hugarfóstur miðað við hversu mikið það var komið í umræðuna. Einnig varð mér hugsað til þessarar Kaldár sem mynnst var á annarstaðar og taldi þar vera að koma fram nýjar upplýsingar um eitthvað sem ég ekki vissi um. Ég leiði þó líkum að því að þar sé átt við Köldukvísl.

Kaldá rímar þó betur við Varmá og við þá væntanlega komin með Volgu þar sem þær renna saman. Mínar hugrenningar sem eru út í hött.

Ég er sjálfur áhugamaður um náttúru Íslands og umhverfi mitt. Kvosin og nágreni hennar eru fallegur staður hvort heldur iðandi af mannlífi eður ei. Það er gaman að sjá þá uppbyggingu sem þar hefur verið og það sem gert hefur verið til þess að fegra ásýndina á þessu fyrrum verksmiðjuhverfi.

Á árum áður þegar ég var að alast upp í nágreni við Álafoss, bjuggu þar Álafosskar sem voru stórhættulegir og maður varaðist að verða á vegi þerra. Á nútíma máli voru þetta strákar sem þarna bjuggu og voru eflaust ekkert veri eða betri heldur en ég sjálfur, minningarbrot úr æsku minni.

Leirvogurinn og nágreni hans eru þar ekki undantekning. Þar hjólaði ég um sem ungur drengur, Skóla og Ullarnesgryfjurnar voru okkur strákunum endalaus farvegur til þess að iðka okkar sport, hvort heldur sem á reiðhjólum eða mótorfákum síðar. Kistufell, Mosfell, Skálafell, Helgafell, Reykjaborg, Lágafell og Úlfarsfell eru með fegurri fjöllum sem maður sér, hef ég þó töluvert alið manninn vestur á fjörðum þar sem flest fjöll eru slétt að ofan og mér þykja falleg. Mosfellsdalurinn er einstakur og keyri ég oft og labba þar um til þess að njóta þess sem hann hefur upp á að bjóða. Hafravatn og nágreni eru endalaus uppspretta fegurðar þar sem í hvert skipti sem komið er á það svæði má sjá eitthvað nýtt.

Ég hef talið mig hingað til bera fulla virðingu fyrir umhverfi mínu og náttúru sem og nágrönnum og öðrum bæjarbúum.

Þú talar um íbúakosningu. Ég gæti skilið það ef það ætti að byggja 370.000 tonna álver í Leirvoginum, stífla Köldukvísl og breyta Mosfellsdal í uppistöðulón til þess að tryggja álverinu raforku, en ekki að leggja einhvern vegstubb og reka niður nokkra ljósastaura fyrir íbúðarbyggð sem er orðin að veruleika.

Í seinni tíð hef ég víða farið um og ljósmyndað merka staði og örnefni hér í bæ og fyllst slíkri lotningu fyrir því svæði sem við búum á og byggjum. Það er fullkomlega eðlilegt að eiga sér sína sýn, fagra framtíðarsýn. Ekki ætla ég mér að gera lítið úr því og en síður að fara að munnhöggvast við fólk um hvað sé rétt eða rangt í þeim efnum. Ef hægt er að skapa mannvirki sem eru í sátt við umhverfi sitt þá skal ég fyrstur manna styðja það og það hef ég gert.

Ég hef sjálfur farið um og skoðað þau svæði sem hafa svo mikið verið í umræðunni að undanförnu, myndað þau og skoðað eftir að heim er komið og reynt eftir fremsta megni að leggja mitt mat á þær, velt upp öllum þeim möguleikum sem að ég sé fyrir mér í stöðunni á þeim fyrirhuguðu framkvæmdum sem svo tíðrætt er um.

Mitt mat er eftirfarandi, til þess að sátt ríki hér í bæjarfélaginu legg ég til að sem flestir fái að njóta þess sem það hefur uppá að bjóða með því að flytjast hingað. Ég ætla mér ekki að opinbera mína framtíðarsýn, vegna þess að ég veit að hún mun ekki verða að veruleika, til þess eru liðin of mörg ár.

Ég man enn þá stund fyrir nokkrum árum þegar mér voru sýndar loftmyndir af bænum sem höfðu verið teknar með einhverju fimm ára millibili en þær sýndu hvað búið var að græða upp jaðrana í kringum þéttbýliskjarnann sem þá var kominn, það þótti mér fögur sjón.

Á vordögum síðasta árs fór ég á kjörstað og notaði rétt minn eins og væntanlega flestir sem einhverja skoðun hafa á málum og framtíðarsýn, greiddi atkvæði þeim sem ég treysti best til þess að koma góðu til leiðar fyrir bæjarfélagið okkar allra. Með því axlaði ég þá ábyrgð að réttkjörnir fulltrúar störfuðu að bæjarmálum í mínu umboði til þeirra fjögurra ára sem kjörtímabilið varir. Ég treysti því að þetta fólk geri það og hef ekki orðið var við annað hingað til. Ég hef skoðað þau gögn sem hafa verið sett á vef bæjarins og eru þetta það metnaðarfyllsta sem ég hef séð og öllum opin sem á annað borð vilja kinna sér málin. Gríðarleg vinna hefur verið lögð í allskonar rannsóknir á þessu máli öllu og sé ég ekki betur en að þetta sé mjög ásættanleg framtíðarsýn þessa bæjarfélags, en það eru sjálfsagt ekki allir sammála um það.

 

Það er gaman að þú skulir mynnast á 200 mílna landhelgi íslands í upphafsorðum þínum. Ekki veit ég hvað þú ert að blanda því inn í þetta örnefnamál, nema fyrir þær sakir að ég hef atvinnu af því að standa vörð um hana, en fyrst þú mynnist á það, er þá kannski vert að mynnast  þess að þar stóð þjóðin einhuga og allir sem einn á bak við þá ákvörðun, sem ekki virðist vera í þessu máli.

 

Þetta verða mín loka orð og mun ég ekki tjá mig frekar um þessi mál á þessu veffangi.

 

Að endingu þakka ég greinagóð svör ykkar beggja.

 

E.s. Það er aldrei að vita nema ég þiggi boðið um að koma í göngutúr, þá með myndavélina með mér ef þannig skildi viðra.

Megi allir máttugir Ásar og góðar vættir vaka yfir okkur.

Guðmundur St. Valdimarsson

Guðmundur St. Valdimarsson, 3.5.2007 kl. 08:45

9 identicon

LOL

Hið gamlkunna hugtak "Álafosskar" hefur heldur betur gengið í endurnýjun líifdaga undanfarið ár en grunnskilgreining þess er óbreytt, hvort sem það er túlkað vítt eða þröngt.

Hjördís Kvaran (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband