Bloggfærslur mánaðarins, september 2009
14.9.2009 | 17:03
Hvers virði er orðsporið? - Opið bréf til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar
Í febrúar sl. hafði formaður Varmársamtakanna samband við bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Harald Sverrisson í þeim tilgangi að bera fram kvörtun vegna skrifa á bloggi forseta bæjarstjórnar, Karls Tómassonar. Í símtalinu lét Haraldur í veðri vaka að hann teldi samtökin vera undir sömu sökina seld og bæjarfulltrúinn og myndi því ekki aðhafast í málinu. Til þess að sýna Haraldi fram á að hér væri alvarlegt mál á ferð sem bæjarstjóri hefði fulla ástæðu til að hafa afskipti af sendum við honum afrit af bloggi Karls með eftirfarandi orðsendingu:
Sæll Haraldur. Hér kemur umrætt blogg Karls Tómassonar. Eins og sjá má er þetta samsuða af dulbúnum hótunum, ærumeiðingum og öðrum óþverra sem ekki er beinlínis til álitsauka fyrir bæjarfélagið. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en hvet Sjálfstæðisflokkinn sem leiðandi afl í bæjarstjórn til að skoða hvernig aðrar bæjarstjórnir hafa tekið á svona málum og hugleiða hvort ekki sé rétt að fara að þeirra fordæmi.
Nú sjö mánuðum síðar hefur samtökunum enn ekki borist svar við þessari umleitan og Karl Tómasson heldur ótrauður áfram sinni lítilsvirðandi iðju, - nú síðast með stuðningi alþingismannsins og fyrrverandi bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á blogginu.
Kvörtun samtakanna á sér langan aðdraganda þar sem forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og félagar hans hafa staðið fyrir ófrægingarherferð gegn samtökunum og einstöku liðsmönnum þeirra á blogginu sl. tvö og hálft ár. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tengist þessu máli heldur ekki í fyrsta sinn í síðustu viku því upphaflega óskuðu samtökin eftir því við hana snemma vors 2007 að hún sem þáverandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar leiðrétti ummæli sem hún viðhafði á opinberum vettvangi og skilja mátti á þann veg að Varmársamtökin stæðu fyrir ærumeiðandi árásum á persónu Karls og fjölskyldu hans. Þrátt fyrir að Ragnheiði væru send gögn sem sönnuðu hið gagnstæða hefur hún enn þann dag í dag ekki brugðist við erindi samtakanna.
Í síðustu viku tók svo steininn úr þegar þingmaðurinn gegn betri vitund og í nafni siðgæðis fór að sýna samúð með Karli sem eina ferðina enn var við þá vanabundnu iðju sína að gera lítið úr samtökunum á blogginu. Í ljósi sögunnar hefði verið rétt af Varmársamtökunum að knýja fram hið rétta í málinu strax. Sannleikurinn er sá að stjórn Varmársamtakanna hafði, og hefur aldrei, staðið fyrir persónulegum árásum á Karl Tómasson og fjölskyldu hans, hvorki í síma, fjölmiðlum né á blogginu.
Nú er svo komið að við þetta ástand verður ekki lengur unað og heldur ekki framhjá því litið að Karl Tómasson er, hvað svo sem persónu hans líður, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingmaður á hinu háa alþingi. Ef farið er eftir bókinni eiga stjórnmálamenn einmitt að vera öðrum fremur siðferðileg fyrirmynd. Í Mosfellsbæ virðast þau gildi ekki eiga hljómgrunn.
Okkur í stjórn Varmársamtakanna er til efs að annarsstaðar í hinum siðmenntaða heimi leyfðist stjórnmálamönnum sem í frístundum safna liði til að niðurlægja umbjóðendur sína að gegna pólitísku trúnaðarstarfi en svo virðist sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar telji ósómann vera sér samboðinn. Í stað þess að taka á málinu af festu og virðingu fyrir orðstír bæjarfélagsins og íbúum þess er óþverranum leyft að þrífast að því er virðist átölulaust. Engu er líkara en að bæjarstjórnin haldi líkt og keisarinn forðum að með því að loka augunum fyrir vandamálinu hverfi það. Í okkar huga eru bæjarfulltrúar til þess kjörnir að stýra bæjarfélaginu og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ eru tvímælalaust í þeirri aðstöðu að geta valið sér sína samverkamenn. Þeir hafa því öll tæki í hendi til að standa vörð um hagsmuni bæjarfélagsins og taka á málinu.
Karl Tómasson situr í sínu embætti í skjóli samstarfsflokksins og undir hans verndarvæng hefur hann fengið að spilla málefnalegri umræðu um umhverfisvernd og lýðræði með bulli. Það að Vinstri græn sem kenna sig við þessa málaflokka skuli leyfa slíkri óværu sem þetta mál er að þrífast óáreittri eru vonbrigði og áhyggjuefni fyrir alla þá sem áhuga hafa á stjórnmálaumræðu á Íslandi.
En hver er ástæðan fyrir því að bæjarstjórn Mosfellsbæjar eða öllu heldur bæjarfélagið í heild sinni er dregið niður á þetta plan? Hvað útskýrir það dáðleysi sem ráðandi öfl í Mosfellsbæ sýna í þessu máli? Ætli bæjarstjórinn sjái sér kannski hag í því að forseti bæjarstjórnar geri lítið úr þeim íbúum sem leggja vilja orð í belg í umræðunni um umhverfis- og skipulagsmál í Mosfellsbæ? Eða ætli hann trúi því að með því að halda Varmársamtökunum uppteknum við að þrífa af sér smjörklípurnar geti hann dregið úr áhrifum þeirra á umræðuna?
Það að bæjarstjórn taki ekki á þessu máli sýnir svo ekki verður um villst að þörf er fyrir siðareglur sem taka til kjörinna fulltrúa í mosfellskri stjórnsýslu. Það að forseti bæjarstjórnar fái óáreittur í skjóli nætur og Sjálfstæðisflokksins að svívirða samborgara sína er fyrir löngu orðinn smánarblettur á bæjarfélaginu. Varmársamtökin telja löngu tímabært að bæjarstjórnin horfist í augu við siðferðilegan dómgreindarskort bæjarfulltrúans. Geri hún það ekki er aðeins hægt að skilja það á einn veg, þ.e. að bæjarstjórn Mosfellsbæjar taki þátt í ósómanum og leggi með því að veði orðspor bæjarfélagsins.
Íslendingar standa frammi fyrir hruninni heimsmynd bæði efnahagslega og siðferðislega. Nú ríður á að byggja upp á nýtt samfélag sem byggir á heilbrigðum samskiptum. Á Nýja Íslandi á ekki að vera pláss fyrir valdníðslu að ofangreindum toga.
P.s.
Til að gefa lesendum mynd af þeim sora sem forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hefur hýst á bloggi sínu skulu að lokum nefnd nokkur dæmi og dæmi nú hver fyrir sig:
- Auðvitað vita allir sannir umhverfisverndarsinnar að Varmársamtökin er náriðill og ekkert annað.
- Varmársamtökin, því þessi 4-5 manna fáráðlingaklúbbur telur sig vera umhverfisverndarsamtök.
- Samfylkingin ól af sér þessi hryðjuverkasamtök sem frægust eru fyrir að skemma vinnuvélar
- Sennilega mun Ingibjörg flytja Varmársamtökin til Gaza til að aðstoða Ísraelsmenn og Hamas til að fremja hryðjuverk þar
- Dýraníðingar er tegund sem ætti að vera í útrýmingarhættu en því miður heyrist alltaf eitthvað af slíku svipað og með Varmár-smásamtökin.
- Þetta druslulið sem þykist vera svo gáfað og vel-menntað en er algjörlega gjörsigrað af bókbindaranum Karli og góðum vinum hans.
- Mannstu Kalli minn þetta hefst víst allt með seiglunni og hana áttu nóga til. til hamingju vinur við vitum að náðarhöggið verður greitt innan skamms.
- Hrokagikkirnir í Varmársamtökunum léku leikinn á kostnað okkar skattgreiðenda. Vægt áætlað hafa þessi hryðjuverkasamtök kostað hvern og einasta bæjarbúa um 150.000 kr.
- Varmár-rotturnar eru þó hverfandi vandamál sem betur fer enda er meindýraeyðir Mosfellsbæjar með góð tök á málinu og mér skilst að það styttist í að þeim verði útrýmt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.9.2009 kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2009 | 18:30
Um bleyður í bloggheimum
Að gefnu tilefni höfum við ákveðið að birta aftur færslu frá því 11. maí 2007 hér á bloggi Varmársamtakanna. Tilefnið er sú umræða sem nú á sér stað um nafnlaus blogg og bloggníðinga á bloggi þeirra félaga Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og Karls Tómassonar. Upphaf umræðunnar má rekja til færslu á bloggi Karls sem virðist einungis vera til þess ætluð að ófrægja samtökin og stofna til leiðinda. Í færslunni hannar Karl atburðarás um sjálfan sig sem fórnarlamb eineltis á blogginu sem hann lætur í veðri vaka að sé runnið undan rifjum Varmársamtakanna. Ragnheiður grípur þráðinn þar sem ósómanum sleppir hjá Karli en hann er sem kunnugt er forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og hún fyrrverandi bæjarstjóri. Það sem er svo átakanlegt við þessa umræðu er að atburðarásin sem Karl hannar á sér enga stoð í raunveruleikanum.
Vígaferli Karls og félaga hans á Mosfellingi gegn samtökunum eiga sér langa forsögu og birtum við því aftur gamalt blogg og part úr bloggi frá 1. maí sama ár. Einnig afrit af óhróðri sömu aðila um samtökin sem birtist undir nafnleynd. Þessi gögn hafa verið hér á blogginu síðan í maí 2007.
Á flótta undan málefnalegri umræðu
Eitt helsta hugðarefni forseta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, Karls Tómassonar, virðist vera að koma höggi á fjölmennustu umhverfisverndar-samtök bæjarins og þó víðar væri leitað, Varmársamtökin. Og af hverju skyldi það vera? Er hann ekki vinstri grænn? Ætti hann ekki einmitt að leggja umhverfisverndarsamtökunum lið? Nei, í stað þess að styðja þann málstað sem hann þó sjálfur boðaði fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar gerir hann allt sem í hans valdi stendur til að ófrægja samtökin.
Fyrir stuttu náði krossferð forsetans og vina hans slíkum hæðum á blog.is að ritstjórnin ákvað að nú væri nóg komið og birti IP tölur bloggara. Í ljós kom við birtinguna að óhróðurinn sem komið hafði að því er virtist frá fjölda fólks átti upptök sín í 3-4 tölvum sem allar tengdust forsetanum og vinahópi hans. Úr tölvu Karls var t.d. skrifað undir a.m.k. 10 nöfnum. Eftir birtinguna var hljóðlátt um stund og kviknaði jafnvel von um að þessi lýðræðislega kjörni bæjarfulltrúi vaknaði til vitundar um stöðu sína og ábyrgð en því er öðru nær. Maðurinn tók sér frí og kom síðan tvíefldur til baka og hélt áfram fyrri iðju, nú undir réttu nafni.
Þegar Karl Tómasson var inntur eftir því hverju þessi framkoma sætti svaraði forsetinn því til að hann og fjölskylda hans hefðu orðið fyrir persónulegum árásum. Óharðnaður unglingur á heimilinu hefði fengið nóg og því ráðist með óhróðri á Varmársamtökin. Viðtal var tekið við Ragnheiði Ríkharðsdóttur bæjarstjóra þar sem hún lýsti yfir samúð sinni með Karli og fjölskyldu. Sá hængur var hins vegar á málflutningi þeirra beggja að hvergi kom fram hverjir það voru sem ofsóttu forsetann. Bæði Ragnheiði og Karli láðist að geta þess að Varmársamtökin komu þar hvergi nærri. Þar sem hefndaraðgerðirnar beindust gegn samtökunum lá beinast við að þeir sem ekki vissu hið rétta í málinu ályktuðu að þau hefðu staðið fyrir ósómanum.
Í þeim tilgangi að fá sannleikann fram í dagsljósið sendi stjórn Varmársamtakanna Karli Tómassyni og félögum áskorun um að axla ábyrgð á nafnlausum aðdróttunum í garð samtakanna. Einnig var þess óskað að þeir bæðust afsökunar á aðförinni. Ekki var orðið við þessari áskorun og ákvað stjórnin að birta afrit af bloggfærslum þeirra félaga á bloggi samtakanna, dags 1. maí. Ragnheiði bæjarstjóra hafði áður verið send samantektin til að upplýsa hana um hverjir væru hinir raunverulegu gerendur í málinu. Hefur hún enn sem komið er engin viðbrögð sýnt þó vonandi standi það til bóta.
Vel má vera að Karl Tómasson hafi verið ofsóttur af einhverjum og er það miður. Ljóst er að þær árásir voru ekki í nafni samtakanna. Enginn úr okkar stjórn hefur veist persónulega að Karli né lagt stund á nafnlausar bloggfærslur.
Varmársamtökin eru íbúa- og umhverfisverndarsamtök. Vinstri græn skilgreina sig sem umhverfisverndarflokk með áherslu á íbúalýðræði. Umhverfisverndarsamtök hljóta að gagnrýna umhverfisverndarflokk sem svíkur umhverfisstefnuna að loknum kosningum. Karl Tómasson varð forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í kjölfar sinna kosningaloforða. Honum ber skv. stefnu Vinstri grænna að vernda náttúruperlur bæjarins; skv. sömu stefnu og sveitarstjórnarlögum að gæta hagsmuna fólksins sem hér býr.
Varmársamtökin skora á Karl Tómasson að sýna embætti sínu og bæjarbúum þá virðingu að biðja samtökin afsökunar á ómaklegri aðför hans og félaga hans að starfi samtakanna. Markmið Varmársamtakanna er að standa vörð um þau einstöku lífsgæði sem nálægðin við náttúru og sögulegar rætur Mosfellsbæjar veitir bæjarbúum. Æskilegt væri að sameinast um það göfuga verkefni í málefnalegri umræðu.
Greinin birtist í Mosfellingi 11. maí 2007
Gildi opinnar umræðu - síðasta málsgrein úr bloggi 1. maí 2007
...
Varmársamtökunum barst nýlega samantekt þess efnis að vinahópur hefði stundað þá iðju að skálda upp nöfn á fjórða tug karaktera, sem með skipulögðum hætti setti inn róg og dylgjur um Varmársamtökin. Þessi vitneskja gjörbreytti grunneðli umræðunnar. Þeir einstaklingar sem höfðu sýnt samtökunum óvild í skrifum sínum voru ekki um fjörutíu, heldur einungis um fimm manns. Því hefur verið haldið fram að Morgunblaðið hafi ákveðið að svipta hulunni af netdólgunum, eftir að þeir gerðu sér grein fyrir hversu "Mosfellsbæjarmálið" væri umfangsmikið. Við höfum óskað eftir að umræddir leynigestir eignist ábyrgðaraðila, samtökin verði beðin afsökunar og tilteknir tölvueigendur útskýri hvað þeim gekk til með slíkum skrifum. Varmársamtökin eru sannfærð um að þau verðskulda ekki slík vinnubrögð. Það gæti hjálpað umræðunni að ná þvi stigi sem henni var ætlað í upphafi og gæti orðið Mosfellsbæ til sóma.
P.s. Í viðhengi er afrit af færslum úr tölvu sem Karl Tómasson segir að hafi komið úr tölvu á hans heimili. Þar sem þetta er allt undir sömu IP tölu hljóta allar færslurnar að koma þaðan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.9.2009 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Bloggvinir
- laugardalur
- valgerdurhalldorsdottir
- omarragnarsson
- gbo
- graenanetid
- torfusamtokin
- landvernd
- veffari
- ingibjorgstefans
- hlynurh
- ingibjorgelsa
- ibb
- bustadahverfi
- sylviam
- vefritid
- annalilja
- hildurhelgas
- tbs
- bergursig
- hlidar
- salvor
- malacai
- stebbifr
- bjarnihardar
- gattin
- harring
- baldvinj
- kreppan
- thorsaari
- johannbj
- larahanna
Myndaalbúm
Tenglar
Álafosskvos
Starfsemi í Álafosskvos
- Sigur Rós Hljómsveit
- Álafossbúðin Verslun með listmuni, ullarvörur og fleira
- Ásgarður Handverksverkstæði
- Dieter Roth akademían Listaakademía
- Hildur Margrétardóttir Myndlistarkona
- Marisa Navarro Arason Ljósmyndari
- Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Myndlistarskóli fyrir börn og fullorðna
- Ólöf Oddgeirsdóttir Myndlistarkona
- Palli hnífur Hnífagerðarmaður
- Valgerður Bergsdóttir Myndlistarkona
Úr fjölmiðlum
Þættir og fréttir um okkar mál.
- Viðtal við SP á mbl.is
- Mbl.is 8.3.'07 Úrskurður skipulagsstofnunar
- Gamla bloggið
- Kolfinna á InnTV - þáttur um skipulagsmál Rætt við Sigrúnu Pálsdóttur, VS og Valgerði Halldórsdóttur, Sól í Straumi
Náttúruvernd
Umhverfisvernd
ÍBÚINN - rit VS
Gott lesefni