Sjónarspil í stað samráðs

- Gluggað í samninga Mosfellsbæjar við landeigendur  

Helgafellsbraut í byrjun júlí 2007Varmársamtökin fengu í síðasta mánuði aðgang að samningum bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ við landeigendur um uppbyggingu í Helgafellslandi. Voru samningar þessir undirritaðir 2. júní 2006, sama dag og Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir innsigluðu meirihlutasamstarfið í kjölfar sveitarstjórnarkosninga.

Samningar Mosfellsbæjar við Helgafellsbyggingar
Samningar þessir sýna svo ekki verður um villst að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ þurfa að taka verklagsreglur í tengslum við skipulagsgerð og samskipti við íbúa til rækilegrar endurskoðunar – svo ekki sé meira sagt. Hafa bæjaryfirvöld í þessu máli bæði farið á svig við skipulagslög og sannleikann í málflutningi sínum. Er þar fyrst að nefna að samningurinn var undirritaður hálfu ári áður en deiliskipulag Helgafellsvegar tók gildi en það gerist ekki fyrr en 2. janúar sl. Sem þýðir að samkomulagið var frágengið áður en ágreiningur við íbúa var útkljáður og úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafði úrskurðað um réttmæti skipulagsins. Í annan stað kveður samningur hins nýbakaða meirihluta á um fimmtungs stækkun byggðar í Helgafellslandi, úr 816 nýjum íbúðum í 1020, í trássi við gildandi aðalskipulag – og án nokkurra fyrirvara. Í þriðja lagi er samið um að Mosfellsbær sjái um að leggja stofnlagnir og aðrar lagnir á eigin kostnað að hverfinu í samstarfi við undirverktaka Helgafellsbygginga. Í fjórða lagi er gerður samningur um lagningu tengibrautar um Álafosskvos sem Helgafellsbyggingar, eins og kunnugt er, samþykktu að fjármagna.

Brú yfir Varmá ofan ÁlafossÍ fimmta lagi gerir Mosfellsbær samning um að leggja brú yfir Varmá ofan Álafoss þar sem segir: "Mosfellsbær skal bera fulla ábyrgð og kostnað af hönnun, byggingu og frágangi akstursbrúar yfir Varmá, ... .” (bls. 2)

 

Ágreiningur magnaður upp með rangfærslum
Hið síðastnefnda hrekur þær þrálátu rangfærslur bæjaryfirvalda, að hugmyndin um brú yfir Varmá ofan Álafoss sé frá Varmársamtökunum komin, en þessu er m.a. haldið fram í umhverfisskýrslu sem Mosfellsbær lét vinna í vor. Sannleikurinn er sá að þegar þriðji áfangi deiliskipulags Helgafellslands var kynntur íbúum fóru samtökin fram á að bæjaryfirvöld tækju brú á þessum stað út af skipulagi en því var hafnað. Þessi staðreynd kom þó ekki í veg fyrir að þáverandi bæjarstjóri, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Karl Tómasson, forseti bæjarstjórnar og fleiri úr þeirra röðum þrástöguðust á því að samtökin vildu leggja veg í gegnum Reykjalundarskóg en hann á sér djúpar rætur í hjörtum Mosfellinga. Höfum við ítrekað reynt að hreinsa okkur af þessum áburði og bent á að þar sem vegurinn er staðsettur þarna skv. aðalskipulagi sé eðlilegt að sýna hann á uppdráttum af svæðinu, íbúum til glöggvunar. En allt kom fyrir ekki, meirihlutinn hélt sig við sínar rangfærslur og á endanum kærðu samtökin bæjarstjórn fyrir valdníðslu til úrskurðarnefndarinnar. Ljóst er að samningurinn sem Ragnheiður gerði á fyrsta degi samstarfs við Karl tekur af allan vafa um hvaðan hugmyndin að vegi yfir gamla sundlaugarstæðið í Varmá ofan Álafoss er ættuð. Þegar íbúar mótmæltu ólöglegri vegagerð í Álafosskvos í vor, héldu bæjaryfirvöld fast í þá skýringu, að einungis væri verið að leggja fráveitu. Fór þar fremstur í flokki formaður skipulags- og byggingarnefndar, Haraldur Sverrisson, núverandi bæjarstjóri. Fyrirrennari hans, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, vílaði heldur ekki fyrir sér að halda því fram í sjónvarpi að lagnagerðin væri alfarið á ábyrgð framkvæmdaaðila. Á samningnum má hins vegar sjá – svart á hvítu - að verið var að vinna verkið fyrir Mosfellsbæ. Höfundur Reykjavíkurvíkurbréfs sá 18. ágúst sl. ástæðu til að taka þennan blekkingarleik bæjaryfirvalda til umfjöllunar: "Hinn almenni borgari á kröfu á því, að umræður um þessi mál fari fram á málefnalegan hátt og að rétt orð séu notuð um það, sem verið er að gera. Þess vegna er skynsamlegra fyrir þá, sem ráða ferðinni hjá Mosfellsbæ, að segja hreint út að þeir hafi lagt vinnuveg til þess að greiða fyrir umferð til og frá byggingarsvæði en að vegur sem blasir við allra augum sé lagnaframkvæmd! Það er ágætt að vera fyndinn en gamanið getur stundum orðið grátt."

Skaðabótaskylda Mosfellsbæjar
Heyrst hafa þær raddir að Mosfellsbær hafi með ótímabærri undirritun samningsins gert bæjarfélagið skaðabótaskylt gagnvart landeigendum í Helgafellslandi. Lýðræðislegur réttur íbúa til áhrifa var því framseldur Helgafellsbyggingum áður en skipulagsferlinu lauk. Í stað þess að koma hreint fram og skýra vonlausa samningsstöðu fyrir íbúum kusu bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að magna upp ágreining í bæjarfélaginu með misjafnlega augljósum blekkingum. En hver var tilgangurinn? Er bærinn skaðabótaskyldur gagnvart þeim hagsmunaaðilum sem hunsaðir voru í samningnum? Eða voru sjónhverfingarnar bara til að sýna því fólki sem vill láta náttúru, ásýnd og sögu Mosfellsbæjar njóta vafans, lítilsvirðingu? Já – eins og höfundur Reykjavíkurbréfsins sagði: “Það er ágætt að vera fyndinn en gamanið getur stundum orðið [of] grátt."

sp

Samningur Mosfellsbæjar v landeigendur - útdráttur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ótrúlegt að fá þessi gögn og samninginn um brúna við Álanes. Það væri hægt að rekja mörg ummæli bæjarfulltrúa sem verða ómerkileg þegar hugsað er til þess að búið var að gera slíkan samning. Þeir láta eins og þeir viti ekki af honum. Fékk ráðgjafafyrirtækið sem vann umhverfisskýrslu ekki afrit af samningum. Hans er ekki getið sem heimild. Í umhverfisskýrslu er safngata yfir Varmá ofan Álafosskvosar við Álanes sett inn sem tillaga Varmársamtakanna, þó samttökin hafi leiðrétt það og bent á að hún væri á aðalskipulagi. Bæjarfulltrúar meirihluta töluðu alltaf eins og þau væru á móti allri veglagningu þarna en höfðu þó undirritað samning um veg og brú á
þessum sama stað. Tillögu Varmársamtakanna um að taka þá safngötuna út af skipulagi var hafnað. Þetta þarfnast útskýringar.

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.12.2007 kl. 10:47

2 Smámynd: Karl Tómasson

Ég tel rétt að leiðrétta mikla og klaufalega rangfærslu sem gætir í
bloggfærslu Varmársamtakanna hér að ofan.

Stjórnarkonan Sigrún Pálsdóttir heldur í grein sinni fram að ég undirritaður hafi tekið þátt í að gera samning við Helgafellsverktaka þann 2. júní 2006.

Við embætti mínu var ég ekki búinn að taka þann dag og kom því á engan hátt að þeim samningi.

Ég hvet stjórnarkonuna Sigrúnu Pálsdóttur til þess að leiðrétta þessa
meinlegu villu.

Karl Tómasson, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar

Karl Tómasson, 10.12.2007 kl. 19:14

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Innlegg forseta bæjarstjórnar opnar á enn fleiri spurningar. Vissi Karl ekki af þessum samningum og undirskrift Ragnheiðar sama dag og nýr meirihluti tók við völdum?

Karl er einn af þeim sem hefur óhikað tengt safngötu við Álanes við Varmársamtökin. Er komið líkt á með honum og borgarstjóra nokkrum sem mundi ekkert og vissi ekkert um samninga.

Sá eini sem getur útskýrt meinlegar villur í þessu ferli er Karl Tómasson sjálfur og aðrir fulltrúar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Þeir skulda samtökunum og íbúum ítarlegar útskýringar.

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.12.2007 kl. 20:44

4 identicon

Sæll ágæti forseti

Ragnheiður gekk frá þessum samningi sama dag og þið undirrituðuð málefnasamning. Ég spyr því eins og Gunnlaugur:

Var verðandi forseta bæjarstjórnar ekki kynnt innihald samningsins og undirskrift hans á þessum tímapunkti?

Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 21:13

5 Smámynd: Karl Tómasson

Ég tel rétt að leiðrétta hér aðra rangfærslu hjá stjórnarkonu Varmársamtakanna Sigrúnu Pálsdóttur í athugasemd hennar hér að ofan. 

Málefnasamningur Vinstri grænna og Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ var ekki undirritaður sama dag og fyrrverandi bæjaryfirvöld samþykktu samhljóða að fela bæjarstjóra að skrifa undir umræddan samning við Helgafellsverktaka.

Rétt er að benda stjórnarkonunni á að hún, rétt eins og allir aðrir gátu kynnt sér þær fyrirætlanir. Hér fyrir neðan má sjá brot úr fundargerðum og afgreiðslu fyrrverandi bæjaryfirvalda á málinu.

Það er óábyrgt að varpa fram röngum fullyrðingum af þessu tagi.

Úr fundargerð bæjarráðs 24. maí 2006 Bréf Helgafellsbygginga ehf og Helgafellshlíða ehf, varðandi samstarfssamning

Til máls tóku: SÓJ, TJ, HSv, ÞK, JS, HS og RR.

Samþykkt með þremur atkvæðum að fela bæjarstjóra að ganga frá samningsdrögum við landeigendur í Helgafelli með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórn.  Úr fundargerð bæjarstjórnar 6. júní 2006 

Bréf Helgafellsbygginga ehf og Helgafellshlíða ehf, varðandi samstarfssamning
Afgreiðsla 774. fundar bæjarráðs staðfest með sjö atkvæðum.

Karl Tómasson, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.

Karl Tómasson, 10.12.2007 kl. 22:46

6 identicon

Sæll Karl

Ég hef þessar upplýsingar úr fréttum Rúv og fleiri og vakti það athygli mína að þáverandi bæjarstjóri undirritaði einhvern umfangsmesta samning sem Mosfellsbær hefur nokkurn tíma gert við verktakafyrirtæki á þessum sama degi. Þessar fréttir sína ótvírætt að 2. júní 2006 gerðuð þið með ykkur málefnasamning.

Því til stuðnings sjá:

Varmá - fréttablað Sjálfstæðisfélags Mosfellsbæjar 2. júní 2007

http://www.varma.is/xdmos/eldri_frettir/?ew_news_onlyarea=newsarea&ew_news_onlyposition=2&cat_id=38176&ew_2_a_id=209880

Og Ríkisútvarpið kl. 8 að morgni 3. júní:

http://www.ruv.is:80/heim/frettir/frett/store64/item73266/

Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 00:04

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Núverandi bæjarstjóri gagnrýndi á sínum tíma hugmyndir um þverun Varmár í stað tengibrautar í sjónvarpsspjalli með fulltrúum samtakanna. Vissi hann ekki eða var hann að fela þá staðreynd að bærinn væri búin að gera samninga um þessa framkvæmd?

Forseti bæjarstjórnar skrifar 6. maí 2007 gagnrýnir hugmyndir um að þvera Varmá og fara í gegnum "eitt vinsælasta útivistarsvæði Mosfellinga og vistmanna Reykjalundar. Það er sú tilllaga sem að Varmársamtökin leggja til nú í dag. Samfylkingin og Framsókn þegja nú þunnu hljóði yfir þeirri tillögu Varmársamtakanna". Vissi hann ekki eða var hann að halda því leyndu að hann væri í meirihluta sem ætlaði sér að hrinda í framkvæmd bæði tengibraut um Álafosskvos og safngötu yfir Varmá við Álanes, samkvæmt samningi við verktakann?

Fyrrverandi bæjarstjóri tengdi í útvarpsfréttum hugmynd um þverun Varmár við samtökin og sagði það ekki réttar áherslur að fara í "gegnum Reykjalundarskóg". Þessi tilvísun í skógarlundinn sem er þó nokkuð ofar hafði væntanlega þann tilgang að auka tortryggni í garð samtakanna. Vissi hún ekki eða hélt hún því leyndu að það voru til á pappír með hennar eigin rithönd ábyrgðir upp á tugi milljóna að leggja þarna safngötu?

Höfundur umhverfisskýrslu tekur ekki tillit til óska samtakanna um að þau séu ekki talin ábyrg fyrir hugmynd um þverun Varmár við Álanes. Henni var bent á að þetta væri á aðalskipulagi. Hún getur ekki samningsins við verktakann sem heimild. Vissi hún ekki af samningnum eða var honum haldið leyndum fyrir henni til að fá afskræmda niðurstöðu í samanburði á valkostum?

Það vantaði meiri heilindi og skýrleika í þetta ferli af þeim sem að báru á því ábyrgð. Þessi samningur hefði átt að vera öllum aðgengilegur frá byrjun og grundvöllur umræðunnar.

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.12.2007 kl. 01:30

8 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Samkvæmt samtali sem ég átti áðan við höfund umhverfisskýrslu þá var henni ekki kunnugt um þennan samning milli Mosfellsbæjar og Helgafellsbygginga, sem að þó inniheldur nákvæmar útfærslur á tilhögun framkvæmda og staðsetningu tengibrautar og safngötu. Enda er þessari grunnforsendu, samningsins, ekki getið í heimildaskrá. Hvers vegna héldu bæjaryfirvöld þessu leyndu?

Gunnlaugur B Ólafsson, 11.12.2007 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband