Umhverfisspjöll við Álafoss

Vegagerð við Álafoss
Að morgni uppstigningardags vöknuðu íbúar í grennd við Álafoss upp af værum blundi við það að gröfukarlar hófu að leggja veg fyrir aftan gamla verksmiðjuhúsið meðfram Varmá í átt að fossinum, Álafossi. Nýtur svæðið hverfisverndar vegna sögulegra minja í Álafosskvos og náttúruminjagildis árinnar auk þess sem fyrirhugað er að friðlýsa fossinn. Að sögn verktakans er verið að leggja nýjan veg meðfram ánni á vegum Mosfellsbæjar til að endurnýja gamlar skólplagnir sem liggja meðfram ánni.
Háttvísi ætlar seint að halda innreið sína á skrifstofu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Engin tilkynning barst frá bæjaryfirvöldum um þessar fyrirætlanir til íbúa og afsakaði tilvonandi bæjarstjóri sig með því að honum bæri ekki að tilkynna slíkar framkvæmdir.  Í ljósi atburða undanfarna dag er ögrunin sem í þessu ruddalega háttarlagi felst á frídegi ekki til annars er að kynda undir óánægju og valda sárindum meðal íbúa.
Myndin sýnir vegarstæðið meðfram ánni en hana útbjó Hildur Margrétardóttir.

Athugasemd:
Íbúi í Álafosskvos fór á fund formanns skipulagsnefndar í morgun og verða framkvæmdir við skolplögn meðfram bökkum Varmár stöðvaðar þar til frekari útfærsla verksins liggur fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það verður að segjast að ég sem íbúi við Varmá síðan á dögum mikifenglegra axlapúða fann mig knúinn til að kynna mér um hvað málin snerust.  Ég er nú frekar einfaldur og auðtrúa þannig að ég hélt að þessi samtök væru vettfangur fyrir skoðanaskipti og rökstuðning þar sem óhætt væri að slá á létta strengi í bland með alvörunni.  Það sem hefur komið mér á óvart er hversu miklar og heitar tilfinningar eru að krauma hjá fólki og hversu mikil heift og reiði virðist hafa búið sér stað í hugum og hjarta þeirra einstaklinga sem eru áberandi í framvarðarlínunni.  Maður les pistla og svör fram og tilbaka sem einkennast af persónulegri andúð og ásökunum á víxl milli deiluaðila.  Hvað varðar samtökin þá er það er engu líkara en að samtökin hafi fundið sér tákngerfinga hins illa í bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ, yfirvöldum sem eru jú lýðræðislega kosin af bæjarbúum til að sinna málefnum svæðisins fyrir okkar hönd. 

 

Þessi uppákoma nú þar sem stórfelld eignaspjöll eiga sér stað er nokkuð sem að allir aðilar þurfa að taka til alvarlegrar umhugsunar.  Það sliptir ekki máli í þessu samhengi hvort kom á undar eggið eða hænan í deilunni, það sem skiptir máli eru afleiðingarnar sem verða af deilum sem þessum.  Ég held að enginn þokkalega hugsandi maður ætli forráðamönnum samtakanna þennan gjörning, eða að einhverjir aðrir deiluaðilar hafi staðið að þessu.  Hinsvegar geta deiluaðilar ekki skorist undan ábyrgðinni af þessum eignaspjöllum þar sem þau eru auðsjánlega framkvæmd af einhverjum óvitum sem hafa orðið fyrir áhrifum af deilunni og telja sig vera að gagnast málstaðnum.

 

Mál þetta hefur verið blásið lang út fyrir tilefni í fjölmiðlum þar sem þetta er látið líta út fyrir að vera stór hluti bæjarbúa að mótmæla yfirgangi vondu madonnunar, svikula græna kallinum með fulltingi hræðilegu vélskóflunnar.  Það er hamrað á því að stórfelld náttúruspjöll séu að eiga sér stað sem vart eiga sinn líka.  Þegar kallað er í fjölmiðla eru nokkrir einstaklingar sjáanlegir, myndavélum er beint nálægt fólki svo fámennið verði ekki vandræðalegt og þar birtist skælandi stúlka í móðursýkiskasti og varaformaður sem lætur eins og himin og jörð séu að farast og ræðst á girðingar með offorsi.  Táknrænt segir hann, en það kom ekki fram, þetta gaf bara tóninn fyrir þá sem upplifðu þetta sem köllun til verka.

 

Ég veit ekki hvað skal segja en smámál sem þetta sem fjallar um skipulagsmál í bæjarfélagi, um hvort að þessi blettur á að vera friðaður eða ekki, þetta er frá mínum sjónarhóli fullkomlega til þess fallið að kasta rýrð á baráttuna um verndun náttúru Íslands.  Svona mikið púður og illindi vegna vegspotta, allt þetta tal um stórfelld umhverfisspjöll, umhverfismat, yfirgang, svik, þetta gerir það að verkum að þeir sem umhverfisverndasinnar eru að reyna að fá til að opna augu sín fyrir nauðsyn þess að vernda hálendi Íslands og nauðsyn þess að meta umhverfisáhrif í stóru samhengi, þetta fær efasemdarmennina til að snúa sér frá og hrista höfuðið yfir þessu “öfgaliði” og þannig tapast baráttan. 

 

Mér þykir vænt um Varmá og umhverfið hér enda hef ég búið við ána í áraraðir og alið börnin mín upp hér.  En staðreyndin er sú að Varmáin sem er nú oftast bara spræna nema í leysingum er ein skítugasta á landsins með dauðan fisk upp um alla á og er það ekki af völdum vegspottans vonda.  Það væri nær að beina kröftum sínum að því að gera gott úr því sem við höfum í sátt við bæjaþróunina, að hreinsa ána og halda áfram að gera umhverfi hennar aðgengilegt.  Í guðanna bænum finnið sátt í þessu máli þannig að þetta verði ekki dæmt sem einkahagsmunamál íbúa Álafosskvosarinnar sem vilja henda veginum vonda frá sér upp í barnahverfið fyrir ofan.

 

Með vinsemd,

Ólafur Ragnarsson, Hvarfi, Mosfellsbæ

Ólafur Ragnarsson (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 10:40

2 identicon

Þáttur Hjálmars Sveinssonar, Krossgötur, var sem endranær skemmtilegur, yfirgripsmikill og afar fróðlegur. 
Eitt helsta verkefni Varmársamtakanna til þessa hefur verið að fá bæjaryfirvöld til samráðs. Allir vita hvernig það hefur gengið. Ljóst er að aðeins er hægt að koma á sáttum í ágreiningsmálum þegar báðir deiluaðilar eru reiðurbúnir til þess. 
Um kosti og galla tengibrautarinnar hafa Varmársamtökin gert eftirfarandi úttekt:
GALLAR:
· Umferðaröngþveiti myndast á álagstímum við hringtorg við þjóðveg 1 og langar biðraðir bíla þegar helgarumferð er í hámarki á sumrin
· Slysahætta eykst til muna við gatnamótin vegna aðlíðandi brekku sitthvoru megin hringtorgsins
· Umferð er beint ofan í kvos þar sem heilsuspillandi útblásturs- og svifryksmengun sest fyrir í stillum. Heilsu skólabarna er með þessu stefnt í voða þar sem helsta íþróttasvæði Mosfellsbæjar liggur í aðeins nokkurra metra fjarlægð frá hringtorgi
· Lega tengibrautarinnar frá Auga að Vesturlandsvegi eykur slysahættu og torveldar umferð barna og fótgangandi milli hverfa.
· Tvískipting bæjarfélagsins í byggð vestan og austan Vesturlandsvegar verður áþreifanlegri en áður
· Bílaumferð um tengibrautina veldur viðvarandi umferðarhávaða, loft- og sjónmengun í Kvosinni sem er vinsælasta útivistarperla bæjarfélagsins. Mengunin rýrir með afgerandi hætti lífsgæði íbúa á svæðinu
· Mosfellsbær tapar dýrmætasta menningarsögulega sérkenni sínu sem er þorpsstemning á gömlum grunni í Álafosskvos
· Viðvarandi umferðarhávaði og útblástursmengun skaðar atvinnu- og listastarfsemi í Álafosskvos og kemur í veg fyrir að hægt verði að nýta einstakt umhverfi hennar fyrir útimarkaði, leikhús og tónlistarflutning. Náttúruhljóð hverfa í umferðarnið
· Lífríki spillist og vatnsmagn minnkar í Varmá, þ.m.t. í Álafossi sem stendur til að friðlýsa
KOSTIR:
· Bílaumferð úr og í Helgafellshverfi verður greið - utan álagstíma

Sigrún P (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband