Tunguvegur: Skipbrot umhverfisstefnu í Mosfellsbæ

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 20. október og við birtum hana hér með góðfúslegu leyfi höfundarins, Ólafs Arnalds.

 Tunguvegur: Skipbrot umhverfisstefnu í Mosfellsbæ

„ÍSLENDINGAR leggja veg beint yfir gíginn og mýrina“ var haft eftir glöggum erlendum gesti fyrir margt löngu, en hann undraðist hversu landsmenn sinntu lítt um verndun á náttúruperlum sínum. Það er hald marga að þetta sé liðin tíð í skipulagi á framkvæmdum á Íslandi. Svo er þó alls ekki í Mosfellsbæ. Bærinn sá rígheldur í þráhyggju fortíðarinnar og hrærist ei.

Ákveðið hefur verið að leggja innansveitarveg, svokallaðan Tunguveg, frá hinu nýja Leirvogstunguhverfi þvert yfir árósasvæði Köldukvíslar og Varmár, um hlaðið á Varmárskóla og í jaðri friðlýstra svæða, yfir ómetanlega útivistarparadís Mosfellinga. Þetta er ótrúlegt skemmdarverk á náttúru bæjarins. Það sem einkennilegra er: það er fullkomlega óþarft.

Mosfellsbær telur að hér hafi vel verið vandað til skipulagningar, en svo er öldungis ekki. Því til skýringar má nefna:

1) Gerður var samanburður við aðra kosti sem voru algjörlega óraunhæfir, en ekki litið til þess kosts sem leysir verkefni hins nýja Tunguvegar fullkomlega, sem er vegur sem lægi í sveigum með Vesturlandsvegi og yrði um leið ný aðkomuleið að útivistarsvæðinu við árósana.

2) Ekki var litið til mikilvægis samfellu svæðisins, en samfelld útivistarsvæði hafa margfalt gildi á við þau sem brotin eru upp af mannvirkjum.

3) Fagfólk er í raun haft að háði þegar tilgreind eru lítil áhrif vegarins á tiltekna þætti; aldrei var spurt um mikilvæga þætti á borð við framtíðargildi og möguleika svæðisins, sem er einstakt á öllu höfuðborgarsvæðinu, eða mótuð heildstæð náttúrusýn á svæðið, sem þó var talið mikilvægt af þeim sérfæðingum sem leitað var til. Ekki er nóg að sýna íbúum huggulega framtíðarmynd af vegamannvirkjum í samburði við raskaða ásýnd svæðisins í dag. Sýna verður endurheimta ásýnd svæðisins og möguleika þess sem náttúruperlu eigi samanburðurinn að vera raunhæfur.

4) Hinn nýi Tunguvegur endar á skipulagsdrætti við Leirvogsá, vegarendi sem býður nýs hverfis handan Leirvogsár, þar sem í framtíðinni rís byggð tugþúsunda manna sem vænta þess að aka Tunguveginn um byggðina í Leirvogstungu og Skeiðholti. Skipulagsvinna sem lýtur fortíð og nútíð en lítur ekki til framtíðar er lítils virði.

5) Vegurinn var dreginn á skipulagsdrætti þegar umhverfisviðmið voru sem áður var lýst: „beint yfir gíginn og mýrina“. Viðhald á þessari hugmyndafræði er dapurleg stefna og augljóslega ekki í samræmi við nútímalega skipulagshugsun sem hefur náttúruvernd, manngildi og lýðheilsu að leiðarljósi. Umhverfisvinna við mat á vegarstæðinu er meingölluð enda ekki litið til framtíðargildis svæðisins; þeirrar paradísar sem unnt er að mynda á svæðinu til hagsbóta fyrir menntun, menningu, til útivistar og svo mætti lengi telja. Mat á slík verðmætum er mikilvægt í eðlilegri skipulagsvinnu.

6) Áhrif á Varmárskóla og möguleika skóla bæjarins til nytja á svæðinu eru ekki metin; Varmárskóli er einn stærsti skóli landsins og börnum á svæðinu fjölgar ört.

7) Vegalagning af þessu tagi væri óhugsandi í nágrannalöndunum, þar sem kapp er lagt á að rífa upp sambærileg mannvirki og endurheimta hin raunverulegu verðmæti við ár og að ekki sé talað um árósa. Fullyrða má að verðgildi eigna í Leirvogstungu muni verða mun meira ef annað vegstæði er valið og útivistarparadísin á árósasvæðinu mótuð af einhverri skynsemi.

8) Rétt er að minna á að eitt sinn átti meginstofnæð Reykjavíkur og Kópavogs að liggja um Fossvogsdalinn. Vissulega væri auðveldara fyrir íbúa Fossvogs að aka úr bænum þá leið, en þar er enginn svo vitlaus að halda slíkum hugmyndum á lofti nú, önnur verðmæti dalsins eru margföld á við veginn.

Umhverfisslys í Mosfellsbæ hafa verið mörg og stór að undanförnu. Satt best að segja skil ég ekki lengur hvaða hlutverki grænn flokkur gegnir í þessari bæjarstjórn. Hann var örugglega ekki kosinn til þessara verka! Ég skora á bæjarstjórn að endurskoða hug sinn varðandi Tunguveg og líta til annarra kosta – en þeir eru sannarlega fyrir hendi!

Höfundur er prófessor við umhverfisdeild LbhÍ og íbúi í Mosfellsbæ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Varmársamtökin

Tillaga Varmársamtakanna er að hlustað sé á bestu fagmenn, eins og til dæmis Olaf Arnalds.

Varmársamtökin, 27.10.2008 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband