Lagning Helgafellsvegar stenst ekki skipulag

Helgafellsvegur tengdur KvosÁ mánudag sendu Varmársamtökin eftirfarandi erindi til bæjarráðs Mosfellsbæjar:

Varmársamtökin fara þess á leit við bæjarráð Mosfellsbæjar að ráðið beiti sér fyrir gagngerri endurskoðun á deiliskipulagi Helgafellsvegar og aðalskipulagi sama svæðis.

Skv. upplýsingum sem íbúar í Mosfellsbæ fengu nýverið á fundi með hönnuði gatnamóta í Álafosskvos stenst lagning Helgafellsvegar ekki gildandi skipulag með þeim afleiðingum að ekki er hægt að tengja Álafossveg við Helgafellsveg. Þetta þýðir að taka þarf malbik upp að nýju og leggja veginn aftur. Ljóst er að slík framkvæmd kostar mikla fjármuni sem skattgreiðendur í Mosfellsbæ þurfa á endanum að greiða sé tekið mið af þeim aðstæðum sem uppi eru í byggingariðnaði í sveitarfélaginu. Þar sem uppbygging í Helgafellshverfi er ekki fyrirsjáanleg á næstu árum og engin þörf fyrir veginn fara Varmársamtökin þess á leit við bæjarráð að veginum verði lokað, malbik tekið upp, gróðurmold keyrð í sárið og trjám plantað í hlíðina.

Varmársamtökin telja að ásýnd og góður staðarandi í kvosinni við Álafoss sé afar mikils virði fyrir bæjarfélagið, bæði afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu og velferð íbúa, í nútíð og framtíð. Hér er um að tefla einhvern fallegasta, menningarsögulega byggðakjarna á höfuðborgarsvæðinu sem í ljósi þeirra þrenginga sem atvinnulíf á Íslandi stendur frammi fyrir í dag er afar mikilvægt að nýta sér og hlúa að.

Nú þegar tengibrautin hefur verið lögð er orðið ljóst hve afar neikvæð áhrif hún hefur á ásýnd, umhverfi og íbúabyggð við Álafoss. Gatnamót við Brekkuland valda íbúum áhyggjum vegna stóraukinnar slysahættu, auk þess sem sú bráðabirgðatenging sem vegfarendur um Álafosskvos hafa um langt skeið þurft að notast við hefur neikvæð áhrif á afkomu fyrirtækja í Kvosinni. Í ljósi þess hve lítið landrými er í og við Kvosina mun sú vegtenging sem nú er á teikniborðinu heldur ekki leysa þann vanda sem núþegar blasir við á svæðinu.

Varmársamtökin telja að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ eigi þess nú kost að nýta sér, bæjarfélaginu til framdráttar, hrunið sem við blasir í byggingariðnaði. Samtökin skora því á bæjarráð Mosfellsbæjar að beita sér fyrir því að Mosfellsbær taki legu Helgafellsvegar til gagngerrar endurskoðunar, loki Helgafellsvegi og græði upp hlíðina.

Meðfylgjandi er ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Varmársamtakanna 25. nóvember sl.  

Mosfellsbæ, 15. desember 2008   

Nánari upplýsingar veitir Sigrún í síma 866 9376 eða varmarsamtökin@gmail.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband