Nú er lag að hætta við vegagerð í Álafosskvos

Aðalfundur Varmársamtakanna var haldinn í gærkvöld. Þar var m.a. kosið í stjórn félagsins, rætt um fjáröflunarleiðir og vegagerð við Álafosskvos. Nýja stjórn Varmársamtakanna skipa Freyja Lárusdóttir, Kolfinna Baldvinsdóttir, Ólafur Ragnarsson, Páll Kristjánsson og Sigrún Pálsdóttir. Gunnlaugur B. Ólafsson og Kristín Pálsdóttir sitja í varastjórn.

Ályktun aðalfundar Varmársamtakanna um vegagerð við Álafosskvos
Aðalfundur Varmársamtakanna haldinn þriðjudaginn 25. nóvember 2008 skorar á bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að varðveita sögulega arfleið Mosfellsbæjar, sem felst í atvinnusögu og einstakri náttúrufegurð við Álafoss, með því að hætta alfarið við lagningu Helgafellsvegar um Álafosskvos.

 

Í ljós hefur komið að fyrir mistök var Helgafellsvegur lagður í þeirri hæð að ekki er hægt að koma við tengingu við Álafossveg þannig að taka þarf veginn upp aftur og lækka í landinu, ellegar slíta vegtengingu við Álafosskvos. Varmársamtökin útiloka báða þessa möguleika.  Samtökin leggja til að í stað þess að lækka veginn verði  malbik tekið  upp á 150-200 m kafla við Álafosskvos og gróðurmold keyrð í vegstæðið og svæðið grætt upp með öllum tiltækum ráðum.

Í ljósi breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi gefst nú ráðrúm fyrir  bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ til að endurskoða skipulagið frá grunni.  Algjört hrun blasir við í byggingariðnaði á Íslandi og ljóst að offramboð á íbúðarhúsnæði er með þeim hætti að engin þörf er fyrir nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Frekari uppbygging í Helgafellshverfi er í ljósi aðstæðna afar ólíkleg og engin þörf fyrir Helgafellsveg um Álafosskvos á næstu árum.

Varmársamtökin hafa frá upphafi bent á afar neikvæð umhverfisáhrif Helgafellsvegar, s.s. (1) að ekki er nægilegt landrými fyrir 10 000 bíla tengibraut um Álafosskvos; (2) að vegtenging við Álafosskvos er vegna staðhátta verkfræðilega óframkvæmanleg; (3) að vegurinn er slysagildra og (4) ávísun á skipulagsslys að vinna ekki tillögur að deiliskipulagi Álafosskvosar og deiliskipulagi Helgafellsvegar samhliða. 

Varmársamtökin lýsa sig hér með reiðubúin til að koma að endurskoðun á skipulaginu með bæjaryfirvöldum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband