Deiliskipulag Augans: vönduð umhverfismótun?

Helgafellshverfi Augað

Áður en deiliskipulag Augans í Helgafellshverfi var samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar á sl. ári fóru Varmársamtökin þess á leit við bæjaryfirvöld að endurskoða skipulagstillöguna til að tryggja betur velferð íbúa í fyrirhuguðu hverfi. Ábendingar samtakanna voru þær helstar að í ljósi mengunar- og slysahættu væri afar óheppilegt að staðsetja grunnskóla hverfisins á umferðareyju, þ.e. í Auganu; að dýrar og fyrirferðarmiklar hljóðvarnir í nýbyggðum hverfum samræmdust illa kröfum um vandaða umhverfismótun og bæri því að forðast; að skoða ætti hverfin undir hlíðum Helgafells sem eina samliggjandi heild og gæta þess við hönnun skipulagsins að fyrirkomulag bílaumferðar væri með þeim hætti að börn og fótgangandi gætu átt greiða leið um svæðið. Að lokum settu Varmársamtökin fram þá kröfu að bæjaryfirvöld gættu þess við gerð áætlana að samhljómur væri milli skipulagsáætlana og þeirra markmiða sem sett eru fram í greinargerð að aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.
Varmársamtökin telja að það hefði þjónað mun betur hagsmunum bæjarfélagsins að skoða þessar athugasemdir en bæjarstjórn Mosfellsbæjar leit málið öðrum augum og tók þær ekki til greina við afgreiðslu skipulagsins. 

Fjórir aðilar gerðu upphaflega tillögu að skipulagi í Helgafellslandi og geta áhugasamir fengið að skoða þær á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar.

P.s. Ekki er að marka staðsetningu vega á myndinni hér að ofan. Tengibraut um Álafosskvos fer mun nær byggðinni og enn er ekki ljóst hvernig fyrirkomulagi umferðar verður háttað frá Vesturlandsvegi inn í miðbæ Mosfellsbæjar.

Sjá athugasemdir Varmársamtakanna í heild:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Staðsetning barnaskóla í "auga"  Helgafellshverfis.

Já skrítið að velja skólanum stað í auganu -staðsetning Varmármegin hefði óneitanlega verið mun barnvænni og huggulegri- engin hindrun fyrir krakkana úr skólanum út að á - hægt að nýta ána við kennslu í líffræði - kannski er líka heppilegur staður upp við Helgafell? 

Sigrún G (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 15:11

2 Smámynd: Guttormur

Ótrúleg skammsýni.  Vita skipulagsaðilar ekki að fólk flyst á þetta svæði nákvæmlega til þess að geta sent börnin sín í skólann án þess að þurfa að fara yfir margar götur. Eins og úthverfið þurfi að burðast með ókosti þéttbýlisins.

Andrea 

Guttormur, 20.3.2007 kl. 22:59

3 identicon

Helgafellshverfi liggur að Varmá og bútar tengibraut um Álafosskvos í sundur hverfin. Eins og sjá má á myndinni verða Landa- og Ásahverfi umkringd umferðarmannvirkjum sem leiðir til þess að börn og fótgangandi hafa ekki lengur greiðan aðgang að náttúruperlu svæðisins, Varmánni og öryggi þeirra er stofnað í hættu. Bílinn hefur algjöran forgang í þessu skipulagi, ekki velferð íbúa sem skv. aðalskipulagi Mosfellsbæjar eiga að hafa greiðan aðgang að útivistarsvæðum í Mosfellsbæ. Annars mæli ég með að þú lesir athugasemdirnar. Þær eru stuttar.

Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 08:49

4 identicon

Nú má ég ekki spyrja? Er það alveg á hreinu að það verði ekki gengið þannig frá gatnagerð að umferð gangandi og hjólandi fólks sé greið þó göturnar verði eins og þær eru hugsaðar? Jafnvel að Varmánni? Hafa samtökin kynnt sér legu göngustíga og undirganga? Hafa þau myndað sér skoðun á þeim óháð því hvort þau séu búin að ákveða að vera á móti gatnagerð í bænum eins og hún leggur sig? Ég sé engar stuttar athugasemdir um þetta!

Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband