Varmársamtökin funda um sjálfbært samfélag

Álafosskvos hestur

Sjálfbært samfélag er yfirskrift umræðufundar sem Varmársamtökin standa fyrir 17. nóvember kl. 20.15 í listasal Mosfellsbæjar í Kjarna.Stefán Gíslason verkefnisstjóri Staðardagskrár hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er frummælandi á fundinum, auk Tómasar G. Gíslason umhverfisstjóra í Mosfellsbæ og Sigrúnar Guðmundsdóttur, líffræðings hjá Umhverfisstofnun.

Hugtökin Staðardagskrá og sjálfbær þróun vilja gjarnan þvælast fyrir fólki í umræðunni um umhverfismál. Að baki þeim er þó innihald sem skiptir verulegu máli fyrir samfélagið og því nauðsynlegt að gera því viðhlítandi skil.

Á fundinum mun Stefán segja frá Staðardagskrárverkefninu og hlutverki þess í mótun samfélagsins en Staðardagskrá er aðgerðaáætlun sem er liður í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Íslendingar eru aðilar að sáttmálanum og hefur fjöldi sveitarfélaga á Íslandi undirgengist að vinna eftir aðgerðaáætlun sáttmálans. Mosfellsbær er eitt þessara sveitarfélaga og mun Tómas gera grein fyrir stöðu verkefnisins í Mosfellsbæ.

Að lokum mun Sigrún fjalla um nokkrar leiðir sem íbúar hafa til að taka þátt í þessu samfélagsbætandi verkefni en virk þátttaka íbúa er einmitt lykilatriði í Staðardagskránni.

Fundarstjóri er Katrín Theódórsdóttir.

Fyrir fundinn halda Varmársamtökin aðalfund á sama stað og hefst hann kl. 19.30.

Allir velkomnir!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband