14.9.2009 | 17:03
Hvers virði er orðsporið? - Opið bréf til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar
Í febrúar sl. hafði formaður Varmársamtakanna samband við bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Harald Sverrisson í þeim tilgangi að bera fram kvörtun vegna skrifa á bloggi forseta bæjarstjórnar, Karls Tómassonar. Í símtalinu lét Haraldur í veðri vaka að hann teldi samtökin vera undir sömu sökina seld og bæjarfulltrúinn og myndi því ekki aðhafast í málinu. Til þess að sýna Haraldi fram á að hér væri alvarlegt mál á ferð sem bæjarstjóri hefði fulla ástæðu til að hafa afskipti af sendum við honum afrit af bloggi Karls með eftirfarandi orðsendingu:
Sæll Haraldur. Hér kemur umrætt blogg Karls Tómassonar. Eins og sjá má er þetta samsuða af dulbúnum hótunum, ærumeiðingum og öðrum óþverra sem ekki er beinlínis til álitsauka fyrir bæjarfélagið. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en hvet Sjálfstæðisflokkinn sem leiðandi afl í bæjarstjórn til að skoða hvernig aðrar bæjarstjórnir hafa tekið á svona málum og hugleiða hvort ekki sé rétt að fara að þeirra fordæmi.
Nú sjö mánuðum síðar hefur samtökunum enn ekki borist svar við þessari umleitan og Karl Tómasson heldur ótrauður áfram sinni lítilsvirðandi iðju, - nú síðast með stuðningi alþingismannsins og fyrrverandi bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á blogginu.
Kvörtun samtakanna á sér langan aðdraganda þar sem forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og félagar hans hafa staðið fyrir ófrægingarherferð gegn samtökunum og einstöku liðsmönnum þeirra á blogginu sl. tvö og hálft ár. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tengist þessu máli heldur ekki í fyrsta sinn í síðustu viku því upphaflega óskuðu samtökin eftir því við hana snemma vors 2007 að hún sem þáverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar leiðrétti ummæli sem hún viðhafði á opinberum vettvangi og skilja mátti á þann veg að Varmársamtökin stæðu fyrir ærumeiðandi árásum á persónu Karls og fjölskyldu hans. Þrátt fyrir að Ragnheiði væru send gögn sem sönnuðu hið gagnstæða hefur hún enn þann dag í dag ekki brugðist við erindi samtakanna.
Í síðustu viku tók svo steininn úr þegar þingmaðurinn gegn betri vitund og í nafni siðgæðis fór að sýna samúð með Karli sem eina ferðina enn var við þá vanabundnu iðju sína að gera lítið úr samtökunum á blogginu. Í ljósi sögunnar hefði verið rétt af Varmársamtökunum að knýja fram hið rétta í málinu strax. Sannleikurinn er sá að stjórn Varmársamtakanna hafði, og hefur aldrei, staðið fyrir persónulegum árásum á Karl Tómasson og fjölskyldu hans, hvorki í síma, fjölmiðlum né á blogginu.
Nú er svo komið að við þetta ástand verður ekki lengur unað og heldur ekki framhjá því litið að Karl Tómasson er, hvað svo sem persónu hans líður, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður á hinu háa alþingi. Ef farið er eftir bókinni eiga stjórnmálamenn einmitt að vera öðrum fremur siðferðileg fyrirmynd. Í Mosfellsbæ virðast þau gildi ekki eiga hljómgrunn.
Okkur í stjórn Varmársamtakanna er til efs að annarsstaðar í hinum siðmenntaða heimi leyfðist stjórnmálamönnum sem í frístundum safna liði til að niðurlægja umbjóðendur sína að gegna pólitísku trúnaðarstarfi en svo virðist sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar telji ósómann vera sér samboðinn. Í stað þess að taka á málinu af festu og virðingu fyrir orðstír bæjarfélagsins og íbúum þess er óþverranum leyft að þrífast að því er virðist átölulaust. Engu er líkara en að bæjarstjórnin haldi líkt og keisarinn forðum að með því að loka augunum fyrir vandamálinu hverfi það. Í okkar huga eru bæjarfulltrúar til þess kjörnir að stýra bæjarfélaginu og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ eru tvímælalaust í þeirri aðstöðu að geta valið sér sína samverkamenn. Þeir hafa því öll tæki í hendi til að standa vörð um hagsmuni bæjarfélagsins og taka á málinu.
Karl Tómasson situr í sínu embætti í skjóli samstarfsflokksins og undir hans verndarvæng hefur hann fengið að spilla málefnalegri umræðu um umhverfisvernd og lýðræði með bulli. Það að Vinstri græn sem kenna sig við þessa málaflokka skuli leyfa slíkri óværu sem þetta mál er að þrífast óáreittri eru vonbrigði og áhyggjuefni fyrir alla þá sem áhuga hafa á stjórnmálaumræðu á Íslandi.
En hver er ástæðan fyrir því að bæjarstjórn Mosfellsbæjar eða öllu heldur bæjarfélagið í heild sinni er dregið niður á þetta plan? Hvað útskýrir það dáðleysi sem ráðandi öfl í Mosfellsbæ sýna í þessu máli? Ætli bæjarstjórinn sjái sér kannski hag í því að forseti bæjarstjórnar geri lítið úr þeim íbúum sem leggja vilja orð í belg í umræðunni um umhverfis- og skipulagsmál í Mosfellsbæ? Eða ætli hann trúi því að með því að halda Varmársamtökunum uppteknum við að þrífa af sér smjörklípurnar geti hann dregið úr áhrifum þeirra á umræðuna?
Það að bæjarstjórn taki ekki á þessu máli sýnir svo ekki verður um villst að þörf er fyrir siðareglur sem taka til kjörinna fulltrúa í mosfellskri stjórnsýslu. Það að forseti bæjarstjórnar fái óáreittur í skjóli nætur og Sjálfstæðisflokksins að svívirða samborgara sína er fyrir löngu orðinn smánarblettur á bæjarfélaginu. Varmársamtökin telja löngu tímabært að bæjarstjórnin horfist í augu við siðferðilegan dómgreindarskort bæjarfulltrúans. Geri hún það ekki er aðeins hægt að skilja það á einn veg, þ.e. að bæjarstjórn Mosfellsbæjar taki þátt í ósómanum og leggi með því að veði orðspor bæjarfélagsins.
Íslendingar standa frammi fyrir hruninni heimsmynd bæði efnahagslega og siðferðislega. Nú ríður á að byggja upp á nýtt samfélag sem byggir á heilbrigðum samskiptum. Á Nýja Íslandi á ekki að vera pláss fyrir valdníðslu að ofangreindum toga.
P.s.
Til að gefa lesendum mynd af þeim sora sem forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hefur hýst á bloggi sínu skulu að lokum nefnd nokkur dæmi og dæmi nú hver fyrir sig:
- Auðvitað vita allir sannir umhverfisverndarsinnar að Varmársamtökin er náriðill og ekkert annað.
- Varmársamtökin, því þessi 4-5 manna fáráðlingaklúbbur telur sig vera umhverfisverndarsamtök.
- Samfylkingin ól af sér þessi hryðjuverkasamtök sem frægust eru fyrir að skemma vinnuvélar
- Sennilega mun Ingibjörg flytja Varmársamtökin til Gaza til að aðstoða Ísraelsmenn og Hamas til að fremja hryðjuverk þar
- Dýraníðingar er tegund sem ætti að vera í útrýmingarhættu en því miður heyrist alltaf eitthvað af slíku svipað og með Varmár-smásamtökin.
- Þetta druslulið sem þykist vera svo gáfað og vel-menntað en er algjörlega gjörsigrað af bókbindaranum Karli og góðum vinum hans.
- Mannstu Kalli minn þetta hefst víst allt með seiglunni og hana áttu nóga til. til hamingju vinur við vitum að náðarhöggið verður greitt innan skamms.
- Hrokagikkirnir í Varmársamtökunum léku leikinn á kostnað okkar skattgreiðenda. Vægt áætlað hafa þessi hryðjuverkasamtök kostað hvern og einasta bæjarbúa um 150.000 kr.
- Varmár-rotturnar eru þó hverfandi vandamál sem betur fer enda er meindýraeyðir Mosfellsbæjar með góð tök á málinu og mér skilst að það styttist í að þeim verði útrýmt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.9.2009 kl. 20:39 | Facebook
Bloggvinir
- laugardalur
- valgerdurhalldorsdottir
- omarragnarsson
- gbo
- graenanetid
- torfusamtokin
- landvernd
- veffari
- ingibjorgstefans
- hlynurh
- ingibjorgelsa
- ibb
- bustadahverfi
- sylviam
- vefritid
- annalilja
- hildurhelgas
- tbs
- bergursig
- hlidar
- salvor
- malacai
- stebbifr
- bjarnihardar
- gattin
- harring
- baldvinj
- kreppan
- thorsaari
- johannbj
- larahanna
Myndaalbúm
Tenglar
Álafosskvos
Starfsemi í Álafosskvos
- Sigur Rós Hljómsveit
- Álafossbúðin Verslun með listmuni, ullarvörur og fleira
- Ásgarður Handverksverkstæði
- Dieter Roth akademían Listaakademía
- Hildur Margrétardóttir Myndlistarkona
- Marisa Navarro Arason Ljósmyndari
- Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Myndlistarskóli fyrir börn og fullorðna
- Ólöf Oddgeirsdóttir Myndlistarkona
- Palli hnífur Hnífagerðarmaður
- Valgerður Bergsdóttir Myndlistarkona
Úr fjölmiðlum
Þættir og fréttir um okkar mál.
- Viðtal við SP á mbl.is
- Mbl.is 8.3.'07 Úrskurður skipulagsstofnunar
- Gamla bloggið
- Kolfinna á InnTV - þáttur um skipulagsmál Rætt við Sigrúnu Pálsdóttur, VS og Valgerði Halldórsdóttur, Sól í Straumi
Náttúruvernd
Umhverfisvernd
ÍBÚINN - rit VS
Gott lesefni
Athugasemdir
Ágæti lesandi
Velkomið er að gera málefnalegar athugasemdir á blogginu, við áskiljum okkur rétt til að fjarlægja ómálefnalegar og dónalegar athugasemdir.
Að gefnu tilefni þetta. Skemmdir voru unnar á vinnuvélum í Helgafellslandi og undir Úlfarsfelli í maí 2007 og voru samtökin sökuð af verktaka um eyðilegginguna. Ekki var lögð fram kæra sem segir okkur það að fólk í samtökunum lá aldrei undir grun. Yfirlýsing frá samtökunum var send til fjölmiðla og var málið þar með afgreitt.
Sigrún P (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 12:14
Það virðast nú helst vera menn að nafni Tómas Örn, Þórir Kristinsson og Ragnar Ingi Magnússon sem sletta þarna skyrinu í kommenta kerfinu hjá Karli Tómassyni. Þær tilvitnanir sem nefndar eru hér að ofan eru margar (leitaði ekki að þeim öllum) frá þeim komnar, og virðist sem búið sé að eyða þeim kommentum úr bloggkerfinu núna. Hinsvegar má finna þetta með því að leita að svokölluðum "cached" síðum á google.
Magnús Axelsson, 17.9.2009 kl. 09:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.