Stjórnarfar valdníðslu í Mosfellsbæ

Gröfur við ÁlafosskvosÍ gær réðust bæjaryfirvöld í Mosfellsbær með fulltingi stórvirkra vinnuvéla aftur til atlögu inn á verndarsvæðinu við Varmá í Álafosskvos. Að þessu sinni  undir því yfirskyni að verið væri að koma fyrir skolplögnum fyrir Helgafellshverfi í áður fyrirhuguðu vegstæði Helgafellsbrautar.
Að undanförnu hafa grunsemdir íbúa um að verktakinn sé án deiliskipulags og framkvæmdaleyfis að útbúa undirlag fyrir tengibrautina ofan á lögnunum orðið sífellt háværari. Þegar farið var að kanna málið nánar kom í ljós að þessi ofaníburður er í engu samræmi við venjulegan frágang slíkra lagna. Búið er að leggja nokkurra metra þykkt malar- og grjótlag ofan á lagnirnar og þétta ofaníburðinn með valtara. Að sögn sérfræðinga sem Varmársamtökin leituðu til er deginum ljósara að venjuleg lagnagerð krefst engan veginn slíks frágangs og að þarna er verið að gera undirlag fyrir breiðan veg sem þola á mikla umferð. 
Skipulagsstofnun ákvað í byrjun mars að vinna skyldi umhverfismat, skv. lögum um umhverfismat áætlana við gerð deiliskipulags Helgafellsbrautar. Sú skýrsla hefur enn ekki litið dagsins ljós en svo vildi til að Varmársamtökin sátu á fundi með skipulagsfræðingum hjá verkfræðifyrirtækinu Alta sem er að vinna umhverfisskýrsluna þegar fregnir bárust af því að gröfur Helgafellsbygginga ehf. væru aftur komnar inn á verndarsvæðið og farnar að rífa upp tré sem afkomendur Sigurjóns Péturssonar á Álafossi plöntuðu í hlíðinni fyrir nokkrum áratugum.
Forsaga þessa máls er sú að um miðjan febrúar stöðvaði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála framkvæmdir við tengibrautina á þeirri forsendu að vafi léki á lögmæti þeirra þar sem Mosfellsbær hefði m.a. ekki látið vinna umhverfismat eins og lög gerðu ráð fyrir. Í kjölfarið felldi Mosfellsbær nýlegt deiliskipulag Helgafellsbrautar úr gildi sem varð til þess að íbúar drógu kæruna sem lá fyrir úrskurðarnefndinni til baka. Skipulagsstofnun tók síðan þá ákvörðun að Mosfellsbær þyrfti að láta fara fram umhverfismat og lét bæjarstjórinn, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, í veðri vaka í fjölmiðlum að hún hefði hug á að vinna skipulagið í sátt og samlyndi við íbúa.
Ekki verður betur séð en að hér hafi hugur ekki fylgt máli þar sem umhverfismatið sem Varmársamtökin hafa frá fyrstu tíð óskað eftir hefur enn ekki farið fram og hvorki er til samþykkt deiliskipulag né leyfi fyrir framkvæmdum á þessu viðkvæma svæði.
Skortur á samráði við íbúa hefur einkennt stjórnarhætti Ragnheiðar Ríkharðsdóttir allt frá því að hún náði kjöri sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ 2002. Í aðdraganda alþingiskosninga virtist frambjóðandinn úr Leirvogstungulandi hins vegar vera tilbúnari en áður til að hlusta á raddir íbúa en nú tveimur dögum eftir kosningar verður ekki betur séð en að hinir gömlu eðlisþættir séu farnir að láta kræla á sér á ný.
Fyrirsjáanlegt er að jarðvegsskiptin sem fylgja þessari umfangsmiklu "lagnagerð" inn á verndarsvæðinu í Álafosskvos munu hafa gríðarleg umhverfisspjöll í för með sér og verður ekki betur séð en að verið sé að spilla náttúru svæðisins með svo afgerandi hætti að umhverfismat verður varla pappírsins virði.
Íbúar fóru fram á við verktaka að stöðva framkvæmdir til hádegis 15. maí. Ekki var orðið við þeirri ósk og ætlar fyrirtækið að halda áfram framkvæmdum kl. 9 í fyrramálið.

Athugasemd við frétt RÚV:
Forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar, Karl Tómasson, lét hafa eftir sér í fréttum í gærkvöldi og í Morgunblaðinu í dag að Varmársamtökunum hafi borist tilkynning um þessar framkvæmdir í síðustu viku. Eitthvað virðist hafa skolast til hjá blessuðum forsetanum því ekki er fótur fyrir þessari staðhæfingu. Eðlilegt hefði verið að kynna framkvæmdirnar fyrir íbúum en það var ekki gert fyrr en eftir hádegi í gær þ.e.  um svipað leyti og þær hófust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varmársamtökin óskuðu eftir stöðvun vegagerðar í áður fyrirhuguðu vegstæði Helgafellsbrautar í síðustu viku. Bréfið er svohljóðandi:

Mosfellsbæ 10. maí  2007
Varmársamtökin, kt. 560606-1760, óska eftir útskýringum bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ á því hverju það sætir að vinnuvélar Helgafellsbygginga ehf. eru að störfum við lagningu Helgafellsbrautar án framkvæmdaleyfis og deiliskipulags langt innan marka þess skipulags sem áður hafði verið fellt úr gildi. Lögum skv. er það hlutverk skipulagsfulltrúa að stöðva ólöglegar framkvæmdir í bæjarfélaginu og förum við þess á leit að það verði gert án tafar.

Einnig óska Varmársamtökin skýringa á því á hvaða forsendum Helgafellsbyggingar ehf. hófu sölu á lóðum í Helgafellslandi, áfanga III. Deiliskipulagið hafði hvorki verið auglýst né hlotið samþykki Skipulagsstofnunar.

Við bendum bæjaryfirvöldum ennfremur á að hugleiða að vinnubrögð af þessu tagi  eru síst til þess fallin að styrkja íbúa í þeirri trú að bæjarstjórn Mosfellsbæjar ætli sér í raun að vinna að skipulaginu í sátt og samlyndi við bæjarbúa.

Varmársamtökin (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 13:33

2 identicon

Svar skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar við ofangreindri beiðni VS um stöðvun framkvæmda:

Mosfellsbæ,  10. maí 2007
Efni:  Meintar framkvæmdir við Helgafellsveg
Vísað er til bréfs yðar sem barst í tölvupósti í dag, þar sem óskað er skýringa á framkvæmdum innan marka deiliskipulags Helgafellsvegar og þess farið á leit að „ólöglegar framkvæmdir“ verði stöðvaðar án tafar.

Undirritaður vill af þessu tilefni upplýsa að ekki eru í gangi framkvæmdir við gerð Helgafellsvegar, enda var leyfi til þeirra fellt úr gildi þann 28. febrúar s.l. Það hefur hinsvegar alltaf legið ljóst fyrir að fara þyrfti með frárennslislagnir frá Helgafellshverfi í gegnum þetta svæði, óháð því hvort Helgafellsvegur kæmi þar eður ei. Í upphaflegu framkvæmdaleyfi fólst leyfi til að leggja þessar lagnir og litið er svo á að það sé enn í gildi, þrátt fyrir að sá hluti leyfisins sem tók til lagningar vegarins hafi verið afturkallaður.

Varmársamtökin (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 13:39

3 identicon

Í ljósi fréttaflutnings stöðvar 2 þann 15.5.2007 og aðgerða Varmársamtakanna nánast frá stofnum vill undirritðar segja sig úr samtökunum.

Ég get ekki fellt mig við baráttuaðferðir samtakanna og því sé ég ekki aðra leið en að segja mig úr samtökunum.

Samtökunum til hróss vill ég þó segja að þær breytingar sem ráðist hefur verið í vegna lagningar Helgafellsbrautar eru mikið til bóta og tel ég að rödd Varmársamtakanna eigi þar stóran þátt.

 Takk fyrir samferðinga.

Gunnar Atlason

Brekkulandi 3

Mosfellsbæ

Gunnar Atlason (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband