Samspil manns og náttúru?

Í byrjun apríl birtist grein eftir bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ með ofangreindri yfirskrift í Mosfellingi. Eitthvað fannst mér efni greinarinnar ríma illa við titilinn sem leiddi til þess að ég fór að velta málinu fyrir mér.
Vestræn iðnríki hafa um langt skeið ofnýtt náttúruauðlindir Jarðar. Í samskiptum manns og náttúru hefur sá hugsunarháttur ráðið ríkjum að maðurinn sé Herra yfir náttúrunni með þeim afleiðingum að gæðum hennar hefur verið spillt, - oft á óafturkræfan hátt. Samspilið hefur verið á einn veg, þ.e. að maðurinn hefur leikið einleik án tillits í ríki náttúrunnar. Hugtakið samspil er því lítið annað en upphafning á tengslum sem vart fyrirfinnast í neyslusamfélögum samtímans. Af umgengni hins iðnvædda manns við náttúruna má ráða að náttúran hafi ekkert gildi í sjálfu sér, heldur einungis notagildi sem miðast við að þjóna þörfum hans á meðan auðlindin gefur eitthvað af sér.
En snúum okkar aftur að grein bæjarfulltrúans sem að mínu viti fjallaði um samskipti bæjaryfirvalda við íbúa í Mosfellsbæ. Greinarhöfundur kvartar yfir því að alltof algengt sé að "rætt (sé) um yfirvöld og almenning sem andstæða póla. Yfirvöld á móti almenningi. Að yfirvöld vilji ekki taka tillit til athugasemda og að búið sé að taka ákvarðanir um framkvæmdir og skipulagsferlið sé sýndarmennskan ein." Telur höfundur hina neikvæðu afstöðu "almennings" ekki eiga rétt á sér. Hún sé ýmist byggð á misskilningi eða mótist af pólitík og eiginhagsmunum frekar en umhyggju fyrir umhverfinu. Hinir raunverulegu handhafar sannleikans eru sem sagt yfirvöld.
Engum dylst sem til þekkir við hverja hér er átt en bæjarfulltrúinn kýs að sveipa dylgjurnar dulúð og nefna ekki nöfn. En til hvers að gefa umfjöllun um raunverulegt ágreiningsmál yfirbragð hlutleysis og fræðimennsku?
Til að varpa ljósi á forsöguna hefur núverandi bæjarstjórnarmeirihluti í Mosfellsbæ af mikilli einurð vísað öllum athugasemdum Varmársamtakanna við skipulagstillögur sem verið hafa í farvatninu á bug. Í svörum sínum og yfirlýsingum hvers konar hafa fulltrúar meirihlutans afgreitt tillögur samtakanna ýmist sem misskilning, pólitískan áróður eða sem eiginhagsmunapot. Ekki eitt augnablik virðist hafa hvarflað að þeim að sýna "almenningi" þá virðingu að taka málefnalega afstöðu til tillagnanna sem flestar hafa þó snúist um að gæta hagsmuna almennings, þ.e. að varðveita náttúru og menningarminjar sveitarfélagsins og um leið þá sérstöðu sem bærinn hafði áður en framkvæmdagleðin tók völdin.
Í athugasemdum við skipulagstillögur hafa Varmársamtökin ítrekað beðið bæjaryfirvöld um að leyfa ekki byggingar á náttúruverndarsvæðum á bökkum Varmár og Skammadalslækjar, heldur nýta svæðið til útivistar fyrir almenning eins og lög gera ráð fyrir. Bendum við á að skynsamlegra sé að taka framtíðarútivistarhagsmuni íbúa í Helgafellslandi og Mosfellsbæ fram yfir einkahagsmuni landeigandans, - en hagnaður af sölu einbýlishúsalóða við gljúfur Skammadalslækjar var mikill. Fulltrúar Varmársamtakanna sem frekar vildu gæta hagsmuna almennings lögðu til að 50-100 m hverfisvernd á svæðinu yrði ekki aflétt. En bæjarstjórnarmeirihlutinn aflétti hverfisverndinni og tók með því hagsmuni landeigandans fram yfir þau lífsgæði sem almenningur hefði annars orðið aðnjótandi. Í svari Mosfellsbæjar er athugasemdum samtakanna vísað á bug með þeim rökum að þær byggi bara á skoðunum samtakanna. Það er skemmst frá því að segja að engin málefnaleg rök koma fram í svari frá bænum fyrir því að hverfisvernd var aflétt á þessu svæði.
Þegar yfirvöld valta yfir skoðanir íbúa án rökstuðnings gefur auga leið að til verða andstæðir pólar. Samspil getur aldrei byggst á því að annar aðilinn eigi alltaf leik.
Skammadalsgljúfur og umhverfi þess er eitt fallegasta kennileitið í landslagi Mosfellsbæjar. Það voru því hvorki sjónarmið lýðræðis né náttúruverndar sem hér réðu ferð. Í stað samspils var leikinn einleikur.
Í greininni talar bæjarfulltrúinn ennfremur um mikilvægi þess að virða lög um umhverfismat og náttúruvernd en það er eins og þetta hafi gleymst þegar á reyndi við atkvæðagreiðslu í bæjarstjórn. Sömu sögu er að segja um yfirlýsingu hans um nauðsyn þess að grípa til mótvægisaðgerða til að forðast náttúruspjöll í tengslum við framkvæmdir. Er ekki nokkuð seint að krefjast mótvægisaðgerða þegar jarðvegsframkvæmdum er að mestu lokið? Í þessu sambandi skal tekið fram að íbúar í Mosfellsbæ hafa margítrekað beðið nefndir og ráð bæjarins að grípa til aðgerða vegna þess mikla magns af aur sem verktakar í Helgafellslandi hafa látið renna í árnar frá upphafi framkvæmda.
Það er aldrei gott fyrir stjórnmálamenn að vera vitrir eftir á og enn verra að íklæðast sauðagæru þegar kryfja þarf málefni til mergjar sem brenna á íbúum. Óljósar dylgjur geta aldrei markað upphafið af málefnalegri umræðu. Í þeim tilgangi að opna fyrir slíka umræðu um umhverfismál í Mosfellsbæ gerir undirrituð að tillögu sinni að bæjarfulltrúinn færi rök fyrir því af hverju húsbyggingar voru leyfðar á hverfisverndarbelti við Skammadalsgljúfur.

Sigrún Pálsdóttir, stjórnarmaður í Varmársamtökunum

__________________________________________

Herdís Sigurjónsdóttir hafði samband við greinarhöfund og sagðist vilja leiðrétta þann misskilning að í grein hennar fælist gagnrýni á Varmársamtökin. Herdís undirritar greinina sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs en þar sem samskipti við bæjaryfirvöld hafa verið á þann veg sem að ofan greinir er ómögulegt að skilja greinina öðruvísi en að hún sé að ræða um ágreining bæjaryfirvalda við íbúa, þar með talin Varmársamtökin. Þessu til frekari rökstuðnings birti ég hér að neðan fyrri hluta greinar Herdísar. Sjá allan textann á www.mosfellingur.is

Samspil manns og náttúru
eftir Herdísi Sigurjónsdóttur, bæjarfulltrúa og formann bæjarráðs Mosfellsbæjar
Það er óhætt að segja að viðhorf fólks til umhverfismála hafi breyst hratt um allan heim á liðnum áratugum. Fólk hefur nú hefur nú bæði meiri áhuga á umhverfismálum og lætur sig þau varða og sýnir ábyrgð.
Eins hefur aðkoma almennings og frjálsra félagasamtaka að skipulagsmálum breyst með auknum lagalegum rétti til að hafa bein áhrif á framkvæmdir yfirvalda og er sú þróun afskaplega jákvæð.
Það er jákvætt að fólk láti sér annt um náttúruna og krefjist þess að gengið sé um sameiginlegar auðlindir af virðingu og að fólk sýni sjálft gott fordæmi í þeim efnum. Þó er enn of mikið rætt um almenning og yfirvöld sem andstæða póla. Yfirvöld á móti almenningi. Að yfirvöld vilji ekki taka tillit til athugasemda og að búið sé að taka ákvarðanir um framkvæmdir og skipulagsferlið sé sýndarmennskan ein.
Ég held líka að oft misskilji fólk samt tilganginn með athugasemdum, eða nýti sér sinn rétt frekar í pólitískum tilgangi og vegna einkahagsmuna, en vegna beinnar umhyggju fyrir umhverfinu og er slík ekki trúverðugt.
Viðhorf fólks til umhverfismála og náttúruverndar er og verður mismunandi. Mikilvægt er að þeir sem hafa vald til ákvarðanatöku nái að sætta sjónarmið og komast að sem bestri niðurstöðu fyrir flesta. ....
Mosfellingur 4. apríl, bls. 17.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Eins og ég sagði við þig í dag Sigrún þá var ég ekki að tala um Varmársamtökin, heldur náttúruverndarsamtök yfirleitt. Ég sagði heldur aldrei að þetta væri neikvæð þróun, það voru þín orð.

Ég var búin að skrifa bloggfærslu um ýmis samtök í tengslum við námið mitt (sjá þessa færslu). En sú grein varð undanfari greinarinnar í Mosfelling. Ég læt greinina fylgja með.

Í máli mínu var ég að tala um þessa bókun framsóknarmanna, eins og ég sagði þér. 

22.3.2008 | 14:49

Samspil manns og náttúru

Að undanförnu hef ég verið að stúdera frjáls félagasamtök er starfa að umhverfismálum og náttúruvernd hér heima og erlendis. Ég er skrifa ritgerð um Climate Action Network(CAN), sem eru regnhlífarsamtök er starfa um alla heim og vinna ötullega að loftslagsmálum. Það eru 365 samtök starfandi undir CAN og eru Náttúruverndarsamtök Íslands (NÍ) einu íslensku samtökin sem starfa með þeim. Ég vann einmitt verkefni um Náttúruverndarsamtökin og þótti mér stórmerkilegt að skoða sögu samtakanna. Sagan þeirra hófst allt líkt og með fjölmörg önnur slík samtök á hugsjónum manna og auglýsingu í blaði. Árið 1997 voru samtökin stofnuð og í dag rúmum áratug síðar eru 1300 félagar í samtökunum. Þau hafa sýnt yfirvöldum aðhald frá upphafi líkt og þau einsettu sér að gera og eins hafa þau unnið markviss að því að upplýsa almenning um ýmis mál líkt og Kárahnjúka.

Það hefur verið gaman að skoða þessi mál og eru samtökin mis kröftug og með mjög mismunandi uppbyggingu, stefnu og baráttuaðferðir. Landvernd var lengi vel frekar hlutlaus og halda margir jafnvel að Landsvernd sé ríkisstofnun. En það hefur breyst að undanförnu og er bein ádeila á ríkisvaldið orðin meira áberandi og eru þau á margan hátt farin að líkjast Náttúruverndarsamtökunum Íslands. En NÍ hafa frá upphafi verið fljót að bregðast við því sem yfirvöld hafa verið að gera í umhverfismálum. Framtíðarlandið fékk mikinn byr undir báða vængi, en svo virðist sem þeir hafi tapað trúverðugleika með því að tengja sig beint við Íslandshreyfinguna.

Að mínu mati hafa öll þessi samtök unnið gott starf og líkt og með flest þá eru viðhorf fólks til umhverfismála og náttúruverndar breytileg. Mikilvægt er að þeir sem hafa vald til ákvarðatöku nái að sætta sjónarmið og komast að sem bestri niðurstöðu fyrir sem flesta. Hér á landi eru greinilega ríkjandi veik mannhverf viðhorf til náttúrunnar. En stundum sér maður samt afar misvísandi skilaboð í því sem sagt er og skrifað. Hér er skólabókardæmi um slík er kemur fram í bókun á 95. fundi umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

"Ljóst er að stækkun Mosfellsbæjar kemur til með að hafa áhrif á náttúru og viðkvæm svæði í sveitarfélaginu og þess vegna ber að fara með meiri nærgætni og hafa umhverfisjónarmið að leiðarljósi fyrir allar framtíðar vegaframkvæmdir í Mosfellsbæ........ ......Framkvæmd þessi þrengir verulega að íþróttastarfssemi hestamanna og e.t.v stækkun á hesthúsahverfinu. Ágætis byggingarsvæði er tekið undir veg og útilokar alla framtíðar uppbyggingu á þessu svæði.

Hvað er verið að segja í þessari bókun?  Ekki má gera veg fyrir íbúa nýs hverfis í bæjarfélaginu og tengja hverfið við miðbæ Mosfellsbæjar og tengja saman skólahverfi, en það er hins vegar allt í lagi að byggja upp fleiri hesthús á nákvæmlega sama landsvæði?

Það er óhætt að segja að síðasta áratuginn hafi viðhorf til umhverfismála breyst mikið um allan heim. Það má segja að almenningur hafi í dag bæði meiri áhuga á umhverfismálunum og láti sig þau varða og eins hefur aðkoma almennings að skipulagsmálum breyst með auknum rétti til að hafa bein áhrif á fyrirhugaðar framkvæmdir og skipulagsáætlanir yfirvalda. 

Að mínu mati hefur sú þróun sem átt hefur sér stað á liðnum áratug eða svo verið jákvæð.

  • Það er jákvætt að fólk láti sér annt um náttúruna og krefjist þess að gengið sé um sameiginlegar auðlindir af virðingu og að fólk sýni sjálft gott fordæmi í þeim efnum. 
  • Það er líka mikilvægt að beita mótvægisaðgerðum til að draga úr beinum áhrifum á umhverfið og lífríki þar sem framkvæmdir fara fram. 
  • Það er líka nauðsynlegt að einstaklingar og félagasamtök sýni yfirvöldum aðhald og vinni með þeim að því ná sem bestri niðurstöðu í þágu náttúrunnar.

Að mínu mati er samt enn allt of mikið rætt um yfirvöld á móti almenningi. Að yfirvöld vilji ekki taka tillit til athugasemda og að búið sé að taka ákvarðanir um framkvæmdir og skipulagsferlið sé sýndarmennskan ein. Ég held líka að oft misskilji fólk samt tilganginn með athugasemdum, eða nýti sér sinn rétt meira í pólitískum tilgangi og vegna einkahagsmuna, en vegna beinnar umhyggju fyrir umhverfinu og er slíkt ekki trúverðugt. En með lögum um umhverfismat og umhverfismat áætlana og lögum um náttúruvernd og fleiri lögum er samt búið að setja ramma og leikreglur sem öllum ber að fara eftir. Það er því niðurstaða mín að hvernig sem á þetta mál er litið verði fólk að hafa í huga að lögin og leikreglurnar eru að fjalla um samspil manns og náttúru. Hvernig ber að draga úr mengun, forðast óþarfa ágang og náttúruspjöll og að nútímamaðurinn taki ekki eigin hagsmuni umfram hagsmuni komandi kynslóða varðandi nýtingu náttúruauðlinda til lífsafkomu sinnar.

Herdís Sigurjónsdóttir, 30.4.2008 kl. 21:29

2 identicon

Sæl Herdís
Ég get ómögulega séð mótsögn í bókun framsóknarmanna. Þetta svæði hefur lengi verið á skipulagi sem hesthúsabyggð og hafa eigendur eytt miklum fjármunum í uppbyggingu þess. Tengibraut með tilheyrandi loftmengun, slysahættu og umferðarhávaða passar mjög illa inn í þessa mynd. Hér er eins og svo oft áður verið að breyta skipulagi án þess að hugsa út í þær afleiðingar sem það hefur fyrir starfsemina á svæðinu. Ég hef t.d. ekki séð neina úttekt á þeim áhrifum og á þau var hvergi minnst í umhverfisskýrslunni sem Mosfellsbær kynnti fyrir Varmársamtökunum í síðustu viku.

Sigrún P (IP-tala skráð) 30.4.2008 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband