Vegur eða fráveita? - ári síðar

Veitulagnir í vegstæði tengibrautarinnar?Í dag 14. maí er eitt ár liðið frá því að íbúar í Mosfellsbæ komu saman í Álafosskvos til að mótmæla framkvæmdum sem þá voru hafnar í vegstæði tengibrautarinnar. Þáverandi bæjarstjóri Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafði nokkrum vikum áður sagst ætla að skapa sátt meðal íbúa um skipulagið og vinna umhverfisskýrslu áður en vegagerðinni yrði fram haldið en framkvæmdir voru stöðvaðar af úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála 14. febrúar það ár.
Vinna við tengibrautina hófst degi eftir að úrslit þingkosninga lágu fyrir og var á þessum tímapunkti hvorki búið að vinna umhverfisskýrslu, né kynna skipulagið fyrir íbúum. Safnaðist fólk saman til að mótmæla þessum vinnubrögðum og stöðvuðust framkvæmdir um tíma þann dag.

Landið er samkvæmt lögum allt skipulagsskylt. Ekki er hægt að gefa út framkvæmdaleyfi nema að fyrir liggi deiliskipulag og eins og áður segir lá það ekki fyrir. Engu að síður mætti lögreglan á svæðið og framvísaði leyfisbréfum frá Mosfellsbæ sem ekki gátu talist gild þar sem deiliskipulag vantaði. Var þrefað um þetta í brekkunni fram eftir degi. Atburðarásin var í meira lagi þversagnakennd.  Íbúar samþykktu ekki pappírana sem lögreglan framvísaði frá bænum. Mosfellsbær brá þá á það ráð að fullyrða að þótt gamla deiliskipulagið væri ekki lengur í gildi hefðu þeir ekki dregið til baka þann hluta framkvæmdaleyfisins sem lyti að fráveituframkvæmdum. Það er hins vegar ekki hægt að gefa út framkvæmdaleyfi án deiliskipulags og því voru góð ráð dýr. Að lokum kom bærinn fram með þá skýringu að ekki þyrfti framkvæmdaleyfi þar sem verið væri að vinna að fráveitu.

Rétt er að minniháttar veituframkvæmdir eru ekki skipulagsskyldar. En hvað eru minniháttar framkvæmdir? Verða það ekki að teljast meiriháttar framkvæmdir á viðkvæmu svæði þegar berg er sprengt eða fleygað niður á 5-8 m dýpi og öllum jarðvegi skipt út fyrir þykkan grjótmulning sem á geta ekið fleiri tonna þungar vinnuvélar?  Er ekki ljóst að þarna var verið að vinna undirlag fyrir Helgafellsbraut sem er vegur en ekki fráveita? Allavega var umferð hleypt á umrædda "fráveitu" þremur dögum eftir að frestur til að skila inn athugasemdum við umhverfisskýrslu og nýtt deiliskipulag rann út tveimur mánuðum síðar, þ.e. 12. júlí.
Það þarf ekki að taka fram að ekkert tillit var tekið til athugasemda íbúa. Líklega verður vandræðagangur lögreglunnar og bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ í þessu máli lengi í minnum hafður á Íslandi og vonandi munu skipulagsyfirvöld yfirhöfuð draga af honum lærdóm.

Íbúar í Álafosskvos og Brekkulandi kærðu þessar framkvæmdir til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og liggur úrskurður nú ári síðar enn ekki fyrir. Það er sem sagt meiri háttar mál á Íslandi að fá úr því skorið hvort leggja megi vegi án deiliskipulags og framkvæmdaleyfis.

sept06KvosÁlafossvegur 10 í undir undirlagi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan dag,

Mig langar til að leggja fram fyrirspurn til þessara samtaka og vonast eftir svari sem fyrst.

Á s.l. ári lagðist sú fræga kona, Bryndís Schram niður í grasið og grét. Tilgangurinn var að mótmæla lagningu tengivegarins. Hins vegar varð ég þess ekki var þá, né í drottningarviðtölum og greinum hennar í Morgunblaðinu, hver lausnin væri. Ljóst er að verði þessi tengibraut ekki lögð virðist eina hæfa leiðin vera fyrir ofan byggðina og út á Þingvallaveg. Sé svo skulum við skoða afleiðingarnar: 10.000 bílar á dag aka aukalega 20.000 km á dag. Það er í kringum jörðina á tveggja daga fresti eða til tunglsins á 15 daga fresti. Aukalegur bensínkostnaður íbúa yrði um 100.000.000 á ári, milljarður á 10 ára fresti og þannig um aldur og ævi. Auka mengunin sem þessu fylgir er gífurleg. Af hverju spurði enginn um þetta. Vildi Bryndís auka mengun jarðar ? Vildi Bryndís leggja 100 milljóna króna árlegan skatt á þessa íbúa ?

Vænti svars sem fyrst,

virðingarfyllst,

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 17:50

2 identicon

Göngum út frá því að þessar tölur séu réttar, - sem þær eru reyndar ekki. Finnst þér í lagi að farið sé út í framkvæmdir án deiliskipulags og framkvæmdaleyfis með þeim afleiðingum að aðkoma íbúa að skipulaginu er að engu gerð? Um þetta fjallaði pistillinn sem þú settir þessa athugasemd við.
Lesendum til upprifjunar var búið að reikna út að leið þeirra sem fara í átt að miðbænum lengist um 1 km sé leið ofan byggðar undir Helgafelli valin; leið hinna sem fara í átt að Þingvöllum og síðar Sundabraut styttist aftur á móti um svipaða vegalengd. Þinn útreikningur segir því einungis hálfa söguna.
Ein helstu mótrök bæjarins gegn okkar tillögu voru á sínum tíma að það yrði of kostnaðarsamt að fleyga bergið undir veginn. Ég mæli með að íbúar kíki upp í Helgafellsland og skoði hvað þar er um að vera. Þar er nefnilega verið að mylja niður fleiri þúsund tonn af bergi úr neðri hlíðum Helgafells fyrir ofan Reykjalund.
Augljóslega eru margar hliðar á sama máli og þegar unnið er að gerð skipulags er nauðsynlegt að taka þær allar með í reikninginn annars fáum við vitlausa útkomu. Ef þú hefur áhuga á að kynna þér okkar tillögur er umfjöllun um þær að finna á þessu bloggi í apríl og maí í fyrra.
Veltum upp öllum hliðum málsins og sjáum svo hver útkoman verður.

Sigrún P (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 20:04

3 identicon

Sæl og takk fyrir að svara mér.

Ég sá hvergi hentugri stað til þess að setja þessa athugasemd mína inn en hér. Til þess fá ekki vitlausa útkomu úr mínu dæmi, sem þú fullyrðir að séu rangar, þá ók ég þessa leið í dag. Byrjaði ég á hringtorgi sem er vestan við "Augað" og mæli á "trip" mæli bíls míns. Fór á hringtorgið neðst í kvosinni. Um 650 metrar. Svo til baka á sama stað, ók yfir á Þingvallaveginn og svo niður á sama torg. Um 2550 metrar. Niðurstaðan er mismunurinn, 2000 metrar, sem þú segir að séu 1000 metrar. Útreikningar mínir eru því réttir og þínir rangir, því Sundabraut er nú ekki komin og allveg er ljóst að verulegur hluti þessarar umferðar fer í Mosfellsbæ eða austurbæ Reykjavíkur.  Reyndu svo að hafa hlutina rétta "annars fáum við vitlausa útkomu" svo notuð séu þín orð. Að lokum: Það mætti koma skýrt fram hér að þessi samtök ykkar hafa ekki breytt neinu með þennan veg, hann er kominn og verður þarna, til mikils sparnaðar fyrir væntanlega íbúa þessa hverfis. Verst hvað þessi della ykkar er búin að kosta bæjarsjóð mikið, hversu fáir hafa náð að kúga marga ! Með ólíkindum. Og að lokum: Ég hef enga hagsmuni að gæta í þessu Helgafellshverfi, dytti einhverjuum það í hug.

Virðingarfyllst,

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 17:50

4 identicon

Það stóð aldrei til að keyra alla leið út á Þingvallaleið. Okkar tillaga var að fara niður á Vesturlandsveg í útjarðri byggðar við Ása. Við fengum til liðs við okkur byggingarverktaka sem sérhæfir sig í umferðarmannvirkjum og verkfræðinga til að meta hvort þetta væri raunhæft. Allir voru sammála um að þessi leið væri vel þess virði að kanna hana. Það var aldrei gert. Þínir útreikningar eru ekki í takt við það sem við lögðum til en það væri ekki úr vegi að reikna mismuninn. Ertu búinn að reikna út hvað sparast hjá þeim sem nota Sundabraut til og frá heimili sínu?

Sigrún P (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 18:39

5 identicon

Æi, ekki láta alla fá hláturskast, nýtt hringtorg innan við 100 metra frá núverandi hringtorgi ! Enginn, ég segi ENGINN verkfræðingur í vegamálum myndi samþykkja þessa dellu. Eftir stendur það sem ég sagði: Bryndís Schram (og þið) heimtið rosalega aukna mengun og kostnað fyrir væntanlega íbúa ! Flott hjá ykkur, hitt þó heldur ! Sundabraut kemur auðvitað einhverjum að gagni og þar sem ekki liggur enn fyrir hvernig hún verður lögð, er ekki hægt að reikna e-ð út í þeim efnum. Játaðu þig bara sigraða í þessu rugli þínu, engin rök halda hjá þér. Ekki búast við frekari skrifum frá mér um þetta mál, það er ekki hægt að eiga orðastað við fólk sem heldur að 2 + 2 = 5, en takk fyrir samt að staðfesta mína útreikninga sem rétta.

Virðingarfyllst,

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 19:38

6 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Örn er óþarflega yfirlýsingaglaður og jaðrar við að vera hrokafullur í framgöngu. Slíkt bætir aldrei málflutning.

1. Hringtorg við Álafosskvos er bráðabirgðalausn. Haraldur Sverrisson núverandi bæjarstjóri og fyrrum bæjarstjóri vonast til að tvöföldun hringtorgsins verði lausn sem dugir í allt að tuttugu ár. Samkvæmt samtölum við Vegagerð gerir hún ráð fyrir að með tvöföldun sé tjaldað til skamms tíma og meðan ekki sé annað ákveðið, þá verði fylgt aðalskipulagi Mosfellsbæjar.

2. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir að Helgafellsvegur fari undir Vesturlandsvegi og það er það sem kemur fyrr eða síðar. Mislæg gatnamót munu vera á Hafravatnsvegi (núv. Reykjavegur) og Vesturlandsvegi þar sem er miðbær. Því er eðlilegt að bera saman akstur Helgafellsumferðar í framtíðinni um miðbæ, meðfram Brúarlandi, framhjá íþrótta- og skólasvæði, undir Vesturlandsveg, þvert yfir reiðleið og gönguleið, í gegnum Álafosskvos og áfram upp í augað.

3. Þetta eru forsendurnar sem á að bera saman við tillögu Varmársamtakanna um mislæg gatnamót í jaðri núverandi byggðar, nokkuð nær en nýbyggt hringtorg og þaðan yfir Ásinn, sem skorinn hefði verið niður og farið inn í augað. Þetta gefur miklu hraðara umferðarflæði að byggðinni, um 90 km/klst á meðan að samkvæmt fyrirliggjandi plönum bæði eftir Helgafellsvegi og meðfram skólasvæði og gegnum miðbæ þarf að fara á 30Km/klst mest alla leiðina.

Meginniðurstaða. a. Munur í vegalengd upp á 10% skilar sér ekki í orkusparnaði þar sem að umferð samkvæmt fyrirliggjandi uppbyggingu og aðalskipulagi mun verða hægari og tímafrekari. b. Umferð samkvæmt núverandi uppbyggingu og plönum veldur mannlífi og miðbæ verulegum óþægindum c. núverandi uppbygging og fyrirliggjandi skipulag hindrar öll áform um uppbyggingu "Varmárdals" sem útivistarsvæðis Mosfellsbæjar frá upptökum að ósum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 19.5.2008 kl. 21:24

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

VILLA  ...núverandi bæjarstjóri og fyrrverandi formaður skipulagsnefndar ...

Gunnlaugur B Ólafsson, 20.5.2008 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband