Ekki er allt sem sýnist í Álafosskvos

Útimarkaður Álafosskvos 300Þeir sem leið eiga um Mosfellsbæ á morgun, sunnudaginn 1. júlí eftir kl. 16, geta átt von á óvæntum uppákomum í bland við ævintýri og hljóðfæraleik í Álafosskvos.  Hafa Varmársamtökin, með dyggum liðsstyrk Álfyssinga, fengið listamenn til liðs við sig sem skemmta munu gestum og gangandi í góða veðrinu.

Skemmtiatriðin eru hugsuð fyrir fólk á öllum aldri. Mun Bryndís Schram m.a. lesa upp ævintýri fyrir börn og fullorðna við undirleik Áshildar Haraldsdóttur, flautuleikara og Bryndísar Höllu Gylfadóttur, sellóleikara og hefst flutningur þeirra kl.  16. 
Fleiri listamenn hafa boðið fram krafta sína og verður því gaman að koma í Kvosina á morgun.

Við hvetjum vildarvini Varmársvæðisins  til að leita með okkur á vit ævintýranna og sýna með því samstöðu með baráttu samtakanna fyrir því að framkvæmdir við Varmá í Mosfellsbæ verði möglunarlaust settar í mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Við Álafoss er að finna eitthvert skemmtilegast samspil sögulegrar byggðar og náttúru á höfuðborgarsvæðinu. Þessi einstöku umhverfisgæði viljum við vernda.

Með uppákomunni viljum við ennfremur vekja athygli landsmanna á því að lögð hefur verið tengibraut um Álafosskvos án deiliskipulags sem þýðir að aðkoma bæjarbúa að skipulagstillögunni verður einungis til málamynda, þ.e. þjónar aðeins friðþægingu þeirra stofnana sem lögum samkvæmt eiga að láta sig hagsmuni almennings og umhverfis varða. Eini möguleiki almennings til að hafa áhrif á gerð skipulagsáætlana er að koma á framfæri athugasemdum við skipulagstillögur. Sá réttur hefur með þeim framkvæmdum sem nú eru að mestu yfirstaðnar verið tekinn af íbúum. Þessum vinnubrögðum viljum við mótmæla og hvetjum við landann til að sýna samstöðu því einungis þannig getum við haft áhrif í átt til lýðræðislegra stjórnarhátta.

LÁTUM OKKUR MÁLIN VARÐA - VARMÁRSAMTÖKIN


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband