Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Nú er lag að hætta við vegagerð í Álafosskvos

Aðalfundur Varmársamtakanna var haldinn í gærkvöld. Þar var m.a. kosið í stjórn félagsins, rætt um fjáröflunarleiðir og vegagerð við Álafosskvos. Nýja stjórn Varmársamtakanna skipa Freyja Lárusdóttir, Kolfinna Baldvinsdóttir, Ólafur Ragnarsson, Páll Kristjánsson og Sigrún Pálsdóttir. Gunnlaugur B. Ólafsson og Kristín Pálsdóttir sitja í varastjórn.

Ályktun aðalfundar Varmársamtakanna um vegagerð við Álafosskvos
Aðalfundur Varmársamtakanna haldinn þriðjudaginn 25. nóvember 2008 skorar á bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að varðveita sögulega arfleið Mosfellsbæjar, sem felst í atvinnusögu og einstakri náttúrufegurð við Álafoss, með því að hætta alfarið við lagningu Helgafellsvegar um Álafosskvos.

 

Í ljós hefur komið að fyrir mistök var Helgafellsvegur lagður í þeirri hæð að ekki er hægt að koma við tengingu við Álafossveg þannig að taka þarf veginn upp aftur og lækka í landinu, ellegar slíta vegtengingu við Álafosskvos. Varmársamtökin útiloka báða þessa möguleika.  Samtökin leggja til að í stað þess að lækka veginn verði  malbik tekið  upp á 150-200 m kafla við Álafosskvos og gróðurmold keyrð í vegstæðið og svæðið grætt upp með öllum tiltækum ráðum.

Í ljósi breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi gefst nú ráðrúm fyrir  bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ til að endurskoða skipulagið frá grunni.  Algjört hrun blasir við í byggingariðnaði á Íslandi og ljóst að offramboð á íbúðarhúsnæði er með þeim hætti að engin þörf er fyrir nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Frekari uppbygging í Helgafellshverfi er í ljósi aðstæðna afar ólíkleg og engin þörf fyrir Helgafellsveg um Álafosskvos á næstu árum.

Varmársamtökin hafa frá upphafi bent á afar neikvæð umhverfisáhrif Helgafellsvegar, s.s. (1) að ekki er nægilegt landrými fyrir 10 000 bíla tengibraut um Álafosskvos; (2) að vegtenging við Álafosskvos er vegna staðhátta verkfræðilega óframkvæmanleg; (3) að vegurinn er slysagildra og (4) ávísun á skipulagsslys að vinna ekki tillögur að deiliskipulagi Álafosskvosar og deiliskipulagi Helgafellsvegar samhliða. 

Varmársamtökin lýsa sig hér með reiðubúin til að koma að endurskoðun á skipulaginu með bæjaryfirvöldum.


Aðalfundur Varmársamtaka í dag kl. 17.30 í Listasal Mosfellsbæjar

Aðalfundur Varmársamtakanna verður haldinn í dag kl. 17.30 í Listasal Mosfellsbæjar og eru félagar hvattir til að mæta og taka þátt í starfinu. Gunnlaugur B. Ólafsson, núverandi formaður,  gengur úr stjórn en Páll Kristjánsson og Sigrún H. Pálsdóttir gefa kost á sér til áframhaldandi setu í stjórninni. Þá hefur Freyja Lárusdóttir gefið kost á sér til stjórnarsetu og eru þau þrjú sjálfkjörin þar sem ekki bárust fleiri gild framboð.

Aðalfundur Varmársamtakanna 25. nóvember í Listasal

Aðalfundur Varmársamtakanna verður haldinn  25. nóvember kl. 17.30 í Listasal Mosfellsbæjar í Kjarna, Þverholti 2, Mosfellsbæ. Gengið er inn í salinn í gegnum Bókasafn Mosfellsbæjar.

Fundarefni er venjuleg aðalfundarstörf.

Varmársamtökin voru stofnuð á fjölmennum fundi í Þrúðvangi í Álafosskvos 8. maí 2006. Samtökin hafa að markmiði að efla íbúalýðræði og stuðla að samvinnu íbúa um framtíðarmótun Varmársvæðisins. Áherslur samtakanna eru í takt við þá umhverfisverndarstefnu sem segir frá í aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024:

“Leggja skal áherslu á varðveislu óspilltrar náttúru, friðlýsingu athyglisverðra svæða og tengsl byggðar við náttúrulegt umhverfi. Bærinn verði útivistarbær þar sem íbúar eru í snertingu við náttúruna á auðveldan og fjölbreyttan hátt ... .”

Markmið Varmársamtakanna:

  • standa vörð um Varmársvæðið frá upptökum til ósa
  • efla íbúalýðræði og stuðla að auknum áhrifum íbúa  í  skipulags- og umhverfismálum
  • stuðla að uppbyggingu útivistar- og íþróttasvæða við Varmá í sátt við náttúrulegt umhverfi
  • lífga upp á bæjarlífið í Mosó með útimörkuðum, skemmtunum og menningarviðburðum.

Tilkynna verður framboð til stjórnar a.m.k. sólarhring fyrir aðalfund.

Allir velkomnir!
Stjórnin

Netfang: varmarsamtokin@gmail.com


Andi Reykjavíkur - Hjörleifur Stefánsson talar um byggingarlist

austur1Vetrarstarf Varmársamtakanna er nú komið á fullt skrið og verður annar fundur vetrarins haldinn í Listasal Mosfellsbæjar nk. miðvikudag 5. nóvember kl. 20.30. Að þessu sinni stígur Hjörleifur Stefánsson arkitekt og rithöfundur í pontu og segir frá nýútgefinni bók sinni, Andi Reykjavíkur.

Hjörleifur starfar sem arkitekt og er þekktur fyrir rannsóknir sínar á íslenskri byggingarlistasögu og viðleitni til að varðveita þau menningarsögulegu verðmæti sem leynast í gömlu húsunum í miðbæ Reykjavíkur. Í bók sinni varpar höfundurinn fram ýmsum spurningum svo sem:
"Hvað segja húsin í bænum um fólkið sem í honum býr? Hvernig getum við lært að meta og varðveita það sem merkilegast er í gömlu hverfunum og móta þau áfram þannig að gildi þeirra verði sem mest?"
 
Fyrirlesturinn verður almenns eðlis og til þess fallinn að skapa umræður um mikilvæga þætti byggingarlistar og áhrif hennar á mannlífið. Samantekt á bókarkápu gefur góða innsýn í hvernig Hjörleifur nálgast viðfangsefni sitt:
"Þegar byggja á upp til framtíðar er mikilvægt að horfa um öxl og beita jafnframt siðfræðilegri nálgun við mat á borgarumhverfinu og einstökum húsum. Leggja verður áherslu á fagurfræði og umhverfissjónarmið því að einungis þannig er hægt að tryggja menningarsögulegt samhengi byggðar í miðbænum og fallega heildarmynd, með virðingu fyrir anda Reykjavíkur að leiðarljósi."
 
Hér í Mosfellsbæ stendur til að endurskoða skipulag miðbæjarins og byggja þar m.a. menningarhús og kirkju. Við hvetjum því íbúa til að nota tækifærið og viða að sér þekkingu sem nýst gæti í umræðunni um skipulagsmál í okkar bæ.
 
Tökum þátt í að móta samfélagið!
 
Allir velkomnir!
 
Nánari upplýsingar veitir Sigrún í síma 866 9376 eða Kolfinna í síma 698 1231.

P.s. Myndin sýnir verðlaunatillögu Studíos Granda, Gullinsniðs og Argos af miðbæjarskipulagi í Reykjavík.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband