Tengibraut um Álafosskvos: Kostir og gallar

Sígrún PálsdóttirVarmársamtökin hafa undanfarið ár unnið að því hörðum höndum að afstýra þeirri ráðagerð bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ að leggja tengibraut úr Helgafellshverfi um Álafosskvos. Samtökin telja að bæjaryfirvöld hafi ekki upplýst íbúa um varanleg neikvæð áhrif af legu hennar heldur miklu fremur reynt að slá ryki í augu almennings með gerð myndbanda og útlitsteikninga sem birta mynd sem er víðsfjarri öllum raunveruleika. Til að meta áhrifin sem lega tengibrautarinnar hefur fyrir bæjarfélagið gerðu fulltrúar Varmársamtakanna samantekt á kostum hennar og göllum:

GALLAR:

  • Umferðaröngþveiti myndast á álagstímum við hringtorg við þjóðveg 1 og langar biðraðir bíla þegar helgarumferð er í hámarki á sumrin
  • Slysahætta eykst til muna við gatnamótin vegna aðlíðandi brekku sitthvoru megin hringtorgsins
  • Umferð er beint ofan í kvos þar sem heilsuspillandi útblásturs- og svifryksmengun sest fyrir í stillum. Heilsu skólabarna er með þessu stefnt í voða þar sem helsta íþróttasvæði Mosfellsbæjar liggur í aðeins nokkurra metra fjarlægð frá hringtorgi
  • Lega tengibrautarinnar frá Auga að Vesturlandsvegi eykur slysahættu og torveldar umferð barna og fótgangandi milli hverfa.
  • Tvískipting bæjarfélagsins í byggð vestan og austan Vesturlandsvegar verður áþreifanlegri en áður
  • Bílaumferð um tengibrautina veldur viðvarandi umferðarhávaða, loft- og sjónmengun í Kvosinni sem er vinsælasta útivistarperla bæjarfélagsins. Mengunin rýrir með afgerandi hætti lífsgæði íbúa á svæðinu
  • Mosfellsbær tapar dýrmætasta menningarsögulega sérkenni sínu sem er þorpsstemning á gömlum grunni í Álafosskvos
  • Viðvarandi umferðarhávaði og útblástursmengun skaðar atvinnu- og listastarfsemi í Álafosskvos og kemur í veg fyrir að hægt verði að nýta einstakt umhverfi hennar fyrir útimarkaði, leikhús og tónlistarflutning. Náttúruhljóð hverfa í umferðarnið
  • Lífríki spillist og vatnsmagn minnkar í Varmá, þ.m.t. í Álafossi sem stendur til að friðlýsa

KOSTIR:

  • Bílaumferð úr og í Helgafellshverfi verður greið - utan álagstíma

Af þessari upptalningu má ráða að gallar skipulagsins vega mun þyngra en eini kosturinn sem kom til álita eftir umfangsmikla leit.  Það blasir við að fórnarkostnaðurinn sem þessar löngu úreltu skipulagshugmyndir hafa í för með sér er of hár. Sú byggð sem nú er fyrirhuguð í Helgafellslandi á lítið sameiginlegt með upphaflegum áætlunum sem bæjaryfirvöld þó nota til að réttlæta legu tengibrautarinnar. Íbúafjöldi hefur 15-20 faldast og flatarmál hverfisins þrefaldast síðan 1983. Stefnuleysi í umhverfismálum setur mark sitt á skipulagsgerð og þvermóðska einkennir viðbrögðin við vísbendingum íbúa og eftirlitsstofnana í umhverfis- og skipulagsmálum. Einstefna bæjarstjórnarmeirihlutans í samskiptum við íbúa er farin að valda Mosfellsbæingum skaða. Við í Varmársamtökunum segjum að nú sé mál að linni. Finna þarf Helgafellsbraut stað sem lágmarkar skaða samfélagsins af legu hennar. Það verður hér eftir aðeins gert í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila s.s Vegagerð ríkisins.

Sigrún Pálsdóttir
stjórnarmaður í Varmársamtökunum
varmarsamtokin@gmail.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælt veri fólkið

já það væri mun heppilegra að sjá nokkrar tillögur að leiðum úr hverfinu.  Þetta er að sjálfsögðu aðþrengt hverfi með byggð á tvo vegu og svo er þarna fjall en það eru fleiri möguleikar og væri heppilegast að skoða nokkra og yfirfara kosti og galla - þá væri með góðu móti hægt að velja skásta  kostinn

Sigga G (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband