23.12.2007 | 23:37
Nýr miðbær í Reykjavík
Viðtal við Margréti Harðardóttur arkitekt um tillögu Studio Granda, Gullinsniðs og Argos að nýju miðbæjarskipulagi í Reykjavík
Undanfarin misseri hefur mikið verið rætt um skipulag miðbæjar Reykjavíkur og þá sérstaklega hvernig og hvort hægt sé að gera hann meira aðlaðandi fyrir fólk. Svipuð umræða hefur átt sér stað í Mosfellsbæ og er endurskoðun miðbæjarins nú hafin. Arkitektastofan Studio Granda hefur getið sér gott orð fyrir hugmyndaauðgi og fallegar byggingar og tóku arkitektar stofunnar nýverið þátt í hugmyndaleit um skipulag miðbæjar Reykjavíkur. Þrjár stofur unnu í sameiningu að hugmyndinni sem varð hlutskörpust en alls tóku 6 aðilar þátt í leitinni sem snerist um umgjörð Lækjartorgs, frá Tryggvagötu að Skólastræti.
Margrét Harðardóttur rekur ásamt eiginmanni sínum, Steve Christer, Studio Granda en þau eru m.a. arkitektar að Ráðhúsi Reykjavíkur og húsi Hæstaréttar. Blaðamaður Íbúans bankaði upp á hjá Margréti til að forvitnast nánar um þær hugmyndir sem liggja að baki tillögunni að nýjum miðbæ í Reykjavík og hvaða ráð hún gæti gefið Mosfellingum í tengslum við nýtt miðbæjarskipulag.
- Hvaða hugmyndir liggja að baki ykkar tillögu að skipulagi miðbæjar Reykjavíkur?
Saga Reykjavíkur er mjög mikilvæg fyrir okkar menningu. Okkar vinna snérist því um að varðveita, skynja og styrkja sögu miðbæjarins frá gamalli tíð til 20. aldar. Við leituðum uppi byggingar, gleymda staði og starfsemi sem hafa einhvern styrk í sér fólginn fyrir mannlífið í borginni. Okkar markmið var að vekja þennan borgarhluta af Þyrnirósarsvefni. Í miðbænum er ótrúlega góður efniviður og hægt að laða fram mjög góða hluti ef maður bara veitir þeim eftirtekt. Við ákváðum að þvinga borgina ekki í eitthvað sérstakt horf. Reykjavík hefur vaxið mjög óskipulega. Það ægir öllu saman, misstór hús frá mismunandi tímum standa hlið við hlið. Það hefur alltaf verið litið á þetta sem eitthvað hræðilegt en þetta er okkar raunveruleiki, okkar menning, okkar borg. Við lítum á margbreytileikann sem styrk og við ætlum ekki að afmá hann. Þetta er það sem okkar samfélag hefur skilið eftir sig og er þess vegna mikilvægt. Gallar eru hluti af okkar eðli og því mikilvægt að byggðin endurspegli þá áfram.
Við gerðum tillögur um hvar ætti að byggja nýtt, hvar ætti að vernda eða færa til fyrra horfs. Einnig um hvar nauðsynlegt væri að bæta við en halda samt í upprunalega gerð húsa. Það muna enn margir eftir gamla Nýja bíói og Rósenbergkjallaranum sem var mjög vinsæll staður. Við lögðum til að endurgera húsið frá grunni. Þetta er mjög skrýtin bygging og ennþá leifar eftir af henni. Það er því hægt að ná henni til baka aftur. Hún á sér djúpar rætur og minningar í samfélaginu þannig að það hefur líka tilgang.
Gamla Landsyfirréttarhúsið, Austurstræti 22, á sér merkilega sögu en í gegnum tíðina hefur húsið verið afskræmt. Þetta hús er eina konungshöllin sem Íslendingar hafa átt því þegar Jörundur Hundadagakonungur steypti Trampe greifa gerði hann húsið að konungshöll. Við höfum ekki tekið afstöðu til þess í hvaða formi húsið verður endurbyggt en við höllumst að því að færa það aftur til þess horfs sem það var þegar Jörundur Hundadagakonungur bjó hér og ríkti yfir Íslandi árið 1809. Það á engin önnur þjóð svona látlausa, litla konungshöll.
En þessi umræða er viðkvæm því það er mikill ábyrgðarhluti að fara til baka í tíma. Við erum ekki í öllum tilfellum hlynnt því en teljum samt nauðsynlegt að horfa til fortíðar þar sem tengingin við framtíðina er í gegnum fortíðina. Það er mjög mikilvægt að borgir fái að halda áfram að þróast eins og þessi hús hafa alltaf gert en það getur verið ástæða til að leyfa sumum húsum að stöðvast í tíma. Landsyfirréttur er það hús sem fer lengst til baka í tíma í tillögunni. Tilgangurinn með húsaverndun er að leyfa fólki að skynja gamla tíma. Hús búa yfir einstökum mætti til að ná til fólks og vekja upp tilfinningu fyrir liðinni tíð.
Sum hús hækkum við en höldum þeim samt í þeirri mynd sem þau voru svo sem Austurstræti 20 og Lækjargötu 2. Nú bera húsin í kring þau ofurliði. Sömu sögu er að segja um Hafnarstræti 18. Við enda Lækjartorgs, andspænis Forsætisráðuneytinu, leggjum við til nýbyggingu sem er í mælikvarða og fínleika eldri húsanna og tengist mjög heillegri götumynd í Hafnarstræti. Vestan við Lækjartorg, næst húsi Héraðsdóms, leggjum við til stærri nýbyggingu með minni úr húsum sem voru þarna fyrir svo sem Thomsensmagasíni sem þótti merkilegt hús í gamla daga, sem síðar varð hótel Hekla og Smjörhúsinu. Við vorum jafnvel að hugsa um að gömlu húsin gætu verið holrúm inn í nýju byggingunni og þaðan lægi leið niður í rými undir Lækjartorgi og áfram upp inn í stóran bakgarð við Hafnarstræti. Við lögðum til að þar yrði Kolaportið sem hefði tengingu við starfsemina undir torginu.
Lækurinn er einn af þessum gömlu minnum sem gáfu byggðinni svolítið líf. Við ákváðum að þrengja Lækjargötu aftur því hún er óþarflega breið. Við breikkum gangstéttina að vestanverðu og rennur lækurinn meðfram henni. Gert er ráð fyrir bílastæðum áfram, minni akreinum og hægari umferð í gegn. Þetta er mikilvæg tenging norður suður, en með breytingunum myndast skemmtilegra svæði fyrir gangandi vegfarendur.
Eitt aðal trompið okkur er garður Árna Thorsteinssonar sem er á bakvið Hressó. Þar var mjög merkilegur skrúðgarður, einn af þeim fyrstu í Reykjavík. Í garðinum sem nú er í algjörri órækt er gamall hlynur og mjög falleg bergflétta upp við vegg. Við leggjum til að garðurinn verði endurvakinn og að allt húsasundið á milli Pósthússtrætis og Lækjargötu verði gert almennilega upp. Í garðinum hittust menn eins og Steinn Steinar og Tómas Guðmundsson og báru saman ljóð sín þegar garðurinn átti sitt blómaskeið. Þetta er einn af þeim stöðum þar sem hægt er að finna skjól en svæðið ber vott um vanrækslu og hér eru tækifæri gjörsamlega vannýtt. Við leggjum til gönguleið í gegnum þessa bakgarða sem margoft er búið að tala um en aldrei hefur verið gert neitt í. Við sjáum fyrir okkur að allar húshliðar sem snúa að þessari bakhlið opnist út að gönguleiðinni. Til þess að hugmyndin virki þurfa verslanir og önnur þjónusta að opna út í bakgarðinn. Svæðið er töluvert stórt og skjólsælt og því hægt að sitja úti.
- Hvernig þróast þetta áfram? Verða þessar hugmyndir að veruleika?
Um það ríkir óvissa eins og er. Norðurhluti svæðisins er orðinn hluti af samkeppni sem Landsbankinn stendur fyrir og er því ekki lengur inni í heildarmyndinni.
Við teljum að deiliskipulag sé í rauninni ekki gott verkfæri til að þróa skipulag. Það sýnir bara brotabrot af því sem þarf, er einungis skýringarmynd sem hefur ekkert með það að gera hvernig borgin þróast. Til að gera gott skipulag þarf sátt meðal eigenda sem eru margir á þessu svæði og skipulagsyfirvalda. Þeir þurfa að vera algjörlega samstíga og sjá sameiginlegan hag sinn í því að samræma aðgerðir. Það sem okkur fannst svo gott var að fulltrúar húseigenda sátu í dómnefnd. Við héldum að það væri komin á sameiginleg sátt fjármagnsins og pólitíkusanna um að byggja á þessum grunni en sú sátt hélt því miður ekki lengur en í tvær vikur.
Mikilvægt er að ná almennri sátt um skipulag. Íbúasamtök eins og Torfusamtökin og íbúar sem hafa áhuga á umhverfinu þurfa að vera með í ráðum og mjög mikilvægt er að rekstraraðilar á svæðinu taki líka þátt. Þegar þessi grunnur að sátt er kominn er hægt að byrja vinnuna við skipulagið og við erum laus við hið hefðbundna rifrildi sem setur allt á annan endann.
Það þarf mikið til að axla ábyrgðina á nýju miðbæjarskipulagi og það er borgarskipulagið sem þarf að hafa frumkvæði að því að fá alla með. Fyrri borgarstjórnarmeirihluti hélt að mínu mati mjög vel á þessu máli og sýndi mikinn styrk. Við vonum bara að nýi meirihlutinn sýni sama styrk.
... Framhald sjá viðhengi! sp
Viðtalið var tekið í byrjun nóvember 2007 og birt í Íbúanum, fréttablaði Varmársamtakanna
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.12.2007 kl. 23:52 | Facebook
Bloggvinir
- laugardalur
- valgerdurhalldorsdottir
- omarragnarsson
- gbo
- graenanetid
- torfusamtokin
- landvernd
- veffari
- ingibjorgstefans
- hlynurh
- ingibjorgelsa
- ibb
- bustadahverfi
- sylviam
- vefritid
- annalilja
- hildurhelgas
- tbs
- bergursig
- hlidar
- salvor
- malacai
- stebbifr
- bjarnihardar
- gattin
- harring
- baldvinj
- kreppan
- thorsaari
- johannbj
- larahanna
Myndaalbúm
Tenglar
Álafosskvos
Starfsemi í Álafosskvos
- Sigur Rós Hljómsveit
- Álafossbúðin Verslun með listmuni, ullarvörur og fleira
- Ásgarður Handverksverkstæði
- Dieter Roth akademían Listaakademía
- Hildur Margrétardóttir Myndlistarkona
- Marisa Navarro Arason Ljósmyndari
- Myndlistarskóli Mosfellsbæjar Myndlistarskóli fyrir börn og fullorðna
- Ólöf Oddgeirsdóttir Myndlistarkona
- Palli hnífur Hnífagerðarmaður
- Valgerður Bergsdóttir Myndlistarkona
Úr fjölmiðlum
Þættir og fréttir um okkar mál.
- Viðtal við SP á mbl.is
- Mbl.is 8.3.'07 Úrskurður skipulagsstofnunar
- Gamla bloggið
- Kolfinna á InnTV - þáttur um skipulagsmál Rætt við Sigrúnu Pálsdóttur, VS og Valgerði Halldórsdóttur, Sól í Straumi
Náttúruvernd
Umhverfisvernd
ÍBÚINN - rit VS
Gott lesefni
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.