Kröftugir liðsmenn í brúna hjá Varmársamtökunum

ÁlafossþorpiðÍ gær héldu Varmársamtökin framhaldsaðalfund þar sem gerðar voru lagabreytingar og kosið í nýja stjórn. Ný í stjórn eru þau Kolfinna Baldvinsdóttir, Ólafur Ragnarsson og Páll Kristjánsson. Gunnlaugur Ólafsson og Sigrún Pálsdóttir gáfu kost á sér áfram og varamenn skipaðir þær Marta Guðjónsdóttir og Kristín Pálsdóttir.
Í upphafi fundar kynntu arkitektar frá Batteríinu tillögur að nýju miðbæjarskipulagi í Mosfellsbæ. Er þetta fyrsta opinbera kynningin á tillögunum og ljóst á undirtektum fundargesta að umræðna er þörf meðal bæjarbúa um skipulag miðbæjarins áður en lengra er haldið í skipulagsferlinu.
Berglind Björgúlfsdóttir fráfarandi formaður setti fundinn og ítrekaði mikilvægi þess að halda áfram kröftugu starfi samtakanna. Ævar Örn Jósepsson minntist fréttamannsins Jóns Ásgeirs Sigurðssonar sem lést langt fyrir aldur fram síðastliðið sumar. Jón Ásgeir var fundarstjóri á stofnfundi Varmársamtakanna 8. maí 2006 og samtökunum sérlega ráðhollur þegar til hans var leitað. Bryndísi Schram var færður blómvöndur í þakklætisskyni fyrir að hafa sýnt af sér fádæma borgaralegt hugrekki í Álafosskvos 31. janúar 2007 en þann dag hófu verktakar að rífa upp áratugagömul tré með gröfukjöftum í hlíðinni á milli Kvosarinnar og Brekkulands. Íbúar í Mosfellsbæ höfðu safnast saman á svæðinu og sýndi Bryndís ein manna það hugrekki að stoppa framkvæmdir með því að ganga í veg fyrir gröfuna. Í máli Sigrúnar Pálsdóttur kom fram að í lýðræðissamfélagi ætti fólk að láta í sér heyra þegar því væri misboðið. Það hafi Bryndís gert með afar eftirminnilegum hætti. Einnig að Íslendingar mættu yfirhöfuð vera duglegri við að láta í ljós tilfinningar sínar til umhverfisins. Álafosskvos hefði að geyma merka sögu Mosfellsbæjar og ullariðnaðar á Íslandi og fyrir því þurfi þeir sem í Mosfellsbæ ráða ferð að bera virðingu. Jóhannes Bjarni Eðvaldsson íbúi í Álafosskvos og nýr félagsmaður í Varmársamtökunum þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum frábært starf. Hann sagði ljóst að Varmársamtökunum hefði tekist að breyta viðhorfi íbúa og yfirvalda til umhverfismála.
Katrín Theódórsdóttir lögmaður stýrði fundinum. Tillögur að lagabreytingum hlutu einróma samþykki og tekur nú við stjórnartaumum kröftug stjórn með háleitar hugmyndir um þróun bæjarfélagsins eins og fram kom í kynningu frambjóðenda á framboðum sínum. Mun ný stjórn skipta með sér verkum á fyrsta fundi stjórnar.

Ályktun aðalfundar Varmársamtakanna

Aðalfundur íbúa- og umhverfissamtaka Varmársvæðis skorar á bæjaryfirvöld að virða 50-100 m hverfisvernd meðfram ám og vötnum í bæjarfélaginu.  Einnig er skorað á bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar að efla samráð og þátttöku íbúa í ákvarðanatöku og stefnumótun.

sp


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband