Nýju fötin keisarans í Álafosskvos

Bryndís Schram, Áshildur og Bryndís HallaÞað fór ekki fram hjá neinum sem heimsótti óvænta útiskemmtun Varmársamtakanna í Álafosskvos í dag hvers virði fegurðin er. Kvosin skartaði sínu fegursta í veðurblíðunni og komu áheyrendur sér makindalega fyrir í gömlu leikhúsbrekkunni sem Sigurjón Pétursson á Álafossi lét útbúa fyrir áhorfendur sem sóttu leiksýningar í Kvosinni á fyrrihluta síðustu aldar.
Áshildur Haraldsdóttir, flautuleikari og Bryndís Halla Gylfadóttir, sellóleikari hófu dagskrána með duett eftir Beethoven. Bryndís Schram flutti þvínæst ævintýri H.C. Andersens, Nýju fötin keisarans, með fagmannlegum tilþrifum við undirleik Áshildar og trommuslátt Berglindar Björgúlfsdóttur. Trúbadorinn Mirra heillaði síðan áhorfendur með undurfagurri söngrödd og sömuleiðis Elín Ey sem sló botninn í dagskrána með afar hugljúfum tónum.
Þökkum við þessu frábæra listafólki fyrir óeigingjarnt framlag í þágu góðs málstaðar.
Hildur Margrétardóttir, myndlistarmaður, sem barist hefur hetjulegri baráttu fyrir verndun svæðisins, flutti einnig stutt erindi um gang mála. Birtist erindi hennar hér á blogginu á næstunni.
Áhorfendur  á útiskemmtunVið Álafoss er að finna eitthvert skemmtilegasta samspil sögulegrar byggðar og náttúru á höfuðborgarsvæðinu. Þessi samkoma var haldin til að minna á nauðsyn þess að varðveita þetta einstaka umhverfi.

Með uppákomunni vildum við ennfremur vekja athygli landsmanna á því að lögð hefur verið tengibraut um Álafosskvos án deiliskipulags sem þýðir að aðkoma bæjarbúa að skipulagstillögunni verður einungis til málamynda. Þessum vinnubrögðum viljum við mótmæla, um leið og við hvetjum landann til að beita í ennfrekara mæli áhrifamætti sínum og stuðla þannig að lýðræðislegum stjórnarháttum í stjórnkerfinu í framtíðinni.

 

Elín EyMirra


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband