Viðburðaríkt starfsár að baki hjá Varmársamtökunum

Bryndís Schram, Áshildur og Bryndís HallaAðalfundur Varmársamtakanna var haldinn í Varmárskóla á mánudagskvöld. Í upphafi fundar flutti Berglind Björgúlfsdóttir formaður samtakanna skýrslu stjórnar. Fór hún yfir helstu þætti í starfinu á árinu sem hefur verið viðburðaríkt. Sagði Berglind að eðli málsins samkvæmt hefði aðaláherslan verið á þau umferðarmannvirki sem eru í farvatninu á Varmársvæðinu. Hefðu samtökin bæði gert athugasemdir við deiliskipulagstillögur og íbúar þurft að senda inn kærur vegna ámælisverðra vinnubragða skipulagsyfirvalda og framkvæmdaaðila í Mosfellsbæ.

Margt ánægjulegt gerðist í starfi Varmársamtakanna á árinu. Tónleikar í Verinu 18. febrúar sl. standa þó upp úr en þar stigu á stokk hljómsveitirnar Sigur Rós, Amiina, Benni HemmHemm, Pétur Ben, Bógómil Font og Flís. Einnig komu fram þau Árni Matthíasson, Bryndís Schram, Una Hildardóttir, Steindór í Ásgarði, Steindór Andersen og Sigurður dýralæknir. Er skemmst frá því að segja að allt þetta frábæra listafólk og skemmtikraftar, að ógleymdum kvikmyndargerðarmönnum sem tóku upp tónleikana og eiganda hússins sem krafðist engrar leigu, gaf sína vinnu og rann allur ágóði af tónleikunum til Varmársamtakanna sem eru afar þakklát þessu heiðursfólki fyrir ómetanlegan stuðning.

Önnur skemmtileg uppákoma var undirbúin með litlum fyrirvara í Álafosskvos 1. júlí en þar flutti Bryndís Schram ævintýri Hans C. Andersen: Nýju fötin keisarans með leikrænum tilburðum við undirleik Áshildar Haraldsdóttur flautuleikara og Bryndísar Höllu Gylfadóttur sellóleikara en þær fluttu einnig nokkur lög fyrir gesti. Trúbadorarnir Elín Ey og Mirra slógu botninn í dagskrána með afar hugljúfum tónum. Hildur Margrétardóttir myndlistarmaður flutti erindi dagsins en það fjallaði um vandamálin sem uppi eru í samskiptum bæjaryfirvalda við íbúa.

Berglind sagði einnig frá útimarkaði í Álafosskvos sem Sigríður Þóra Árdal og Guðrún Ólafsdóttir skipulögðu í tengslum við hátíðina Í túninu heima. Mikill fjöldi ungra sjálfboðaliða lagði hönd á plóginn á markaðsdaginn og var margt um manninn í Kvosinni.

Á árinu stóðu Varmársamtökin ennfremur fyrir ýmiskonar fræðsludagskrá fyrir íbúa um umhverfis- og skipulagsmál og fyrsta tölublað ÍBÚANS, fréttarits samtakanna um íbúalýðræði, náttúru og sögu, leit dagsins ljós.

Gert hafði verið ráð fyrir breytingum á stjórn samtakanna á aðalfundinum en vegna óvissu um túlkun 4. gr. laganna var ákveðið að halda framhaldsaðalfund með vorinu. Skipaði fundurinn sérstaka laganefnd úr röðum félagsmanna sem ætlað er að gera tillögur að endurbótum fyrir fundinn í vor.

Viðbót:

Sú mótsögn er í 4. gr. laganna að stjórnarmenn eru annars vegar kosnir til tveggja ára í senn og hins vegar er útskiptingarregla sem segir að tveir stjórnarmenn skuli kosnir á oddatölu og þrír á sléttri tölu.. Varmársamtökin voru stofnuð í maí 2006 og hefur því enginn stjórnarmaður setið í stjórn í tvö ár.

Þessi ákvæði ásamt öðrum þarf því að skoða og leggja til lagabreytingar fyrir framhaldsaðalfund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband