Heildstætt umhverfismat í stað dýrkeyptra eftiráreddinga

Álafosskvos og Helgafellsland 07Dapurlegar afleiðingar þess að ekki fór fram heildstætt mat á umhverfisáhrifum deiliskipulags Helgafellsvegar blasa nú við vegfarendum um Álafosskvos. Varmársamtökin hafa lengi barist fyrir heildstæðu umhverfismati á öllum þeim framkvæmdum sem tengibrautin við Varmá fæðir af sér. Ef bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hefðu brotið odd af oflæti sínu og hlustað á rök samtakanna hefði núverandi lega tengibrautarinnar aldrei komið til álita. Bentu samtökin m.a. á að ekki væri nægilegt landrými í Kvosinni fyrir svo umfangsmikla vegagerð. Niðurstaða okkar er sú að hægt hefði verið að koma í veg fyrir dýrkeypt skipulagsmistök í Álafosskvos ef fram hefði farið heildstætt mat á umhverfisáhrifum.
 
Helgafellsvegur tengdur KvosÍ dag er búið að þröngva tengibrautinni yfir annan vegarhelming Álafossvegar þannig að aðeins er hægt að aka til og frá Kvosinni eftir einni akrein. Auk þess að skapa slysahættu er ástand vegarins með öllu óviðunandi. Nú eftirá eru arkitektar að leita leiða út úr skipulagsvandanum sem bæjaryfirvöld hefðu getað sparað sér með því að meta heildaráhrif skipulagsins fyrirfram.
Frá upphafi skipulagsferlis hafnaði Mosfellsbær óskum íbúa og Umhverfisstofnunar um að vinna deiliskipulag Álafosskvosar samhliða deiliskipulagi Helgafellsvegar. Í dag stendur íbúum til boða vegtenging inni í Kvosinni sem þó er bein afleiðing af deiliskipulagi tengibrautarinnar.
Ljóst er að ekkert pláss er fyrir gatnamót inni í Kvosinni. Samt sem áður telja framkvæmdaaðilar að engin önnur leið sé fær sem þýðir að íbúar áttu frá upphafi ekki annað val en að sætta sig við ódáminn sem nú liggur á teikniborði “fagaðila”.
 
Úrskurður Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, þess efnis að fram fari heildstætt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda í tengslum við álver á Bakka er í ljósi þessara vinnubragða mikið fagnaðarefni.  Ráðherra er að virkja ákvæði í íslenskum lögum sem fyrir löngu hefði átt að vera sjálfsagður þáttur í undirbúningi framkvæmda á Íslandi. Hefði ákvæðinu verið beitt eins og til er ætlast í evrópskri umhverfislöggjöf hefði á umliðnum árum mátt afstýra óafturkræfum  umhverfisspjöllum víða um land.
 
En eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er grunnt á vilja margra þingmanna til að stuðla að raunverulegum umbótum í umhverfis- og skipulagsmálum.  Í stað þess að styðja viðleitni umhverfisráðherra til að innleiða löngu tímabær vinnubrögð við undirbúning framkvæmda bítast stjórnmálamenn um atkvæði Húsvíkinga. Er það þingmönnum sæmandi að tala til þjóðarinnar eins og að umhverfisráðherra hafi gert mistök með því að fara að lögum?
 
Ljóst er að áhrif framkvæmda í Mosfellsbæ eru af annarri stærðargráðu en á Húsavík. Engu að síður gilda sömu reglur um undirbúninginn, þ.e. að afleiðingar skipulagsáætlana liggi ljósar fyrir áður en ráðist er í framkvæmdir. Með heildstæðu umhverfismati hefði mátt forða Mosfellsbæ frá vandræðalegum eftiráreddingum. Ég lít á úrskurð ráðherra sem viðleitni til að forðast slík mistök í framtíðinni og hvet þingmenn til að standa ekki í vegi fyrir því að sjálft ríkisvaldið framfylgi lögum á Íslandi.

sp


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband